Annáll Rituhöfðafjölskyldunnar árið 2013
1.1.2014 | 13:47
Árið 2013 hefur verið viðburðarríkt hjá Rituhöfðafjölskylduinni og skiptust á skin og skúrir í lífinu líkt og mörg undanfarin ár. Sumarið í Mosfellsbænum kom aldrei og rigndi meira en önnur ár og verður heita vikan lengi í minni höfð. Það jákvæða var þó að geitungarnir sáust ekki.
Rapport af Rituhöfðafjölskyldunni
Elli og Efla eru enn eitt og hefur karlinn mest verið að vinna í verkefnum fyrir álverið á Grundartanga og Reykjavíkurborg þetta árið.
Hjólagarpurinn hjólar daglega í vinnuna og eru klárlega flestu færslurnar á Facebook Endomondo Sports Tracker innskot. Eins lukkulegur og hann var með nýja samgöngustíginn meðfram Vesturlandsveginum tókst honum að slasa sig þar í hálku þegar bremsurnar biluðu og hann kútveltist og sleit viðbeinið frá öxlinni í byrjun árs. En hann lét það ekki stöðva sig og hélt áfram að hjóla um leið og hann gat farið að nota báðar hendur.
Líkt og fyrri ár var Ellinn duglegur að hreyfa sig. Gekk á fjöll og fór í fjölmarga laaaaaaaaaaaaaanga hjólatúra og stendur júlíferðin, Vestfjarðarhringurinn með góðum UMFUS vinum klárlega upp úr. Hjólaðir voru 540 kílómetrar á misgóðum vegi og fóru kvöldin í samkvæmisleiki ala Halla Karen sem klikkar bara aldrei. Búið er að leggja drög að Austfjarðarferð næsta sumar þar sem Elli mun fara með fararstjórn.
Innskot af Facebook 18. júlí.
Í september fór Elli í snjóhjólaferð með Eflufélögum og viðbeinsbrotnaði Ellinn á Syðri fjallabaksleið og þarf ekki nokkurn mann að undra sem sér þessar snjómyndirnar úr ferðinni, það hefði verið nær að fara á snjósleða. Á afmælisdegi hans í október keypti hann sér nýtt og enn betra lauflétt hjól svo verður örugglega skrifað um ný hjólaafrek í annál ársins 2014.
Til að tryggja að Rituhöfðaliðið fengi jólarjúpurnar fór Elli á rjúpu í Hrunamannaafrétti og á Norðurlandi og má segja að sérlega vel hafi borið í veiði í einum veiðitúrnum þegar karlinn kom heim með tvær rjúpur og einn lax. Þar með er búið að bjarga bæði forrétti og aðalrétti á jólunum.
Herdís hóf árið í því að stíga út úr bæjarstjórn Mosfellsbæjar sæl og ánægð eftir fjórtán og hálfs árs setu. Aftur var snúið til starfa hjá VSÓ Ráðgjöf sem sviðsstjóri öryggis- og stjórnunar þar sem unnið er að fjölbreyttum og spennandi verkefnum.
Árið 2014 var nefnt í tengslum við hamfaradoktorsnafnbót, en ljóst er að það gengur ekki eftir, en hver er að telja! Má segja að heilahimnubólga sem frúnni tókst að næla sér í í apríl eftir inflúensu hafi ekki flýtt lúkningu, en aftur, hver er að telja?
Aftur var farið til Japans á árinu, í þetta sinn til að funda með samstarfsfólki í Iwate háskóla. Flutti japansunnandinn og hamfarakonan einnig opinn fyrirlestur í háskólanum sem var ekki síst hvatning til ungra japanskra kvenna um að láta taka til sín í lífinu, en þar í landi er ekki óalgengt að konur hætti að vinna þegar þær giftast. Sem hluti af starfi fyrir Iwate háskóla var haldið annað námskeið um hreina orku hér á Íslandi í september og komu 6 lærdómsfúsir háskólanemar að þessu sinni. Tókst það með ágætum og voru kennslustofurnar m.a. Hellisheiðavirkjun, Hveragerði, Búrfellsvirkjun, Reykjanesvirkjun, Svartsengi og Bláa lónið.
Að vanda verður að taka World Class stöðuna sem er með verra lagi seinni part ársins hjá Rituhöfðamömmunni. Þó er búið að nýta göngustígakerfi Mosfellsbæjar töluvert, í bænum þar sem best er að búa. Enn er stefnan sett á bezta form um fimmtugt og þykir ljóst að virkja verði Sigrúnu grönnu í það þrekvirki
Ásdís Magnea Fjeldsted
Frumburðurinn Ásdís Magnea er nú orðin tuttugu og eins og er ljúfust og fallegust og dansar og syngur fyrir allan peninginn líkt og fyrri ár. Hún er reglulega búin að taka á því í ræktinni þetta árið bæði í Cross Fit og World Class.
Ásdís er búin að vera iðin og dugleg þetta árið líkt og fyrri ár. Hún fór í febrúar til Steinunnar vinkonu sinnar í Leeds og sá hana m.a. á sviði þar sem hún lék löggu í leikritinu Aladin.
Undur og stórmerki áttu sér stað í fernuhópnum þegar fyrsta barnið fæddist. Hann Krúttmundur Davíðs og Dagbjartarson sem fæddist 19. október og fékk fallega nafnið Vignir Leó.
Ásdís vann áfram á Hlein, sambýli fyrir fatlaða á Reykjalundi. Hún Stísa skvísa flutti út á árinu og aftur heim og vorum við foreldrarnir ekki viss hvort það er sú staðreynd að við eru ekki búin að kaupa handa henni rúm í tvöfaldri breidd eða að fljúga úr hreiðrinu heilkennið sem veldur, en hún er búin að taka ákvörðun um að flytja að heiman um áramótin og flutti dótið sitt 27. desember. Að mati mömmunnar er barnið full ánægt með þessa ákvörðun, en eitt er ljóst að hún Ásdís Magnea tekur glöð og ánægð á móti nýja árinu, sem verður árið hennar!
Sturla Sær Erlendsson Fjelsted er orðinn átján og aldeilis ekkert barn, enda þyrfti hann þá ekki að raka sig.
Hann er á þriðja ári í Menntaskólanum við Sund og nýtur menntaskólalífsins til fulls og stendur sig súper vel í skólanum . Tók hann frönskuna með glans og fór í munnlegt próf til Parísar með bekkjarfélögum í október.Á haustönn tók hann fatasaum í vali og brillerar við saumaskapinn. Hann er búinn að hanna og sauma sér boli, buxur, jakka, brók .... og kaupa sér nokkra tugi skópara. Sturla og félagi hans hafa setið löngum stundum við saumavélar frá ömmum sínum og sauma sem enginn sé morgundagurinn. Hefur mamman hug á að fá hann til að sauma á sig útskriftarupphlut og hver veit nema það gangi eftir.
Stulli hefur unnið í Fiskbúðinni Mos allt árið líkt og fyrri ár og steikir fiskibollur með skóla.
Litli heimspekingurinn okkar fröken Sædís Erla Erlendsdóttir hélt upp á fyrsta stórafmælið og fyrsta tuginn í október. Varð það eiginlega svona afmælismánuður hjá henni, svo oft hélt hún upp á áfangann með hinum ýmsu hópum.
Hún stendur sig vel í skólanum. Í haust var bekkjunum skipt upp og fékk hún því nýja bekkjarfélaga og kennara, hana Leu og tekur virkan þátt í því að gera bekkinn að þeim BESTA í skólanum, nema hvað!
Sædís Erla á fjölmargar vinkonur og leiðist aldrei. Hún er ekki komin með Facebook eins og margar vinkonurnar, en Snapchat sem þarf að sinna og er gott að hafa nýja Ipadinn sem hún keypti sér í Ameríku í nóvember, eftir að hafa safnað fyrir honum í yfir ár. Hún átti sér þann draum að eignast Iphone sem varð að veruleika fyrir tilstuðlan Ameríkuliðsins.
Sædís tekur áfram þátt í skátunum af lífi og sál og er skátastarfið í fyrsta forgangi. Er hún stoltur fálkaskáti og hefur hún farið í útilegur og skátaferðir og hlakkar til landsmóts. Hún æfir líka frjálsar hjá Aftureldingu og áfram vinnur strákana í bekknum í píptestunum. Ekki vitum við hvort það voru háhæluðu jólaskórnir sem hún færði rök fyrir í fyrra með því að Hlynur frjálsíþróttaþjálfari hefði sagt að ef hún væri dugleg að ganga á táberginu þá myndi hún hlaupa hraðar, eða hvort hún hefur æft sig meira, en í það minnsta þá vann hún alla fimmtubekkina í hlaupi UMSK í október. Flottur árangur hjá Sædísi Erlu.
Innskot af Facebook 11. október.
"Er að rifna úr stolti yfir Sædísi Erlu sem sigraði UMSK hlaupið í morgun feelingproud."
Bónusbarnið okkar Sirrý er flutt á Laugarveginn með Óla sínum og bíðum við spennt eftir litlu viðbótinni sem væntanleg er í janúar.
Skvísý okkar er alltaf jafn yndisleg og fékk nýtt look á árinu, nýja klippingu hjá Dekurdýrum og er bara sátt með það, en við hinn erum ekki jafn sannfærð.
Örfréttir af stórfjölskyldunni
Amma á Sigló unir sér vel á Laugarveginum ásamt Lady og var gestkvæmt í eldhúsinu líkt og fyrri ár. Hún rekur Gallerí Sigló ásamt stelpunum og eru þær alltaf jafn duglegar. Amma fór aftur til Ameríku í lok árs eins og í fyrra og nýtur lífsins með Jóhannsleggnum og Emmu vinkonu sinni sem nýkomin er frá Ástralíu. Amma er hin mesta tölvukerling og heldur sambandi við okkur fjölskylduna og umheiminn á netinu.
Kristín er flutt í Hafnartúnið á Siglufirði og stundar nám í listljósmyndun við Menntaskólann á Tröllaskaga og hefur metnaðurinn ekkert dvínað. Hún ljósmyndar alla daga og er búin að halda sýningu í Bláa húsinu og gleðja myndirnar hennar marga. Ég er ekkert búin að skipta um skoðun varðandi það að ljóst er að hún mun gera stóra hluti í ljósmyndun í framtíðinni. Hún hefur m.a. verið að aðstoða við ljósmyndun á nýja glæsilega hótelinu á Siglufirði sem kennt er við Siglunes, en ég kalla enn Höfnina.
Þórður Matthías rekur enn Fellini í Egilshöll og erum við búin að koma oft við á árinu og verðum aldrei fyrir vonbrigðum.
Sigurjón Veigar stundar sjóinn af kappi og fluttu þau Halla og strákarnir ásamt hundunum Bronco og Bjöllu til Grindavíkur á árinu. Lítill Sjonnalingur kom í heiminn 19. desember og er mikil hamingja yfir litlu viðbótinni. Toggi byrjaði í skóla s.l. haust, Engill bara sáttur í Grindavík og Kristján Gabríel fermdist.
Innskot af Facebook 19. desember
"Litli Sjonnalingurinn mættur. Fullkominn!! This little Mr. perfect was born just an hour before this photo of us was taken. He is a son of Sigurjon my sisters son and Halla. But I am his Aunt-granny ... that is just how it is J"
Raggi Freyr býr í Grindavík og er hann búinn að reyna fyrir sér við bílasölu sem ekki þarf að koma neinum á óvart. Siggi Freyr stendur sig vel í flugvirkjanámi í Grikklandi þar sem er óskaplega heitt á sumrin en íííískalt yfir veturinn, en hann lifir, enda ættaður að Norðan.
Amma Binna dansaði í minna lagi þetta árið, en áfram prjónar hún og heklar. Hún vinnur enn á Hlein og í Fiskbúðinni. Frúin ferðaðist í minna lagi þetta árið. Hún skellti þó sér á Sigló í viku í júlí og það rigndi og snjóaði allan tímann. Ekkert varð úr réttum fyrir Norðan þetta árið því það var spáð brjáluðu veðri og því var réttað í miðri viku. Hún er komin með 304 vini á Facebook
Af Sigga og Ingu Rósu er það að frétta að þau ákváðu að segja skilið við fiskbúðarrekstur og fór karlinn að vinna hjá Nóatúni og Inga Rósa kokkar enn í skólanum. Einar Kristján er eldsprækur í fyrsta bekk í Lágafellsskóla og Birna María í þeim áttunda. Áfram er verið að kæjakast og jeppast og fóru þær mæðgur til Danmerkur með skólahljómsveitinni í sumar og skemmtu sér hið besta.
Jóhann og Shirley hafa það fínt í Seattle og er alltaf jafn gaman þegar Jóhann lætur sjá sig á klakanum kalda, sem gerist nokkrum sinnum á ári. Þau Jóhann og Shirley komu til Íslands í sumar sem var frábært.
Fór Rituhöfða mamman til Ameríku og var viðstödd útskrift Kristínar Jóhannsdóttur sem lauk meistaranámi í lífefnafræði sem var sérlega gaman. Í fyrsta sinn sem það hefur tekist (að vera við útskrift þ.e.).
Jóhann Pétur, Kristín og Theresa við útskriftina
Jóhann Pétur er orðinn er háskólanemi.
Innskot af Facebook 8. júní
"Kristín Jóhannsdóttir okkar sómi og ljómi útskrifaðist frá Central Washington University með meistarapróf í lífefnafræði. Var það stolt frænka sem var viðstödd athöfnina. Eftir útskriftina voru vinir hennar með stórskemmtilegt útskriftarpartý þar sem hundar og menn áttu saman góða stund fram eftir degi og unga fólkið fram á nótt. Daginn eftir fór Kristín með okkur í háskólann sinn og sýndi okkur vinnuaðstöðu sína. Frábærir dagar frá A-Ö. "
Frú Sarah er 28 ára súpermamma og eignuðust þau Cory Finley litlu þann 6. júní og hefur Emma staðið sig vel sem stóra systir frá fyrstu mínútu og fannst okkur gaman að fá tækifæri til að vera með þeim öllum í lok ársins.
Innskot af Facebook 6. júní:
"Super super happy Vandervort family. Fallega hamingjusama fjölskyldan með nýju viðbótina. Weight and length: 7.8 / 3405 gr (næstum 14 merkur) and 21.26 in / 54 cm"
Sturla afi og Stína amma eru þokkalega spræk og hafa þau farið nokkrar ferðir til Spánar á árinu. Þau reka enn matvöru- og byggingavöruverslanir sínar og einnig gistiheimilið sem er að verða það vinsælasta á Snæfellsnesinu.
Ætt- og vinarækni fjölskyldunnar var í meðallagi þetta árið, en fundust nokkrar nýjar frænkur og frændur sem alltaf er gaman. Til að mynda sóttum við fyrsta ættarmót ættingjaleigunnar í Svörtu kríunni á Siglufirði 28. júlí. Það skemmtilegasta við þetta ættarmót var að skyldleiki var alls ekki aðalatriði. Þegar Rituhöfðamamman var að undirbúa ræðu í brúðkaupi Ellu og Róberts fann hún út að Ella væri skyld hennir og því má segja að þetta hafi verið n.k. ættarmót :).
Fóru Rituhöfðahjónin loksins loksins loksins á réttarhelgi að Þverá til þeirra Rúnars og Bjarkar. Þvílíkt fjör og stórkostlegur félagsskapur. Hér eftir verður ALLT gert til að ná þessari helgi með okkar góðu vinum!
Einn ljúfan dag í september fékk Rituhöfðamamman sent punktatilboð frá Icelandair eins og svo oft áður. Það hefði svo sem ekki verið fásögu færandi nema því í þetta sinn var það til Seattle. Tókst frúnni að kaupa ferð fyrir alla fjölskylduna fyrir sama verð og venjulega kostar fyrir einn og valdi daga í nóvember sem innifólu þakkargjörðahátíðina. Fór öll fjölskyldan saman og amma á Sigló með og áttum við góða daga með Jóhanni og fjölskyldu í Seattle og þar sem við vorum úti á svarta föstudeginum létum við það eftir okkur að fara að versla árla Black Friday, eða kl.6.30 til að vera nákvæmari. En upp úr stendur kalkúnaveisla og samvera á sjálfan Þakkargjörðardaginn með þeim Jóhanni, Shirley, Söru, Cory, Finley og Emmu, Jóhanni Pétri, Kristínu og nýja Nick.
Í annað sinn var haldið októberfest í Rituhöfðanum fyrir afmælisbörn októbermánaðar þau Sædísi Erlu, Ella og Ásdís Magneu. Var boðið reyndar haldið í nóvember þetta árið, en það tókst með ágætum.
Örfréttir: Linda Ósk fimmtug, Frímann Ægir fimmtugur, Kolla fertug, Solla og Héðinn eignuðust tvíburastráka, Jóla fertug .... Sigrún María orðin doktor og líka Ásthildur Elva .. þetta fer að koma :)
Innskot af Facebook 10 ágúst.
"Róbert Pálsson (Gunnlaugssonar) frændi minn gekk að eiga Ellu sína 10. ágúst 2013 og vorum við viðstödd ásamt fjölda vina og ættingja. Giftu þau sig í safnaðarheimilinu í Sandgerði og var veislan haldin í félagsheimili Oddfellowa í Grófinni í Keflavík. Dásamlegur dagur í fallegu veðri og yndislegum félagsskap."
Þær sorglegu fréttir bárust þegar við vorum hjá Jóhanni í byrjun desember að bræðurnir og frændur okkar þeir Hafliði og Þorsteinn Karlssynir hefðu látist sviplega með nokkurra tíma millibili. Þorsteinn af völdum höfuðáverka og Hafliði af heilablóðfalli skömmu síðar. Ótrúlega sorglegt og var höggvið stórt skarð í frændgarðinn.
Eins og alltaf mættu heimsóknir til vina og ættingja vissulega vera fleiri, en hver veit hvað nýtt ár ber í skauti sér. Í þessu sambandi má vissulega þakka fyrir að fá tækifæri til að fylgjast með fólkinu sínu á Facebook.
Heima er best í hófi
Nokkuð var um ferðaflandur á árinu og fór fjölskyldan m.a. í hina árlegu páskaferð á Siglufjörð, en að þessu sinni án mömmunnar sem var hund veik heima.
Rituhöfðahjónin fóru í tvær árshátíðarferðir til útlanda þetta árið. Í maí var farið í árshátíðarferð til Finnlands og Eistlands með VSÓ Ráðgjöf. Afskaplega vel heppnuð ferð í alla staði með frábærum samstarfsfélögum og mökum. Hefði verið betra að hafa heilsu frúarinnar í lagi, en félagsskapurinn var óborganlegur að vanda og æfðu hjónakornin m.a. bogfimi og hjólböruhlaup.
Innskot af Facebook:
.
Efla fór í árshátíðarferð í september og varð Duflin á Írlandi fyrir valinu. Tæplega 400 Öflungar í tvennu lagi til Írlands og máluðu bæinn grænan. Áttu hjónakornin frábæra daga með góðum félögum og sóttu m.a. messu hjá íslenskum presti sem var ósköp ljúft.
Eftir að frúin var slegin út og send í veikindaleyfi var ferðinni heitið til Jóhanns og Shirleyar í Seattle og innifól það m.a. siglingu til Alaska með Shirley mágkonu sem var gaman og góð hvíld.
Loks fór frúin á hamfarafund á Kýpur í október sem var góður fundur og fróðlegur. Var sérlega gaman að skoða fornminjar og var frúin reglulega minnt á það á Facebook af vinum að taka ekki með sér steinvölu til að komast hjá því að enda eins og Íslendingurinn óheppni, sem endaði í fangelsi eftir að hafa keypt stein á markaði í Tyrklandi.
Minn karla og árshátíðarbragur
Þorrablót Aftureldingar var haldið 26. janúar og var frábær skemmtun. Stormsveitin rokkaði og gaf Palli okkar Helga okkur Ásdísi minni tóninn á nikkunni fyrir minni karla sem við sungum í fimmund. Held að það hafi flestir þagnað meðan við sungum og vorum við bara sáttar með textann sem kerlingin snaraði fram til heiðurs körlunum okkar og hljómuðu fyrstu tvær vísurnar svona.
Nú skuluð þið hlýða!
Ei lengur þurfið bíða,
Né minni karla að kvíða,
Hættu að verða hissa.
Vildi ég mega kyssa,
:;munninn þinn, þinn, þinn :;
Munninn þinn svo mjúkan finn,
Af því eigi vil missa.
Af kjamm og pungum saddir.
Með góðu víni gladdir,
hófum hæstu raddir,
hraut hér stöku vísa,
Strákana mína' að prísa.
Punga, smakk, smakk, smakk
Punga smakk með snafsi drakk
ykkur svo að lýsa.
Innskot af Facebook
"Skemmtilegasta þorrablót sem ég hef farið á held ég bara, þvílíkt stuð og skemmtun. Stormsveitin rokkaði og var Blakkur stjórnandi flottur og líka hann Palli okkar Helga sem gaf okkur Ásdísi minni tóninn en hún hjálpaði mér með minni karla sem við sungum í fimmund. Minni kvenna var stórskemmtilegt hjá Gylfa og stóð Ingvar veislustjóri sig frábærlega, er búin að leggja til að gerður verði langtímasamingur við hann. Buffið klikkar aldrei og var allt í fullu fjöri þegar við fórum heim. Ég fékk mína prívat og persónulegu auglýsingu í annál ársins sem var bara gaman. Er hætt öllu, nema á Faebook Herdís Sigurjóns.
Borðskreytingakeppnin var skemmtileg og hefur skreytinefnd okkar sjálfstæðismanna fyrir blótið 2014 þegar hafið störf og ætlum við að taka í það minnsta tvö 40 manna langborð á næsta ári. Mikið óskaplega var umgjörðin flott og ljóst að þorrablótsnefndin kann sitt og þakka ég kærlega fyrir mig og mína. Það var frábært að hefja fjörið með því að skála við sjálfstæðismenn í Skálahlíðinni hjá þeim Röggu og Halla. Get ekki neita því að ég er farin að hlakka til næsta blóts.."
Bæjarfulltrúinn fyrrverandi var fenginn til að setja saman texta sem bæjarstjórn gæti flutt á árshátíð Mosfellsbæjar sem haldin var í mars. Texta var snarað fram og söng sú fyrrverandi sitt síðasta með gömlu félögum sínum óð til Mosfellsbæjar, sem var bara gaman.
Rituhöfðinn Rokkar eins og fyrri ár, en misstum við af jólaskreytifjörinu þetta árið þar sem við vorum öll í Ameríku, en settum bláu seríurnar þegar heim var komið.
Það var ljótujakkaþema á götugrillinu í Rituhöfðanum í sumar og að vanda var grillað við hús númer 7, hjá þeim Gilla og Ástu. Áttu Rituhöfðahjónin ekki erfitt með að græja búningana og fóru bara í fatatöskuna frá því þegar þau kynntust og voru reglulega vemmileg í eins leðurjökkum.
Innskot af Facebook:
"Gamla settið búið að vera gift í 23 ÁR! Við Erlendur Örn Fjeldsted héldum upp á það með því að fara í jökkunum sem við áttum, plús gömul föt frá þeim tíma, Elli með eyrnalokk og frúin með spiralkrullur (reyndar grænar), gömlu gleraugun og allt, alveg eins og i denn þegar við kynntumst. Nema að núna var þetta í "ljótu jakka" þema í Rituhöfðagrillinu."
Veisla aldarinnar var haldin á stóra pallinum hjá þeim Önnu Ólöfu og Ragga sem héldu upp á fertugs og fimmtugsafmæli sín. Veisla sem talað verður um leeeeeeeeeengi, sem reyndar svekkir Rituhöfðaliðið á fjögur þar sem þau misstu af fjörinu, eins og flestu öðru sem fram fór í Ritó í sumar. ARG!!
Voru heldur betur stoltir nágrannar sem tóku á móti Járnfrúnni á 6 eftir afrek hennar þegar Sigga granna kláraði Járnkarlinn.
Innskot af Facebook frá Pétri granna:
"Jæja hún kláraði IRONMAN með stæl hun Sigga heildartími 13 timar og 14 mín gerð verður bíómynd um þetta afrek.
Ekki tókst Rituhöfðanum að næla sér í umhverfisverðlaunin 2013, fallegasta gatan (secretið sko) sem stefnt hefur verið að í mörg ár, en vonandi gengur það betur næsta sumar.
Pólitík og Mosfellsbær
41. landsfundur var haldinn á árinu og var kosin ný forysta.
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Skuldaniðurfellingar og nýkynnt fjárlög hafa mögulega létt róðurinn hjá einhverjum en höfum við ekki mikið orðið þess vör hér á þessum bæ og erum ekkert himinsæl með að þurfa að greiða tugþúsundir fyrir sykurskýkilyf Ella svo eitthvað sé nefnt. Sorglegast er hvað margir eru fluttir og við það að flytja til útlanda og vonar maður að sú þróun fari að snúast við.
Framundan eru sveitastjórnarkosningar og eftir að hafa tekið þátt í þeim sem frambjóðandi í fjögur skipti verður örugglega sérkennilegt að taka þátt á hliðarlínunni.
Áfram fjölgar í Mosfellsbænumog erum við komin yfir 9000. Á árinu bættist við bæði hjúkrunarheimili og nýr framhaldsskóli og má segja að við séum orðin nokkuð sjálfbær. Í lok árs var upplýst um niðurstöður hinnar árlegu hvar er best að búa Gallupkönnunar og eftir að hafa vermt efstu sætir í nokkur ár varð Mosfellsbær í fyrsta sæti, sem var ánægjulegt, enda frábært að búa í Mosfellsbæ.
Kaleo úr Mosfellsbænum markaði heldur betur sín spor á árinu með lögunum Vori í Vaglaskógi og Automobile sem endaði á toppnum í lok árs. Flottir strákarnir okkar!!
Gleðilegt ár kæru vinir
Við Rituhöfðafjölskyldan á fjögur enduðum árið á því að styrkja Björgunarsveitina okkar og vonum að þið gerið það sama. Við vitum jú aldrei hvenær við þurfum á hjálp þeirra að halda eins og svo oft hefur sýnt sig í vonda veðrinu í vetur.
Enduðum við árið 2013 á því að kaupa Nissan Leaf rafmagnsbíl og ætlum því að vera græn og sérlega glöð á nýja árinu.
Kærar þakkir fyrir fyrir samverustundir á liðnu ári og vonumst við til að hitta ykkur hress og kát á hinu frábæra ári 2014.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 2.1.2014 kl. 18:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.