Tengibraut í Mosfellsbæ og eðlileg þróun byggðar

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars.

 

Ástæða þessa skrifa er grein Jónasar Sigurðssonar oddvita samfylkingarinnar í Mosfellsbæ er birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar sl. og fjallaði um tengibraut í Mosfellsbæ.

Í grein sinni rak Jónas feril tengibrautarmálsins á sinn hátt. Við lestur greinarinnar mætti halda að meirihluti sjálfstæðismanna og vinsti grænna hafi alls ekki tekið tillit til athugasemda og varnaðarorða er fram hafa komið við undirbúning og lagalegan undanfara framkvæmda við tengibrautina í Helgafellshverfið. Fulltrúi samfylkingarinnar rekur hvernig hann hefði staðið að málum ef hann hefði fengið að ráða og er vart hægt að skilja orð hans með öðrum hætti en svo að þá heyrði umrædd tengibraut inn í Helgafellshverfið sögunni til. Hans eigin sögu.

Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að Jónas hvetur fólk í grein sinni til að skoða feril málsins frá vorinu 2006, en það er einmitt sá tímapunktur sem hann ákvað skyndilega að vera á móti framkvæmdinni. Ekki er ólíklegt að ætla að hann sem oddviti samfylkingarinnar í Mosfellsbæ hafi þá verið með stefnubreytingu sinni að höfða til væntanlegra kjósenda vegna sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru þremur dögum síðar. Fyrir þá sem hafa á annað borð áhuga á rannsóknum væri hins vegar verulega áhugavert að skoða aðkomu bæjarfulltrúans fram að umræddum bæjarstjórnarfundi í maí 2006, því allar ákvarðanir sem hann tók í nefndum og ráðum varðandi Helgafellshverfið hljóta því að hafa verið óhugsaðar. Jónas hefur sem sé ekki áttað sig á því að tengibrautin kæmi að lokum, sem eðlileg tenging við Helgafellshverfið.

Mat á umhverfisáhrifum

Í umræðunni undanfarnar vikur hefur meirihluti sjálfstæðismanna og vinstri grænna verið sakaður um að leggja litla áherslu á umhverfismál og líta til mögulegra áhrifa framkvæmdanna á vistkerfi Varmár og næsta umhverfi. Þetta er ósatt enda hefur verið vandað til undirbúnings m.t.t. mögulegra umhverfisáhrifa, hámarkshraði lækkður á tengibrautinni, brautin felld betur inn í landið og fjær Álfosskvosinnin en fyrra skipulag gerði ráð fyrir. Mosfellsbær kannaði einnig lögum samkvæmt hvort framkvæmdin væri háð mati á umhverfisáhrifum.

• Á 770 fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 27. apríl 2006 var tekið fyrir erindi Skipulagsstofnunar sem samkvæmt lögum óskaði eftir umsögn Mosfellsbæjar varðandi tengibraut í Helgafellsland.

Umsögn Mosfellsbæjar sem send var Skipulagsstofnun:

Umrædd tengibraut í landi Mosfellsbæjar er í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 og er nauðsynleg forsenda fyrir uppbyggingu á Helgafellslandi.

Að fráveitumálum verður staðið þannig að ekki komi til aukinnar mengunar í Varmá frá tengibrautinni. Áhrif brautarinnar á náttúru munu vera í lágmarki.

Uppbygging tengibrautarinnar í Mosfellsbæ mun fylgja uppbyggingu í landi Helgafells og er því gert ráð fyrir því að hún byggist upp í áföngum á næstu árum. Mosfellsbær telur því ekki að framkvæmdin muni hafa í för með sér þá umhverfisröskun að nauðsynlegt sé að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna hennar.

• Afgreiðsla bæjarráðs frá 770. fundi var staðfest á 442. fundi bæjarstjórnar þann 10. maí 2006, með öllum greiddum atkvæðum og þar á meðal atkvæði samfylkingarinnar

• Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en sú niðurstaða var kærð til umhverfisráðherra.

• Umhverfisráðherra staðfesti niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum í desember 2006.

Þróun byggðar við Varmá

Hvað er átt við þegar talað er um þróun byggðar? Í Mosfellsbæ hefur ör uppbygging átt sér stað á undanförnum árum og margir hafa kosið að flytja í bæinn og búa í nánum tengslum við ósnortna náttúru og fallegt umhverfi. Útivistarperlan meðfram bökkum Varmár er okkur Mosfellingum dýrmæt og svæðið mikið notað til útivistar, en þar hefur einnig ákveðin þróun átt sér stað. Skipulagi hefur verið breytt og fólki gefinn kostur á að búa í fyrrum sumarhúsum við Varmá og hafa einnig verið skipulagðar nýbyggingar á auðum lóðum. Þessu fylgja aðrar framkvæmdir eins og í fráveitumálum, þar sem verið er að tengja holræsi við lagnakerfi bæjarins í stað þess að veita skólpinu í Varmána.

Álafosskvosin sjálf, sem byggð er á bökkum Varmár hefur þróast í íbúðabyggð í áranna rás og hafa íbúar sest að í húsum sem áður hýstu starfsemi ullariðnaðar. Það verður því einnig að teljast eðlileg þróun byggðar og nokkuð fyrirséð, að byggt sé upp hverfi sem verið hefur á skipulagi í áratugi eins og Helgafellshverfið. Fjölgun íbúamagns er ekkert óeðlileg og ekki síst þar sem horft var til þess að gera þetta nýja hverfi sem sjálfbærast. Með einn tveggja hliðstæðu grunnskóla, tvo leikskóla og hverfisverslun, enda hefur alltaf ríkt þverpólitísk sátt í bæjarstjórn um aukningu íbúamagns og skipulag Helgafellshverfisins. Í ljósi þessa verða því upphrópanir bæjarfulltrúa samfylkingarinnar um óeðlilega íbúaaukningu í Helgafellshverfinu að teljast enn eitt undrið í þessu máli og afar ótrúverðugar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Málið snýst ekki um að vinna Samfylkinguna í rökræðu. Upp hefur risið gifurleg andstaða við umrædd áform. Í spilunum eru leiðir sem eru betri. Því snýst málið um að bæjaryfirvöld stingi ekki höfðinu í sandinn heldur vinni sig í átt að meiri sátt um málið. Það er ekki trúverðugt þegar sagt er að það skipti ekki máli þó að íbúafjöldi hafi breyst úr áformuðum 200 upp í hátt í 4000 og á e.t.v. eftir að aukast. Þetta er hátt í 20 föld aukning.

Það er heldur ekki trúverðugt að breyta áformum um að tengibraut fari undir Vesturlandsveg og meðfram Brúarlandi í átt að miðbænum eins og gert er ráð fyrir í aðalskipulagi. Nú er óútfærð skýring bæjarins að hringtorgið verði tvöfaldað, en Vegagerðin telur það óviðunandi lausn að stefna öllum þessum bílaflota saman í hringtorgi með aðliggjandi brekkum sitthvoru megin. Er ekki nauðsynlegt að hefja alvöru viðræður um Vesturlandsveginn við Vegagerðina? 

Mislæg gatnamót á Vesturlandsvegi við miðbæ og tilvonandi Hafravatnsveg. Lyfta vegi yfir Varmársvæði sem skapar aukið svigrúm fyrir reiðgötu og göngustíg. Önnur mislæg gatnamót ofan núverandi Helgafellsbyggðar, sem myndi þjóna Þingvallavegi og nýju hverfunum sitthvoru megin. Síðan, af tvennu illu er betra að þvera Varmá með brú sem stæði vel upp úr landinu við Álanes, milli Reykjalundar og Álafosskvosar, heldur en að þrengja að kvosinni og fara nokkuð langa leið samhliða Varmá.

Þetta er svona tillaga til þín frá mér fyrir svefninn. Hún er ekki út í loftið, heldur eftir viðræður við fjölda fagaðila. Varmársamtökin hafa ekki mótað stefnu um lausnir, en vilja fá velvild bæjarins gagnvart faglegri úttekt á möguleikum við lagningu tengibrautar. Það er erfitt fyrir virta skipulagsaðila að vinna að verki sem að sé í óþökk bæjaryfirvalda, sem hafa valdið í skipulagsmálum. En bæjaryfirvöld hafa líka skyldur gagnvart almenningi og í jafn umdeildu máli þurfa bestu gögn og allir möguleikar að hafa verið skoðaðir. Það hlítur líka að vera hlutverk kjörinna fulltrúa að miðla málum. 

                              Þinn pennavinur,

                                                  Gunnlaugur

Gunnlaugur B. Ólafsson (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband