Leikskólar Mosfellsbæjar opnir á sumrin
20.3.2007 | 11:16
Leikskólar Mosfellsbæjar verða opnir allt sumarið annað árið í röð og hafa foreldrar og forráðamenn frjálst val um á hvaða tíma hentar fjölskyldunni að taka sumarfrí. Búið er að prófa ýmis form á sumarstarfi leikskólanna, sem eru fjórir í bænum og hef ég með mín þrjú börn tekið virkan þátt í þessum tilraunum. Reynt var að loka öllum skólunum í tvær vikur og hafa opna sumardeild á einum af leikskólunum. Gátu þá börn af hinum leikskólunum farið þangað ef þau gátu ekki verið í fríi þegar leikskólinn þeirra var lokaður. Þótti mörgum börnum þetta óþægilegt og skapaðist óöryggi hjá þeim yngstu við að fara í ókunnan leikskóla, en minn var alsæll með tilbreytinguna, en krakkar eru svo mismunandi viðkvæm fyrir breytingum. Mosfellsbær er eitt af fáum sveitarfélögum í landinu sem frjálst val um töku orlofs fyrir börn sín og veit ég það af eigin reynslu að það skiptir miklu máli. Eitt árið þá hafði ég ekki tök á að fara í orlof á þeim tíma sem leikskólinn var lokaður yfir hásumarið. Nú ég varð að redda mér pössun fyrir barnið á þeim tíma sem skólinn var lokaður og tók svo barnið mitt út af leikskólanum í mínu orlofi, eðlilega. Það segir sig sjálft að þetta er ekki gott, hvorki fyrir barnið né foreldrana og því er mikið ánægjuefni hvað vel hefur tekist til í Mosfellsbænum, enda leikskólar og starfsfólk í fyrsta flokki. Reynsla fyrra sumars var góð og sú reynsla nýtt til að endurbæta skipulagið í ár. Foreldrar eru enn að átta sig á því að þeir hafi þetta val, en er mikil ánægja með þessa nýbreytni. Það er eðlilegt að það taki nokkur ár að þróa sumarstarfið þannig að sem best verði fyrir skólastarfið og starfsmannahald. Starfsfólk hefur með þessu fyrirkomulagi aukið val um töku orlofs og eins er auðveldara að fá inn sumarstarfsmenn ef þarf, þar sem nú er hægt að bjóða upp á vinnu allt sumarið en ekki bara 2/3 sumars og eins þurfa nýjir starfsmenn sem ekki hafa unnið sér inn fullt orlof að taka launalaust leyfi. Við foreldrar erum flest úti á vinnumarkaðnum og er svo um okkur hjónin. Í ár settumst við niður og skipulögðum sumarið. Fljótt sáum við að nú hentaði okkur ekki að taka orlof á þeim tíma sem áður var lokað í leikskólunum. Í stað þess að fá hnút í magann og hafa áhyggjur af því hvernig ætti að redda pössun yfir lokunartímann lítum við nú með tilhlökkun til sumarsins og þess að geta tekið sumarfrí þegar okkur hentar
Meginflokkur: Mosfellsbær | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.3.2007 kl. 10:31 | Facebook
Athugasemdir
Velkomin aftur Herdís. Gangi þér vel. Já það er gott að hafa val varðandi sumarfrí með börnunum. Þarft framtak sem aðrir ættu að taka sér til fyrirmyndar.
Vilborg Traustadóttir, 20.3.2007 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.