Snjóflóð og snjóflóðavarnir á Íslandi

Náttúruhamfarir eru algengar á Íslandi, landi elds og ísa eins og oft er sagt. Búið er að reisa fjölmarga snjóflóðavarnargarða undanfarinn áratug eða svo á þeim svæðum á landinu sem hætta stafar af snjóflóðum og sá ég í blöðunum að í júní hefjast framkvæmdir við slíkan garð á Bolungarvík og þurfa íbúar þá ekki lengur að rýma hús sín í hættuástandi. Heyrst hafa gagnrýniraddir um að verið sé að byggja rándýra varnargarða fyrir nokkrar hræður, betra sé að flytja fólki í blokk á höfuðborgarsvæðinu, en það fólk þekkir yfirleitt málið ekki af eigin raun.

Áhugi minn á snjóflóðamálum og náttúruhamförum hefur lengi verið fyrir hendi og er sjálfsagt engin tilviljun að ég starfa við þessi mál í dag og hef lagt megináherslu á náttúruhamfarir í framhaldsnámi mínu í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ. Ég held að ein ástæðan þessa áhuga sé eflaust sú  að ég hef alltaf verið mikið náttúrubarn, Siglfirðingur og alin upp í sjómannasamfélagi þar sem hafið tók sinn toll og á fólk bjó við snjóflóðaógn á vetrum. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir náttúruöflunum, sem eru svo kraftmikil og óútreiknanleg, en þótti mér alltaf jafn spennandi þegar það komu jarðskjálftar á Siglufirði. Fjörðurinn er svo þröngur að drunurnar fyrir skjálftann voru eins og þegar vörubíll keyrði eftir Laugarveginum og svo á eftir kom skjálftinn sjálfur.

Snjóflóð hafa valdið miklum mannskaða á Íslandi í gegnum aldirnar. Ég man þegar ég var krakki og heyrði sögu af hræðilegu snjóflóði við Siglufjörð, á Siglunesi þar sem 50 manns fórust á leið til kirkju á aðfangadegi á 17. öld og er það trúlega mannskæðasta snjóflóð hér á landi. Önnur saga sagði frá flóðum sem féllu í Siglufirði í byrjun 20. aldar og fórust alls 18 manns í þeim flóðum. Snjóflóð hafa tekið um það bil 200 mannslíf á hverri öld og sá ég í heimildum að frá upphafi byggðar á Íslandi hafi um 700 íslendingar farist í snjóflóðum. Á tuttugustu öld fórust samtals 193 af völdum snjóflóða of þar af 69 eftir 1974. Ég man eftir snjóflóðum í Neskaupsstað 1974, á Patreksfirði og svo í Súðavík og Flateyri 1995. Þessi mannskæðu flóð hafa skilið eftir sig hræðileg ör og er vart hægt að ímynda sér þjáningar þeirra fórnarlamba, aðstandenda og björgunarmanna sem komu björgunarstarfinu. Það má þó með sanni segja um okkur Íslendinga að við stöndum saman og sýnum samhug þegar á reynir.

Eins og ég sagði fyrr þá er ég alin í Siglufirði og man ég eftir mörgum snjóflóðum sem féllu og stundum fóru skíðalyfturnar. Flest flóðin fékku utan byggðar, en líka í byggð og þá sérstaklega syðst við Suðurgötuna, sem er gatan fyrir ofan Laugarveginn þar sem ég átti heima. En á þeim stað er risinn fallegur snjóflóðavarnargarður og annar til og eru þeir nefndir Stóriboli og Litliboli og hefur marg oft reynt á þessa varnargarða. Fyrir ofan bæinn er nú verið að reisa mikil snjóflóðavarnarmannvirki sem eiga eftir að auka öryggi bæjarbúa enn frekar. 

Ég hugsaði ekki mikið út í afleiðingar flóðanna sem barn, en eftir því sem maður eldist og skoðar málin þá má telja kraftaverk að ekki hafi orðið mannskaðar í þessum snjóflóðum. Eitt sinn fór flóð í gegnum tvö hús og stofu annars hússins og man ég að tilviljun ein réð því að börnin á heimilinu voru ekki stödd í stofunni. Þessi hús hafa alltaf síðan verið kölluð snjóflóðahúsin. Í annað sinn féll stórt snjóflóð og sópaði það með sér eina leikskóla bæjarins í sjó fram og man ég eftir braki af rólum og ruggum um svæðið. Þetta flóð féll að kvöldi til og þarf ekki að fara neitt frekar út í afleiðingarnar ef flóðið hefð fallið um hábjartan dag og leikskólinn verið opinn og fullur af börnum. Ég man líka eftir flóði og trúlega var það sama flóðið, sem fór á hænsnahús og drap megnið af hænsnunum og í minningunni var fólk um allt að bjarga hænum úr snjónum.

En þegar ég les fréttir af rýmingum vegna flóðahættu eins og í morgun þá er ég fegin að þessi ógn hangir ekki lengur yfir bæjarbúum í Siglufirði eða Fjallabyggð, sem stendur svo sannarlega undir nafni. Ég verð líka enn fengnari þegar búið verður að reisa varnargarðana í Bolungarvík og á þeim stöðum þar sem þörf er fyrir byggingu slíkra varnargarna til að beina ofanflóðum frá byggð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Raggi Raggi Raggi.....

Jú mikið rétt það er að hlýna og því verðum við nú að fara að byggja sjó-varnargarða  

Það eru sem betur fer ekki allir fluttir af landsbyggðinni og hafa þessir garðar sem komnir eru margsannað gildi sitt.

Mikið er nú annars gaman að rekast á rekast á þig á blogginu , við sjáumst kannski í skíðaparadísinni á Sigló um páskana... því síðast þegar ég vissi var ennþá snjór

Herdís Sigurjónsdóttir, 23.3.2007 kl. 15:32

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

já Raggi, það er af sem áður var, þegar gefið var frí í skólanum vegna veðurs og maður fór út og að leika sér í snjónum. Svo var hoppað af þökum tveggja hæða húsa, beint í skaflana og leikið á ísjökum á sjónum... eins gott að krakkarnir mínir fari nú að leika þetta eftir mömmu sinni

Herdís Sigurjónsdóttir, 23.3.2007 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband