Hverra manna ert þú?

Hver kannast ekki við það að vera spurður hverra manna hann sé?

Í örstuttu máli þá er ég komin af ættum Krossa- og Kjarna í Eyjafirði, vondu fólki af Snæfellsnesi og galdramönnum á Ströndum. Ég er fædd og uppalin á Siglufirði, dóttir hjónanna Sigurjóns Jóhannssonar skipstjóra og Ásdísar Gunnlaugsdóttur og litla systir Kristínar og Jóhanns.

Að undanförnu hefur áhugi minn á ættfræði farið vaxandi og held ég að það sé gamli góði grúsksáhuginn og óbilandi áhugi á fólki. Málið er að ég þekkti ömmur mínar og afa lítið þar sem ég var ung þegar þau létust. Foreldrar mömmu, afi Gulli, sem bjó á Akureyri þegar ég var barn dó þegar ég var 10 ára og þekkti ég hann best, en amma Kristín dó þegar mamma var bara 10 ára. Herdísi ömmu man ég óljóst eftir, en hún dó þegar ég var þriggja, en afa Jóhanni man ég vel eftir. En hann var á ellideildinni á Siglufirði og áttum við góðan tíma saman við spil og sprell, en hann sagði að 88 væri falleg tala og þá ætlaði hann að deyja og hann dó þegar hann var 88 og þá var ég ég rétt liðlega 5 ára.

Í gær þá varði ég deginum í að skrifa hjá mér upplýsingar um áa mína úr ættfræðiritum, Krossaætt í Eyjafirði (afi Gulli), Snæfellingar og Hnappdælingar, ábúendur og saga, Eyja- og Miklaholtshreppur (amma Kristín). Afi var verksmiðjustjóri á Raufarhöfn, Siglufirði og á Akureyri og svo var hann á Sólbakka við Önundarfjörð og er mamma einmitt fædd þar. Stór ætt og þekki ég fjölmarga ættingja mína og það er líka eitthvað með Fjeldstedana og vonda fólkið, því bæði tengdapabbi og Siggi, eini bróðir Ella míns náðu sér í frænkur mínar ættaðar af Snæfellsnesinu.

Um ævi föður ömmu og afa er ekki eins mikið vitað og er takmarkið að kortleggja þeirra ævi. Ég fór í gömul gögn sem ég hafði fengið send frá Halla frænda Gíslasyni um ættir ömmu Herdísar frá Ströndum aftur til langa langafa míns Þorsteins Þorleifssonar f. 7. júlí 1824, d. 9. sept. 1882. Bóndi, járnsmiður, hugvits- og yfirsetumaður í Kjörvogi Árneshreppi Strand og langa langömmu minnar Herdísar Jónsdóttur f. 22. mars 1830, d. 11. nóv. 1904. En Eiríkur Þorsteinn sonur þeirra var langafi minn og faðir Herdísar ömmu sem átti Sigurjón pabba minn og ég er sem sé a.m.k. Herdís þriðja.

Ég dustaði líka rykið af upplýsingum sem ég hafði fengið frá héraðsskjalasafninu á Ísafirði fyrir nokkrum árum síðan um afa Jóhann Pétur. Það er eins og maður hafi lent í gömlu ævintýrabókunum, en núna í leit að sögunni. Enn vantar mig nokkur ár upp á lífshlaup ömmu og afa. En þegar ég byrjaði þá vissi ég um afa að hann var fæddur 1. desember 1882 í á Stóru-Seylu í Skagafirði. Ég vissi að hann hafði farið í skóla til Kaupmannahafnar 1908 og var þar í a.m.k. eitt ár og að hann hafi verið á Ísafirði. Ég vissi líka að hann var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum og átti þá verslun og innflutningsfyrirtæki, sem hann missti þegar skip með farm sökk á leið til Íslands. Þá fluttu þau í Haganesvíkina og síðar á Siglufjörð. Ég vissi líka að bróðir hans var Sigurjón Jónsson, bankastjóri og alþingismaður Vestfirðinga og þar hófst leitin.

Þökk héraðsskjalasafninu á Ísafirði og gömlum bréfum þá komst ég að því að afi flutti til Ísafjarðar frá Sólbakka í Önundarfirði um 1913 og vann í 4 ár sem bókari í Verslun Leonards Tangs og sön á Ísafirði eða Tangsverslun eins og hún var kölluð, staðsett í svonefndum Hæstakaupstað. Hann var skráður á Silfurgötu 7 Ísafirði árið 1916, þá 35 ára gamall og sagður verslunarmaður. Árið 1921 var hann skráður í Póstgötu 6 (nú Mjallargata), 40 ára gamall verslunarmaður. Hann var einn af stofnendum Græðis- togarfélags árið 1924 og þá sagður verslunarmaður á Blönduósi og hann var einn þeirra sem keyptu skipasmíðastöðina á Torfnesi 1921. Síðan hafði Jóna Símonía skjalavörður aftur samband og þá með upplýsingar um að þeir bræður Sigurjón og Jóhann hefðu keypt Skipabrautina ásamt Bárði G. Tómassyni og að hver hafi greitt 5500 kr.

Árið 1923 var afi svo skráður verslunarmaður í Blönduósi og eignaðist Kalla hálfbróður pabba. Eftir það kynntist hann ömmu Herdísi, trúlega á Siglufirði i kring um 1924 og þau eignuðust Þorstein og pabba. Amma Herdís var fædd Haganesvíkinni í Skagafirði 1893. Þegar hún kynntist afa var hún búin að fara í Lýðskóla í Bergstaðastræti í Reykjavík, Húsmæðraskólann á Blönduósi og læra fatasaum á Sauðárkróki, en þetta á ég allt eftir að skoða betur. Þegar þau kynntust var amma búin að vera sýsluskrifari á Akureyri og vann m.a. fyrir Pál Einarsson sem síðar varð borgarstjóri í Reykjavík og var amma svo líka sýsluskrifari á Siglufirði. Hún var alveg stórmerkileg kona sem fór um allt og tók myndir og skaut rjúpur og sel.

Næstu skref í málinu verða trúlega að hafa samaband við Vestmannaeyjar og Blönduós og Akureyri í leit að frekari upplýsingum um þau ömmu og afa. Já ætli ég endi ekki sem hvert annað húsgagn á þjóðskjalasafninu eftir nokkur ár með þessu áframhaldi.

 

 



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Þetta er stór merkileg saga Herdís og það verður fróðlegt að fylgjast með rannsóknum þínum. 

Sigurjón Þórðarson, 6.4.2007 kl. 10:46

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Okkar saga er ekki svona mikið rannsóknarefni Sigurjón, en skemmtileg.

Ég á örugglega eftir að blogga um rannsóknir mínar og krydda með sögum af nýfundnum frænkum og frændum eins og Ásdísi frænku, hennar Þorgerðar..... Við vorum búnar að hittast margoft í tengslum við karlanan okkar hjá TM þegar við svo hittumst í veislu hjá Kristínu hennar Ingibjargar ömmusystur ....  

Herdís Sigurjónsdóttir, 6.4.2007 kl. 11:00

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Blessaður frændi ... og hvaða Jón ert þú?... Það tók mig bara 10 sek að sjá að þú varst með mömmu norn og hún með link inn á Jón dverg nr. 3

Herdís Sigurjónsdóttir, 6.4.2007 kl. 12:55

4 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Þetta er einn af galdramönnunum af Ströndum. Greinilega.

Vilborg Traustadóttir, 6.4.2007 kl. 13:06

5 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já hann elsku Pétur bekkjarbróðir minn úr Reykjaskóla ? Pabbi átti einmitt alla bókina sem þú talar um og Hallgrímur Gíslason frændi okkar á Akureyri er með eintakið...en það vantaði alltaf nokkrar síður og átti pabbi heilt eintak, með þeim síðum sem á vantaði 

Herdís Sigurjónsdóttir, 6.4.2007 kl. 13:18

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ég hefi töluverðan áhuga á ættfræði, en tel mig ekki sérlega ættfróðan. Ég hefði getað orðið það, en ég glutraði niður tækifæri til þess á unglingsárunum, því að móðir mín, Guðrún S. Benediktsdóttir (f.1896) var sérlega ættfróð kona. Tvær eldri systur mína njóta þess enn hátt á áttræðisaldri, að þær hlustuðu betur á mömmu en við bræðurnir! Kannske fylgir áhugi á ættfræði þeim litningi, sem ákveður kyn fóstra ? Kári klári getur ef til vill svarað því. Móðir mín talaði gjarnan um, að hún væri af Blöndalsætt , en kona séra Bjarna Þorsteinssonar var af þeirri ætt . Fyrrverandi og jafnframt síðasti bæjarstjóri Siglfirðinga, Óli, sem heitir Runólfur Birgisson, er líka Blöndal. Dóttur minni og Hálfdán tengdasonur minn fannst þau hjón góðir grannar og munu sakna þeirra, ef þau flytja burtu. Gabríel, sem er eldri persa kötturinn á heimili þeirra, mun sakna þeirra sárt, því að hann koma alltaf í heimsókn, nær þau grilluðu í fallega garðinum sínum á fallegum sumar síðdögum.

Ættfræðinni geta fylgt ótal sögur eins og þú vissulega veist. Ég þakka boð þitt að gerast bloggvinur þinn.

Með góðri kveðju til Siglufjarðar, gleðilega Páska, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 7.4.2007 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband