Borðar þú allt sem að kjafti kemur?

imagesMér datt í hug í morgun þegar stóru börnin mín fussuðu og sveiuðu yfir því að pabbi þeirra væri að borða sardínur í tómat, hvað matarsmekkur breytist með árunum.

Í dag þá borða ég allan mat, en þegar ég var krakki þá var ég óttalega matvönd og man ég eitt tímabilið að ég borðaði bara bakaðar baunir og kakósúpu. En fljótlega fór maður að borða allan mat, enda alin upp við íslenskar matar hefðir, slátur, svið og sviðalappir í sláturtíð, súrmat og síld á þorranum. Egg, grásleppu og hrogn og lifur á vorin og eins var veiðimennska stunduð í ríki mæli á mínu heimili. Fiskur var veiddur á spún og í net og skotveiðar stundaðar á haustin. Pabbi verkaði og verkar enn hákarl og borðum við hann í bitum eins og annað fólk, en er líka útbúin hákarlsstappa, sem ég hef aldrei heyrt um nema hjá honum pabba mínum.  

Síðan heldur maður í þessar hefðir þegar maður fer sjálfur að halda heimili. Skata á borðum á Þorláksmessu, rjúpur á jólunum og oftast gæs á gamlárskvöld. Ég er sjálf komin með byssuleyfi og búin að kaupa mér byssu og ætla því að fara að veiða í matinn með strákunum og hver veit nema ég nái að skjóta sel einhvern daginn.

Selur var alltaf skotinn á Borginni við bústaðinn og var hann borðaður og fæ ég vatn í munninn við það eitt að skrifa þetta. Ég hef stundum reynt á ná mér í selkjöt, en það hefur ekki gengið vel undanfarin ár, enda ekki eitthvað sem maður kaupir í Nóatúni. Ég ætla nefnilega að koma upp hefð og bjóða "vonda" fólkinu úr ættinni minni til selaveislu á haustin og því þarf ég að fara að vinna í því að tryggja mér selkjöt árlega.  Ég held að síðasti selurinn sem ég fékk hafi verið skotinn af honum Sigurjóni Þórðar frænda mínum. En hann mætti með hann í garðinn á Laugarveginum fyrir nokkrum árum og var hann fleginn á staðnum, skorinn og soðinn í síðustu fjölskylduveislu.

Það er ein saga sem mér dettur alltaf í hug þegar ég elda selkjöt. Hún er af Þórði ömmubróður, mínum, pabba hans Sigurjóns sem var mikill húmoristi. Eitt sinn þegar við vorum hjá þeim Sigurlaugu var haldin selaveisla á Leifsgötunni. Þá kom verðandi (núverandi) tengdasonur í heimsókn og þekkti hann ekki lyktina. Hann spurði hvaða kjöt þetta væri í pottunum og þá sagði Þórður glottandi þessa dásamlegu setningu... "hvað er þetta maður, veistu ekki að ég vinn hjá kirkjugörðunum?" LoL

Ég hef líka afskaplega gaman að því að bjóða útlendingum sem koma til mín koma upp á eitthvað séríslenskt. Ég man enn eftir svipnum á mágkonu minni amerísku þegar hún sá svörtu sviðakjammana á fatinu, alveg óborganleg sjón. Henni fannst kjammarnir vera að horfa á sig og verð ég að viðurkenna að á þeim tíma hafði ég aldrei leitt hugann að þessu, en glöggt er gests augað og trúlega er þetta tilfellið.

Ég veit ekki hvort það er uppeldið sem ég hlaut eða spennufíknin sem veldur því, en ég hef gaman að því að borða framandi mat í útlöndum og vel yfirleitt brennivín og hárkar þess lands sem ég fer til. En enn hef ég ekki enn rekist á súkkulaðihjúpuð skordýr eða súrsuð svínstrýni og held jafnvel að í því tilfelli veldi ég frekar eitthvað annað. En samt, maður veit aldrei, það gæti nú verið gaman að prófa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hálfnafna mín, þetta eigum við þó sameiginlegt, eða borða það sem að kjaft kemur. Ég var alin upp við að borða ALLT og hugsa oft um þessa rétti sem mömmu tókst að framreiða úr alls konar hráefni, einu man ég eftir sem ég slefaði yfir, það var loðna steikt á pönnu með tómatsósu og kartöflum svo náttl.síld í í öllum útgáfum ofl. ofl. sem einhverjum yrði örugglega óglatt að heyra um.Hafið það gott.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.4.2007 kl. 17:03

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég er meðal vondra ættingja á Grunarfirði en ég sé það á þessu bloggi þínu að eina vitið er að renna norður á Sigló í kvöld og ná í páskasel út á Siglunesi strax í fyrramálið. 

Kær kveðja

Sigurjón

Sigurjón Þórðarson, 7.4.2007 kl. 17:33

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Sæll frændi, ég var nú með ykkur í dag í huganum og votta ykkur öllum samúð mína.

En ég er alltaf til í sel ..........

Herdís Sigurjónsdóttir, 7.4.2007 kl. 17:47

4 identicon

Þú ert æði elskan mín!!

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 19:01

5 identicon

Nei sigurjón! Eina vitið er að tala tungum...........manna

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 19:02

6 identicon

Sæl litla.

Ég ólst upp á sama heimili og þú, við lesturinn komst ég að því að við höfum mótast eins í matarmenningunni, ég borða allttttttt. nema hunda, og er þakklát fyrir að hafa alist upp við þessar gömlu matarvenjur og líka að hafa kynnst öllu útlenska gúmmelaðinu sem pabbi bar í bú úr siglingunum og var ekki á hverju heimili á þeim tíma.

Svo var mamma einstakur listakokkur og mætti margur lærður fagmaðurinn að taka hana til fyrirmyndar.

Ég er ekki í vafa hvaðan Þórður sonur minn fær þessa listrænu hæfileika sína í kokknum.

Það er gaman að heyra hvað þið hafið það gott fyrir norðan og að gæsku minni lánaði ég ykkur tvo af strákunum mínum og sit hér í kotinu bara með mínum betri helmingi.

Hann gat ekki einu sinni fagnað Liverpool almennilega í dag vegna saknaðar, þegar ég spurði hann eftir eitthvað ámáta mjálm þegar frá honum þegar Liverpool skoraði, hvað væri að, þá svaraði hann, það er ekkert gaman að hafa ekki strákana heima.

Einn sonurinn er í Tyrklandi í æfingarferð og lenti þar í hrakningum með að komast inn í landið því við föttuðum kvöldið fyrir brottför að hundurinn okkar var búin að naga hluta af passanum í spað, en minn maður sagðist hafa brosað sínu blíðasta og stungið 100 evrum í brjóstvasann hjá tollaranum í Tyrklandi og landið opnaðist,

humm hann er bara 16. ára.

Svo er einn sonurinn í faðmi fjölskyldu sinnar og býður eftir fæðingu sonar síns og hinir tveir á Sigló.

En svona líður lífið hjá og við verðum að læra að njóta hvers hluta af því eins og það kemur fyrir

Ég hef líka verið með hugann hjá ættingjum mínum fyrir vestan þar sem var verið að bera frænda minn til moldu og votta ég öllu hans frændaliði samúð okkar hjóna.

Elsku litla, mamma, pabbi og barnskari Gleðilega Páska og njótið ykkar heima á Sigló

Kveðja frá stóru systir.

Kristín Sigurjónsd. (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 20:49

7 Smámynd: Karl Tómasson

Já Herdís mín þetta með kjammana, hákarlinn og matarsmekkinn.

Ég tek undir það með þér að í dag er maður allt að því orðin alæta. Svo þú ert Siglfirðingur með áhuga á ættfræði, segið svo að bloggið sé ekki bara svolítið skemmtilegt og við sem vinnum saman komumst að þessu á netinu. Siglugförður hefur alltaf verið hátt skrifaður hjá mér, Gildran var svo vinsæl þar, álit mitt á þér hefur snaraukist ha ha ha. Kær kveðja frá Kall Tomm.

P.s. Það var gaman að lesa um súkkulaði húðuðu skordýrin. Einu sinni hélt ég matarboð um mitt sumar og bræddi mikið magn af suðusúkkulaði og húðaði hákarl með því. Allir héldu að þetta væri konfekktmoli og þú getur ýmyndað þér svipinn á liðinu.

Karl Tómasson, 7.4.2007 kl. 21:06

8 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Takk Jónína mín, mikið er nú gaman að kynnast aftur á netinu. Ég á margar minningar frá Reykjaskóla tengdar þinnig góðu kennslu og frumlegheitum og varst þú langt á undan þinni samtíð, með allar þínar frábæru hugmyndir ég man t.d. vel eftir ferð okkar sýningarhópsins í Laugardalshöllina í röndóttum karlmannsnærfötum og lang flottastar. Ég man ekkert hvernig okkur gekk, man bara að það var gaman.

Elsku Stóra (trúið mér hún er stóra tæpir 180 og ég rétt rúmlega 160) já við höfum það gott ég og strákarnir ykkar Dodda líka  og nutum við lífsins í dag og horfðum á boltann ... og borðuðum góðan mat hjá mömmu...ykkur var nær að koma ekki líka, en ekki ætla ég að efast um það að þið hafið haft það gott í Grindó , loksins ein kotinu.

Já Kalli minn, bloggið er sannarlega skemmtilegt og trúðu mér að við Siglfirðingar kunnum gott að meta, en ég lærði nú samt að meta Gildruna í Mosó, ekki annað hægt þegar maður er giftur honum Ella mínum Gildru-fan no.1

Herdís Sigurjónsdóttir, 7.4.2007 kl. 22:04

9 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ég gleymdi einu Kalli...þú gætir nú boðið mér húðaðan hákarl.. ég get lofað þér að ég mun prófa... við ættum kannski að taka okkur saman og bjóða þetta sem eftirrétt í næsta jólahlaðborði í Hlégarði,,alveg er ég viss um að Vignir tæki þátt í þessu með okkur ..

Herdís Sigurjónsdóttir, 7.4.2007 kl. 22:23

10 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Gaman að lesa hjá þér. Þú færð skordýr í Thailandi... ef þú vilt .  Veit ekki með súkkulaðihjúp!! Ég er líka alin upp á öllu þessu sem þú nefnir.  Er þó sú eina í fjölskyldunni minni sem gat ekki og get ekki enn borðað hákarl.  Með því var ég auðvitað mikill "föðurlanssvikari" þar sem pabbi verkaði hákarl bæði fyrir sig og aðra.  Gleðilega páska.

Vilborg Traustadóttir, 7.4.2007 kl. 23:17

11 Smámynd: Karl Tómasson

Ég skal redda súkkulaðinu, þú átt nú ekki í vandræðum með hákarlinn er það nokkuð? Þetta verður að vera pínu leyndó.

Karl Tómasson, 7.4.2007 kl. 23:18

12 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Alæta er maður jú einnig enda alinn upp undir Jökli og vílar hlutina ekki fyrir sér Man þá tíð er maður fékk heitan mat tvisvar á dag og skipti engu þá faðirinn væri á sjó og móðirin í frystihúsinu. Heim var mætt í hádeginu og eldaður heitur matur, held að á þeim tíma hafi verið fiskur að minnsta kosti 9 sinnum í viku. Ætli maður sé ekki yfirfullur af Omega3 fitusýrum......og þessvegna nái maður ekki að létta sig! en eitt hef e´g alltaf átt erfitt með að innbyrða og það er siginn fiskur hehehe

Guðmundur H. Bragason, 8.4.2007 kl. 00:56

13 identicon

Gummi!!! var hann eins siginn og Samfylkingin???

Karl Tómasson (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 01:14

14 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

allavega slæmur undir tönn og engin leið að kyngja honum Kalli minn hehehe

Guðmundur H. Bragason, 8.4.2007 kl. 01:26

15 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Já,þetta er kræsilegur matseðill. Ég hef prófað flest á honum nema selkjöt. Stundum er hægt að láta fólk prófa, án þess að það viti. Reyndar held ég, að maður geti borðað óvenjulegan mat eins og hákarl, ef maður fær kældan snafs með.

Steikin í dag verður frampartur af lambi úr Fljótunum.

Bestu kveðjur til Siglufjarðar, KPG

Kristján P. Gudmundsson, 8.4.2007 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband