Eggjaleit og málshættir
8.4.2007 | 14:12
Í bítið í morgun rifaði í augu lítillar 3ja ára. "Mamma er nú kominn dagur?" Ég reyndi að telja henni trú um að enn væri nótt, en allt kom fyrir ekki, enda sú stutta sannkölluð A-typa og klukkan langt gengin í átta, sem sé kominn dagur að hennar mati. Hún vissi líka sem var að uppi biðu súkkulaðieggin í felum eftir því að Ellabörnin vöknuðu.
Lillastan þaut upp eins og eldibrandur í leit að Aftureldingarpáskaegginu sínu. Undir sófa og inn í skáp, bakvið púða og vasa. Ekkert egg fann hún og var heldur að missa móðinn, en þá allt í einu sá hún grilla í eggið undir gamla skrifborðinu hans afa. Þarna stóð það aleitt og beið eftir því að Sædís Erla fyndi það. Eggið var rifið upp og stefnan tekin inn í eldhús. Pokinn rifinn utan af egginu og unginn tekinn af..."mamma hann fótbrotnaði" vældi Sædís Erla og svo var raunin, annar rauði fóturinn hafði slitnað af, en svo gleymdist það strax, enda mikilvægara að snúa sér að aðalatriði dagsins...að borða páskaeggið sitt.
Stóru krakkarnir fengu líka sín egg og fullorðna fólkið eitt stórt saman (fyrir málsháttinn ) en Elli minn fékk súkkulaði fyrir sykursjúka, því við vissum ekki að farið væri að framleiða slík páskaegg (bara næst Elli minn). Þórðarsynir, Doddi Jr. og Raggi sofa enn þegar þetta er ritað og láta sig sjálfsagt dreyma um páskaeggin frá frænku og málshættina, það skyldi þá aldrei verða..."morgunstund gefur gull í mund".
En málshættirnir í ár voru alvöru:
Þurrlyndi er oft ranglega álitið sem stórmennska, en feimni sem fáviska (Sædís Erla)
Illt er að eggja óbilgjarna (Ásdís Magnea)
Hin lengsta ferð byrjar með einu skrefi (Sturla)
Kærleikurinn er kröfuhæstur (gamla gengið)
Engin æska er án breka (Þórður)
Sá sem alltaf gengur í bestu fötunum sínum á ekki spariföt (Raggi)
og svo náttúrulega "Áfram Afturelding"
Gleðilega páska og njótið þess að vera til.
Fleiri páskamyndir frá Siglufirði hér.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Gleðilega páska !
Já, það er skondið að fylgjast með þessari páskaeggjaleit. Mín börn ef börn skal kalla vöknuðu eins og venjulega, klukkan níu og byrjuðu að leita. Í dag varð að finna 7 egg, jamm ég sagði 7 egg og voru þau svo vel farin í ár að það tók þau um 45 mín að finna síðasta eggið. Mamman og pabbinn hlóu mikið á meðan. Ég elska svona hefðir og yndislegast af öllu er að börnin mín eru 19 og 22 ára og hafa enn svona gaman að þessum leik.
Páskaknús frá Hafnarfirði
Linda (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 14:50
7 egg...voru þetta nokkuð kosningaegg , nei ég lofa að hætta þessu núna. Oh já Linda mín og ég ætla aldrei að hætta þessu....verð örugglega á elló að fela egg fyrir Ella minn
Herdís Sigurjónsdóttir, 8.4.2007 kl. 17:05
Hæ skvís. Ég vildi að þessi felusiður hefði verið til á Húsavík í den, hafði bara ekki heyrt um þetta fyrr en fyrir örfáum árum, mín börn fengu bara sín egg afhend eftir morgunmatinn. Þegar ég kom fram í morgun sat kall krúttið með sitt egg í fanginu, fékk no. 6 af því hann svo bágt og var búin að borða slatta með morgunlyfjunum, svo rétti hann mér málsháttin og sagði, ég bara skil þetta ekki, "Eigi leina augu af ann kona manni" prentvillurnar gerðu útslagið með lyfjunum svo hann bara fattaði þetta ekki, en ég var nú fljót að útskýra það og þá fannst honum þetta bara svo snjallt, hefði núna samt mátt vera " er ann kall konu" því hann mænir á mig ástaraugum og dáist af fullkomnu konunni sinni sem skilur allt, getur allt og veit allt. Kær kveðja og komið heil heim.
Ásdís Sigurðardóttir, 8.4.2007 kl. 21:20
Góð páskasaga hjá þér Herdís. Það er nauðsynlegt að halda í svona hefðir, gefur lífinu gildi. Með sama hætti finnst mér gaman af nafnahefðum og að þú skulir eiga eina Ásdísi Magneu. Við þyrftum að vinna að því að koma á stóru ættarmóti til að berja "stóðið" augum og treysta böndin.
Sigurður Þórðarson, 9.4.2007 kl. 10:22
Við erum komin heim í Mosó, heild á höldnu eftir góða páskaferð til ömmu og afa á Sigló.
Ásdís ég var ekki búin að segja þér það en ég á eina Ásdísi Magneu og heitir mamma mín Ásdís Magnea líka og fullt af öðrum Ásdísum um allt og fittaðir þú því vel þar inn...líka fullt af stórum stelpum, þó að ég sjálf sé í stubbadeildinni... já með málsháttinn. Það er nú ljótt að láta frá sér málshætti með prentvillum og þó enn verra ef þeir lenda hjá einhverjum sem ekki eru í standi til að ráða fram úr villunum...en það var eins gott fyrir hann að hafa þig sér við hlið sem fyrr .
Siggi, við verðum að fara að hittast með allt gengið, það er nú heldur búið að bætast í hópinn frá því að við vorum á Leifsgötunni um árið. Varðandi nafnahefðir þá er ég mjög gamaldags í þeim málum. Sturla í höfuðið á Sturlu, Ásdís Magnea í höfuðið á ömmu Ásdísi. Ég sá líka að önnur hvor frænka af Ströndunum Herdís og svo allar Ásdísarnar í okkar "vondu" ætt. En lillastan Sædís Erla heitir í höfuðið á systkinum sínum Ásdísi og Sturlu Sæ, en Erlu nafnið svo frá langömmu hennar sem alltaf kallaði sig Erlu, en hét Erlenda og Erlendur minn heitir líka í höfuðið á......... best ég skrifi um þetta einhvern daginn
Herdís Sigurjónsdóttir, 9.4.2007 kl. 11:36
Velkomin heim.
Vilborg Traustadóttir, 9.4.2007 kl. 12:28
Eini dagurinn á árinu sem ég er vinsælastur á mínu heimili
Þegar maður kemur úr fjósinu á páskadagsmorgunn bíða öll börnin 5 í röð og taka á móti manni, búin að bíða lengi spennt yfir því að ég komi inn og feli eggin þeirra svo leitin og síðan veislan geti byrjað
Frábær páskasaga hjá þér Herdís
Ágúst Dalkvist, 9.4.2007 kl. 13:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.