Mogginn verður að klósettpappír
11.4.2007 | 18:34
Flokkun og endurvinnsla heimilissorps hefur verið að aukast á síðustu árum sem og er vitund almennings fyrir umhverfi sínu. Ekki er langt síðan opnir öskuhaugar voru um allt land og ekkert tiltökumál að hafa þá inni í bæjarfélögum, eins og var á Siglufirði þar sem við krakkarnir lékum okkur mikið á haugunum.
Auknar kröfur frá ESB um að dregið verði úr urðun lífræns úrgangs frá fyrirtækjum og heimilum munu leiða til breytinga á sorphirðu og meðhöndlun sorps á Íslandi á komandi árum. Í gangi er vinna við gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar 43 sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs á suðvesturhorninu. Ljóst er að auka þarf endurvinnslu og draga úr urðun á lífrænum úrgangi, s.s. matarleifum, pappír, pappa, húsdýraskít, garðaúrgangi, timbri, slátur- og fiskúrgangs.
Mikil fræðsla hefur farið fram hjá SORPU sem er í eigu sveitarfélaganna, um verkefni félagsins og gildi umhverfissjónarmiða við meðhöndlun sorps. Eins hafa sveitarfélög hvert og eitt hvatt og frætt íbúa sína sérstaklega til að flokka, endurvinna heimilisúrgang og nýta grenndargámana betur. Íbúar hafa verið hvattir til vistvænni lífstíls og hefur mikil fræðsla farið fram í skólum og leikskólum landsins. Margir skólar eru nú þegar á grænni grein eins og það er kallað og hafa þeir skólar unnið að því að fá Grænfánann sem er alþjóðlegt verkefni á vegum Landverndar sem miðar að því að auka umhverfismennt í skólum og styrkja umhverfisstefnu þeirra.
Þrátt fyrir að við flokkum ekki mikið í samanburði við það sem fólk þekkir frá nágrannalöndum er magnið samt töluvert. Á sl. ári skiluðu landsmenn t.d. um 8.400 tonnum af dagblaða-, tímarita- og auglýsingapappír í grenndargáma en sá pappír var sendur til Svíþjóðar í endurvinnslu. Samkvæmt upplýsingum frá SCA duga 8.400 tonn af pappír til þess að framleiða um 36 milljónir af klósettrúllum og eru Íslendingar því sennilega sjálfbærir um klósettpappír.
Erum við Íslendingar líka mikil pizzu þjóð og falla til um 4 milljónir af pizzukössum árlega. Á höfuðborgarsvæðinu einu má gera ráð fyrir að á ársgrundvelli falli til hátt í 20.000 tonn af bylgjupappaumbúðum. Með því að flokka þessar umbúðir frá öðrum úrgangi er hægt að draga verulega úr því magni úrgangs sem fer til urðunar og jafnframt nýta fyrirtaks hráefni til endurvinnslu. Bylgjupappa er hægt að endurvinna aftur og aftur og hann getur átt allt að sjö líf, eins og segir á heimasíðu Sorpu.
Ísland í dag er þannig að við íbúar fáum óumbeðin "frí"blöð um lúguna á hverjum morgni og getur hver sem er í sjálfu sér farið út í dagblaðaútgáfu án þess að þurfa að taka þátt í urðun sem er umhugsunarefni og þurfa sveitarfélögin að standa undir urðunarkostnaði, en ekki þeir sem til kostnaðarins stofna. Dagblöðin eru nú talin vera um 27% af heimilissorpinu og hefur það magn aukist verulega á liðnum árum.
Flest sveitarfélög hafa komið fyrir svokölluðum grenndargámum, bláum fyrir pappír og grænum fyrir fernur og umbúðir. Ávinningur íbúa er margvíslegur, m.a. ódýrara en urðun, betri nýting á hráefni sem annars færi til spillis, betri nýting á landssvæði urðunarstaðar og minni koltvíoxíðútblástur.
Í Mosfellsbæ eru grenndargámar á eftirtöldu stöðum:
- á Nóatúnsplaninu, Þverholti
- hjá Olís, Langatanga
- á gatnamótum Reykjavegar og Dælustöðvarvegar
- í Sorpu endurvinnslustöð ofan við hesthúsahverfi
Fyrir stuttu síðan sá ég umfjöllum um forystumenn stjórnmálaflokkanna þar sem var kannað var hvort þeir sýndu vistvernd í verki, sem allir höfðu gert en þó misjafnlega mikið. Ég vil meina að við verðum að byrja á okkur sjálfum og byrji heima. Það er því mikilvægt að við foreldrar og forráðamenn sýnum gott fordæmi. Við hjónin fórum á námskeið hjá Landvernd 2001 ef ég man rétt og lærðum mikið og fengum líka staðfestingu á því sem við höfðum verið að gera vel. Þetta var mjög gagnlegt fyrir okkur og ætti hver einasta fjölskylda að fara á slíkt námskeið. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Ég sá á heimasíðu Landverndar að um 700 heimili hafa nú þegar tekið þátt í verkefninu á Íslandi og hefur Mosfellsbær gert samning við Landvernd vegna þessa. Verkefnið hefur gengið vel bæði hér heima og erlendis og veit ég að það hefur skilað miklum og varanlegum árangri í bættri umhverfisvitund og hegðun allrar fjölskyldunnar í Rituhöfðanum.
Kröfur um minni urðun munu umbylta sorphirðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Facebook
Athugasemdir
Hæ hæ Herdís fundurinn gekk vel í dag allir í dúndurstuði enda skein sólin inn um alla glugga. Það var nefnilega verið að þrýfa glugga og gluggatjöld.
Hvað varðar þína fínu bloggfærslu þá læt ég það vera að segja það sem ég hugsaði þegar ég las fyrirsögnina.
Annars góðar stundir. Kær veðja. Kalli Tomm.
Karl Tómasson, 11.4.2007 kl. 21:38
Láttu ekki svona Kalli, þú heldur kannski að þetta hafi verið tilviljun?
Ég var að vona að ég fengi tækifæri til að svara... Mogginn er nefnilega eina blaðið sem ég kaupi.....Blaðið og Fréttablaðið koma hingað óumbeðin og myndi ég ekki sakna þeirra þó þau hættu að detta inn um lúguna...en Mosfelling vil ég fá
Herdís Sigurjónsdóttir, 11.4.2007 kl. 21:47
Fyrir 33 árum þegar ég var að vinna í Noregi þá voru alltaf notuð dagblöð á "dassinu" eins þeir kölluðu oft wc. Góða skemmtun á landsþingi, ég öfunda þig svooo af því að fara, við hefðum getað hist hittumst næst og þú ert velkomin í kosningakaffi, láttu mig bara vita ef þú verður á ferðinni hér fyrir austan.
Ásdís Sigurðardóttir, 11.4.2007 kl. 22:18
Hvers vegna heldur þú að ég hafi sett Moggann í fyrirsögnina Raggi .... ekki færi ég að nota Fréttablaðið...... já eða Dagblaðið á prívatinu
Herdís Sigurjónsdóttir, 11.4.2007 kl. 22:41
Gott að heyra þetta um Mosfelling.
Ég er hræddur um að sá glanspappír sem er notaður í hann væri óheppilegur í alla staði til annars brúks.
Bestu kveðjur. Þetta var frábært hjá þér.
Karl Tómasson, 11.4.2007 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.