Framboð og eftirspurn í kosningabaráttu
26.4.2007 | 14:30
Þetta er skemmtilegur tími. Frábærum landsfundi okkar sjálfstæðismanna nýlokið, aðeins eru tæpar tvær vikur til kosninga og því bara lokasprettur kosningabaráttunnar eftir.
Ég hef aldrei upplifað eins mikið af skoðanakönnunum og pólitískum umræðufundum í sjónvarpi og verð að segja að áhuginn hefur aðeins dofnað, en ég veit að ég get farið inn á síðu Stebba bloggvinar míns og kannað stöðuna. En kannanir hafa sýnt gott gengi Sjálfstæðisflokksins um allt land og því glaðvaknaði ég þegar ég sá niðurstöðu nýjustu könnunar úr kjördæmi Geirs H. Haarde. Þessi könnun sýndi allt aðra niðurstöðu en sú síðasta sem ég sá úr þessu sama kjördæmi, sem er þó var unnin af öðrum. En þetta herðir okkur í baráttunni, enda erum við jú öll meðvituð um að ekki er sopið kálið....
En eins og ég sagði þá verðum við sjálfstæðismenn að bretta upp ermar og vera enn duglegri að láta kjósendur vita af stefnumálum okkar. Það er einmitt það sem frambjóðendur og stuðningsfólk er að gera þessa dagana og ljóst að þau eru ekki bara í framboði, heldur mikilli eftirspurn. Þau eru á ferð og flugi út um allt að hitta kjósendur og er dagskráin þétt. Kampavínskvöld, kvennakvöld, bjórkvöld, Aftureldingarhátíð, hattakvöld hjá kvenfélaginu, Kiwanis og Lions svo eitthvað sé nefnt og enginn farinn að þreytast, enda svo gaman saman. Það hefur verið einstaklega létt yfir mínu liði í Kraganum, enda frábært fólk í hverju sæti og er ég alveg sannfærð um að þann sunnudaginn 13. maí verður hún Ragnheiður Ríkharðsdóttir dugnaðarforkur og frambjóðandi orðin 6. þingmaður okkar sjálfstæðismanna í Kraganum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Facebook
Athugasemdir
Já nú eykst spennan daga frá degi. Þetta verður aldrei nema gaman, ég treysti því að konur sjái í ríkara mæli hversu stöðugleikinn er mikill þegar D er við stjórnvölinn. Trúi á konur.
Ásdís Sigurðardóttir, 26.4.2007 kl. 22:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.