Gatnagerð og Baugshlíðin
2.5.2007 | 23:33
Mér varð hugsað til þess í dag þegar ég kom heim úr vinnunni og Baugshlíðin var lokuð hvað það skiptir miklu máli að hafa góðar vegtengingar. Það er engin tilviljun sem ræður því hvernig gatnakerfið er hannað, hverfi eru hönnuð með húsagötum, safngötum og tengibrautum góðu stígakerfi og hér í Mosfellsbæ eru gerðir reiðstígar líka og er hugað að því að hafa allt í sem bestum tengslum við það sem fyrir er.
Ég hef búið hér í vesturbæ Mosfellsbæjar í um 7 ár núna í sumar og ætla ég ekki að segja hvað það breytti miklu fyrir okkur íbúa svæðisins að fá Baugshlíðina sem tengingu við Vesturlandsveginn fyrir nokkrum árum síðan. Áður þurftum við að fara til baka inn í bæinn, upp Bogatanga, Langatanga eða Þverholt og þaðan upp á Vesturlandsveg. Án þess að ég hafi mælt það nákvæmlega þá slæ ég á að þessi tenging spari mér um 8 km akstur á dag, sem er ekki lítið á ári.
Ég fór að velta því fyrir mér í þessu sambandi hvort reiknuð hafi verið út sú vegalengd sem íbúar Helgafellshverfisins þyrftu að keyra upp að Þingvallavegi til að komast heim til sín ef 500m kaflinn á Helgafellstúninu yrði ekki að veruleika og ekki heldur tengibrautin við Leirvogstunguhverfið. Ég varð undrandi þegar ég heyrði að fólk væri á móti tengibrautinni sem mun tengja íþróttasvæðið á Tungubökkum og Leirvogstungu við miðbæinn. Mikið hefur verið rætt um það í gegnum árin að gera þá tengingu til að auka öryggi barna og foreldra þeirra sem stunda íþróttir á Tungubökkum. En þá þarf ekki lengur að fara út á Vesturlandsveginn. En nú er þessi sami vegur og barist var fyrir að kæmist á framkvæmdaáætlun skyndilega orðinn að slysahættu.
Það er ekki langt síðan Mosfellsbær var sveit og búum við Mosfellingar á svæðum sem áður voru tún sem nýtt til beitar. Hefur bæjarbúum fjölgað um nær helming frá því að ég flutti í Mosfellsbæinn, en þrátt fyrir vaxandi byggð er samt enn stutt í ósnortna náttúru sem við íbúarnir njótum dags daglega.
En Baugshlíðin verður víst ekki opnuð aftur fyrir umferð fyrr en miðvikudaginn 8. maí og verð ég ósköp fegin og veit að ég er ekki ein um það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Herdís
Þetta eru ekki sambærilegir hlutir. Baugshlíðin var ekki lögð yfir aðal útivistar- og verndarsvæði bæjarfélagsins, sem er jafnframt hesthúsahverfi, íþrótta- og skólasvæði, lista- og fræðsluþorp, lífstíls- og endurhæfingarmiðstöð. Nú er gert ráð fyrir 30 km hraða í gegnum Álafosskvos eftir fyrirhugaðri tengibraut, sem sagt er núna að eigi að fara inn á tvíbreitt hringtorg. Hinsvegar segir vegagerð að það muni aldrei ganga með aðliggjandi brekkur sitthvoru megin. Því mun þessi lausn fyrr eða síðar vera þannig að þessir tíu þúsund bílar fara eftir tengibraut undir Vesturlandsveg með tilheyrandi óþægindum. Setja Brúarland upp á umferðareyju, gera miðbæinn að rússíbana bílaumferðar, loka á reiðgötu og göngustíg.
Það eru örugglega einhverjir sem eru enn tilbúnir að reikna það út að það myndi spara einhvern tíma ef vegtenging lægi yfir Laugardal, Elliðaárdal eða Fossvogsdal, eins og til stóð. Held samt að það séu fleiri sem eru sannfærðir um gildi þess að halda eftir slíkum gæðum sem tengjast heilsueflingu og útivist. Þau byggja á því að við eflum og styrkjum svæðið upp með Varmá ("Varmárdal") sem útivistar- og verndarsvæði en rýrum það ekki með fyrirhuguðum tengibrautum.
Umferðarsérfræðingar sem Varmársamtökin fengu til ráðgjafar (sem reyndar koma ekki fram undir nafni vegna óvildar bæjarstjórnar) töldu enga annmarka á því að tillögur að vegtengjum gengju vegtæknilega upp. Hinsvegar lögðu þeir til að safngötu sem gert er ráð fyrir við Álanes yrði haldið inni. Varmársamtökin höfðu áður mótmælt henni, en ef að valið stenfur á milli brautar um kvosina, meðfram Varmá og með áðurnefndum aukaverkunum, þá telur Trausti Valsson betra að þvera Varmá milli Reykjalundar og Álafoss með brú sem vandað væri til og stæði vel upp úr landinu með safngötu.
Við viljum endilega kynna tillögurnar fyrir bæjarstjórn. Skilst að Ragnheiður hafi áhuga á að það sé gert og við tökum því fagnandi. Vonandi er hægt að bera mismundi útfærslur saman af fagfólki svo almenningur geti betur gert sér grein fyrir málinu. Síðan er það bráðsnjöll leið að gera út um ágreiningsmál með íbúakosningum. Í Hafnarfirði dugar að 20% íbúa fari fram á slíkt. Gætum við tekið upp sambærilegt viðmið í Mosfellsbæ?
Með kærri kveðju,
PS Er ekki Tunguvegsfundur á morgun? Finnst óheppilegt að Hesthúsaeigendafélagi og/eða Foreldrafélagi Varmárskóla og/eða jafnvel Varmársamtökum sem komu málinu í umhverfismat, sé ekki boðið að flytja framsöguerindi. Það er alltaf gert ráð fyrir að félög og fólk sé að misskilja hlutina og það sé bara hægt að messa nógu oft yfir þeim og þá sé allt í góðu. Reyndar gerði ég athugasemdir við fyrirkomulag fundar í safnaðarheimili um Helgafellsbraut og því voru framsöguerindi frá báðum hliðum á Hlégarðsfundi. Sem var eðlilegra, en ákveðin galli á fundarstjórn að leyfa fólki ekki að tjá sig um málið, heldur bara að setja fram spurningar.
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.5.2007 kl. 01:48
Heill og sæll Gunnlaugur
Ég þakka upplýsingar, en kannast ekki við þessa óvild Mosfellsbæjar sem þú segir valda því að sérfræðingar vilji ekki koma fram undir nafni. Fór samt að velta því fyrir mér hvort þú værir að tala um Línuhönnun, því þeir gáfu út sérstaka fréttatilkynngu þar sem þeir töluðu um að þeir ætluðu ekki að taka að sér verk fyrir samtökin, vegna hagsmunaárekstra.
Ég var ekkert að bera Baugshlíðina saman við Tunguveg og Helgafellsveg, en var að tala um eðlilega þróun byggðar og vegtengingar innan byggðarlagsins Ég fór hins vegar að velta þessu fyrir mér þegar Baugshlíðin mín tenging við Vesturlandsveginn var lokuð og ég þurfti að fara aukakrók og þá varð þessi bloggfærsla til.
En varðandi kynningarfundinn þá er um ósköp hefðbundinn embættismannafund að ræða, þar sem framkvæmdin verður kynnt. Ég hef setið nokkra slíka fundi sem eru ágætir og upplýsandi. En fyrst þú nefndir fundinn þá tók ég þessa auglýsingu um hann af heimasíðu Mosfellsbæjar.
Fimmtudaginn 3. maí kl. 20:00 verður haldinn opinn kynningarfundur í sal yngri deildar Varmárskóla um nýjan Tunguveg. Farið verður yfir fyrirhugaða legu tengivegarins og kynnt fyrirhuguð hliðrun Skeiðholts, undirgöng og aðrar breytingar sem bæta eiga umferðaröryggi barna á leið í og úr skóla. Allir íbúar Mosfellsbæjar eru boðnir velkomnir.
Dagskrá fundarins er sem hér segir:
- Jóhanna B. Hansen bæjarverkfræðingur fer yfir sjónarmið Mosfellsbæjar um væntanlegan Tunguveg.
- Gylfi Guðjónsson arkitekt og skipulagsráðgjafi fer yfir skipulag og legu vegarins.
- Yngvi Loftsson frá Landmótun kynnir fyrirliggjandi umhverfisskýrslur.
- Stefán G. Thors frá VSÓ-Ráðgjöf kynnir væntanlegt umhverfismat og aðkomu almennings að ferlinu.
Tækni- og umhverfissvið MosfellsbæjarHerdís Sigurjónsdóttir, 3.5.2007 kl. 08:37
Sæl aftur Herdís
Línuhönnun ætlaði ekki að "vinna fyrir" Varmársamtökin heldur að halda sjálfstæði sínu og heildarsýn í samanburði á valkostum. Hinsvegar tókst Mosfellsbæ og Helgafellsbyggingum að hræða fyrirtækið frá málinu. Bæjarstjórn tókst síðan aftur að leggjast gegn úttekt fagaðila með því að hafna ósk samtakanna um velvild gagnvart faglegri úttekt. Hvað gekk henni til? Hvað var að óttast? Við fengum hinsvegar fjölda fagaðila til að fara yfir tillögu okkar, en þeir treystu sér ekki að koma fram undir nafni vegna ítrkaðrar "óvildar" Mosfellsbæjar. Þannig var það nú og ég er mjög óánægður með þessi vinnubrögð bæjarins.
Við þurfum að losa skipulagsumræðu í bænum okkar úr járngreipum ótta og óvildar. Það þarf að þróa betri´og heilbrigðari leiðir til að taka ákvarðanir í ágreiningsmálum. Þar tala ég af reynslu, því ég og Halla Karen ásamt fleiri vorum búin að fá um helming bæjarbúa að óska eftir því með undirskrift sinni að uppbygging sundlaugar og endurbætur Varmárlaugar hefði forgang á fyrirhugaða og nú nývígða laug á vestursvæði. Samlegðaráhrif væru þess eðlis að það væri eðlilegri staðsetning á aðallaug bæjarins.
Nei, "aldrei að víkja" ef þú ert stór og sterkur og óskeikull. Því spyr ég þig hvaða ráð við höfum til að milda átök um skipulagsmál? Að hafna velvild gagnvart úttekt fagaðila á valkostum var ekki merki um að bæjaryfirvöld hefðu vilja til þess. Spurði hvort þú teljir ekki æskilegt að við kæmum okkur upp einhverjum viðmiðum um íbúakosningu t.d. ef 20% íbúa óska þess? Að lokum vil ég senda þér hlekk á nýlegt samkomulag sambands íslenskra sveitarfélaga og Alta ráðgjafastofu um námskeiðahald; Skipulag sem stefna og stjórntæki - framtíðarsýn með þátttöku íbúa.
http://www.samband.is/news.asp?id=438&news_ID=1077&type=one
Með kærri kveðju,
Gunnlaugur
Gunnlaugur B Ólafsson, 3.5.2007 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.