Er eða verður Ísland land tækifæranna?

iceland

Ég átta mig ekki alveg á því hvað ISG formaður Samfylkingarinnar var að meina í Kastljósinu þegar hún var spurð að því hvernig ætti að fjármagna þær tillögur sem settar hafi verið fram af hálfu flokksins. Hún sagði heildarkostnað nema 30 milljörðum króna sem lítið mál væri að með aga við  fjárlagagerð mætti hagræða í ríkisrekstri. Ég velti því fyrir mér á þeirri stundu hvort hún væri að meina svona aga í fjármálum og hagræðingu eins og R-listinn stundaði í borginni? Ég er hrædd um að skuldir hafi aukist, velferðin hafi ekki aukist og biðlistar lengst.

En í viðtalinu var Ingibjörg spurð að því hvort hún teldi að aukið aðhald í ríkisrekstri og hagræðing myndi skapa þessa 30 milljarða króna tekjur sagði Ingibjörg að svo væri heldur hefði það allt með hagvöxtinn í landinu að gera, en hún sagði:

Það gerist bara með hagvextinum. Ef þú tekur 3% hagvöxt á ári, er það að skila á ári hverju 9-10 milljörðum á ári í ríkissjóð. Við hljótum öll að gera ráð fyrir því að það verði góður hagvöxtur á næstu árum. Ég er alveg sannfærð um að Ísland er land tækifæranna.

Svarið kom bara líkt og það væri sjálfsagt mál að hagvöxturinn héldist. Ég er hjartanlega sammála því að hagvöxtur sé forsenda þess að hægt sé að fjármagna velferðarkerfið og breytingar á því líkt og búið er að boða verði Sjálfstæðisflokkurinn áfram í næstu ríkisstjórn. Ég er líka sammála því að Íslands sé land tækifæranna.

Undanfarið hafa vinstri menn talað eins og Ísland muni verða land tækifæranna komist vinstri menn til valda og er verið að halda fram að þekkingariðnaður sé svarið, eins og hann sé ekki stundaður á Íslandi í dag. Hið rétta er að við lifum nú á þeim tímum þar sem tækifærin eru til staðar, hér er næg atvinna og miklar framkvæmdir og mikið líf. Miklu fjármagni er varið til menntunar ár hvert, hér eru öflugir skólar, búið er að fjölga háskólum og rannsóknastofnunum um allt land og aukin áhersla lögð á sjálfbæra þróun og umhvefis- og orkumál. En sá grunnur sem lagður hefur verið er ekki í framtíðinni heldur í núinu og verður fólk að átta sig á því að þetta hefur gerst í tíð núverandi ríkisstjórnar.

En hér á Íslandi hafa orðið miklar breytingar liðnum áratugum á vinnumarkaði líkt og í örðum löndum. Framleiðslustörfum hefur fækkað og hefur sá hluti vinnuafls farið minnkandi líkt og í flestum þróuðum hagkerfum. Þekkingarstarfsmönnum fer fjölgandi og eru þeir orðnir lykillinn að efnahagsárangri og er hefur mikil vakning verið í þá veru að virkja mannauðinn, menntun, færni, hæfileika og hæfni hvers og eins. Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna að áframhaldandi hagsæld hér á landi.  

Það verður að teljast jákvætt að formaður Samfylkingarinn sé sammála formanni Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðismönnum um mikilvægi hagvöxtar, en hitt er svo annað mál hvort þessi málflutningur ISG sé trúverðugur þegar litið er til sögunnar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband