Undir regnbogann í forsetabílnum
4.7.2007 | 02:03
Ég fór í frábæra ferð í kvöld til hennar Fljótstungu Önnu með góðum vinum. Rúna hringdi í mig í morgun og spurði hvort við ættum ekki að fá okkur bíltúr og koma henni Önnu Inga á óvart, en hún var að hætta hjá Rauða krossinum, en tók að sér að sjá um ferðaþjónustuna í Fljótstungu þessa síðustu viku sína á landinu í bili, en í næstu viku flytur hún til Danmerkur.
Við lögðum af stað fjórar, ég, Rúna, Linda Ósk og Þórunn á svarta flotta forsetabílnum hennar Rúnu. Búnar að nesta okkur í Maður lifandi og tilbúnar í ferðalagið í sveitina. Rúna var búin að tala við Önnu í dag og tókst með klækjum að ná öllum upplýsingum um ferðir hennar án þess að Önnu grunaði neitt, enda Anna blessunin vön því að vinir hennar hringi svona og láti sér annt um hana.
Brunað var á löglegum hraða út úr bænum og leið drossían áfram á þjóðvegi 1 og nutum við stelpurnar landslagsins og samverunnar og var mikið hlegið. Brátt vorum við komnar á áfangastað. Eins og sannri húsfreyju sæmir mætti Anna út á hlað, til að taka á móti forsetanum, hélt hún. En fljótlega áttaði hún sig samt á hvers kyns var og mátti heyra fagnaðarópin í henni um alla sveitina.
Við áttum dásamlega samverustund við eldhúsborðið í Fljótstungu með Önnu, mömmu hennar og pabba og Sigurþóri á hlaupum, því eðlilega varð einhver að sjá um húsverkin og gestina á meðan húsfreyjan sinnti eldhúsgestunum háværu. Anna sinnti samt símanum við eldhúsborðið og talaði þýsku, ensku og seldi gistingu og veiðileyfi í vatnið sem aldrei fyrr, enda veiðin í vatninu mun betri en í ánni, framan af sumrinu . Hún sagði okkur líka sögur af hellaferðum og stórmerkilegum súlfat-taumum á berginu, sem við erum alveg ákveðnar í að skoða seinna. Áður en við fórum heim litum við á þessa glæsilegu aðstöðu, en er þetta síðasta sumarið sem rekin verður ferðaþjónusta þarna. Þetta var einn af fyrstu bæjunum sem byrjuðu í ferðaþjónustu bænda á sínum tíma og hafa margir áð í Fljótstungu í gegn um árin. Við kvöddust svo á hlaðinu og Sigurþór tók myndir af Rauðu hættunum við húsvegginn og erum við strax farnar að plana Önnuferð til Danmerkur.
Á heimleiðinni sá ég fallegasta regnboga sem ég hef á æfi minni séð. Í fyrstu vissi maður ekki alveg hvað yrði úr allri þessari ljósadýrð á himninum, en fljótlega sást móta fyrir regnboganum. Síðan keyrðum við undir regnbogann á forsetabílnum og óskuðum okkur.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:43 | Facebook
Athugasemdir
Sæl skvís og takkk fyrir frábæra ferð og góða samveru. Regnboginn var æði og ég sé að þínar myndir eru mun betri en mínar svo ég ætla að stela nokkrum frá þér :)
knús, knús
Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 10:17
Æðislegt hjá ykkur! Synd að hafa ekki komist með ykkur :( Kem með í danaveldið!!! Efa ekki að Anna hafi staðið sig vel í Fljótstungustarfinu sem og öllu öðru hún tekur sér fyrir hendur :)
kv. Anna Panna Beee
Anna Bryndís (IP-tala skráð) 4.7.2007 kl. 10:32
Ég brjálaðist úr hlátri Anna Bryndís þegar við fengum sms-ið um góða skemmtun á Flúðum . Þetta hefði ekki verið svo sniðugt nema fyrir þær sakir að fyrir stuttu ætluðum við Agla systir þín að fara saman í útilegu í Skorradalinn. Nú hún þurfti svo að fara skyndilega í viðskiptaferð til útlanda og komst því ekki með en sendi mér svo sms um kvöldið og sagði að hún vonaðist til að við skemmtum okkur vel á Dalvík....hvað er þetta með ykkur systur?
Herdís Sigurjónsdóttir, 4.7.2007 kl. 14:43
Þetta var alveg frábær ferð og ekki verður hún síðri þegar við skreppum til Horsens í heimsókn til Önnu. Þú er fínasti myndasmiður Herdís þú ert ráðin hirðljósmyndari hópsins. Er það ekki samþykkt.????????
knús,knús
Rúna
Rúna (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 22:50
Samþykkt Rúna mín, enda mín alltaf með myndavélina
Herdís Sigurjónsdóttir, 6.7.2007 kl. 08:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.