Við galdramenn af Ströndum
10.7.2007 | 15:52
Loksins, loksins er ég að fara á Strandirnar til fundar við andans áa. Ég er harðákveðin í því að sjá galdrasafnið á Hólmavík aftur og líka þetta í Bjarnafirði og vonandi hitti ég fullt af galdramönnum sem trúlega eru flestir eru skyldir mér.
Það eru nokkrar góðar ástæður fyrir ferðinni. Mamma og pabbi eiga gullbrúðkaupsafmæli föstudaginn 13. júlí og ætlum við systurnar að fara með þeim í ferðalag í tilefni áranna fimmtíu með hluta afkomenda Sigló Group eins og við köllum stórfjölskylduna. Sá þrettándi er langt frá því að vera óhappatala í okkar fjölskyldu og teljum við það sérstakt happ ef hann ber upp á föstudag eins og næsta föstudag.
Önnur góð ástæða er sú að pabbi er ættaður af Ströndunu og höfum við aldrei farið lengra en í Hólmavík. Hann pabbi er þriðji liður frá Þorsteini Þorleifssyni, f. 7. júlí 1824, d. 9. sept. 1882. Bóndi, járnsmiður, hugvits- og yfirsetumaður í Kjörvogi Árneshreppi Strand og konu hans Herdísi Jónsdóttur, f. 22. mars 1830, d. 11. nóv. 1904.
Börn þeirra voru: a) Herdís, b) Eiríkur Þorsteinn (langafi minn), c) Steindór, d) Jón, e) Helga Björg, f) Jón, g) Ásgeir, h) Þorleifur, i) Helga Björg, j) Guðbjörg, k) Sveinn.
1b Eiríkur Þorsteinn Þorsteinsson, f. 17. júní 1853 á Hjallalandi., d. 17. maí 1924. Bóndi, hreppstjóri og kennari í Vík í Haganesvík Skag. Ólst upp á Barði í Fljótum hjá Katrínu Jónsdóttur og Jóni Norðmann Jónssyni. Oddviti, sýslunefndarmaður. Hreppstjóri 1916-24. Bréfhirðingarmaður og símstöðvarstjóri í Haganesvík 1914-24. Hann var hraðgengur. "Hann var dulur í skapi, eftirtektarsamur með afbrigðum, veðurglöggur og líkt sem fátt kæmi honum á óvart".
Hann kvæntist 30. sept. 1888, Guðlaug Baldvinsdóttir, f. 20. ágúst 1867 á Dalabæ í Siglufirði., d. 15. des. 1924.
Börn þeirra: a) Sigurlína Guðný, b) Herdís c) Sveinn Norðmann.
2b Herdís Þorsteinsdóttir (amma mín), f. 30. ágúst 1893. Sýsluskrifari og húsfrú í Siglufirði hún giftist Jóhanni Pétri Jónssyni, f. 1. des. 1882, d. 11. okt. 1971. Kaupmaður í Siglufirði.
Börn þeirra: a) Karl Jóhannsson, b) Þorsteinn c) Sigurjón (pabbi minn)
Hann pabbi minn giftist svo Ásdísi Magneu þann 13. júlí 1957.
Þau skötuhjú stofnuðu fjölskyldufyrirtækið Sigló Group og hafa þau eignast fjögur börn. Kristínu '58, Jóhann '60, Herdísi '65 og Sigurjón '73 sem lést nokkurra daga gamall.
Nú erum við sem sé að fara í pílagrímaferð á Strandirnar og ætlum að fara í Kjörvog og hafa gaman með þeim Vilborgu og Geir í Djúpuvík. Við ætlum að njóta þess að hafa gaman saman og æfa okkur í göldrunum, en margur verður af aurum api og þess vegna ætla ég að sleppa nábrókunum.
Galdramenn á Ströndum láta nútímagaldra lítt til sín taka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.7.2007 kl. 07:35 | Facebook
Athugasemdir
1
Við erum einmitt að fara að "sigla af stað" . Þó ekki í orðsins "fyllstu" að þessu sinni en á sitt hvorum bílnum með sitt hvorn bátinn í eftirdragi. Geir spurði um aldur barnanna þinna. Ég stóð á gati í fyrstu en auðvitað! Heimasíðan þín! Þannig að það eru björgunarvesti á línuna börn sem fullorðna og við förum ekki út í neina vitleysu. Það er þó æðislegt að skreppa fram á fjörðinn og krækja sér í kvótalausan þorsk í soðið! Þorskurinn þarna er nefnilega svo stinnur og góður. Sjórinn er það kaldur. Sjáumst hress og kát. Hlakka mikið til.
Vilborg Traustadóttir, 10.7.2007 kl. 11:23
2B.t.w. æðisleg mynd af mömmu þinni og pabba. Þau hafa gift sig þegar ég var sex mánaða!!! Og Kristín ekki fædd.... Híhíhí.......hvað tíminn flýgur....
Vilborg Traustadóttir, 10.7.2007 kl. 11:26
Herdís sjálf (IP-tala skráð) 10.7.2007 kl. 16:00
Innilega til hamingju með foreldra þína og góða ferð á vit áanna á vestfjörðum. Lærðu nú einhverja góða galdraþulu sem hægt verður að nota í góðum tilgangi.
Ásdís Sigurðardóttir, 10.7.2007 kl. 23:33
Góða ferð mín kæra, mikið öfunda ég þig að vera að fara norður
Við eigum frábærar minningar af þessum slóðum, eigum góða vini á bænum Munaðarnesi ( bara búið þar á sumrin núna ) og er hann að finna nokkuð norðar en Norðurfjörð, Gunnar var líka svo heppinn að fá að upplifa að vera þar tvisvar sinnum að sumri í nokkrar vikur.
Við höfum líka þrisvar sinnum gist í Seljanesinu hans Sveins okkar, þann bústað er að finna á milli Ófeigsfjarðar og Ingólfsfjarðar, frábær staður en svolítið erfitt að komast þangað, samt alveg þess virði.
Eitt að lokum, þið bara verðir að fara í sundlaugina sem er í Norðurfirði, aðeins lengra reyndar. Það er bara möst eins og unglingarnir segja.
knús, knús
Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 00:47
Sæl frænka. Skilaðu góðri kveðju og hamingjuóskum til foreldra þinna. Ég þarf endilega að drífa mig í að heimsækja þau aftur. Því miður var ég full snemma á ferðinni á Ströndum, var í Kjörvogi á mánudaginn var. Fór niður í fjöru og skoðaði rústirnar m.a. af sjóbúðinni og hleðsluna í Hólmanum þar sem Þorsteinn forfaðir okkar ætlaði að koma upp æðvarvarpi á sínum tíma.
Halli Gísla (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 22:35
Já Halli við skoðuðum það allt saman og áttum dásamlega daga saman á Ströndunum.
Herdís Sigurjónsdóttir, 16.7.2007 kl. 10:56
Sæl Herdís,
Það verður engin svikin af heimsókn á Strandirnar. Geri líka ráð fyrir því að þið hafið fengið frábært veður sem gerir slíkar heimsóknir enn betri.
Góð kveðja að vestan,
Ómar Már Jónsson, 18.7.2007 kl. 13:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.