Vesturfarar, fyrsti hluti
15.8.2007 | 23:44
Ég nefndi það um daginn að ég hefði fengið símtal frá Önnu Kristjáns bloggvinkonu minni síðasta sunnudag. Hún hafði þá verið búin að reyna að ná í mig yfir daginn, þegar ég far á fótboltamótinu á Selfossi, en allt kom fyrir ekki, ég var bara kæruleysið uppmálað og svaraði ekki. Ég held kannski að ég sé aðeins og mikið að njóta þess að vera ekki á bakvakt lengur.
En mikið er ég nú fegin að Anna gafst ekki upp á mér. Hún var nefnilega búin að vera í ættfræðigrúski fyrir afkomendur Vesturfara nokkurs og fann mig bloggvinkonu sína á ættingjalistanum undir gcbc. Þessi umræddi vesturfari var enginn annar en bróðir hans Jóns Jónssonar langafa míns, en hann langafi minn var fæddur var 1845.
Enn og aftur er ég dottin í ættfræðina og hafði lítið fyrir þessu sjálf núna og fékk þennan líka flotta lista yfir ættingjana frá henni Önnu. Nú er ég búin að sitja og bæta aðeins við og leiðrétta það sem ég sá rangt og er rétt að hitna.
Þetta er skemmtileg saga og hver veit nema ég fari í grúsk og skrifi hana. Þannig var að langafi minn var einn tíu systkina.
a) Þorgrímur Jónsson, fæddur 1834, lést ungur
b) Halldór Jónsson, fæddur 1836, fór til vesturheims
c) Þorbjörg Jónsdóttir, fædd 1838, lést ung
d) Þorbjörg Jónsdóttir, fædd 1839, lést ung
e) Þorgrímur Jónsson, fæddur 1841, fór til vesturheims
f) Þorbjörg Jónsdóttir, fædd 1844, fór til vesturheims
g) Jón Jónsson, fæddur 1845, þetta var langafi minn sem var áfram á Íslandi
h) Páll Jónsson, fæddur 1848, fór til vesturheims
i) Engilráð Jónsdóttir, fædd 1850, fór til vesturheims
j) Kristján Jónsson, fæddur 1854, lést ungur
Þau systkinin fæddust á tuttugu ára tímabili og létust fjögur þeirra ung en sex komust á legg. Af þessum sex fóru sem sé fimm vestur um haf og langafi var hér einn eftir á Ísalandinu bláa.
Eins og Önnu grunaði þegar hún benti á mig, þá hafði ég áhuga á að hitta þessa ættingja mína. Ég er búin að vera í sambandi við hana Brynju sem þau búa hjá og býr á Kalastöðum. Við ætlum að hittast hjá systur minni í Grindavík. Þarna er Páll, og talar hann víst íslensku líkt og ég og þú. Í för með honum eru tvær dætur hans og tengdasynir. Pabbi er í bænum þannig að hann mun hitta Pál frænda sinn í fyrsta skipti og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem við hittum einhvern af þessum horfnu, en nú nýfundnu ættingjum okkar frá Kanada.
Það kom mér á óvart þegar ég heimsótti vesturfarasafnið á Hofsósi, hvað það voru margir sem fluttu vestur um haf. Í vesturfaraskrá 1870-1914, eftir Júníus Kristinsson er að finna upplýsingar um einstaka íslenska vesturfara. Þar eru taldir upp, í röð eftir sýslum, hreppum og sveitabæjum, ekki færri en 14.268 íslenskir vesturfarar. Tilgreint er nafn, heimili og aldur, starf eða fjölskyldustaða, útflutningsár -höfn og -skip og áfangastaður í Vesturheimi, eða allt sem hefur verið skráð um viðkomandi. En ekki eru allir þar taldir því einhverjir hafa farið vestur fyrir 1870 og enn fleiri eftir 1914 og eins hafa eflaust ekki allir verið skráðir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.8.2007 kl. 18:00 | Facebook
Athugasemdir
Þetta hljómar mjög spennandi. Ég átti þó nokkra ættingja í Vesturheimi sem heimsóttu foreldra mína þegar ég var barn, seinni kynslóðir hafa ekki tengst eins. Kær kveðja í Mosó og verð að segja þér að rósirnar verða alltaf fallegri og fallegri. Takk fyrir frábæra heimsókn siðasta laugardag og knús á Sædísi.
Ásdís Sigurðardóttir, 16.8.2007 kl. 00:05
Til hamingju, kæra Herdís, ég bíð spenntur eftir seinni hlutanum !
Með kveðju frá Siglufirði, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 16.8.2007 kl. 06:37
Já takk Anna mín. Ég sá þetta með Kalastaði á nafnspjaldinu í gær og átti að vera mitt fyrsta verk í morgun að leiðrétta villuna . Þetta var meiriháttar stund í gær og ætla ég að skrifa um það fljótlega, takk fyrir að benda á mig
Herdís Sigurjónsdóttir, 17.8.2007 kl. 09:29
Mér hefur alltaf þótt ættfræði frekar spennandi. En hugsaðu þér hvað þessi 14 þúsund manns hafa verið hátt hlutfall af þáverandi íbúafjölda.
En eitt sem að vefst fyrir mér í þessu;
a) Þorgrímur Jónsson, fæddur 1934, lést ungur
b) Halldór Jónsson, fæddur 1836, fór til vesturheims
Þau eru tvö systkinin þarna sem eru fædd u.þ.b öld seinna en hin
Andrea, 19.8.2007 kl. 16:15
Ég var bara að testa lesendur ... Andrea þú vannst . TAkk, trúlega hefur þetta eitthvað með mænutenginguna að gera, sjálfstýringin hefur verið að verki þarna.
Herdís Sigurjónsdóttir, 19.8.2007 kl. 18:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.