Krikaskóli í Mosfellsbæ - nýtt skólastig

Krikaskóli

Frá því í júní hefur dómnefnd sem ég veitti formennsku unnið að því hörðum höndum ásamt ráðgjöfum nefndarinnar að velja hugmyndafræði og skólahúsnæði fyrir Krikaskóla í Mosfellsbæ. Krikahverfi er nýtt hverfi í uppbyggingu, staðsett í djúpum krika sem gengur inn í Lágafellið, lagað að náttúrulegum aðstæðum við rætur fellsins, en jafnframt örskammt frá miðbæ Mosfellsbæjar.  Krikaskóli verður lítill 200 barna skóli fyrir börn frá eins árs til 9 ára. Þetta verður því skóli fyrir níu árganga, leik- og grunnskólanemendur auk sem verða þar ásamt litlum eins til tveggja ára gormum sem verða í smábarnabekk Krikaskóla.

3. desember sl. valdi dómnefndin sigurtillöguna  og varð tillagan Bræðingur hlutskörpust. Höfundar tillögunar eru Einrúm, Arkiteó, Suðaustanátta, VSB, Helgi Grímsson, Andri Snær Magnason og Sigrún Sigurðardóttir.

Í umsögn dómnefndar stendur meðal annars:

"Skólastefnan er kenningarlega vel undirbyggð og setur skóla og einstaklinga í eftirtektarvert samhengi við nærsamfélag og samfélagið yfirleitt, með skírskotun til veruleika nútíðar og framtíðar og áherslu á að litlar pollagallamanneskjur í litlum skóla geta breytt heimsmynd mannanna, ef umgjörðin býður upp á það."

"Hugmyndir um að skólinn fléttist við landslagið og að byggingin vaxi upp úr landinu, eins og tré á sléttu, og myndi skjólgóða laut um leiksvæði barnanna er sérstaklega barnvæn og námshvetjandi umgjörð fyrir útivist og útinámi.

Tillagan þykir vel til þess fallin að gera Krikaskóla einstakan í sinni röð, bæði skólastefna og speglun hennar í skólahúsi og lóð."

Valferlið var þannig að í apríl var auglýst eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í lokuðu útboði.  Slík samkeppni var nýjung því auglýst var eftir blönduðu teymi fagfólks úr ólíkum áttum og það beðið að leggja fram sameiginlega tillögur um annars vegar hugmyndafræði skólans og hins vegar hönnun byggingar í samræmi við hugmyndafræðina og rúmast innan skólastefnu Mosfellsbæjar. Í  hópnum skyldu vera skóla-, uppeldis- og kennsluráðgjafi, arkitekt, verkfræðiráðgjafar og landslagsarkitekt. Er þetta fyrsta dæmi þess hérlendis að hópur sem er svona samsettur komi að uppbyggingu skóla frá grunni.

Þetta hefur verið langt og strangt en afskaplega skemmtilegt ferli. 10 hópar skiluðu inn tillögum og völdum við fjóra ráðgjafahópa áfram og var þeim gefinn kostur á að taka þátt í síðari stigum verkefnisins. Við hittum hópana í tvígang á ferlinu í ágúst og september og lauk ferlinu síðan á mánudaginn og var Bræðingurinn var valin úr hópunum.  

Ýmsar nýjungar verða í Krikaskóla og verður þjónustan aukin við foreldra ungra grunnskólabarna. Skólinn verður samfelldur yfir daginn líkt og í leikskólum, þar sem leikur, kennsla, frístundastarf og skóladagvist barna verður samþætt, með því að gefa leiknum meira svigrúm megi varðveita æskuna betur.

Fljótlega verður auglýst eftir skólastjórnanda fyrir Krikaskóla og mun hann vinna áfram með Mosfellsbæ og ráðgjöfum Bræðings að uppbyggingu skólastarfs í Krikanum. Hefst skólastarfið árið 2008 í bráðabirgðahúsnæði til að byrja með, en ráðgert er að skólinn verði kominn í nýtt húsnæði Krikaskóla í upphafi skólaárs 2009 til 2010.

Ég er að fara að upplýsa Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ um málið í fyrramálið og mátti því til með að setja inn nokkrar línur um Krikaskóla þrátt fyrir próflotu og ritgerðasmíð og stafarugl sem ég virðist ekki sjá þessa dagana, en ég veit að þið fyrirgefið mér það.

Ég fékk myndina sem ég setti við fréttina frá Steffan verkefnisstjóra Bræðings, en hér er hægt að sjá fleiri myndir af okkar glæsilega Krikaskóla sem birtar eru á heimasíðu Arkiteo arkitekta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Margt skemmtilegt í gangi hjá ykkur. Gangi ykkur vel. Kveðja til þín mín kæra.

Ásdís Sigurðardóttir, 8.12.2007 kl. 00:30

2 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Heyrðu orkubolti!   Þú þyrftir að flytja hingað í Kópavoginn til að kenna þessum "köllum" hér hvernig á að gera þetta.   Þó er gott að búa í Kópavoginum. 

kveðja

3M

Marinó Már Marinósson, 8.12.2007 kl. 13:24

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Þetta er æðislegt verkefni og er ég rétt að hitna... svo verður að ákveða með tvo nýja skóla á næsta ári... Það er líklega eins gott að ég ætla að taka vorönnina létt... Hélt að það væri svo lítið mál að bæta við haustönnina því ég hefði ekkert að gera fyrst ég væri hætt að vinna mín 50% hjá Rauða krossinum... en boy ó boy was I wrong.. en það er enn gaman .

Herdís Sigurjónsdóttir, 8.12.2007 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband