Siðfræðiritgerð - Virkjanaframkvæmdir í sveitinni hennar ömmu, lokaorð
9.12.2007 | 17:47
Það er ekki hægt að byrja að setja inn kafla úr ritgerðinni án þess að koma með lokaorðin.
Lokaorð
Tækniþróun hefur opnað nýjar leiðir fyrir manninn að vísindalegri þekkingu. Sífellt er verið að þróa nýjar aðferðir, oftast fljótvirkari og stórtækar en þær sem fyrir voru, líkt og við þekkjum í raforkuframleiðslu á Íslandi. Fyrst var um að ræða litlar rafstöðvar sem settar voru í bæjarlækinn og rafmagn framleitt til eigin nota. Seinna komu virkjanir eins og Skeiðsfoss sem framleiða áttu rafmagn fyrir nærsamfélagið. Siðferðilegar spurningar varðandi virkjanamál vöknuðu ekki hjá fólki gagnvart náttúrunni og auðlindum og urðu hindrun fyrr en komið er val, líkt og nefnd hefur verið hjá viðmælendum sem allir nefna umræðu dagsins í dag. Á þeim tíma sem Skeiðsfossvirkjun var byggð hefur stóra spurningin í hugum fólks trúlega verið hvort það tækist virkja til að framleiða nægjanlegt rafmagn fyrir síldarverksmiðjuna Rauðku. Svo sá þáttur yrði ekki hindrun fyrir því að fá að byggja verksmiðjuna í bænum sem gæfi af sér mörg störf og verðmæti til bæjarfélagsins og þjóðfélagsins alls. Ég tel frekar ólíklegt að menn hafi litið á þetta sem svo að þeir yrðu að velja um það hvort bæri að fara í þessar virkjanaframkvæmdir í Skeiðsfossi eða friða ræktuð tún og móa stað þess að sökkva þeim undir vatni. Ég er jafn sannfærð um að þeir sem fluttu af jörðinni sinni hafa samt ekki gert það tregalaust, líkt og gerist í dag þegar um uppkaup á heimilum fólks er að ræða, en ég er samt ekki viss um að það hafi verið náttúran og lífríkið, heldur vegna þess að landið hafði verið í þeirra kynslóð fram af kynslóð og því var þetta kannski meira vegna æskustöðvanna, rótanna.
Líkt og um gjörvallan Vestræn heim hafa mannhverf viðhorf verið ríkjandi í Fljótunum á þeim tíma sem Stíflan var byggð og Skeiðsfoss virkjaður. Ég hef samt staðfestingu fyrir því að til voru manneskjur á þeim tíma sem töldu náttúruna sjálfa hafa gildi. Sem höfðu veik mannhverf viðhorf til náttúrunnar, líkt og Herdís amma mín sem tregaði fossinn sem hvarf. Fossinn sem hún skildi að þyrfti að víkja fyrir tækninni og þörfum mannanna, hennar sjálfrar og myndi nýtast afkomendum hennar kynslóð fram að kynslóð.
Ég var tæplega þriggja ára þegar lífsljós ömmu slokknaði á sjúkrahúsi Siglufjarðar 23. nóvember 1968. Þá hafði Skeiðsfoss verið vatnslaus í meira en 23 ár. En viðhorf ömmu til náttúrunnar munu lifa kynslóð fram af kynslóð í ljóðinu hennar sem hún orti þegar búið var að virkja Skeiðsfoss og hann var orðinn vatnslaus.
Fossinn
Þitt kjörorð var frelsi með kyngi í hljóðum
kraftur og algleymi fylgdi þeim ljóðum
töfrandi litskrýddum ljósperlum stráði
á landi sem augað og sálin mín þráði.
tröllaukni foss þú varst tekin og bundinn,
taminn og vilji þinn léttvægur fundinn.
Nú hefur tæknin tekið þig höndum
tamin og reyrðan vélanna böndum
allur þinn máttur til mannanna þarfa
metinn og veginn nóg er að starfa.
Í skiptum á litskrúð og ljóðanna glaumi,
Lýðurinn fagnar nú raforkustraumi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.12.2007 kl. 21:29 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Gunnar Þór.. ég er búin að vera að bíða eftir að fá viðbrögð frá lesendum. Þessi rannsókn mín er búin að vera skemmtileg og lærdómsrík. Hvar heldur þú að ég geti nálgast þessi skrif Hannesar?
Herdís Sigurjónsdóttir, 9.12.2007 kl. 19:47
Heyrðu skvís, áttirðu ekki afmæli 8.des??? ef ég man rétt segi ég innilega til hamingju gullið mitt.
Ásdís Sigurðardóttir, 9.12.2007 kl. 23:51
Elsku hjartagull og ég sem er með daginn merktan í dagbókinni minni!
Til hamingju með daginn elsku vinkona og í tilefni gærdagsins sendi ég þér þennan ítalska málshátt:
"Sá sem kemur fagur í heiminn kemur ekki þangað fátækur"
Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 23:58
Frábært hjá þér, ég gef þér 10 plús!
sigrún maría (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 17:48
Takk fyrir að koma þessu fallega ljóði á framfæri.
Gleðileg jól!
Sigurður Þórðarson, 15.12.2007 kl. 08:55
Sigrún Björgvinsdóttir, Víðilæk, eftirmæli um Grímsárfoss. Birtist í Múlaþingi 3 (1968) / Glettingi 16 (1998)
Áin er virkjuð
Líður fram á lágum eyrum,
lygn og tær á sumardegi.
Lag, sem fyllir loftið klökkva
- líkt og bæri strenginn tregi -
leikur fossinn.
Byltist fram með boðaföllum,
beljar svört um engi og grundir.
Feigðarsöng og fyrirboða
- ferlegt gilið tekur undir -
fossinn þrumar.
Kviknar ljós við ljós um dalinn.
Ljós í augum heitrar gleði.
Áin hefur okkur skila
eldinum, sem lengst var falinn.
Úr fiðlu dalsins féll einn strengur.
Fossinn syngur ekki lengur.
Gunar Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.