Stuðningur við barnafjölskyldur í Mosfellsbæ

Ég var að velta því fyrir mér hvað marg jákvætt er að gerast um þessar mundir í Mosfellsbæ og hvað það eru mikil forréttindi fyrir mig sem bæjarfulltrúa og formann fræðslunefndar að fá að taka þátt í þessari vegferð og hafa áhrif á þróun mála. Hér eru nokkur mál sem mér eru ofarlega í huga í dag og varða yngstu Mosfellingana og fjölskyldur þeirra.

Uppbygging nýrra leik- og grunnskóla

Mosfellsbær er á miklu vaxtarskeið og er því verið að vinna að uppbyggingu þriggja nýrra grunnskóla í bæjarfélaginu. Í Krikahverfi og Leirvogstungu verða byggðir sambyggðir leik- og grunnskólar, sem er nýjung hér á landi og vakið hefur mikla athygli og er ég sannfærð um að búið er að leggja vörðu í skólasögu Íslands. Skólarnir verða fyrir börn frá 1. árs aldri og upp í 4. bekk grunnskóla.  Mikil áhersla er  lögð á hreyfingu og útivist því verða þetta skólar þar sem pollagallinn verður með í skólatöskunni alla daga og mikil útikennsla mun eiga sér stað. Einstaklingsmiðað nám verður haft að leiðarljósi og heilsdagsskóli verður að veruleika.  Það hefur verið sérstaklega gaman að vinna að þessu verkefni og má sjá meira um skólann á nýrri heimasíðu Krikaskóla. Búið er að auglýsa eftir skólastjóra Krikaskóla og er gert ráð fyrir að skólinn muni taka til starfa í Krikahverfi haustið 2009, en í vor mun starfsemi Krikaskóla samt hefjast í bráðabirgðahúsnæði á lóð Helgafellsskóla.

Styrkgreiðslur hefjast allra ungbarnafjölskyldna sem það kjósa

Fyrsta apríl næstkomandi mun Mosfellsbæ hefja styrkgreiðslur til fjölskyldna 1-2ja ára barna. Er verið að stíga enn eitt skrefið í stuðningi við ungbarnafjölskyldur í bæjarfélaginu. En það er eftir sem áður mín skoðun að mikilvægt sé að ríkisstjórnin lengi fæðingarorlofið líkt og stjórnarsáttmáli Sjálfstæðismanna og Samfylkingar kveður á um og vona ég að því verði breytt sem fyrst. Upphæðin er kr. 25.000, almennt gjald og kr. 31.800, forgangsgjald og mun nema því sama og þeir foreldrar fá sem nýta sér þjónustu dagforeldra. 

Samvinna við sjálfstætt starfandi dagforeldar

Á síðasta kjörtímabili hófu Sjálfstæðismenn að niðurgreiða dagforeldravist til hjóna og sambúðarfólks, en fyrir það hafði eingöngu verið greiddur styrkur til forgangshópa.  Það er mikilvægt að daggæsla í heimahúsum sé eftirsóknarverður kostur fyrir yngstu börnin og að foreldrar geti gengið að öruggri daggæslu í bæjarfélaginu eftir að fæðingarorlofi lýkur. Það er þó nokkuð ljóst að nokkur breyting á eftir að verða á daggæslu barna á næstu árum og áratugum. Í Krikaskóla verður til að mynda deild fyrir börn frá 1-2ja ára og er einnig gert ráð fyrir slíkri deild við Leirvogstunguskóla. Ekki er ljóst hvort þróun í daggæslumálum verði í þá veru að sveitarfélög veiti almennt þjónustu frá því að fæðingarorlofi lýkur, en í mínum huga verður slíkt ekki mögulegt nema með góðri samvinnu við sjálfstætt starfandi dagforeldra.

Ýmsar nýjar leiðir hafa verið farnar í samvinnu bæjaryfirvalda og dagforeldra í Mosfellsbæ. Unnin hafa verið þróunarverkefni sem miða að því að auðvelda vinnuaðstæður og vinna gegn félagslegri einangrun dagforeldra. Dæmi um slíkt verkefni er "Lestin" Þar sem metið var hvort það að hafa 5 barna kerru  hefði áhrif á starfið. Það sýndi sig að kerran auðveldaði til muna að fara með litlu krílin út og hreyfa sig úr stað.  Annað verkefni er samvinna við Kjósarsýsludeild Rauða krossins, þar sem dagforeldrar geta hist í húsnæði deildarinnar með börnin "sín" og notið samvista og hefur verið mikil ánægja hjá þeim sem hafa tekið þátt. Framundan eru fleiri spennandi verkefni og verður áfram unnið að því að fjölga dagforeldrum í bæjarfélaginu og auka stuðning og samvinnu við þá á komandi árum.

 

Það verður seint vinsælt í draga saman í rekstri líkt og við Sjálfstæðismenn gerðum þegar við komust til valda í bæjarstjórn árið 2002. En svo höfum við haldið áfram að halda fast um budduna, svo fast að mörgum hefur þótt nóg um. En við sáum fram á að ef vel yrði staðið að málum myndum við uppskera að lokum. Þegar maður lítur til þess sem unnið hefur verið að í Mosfellsbæ frá 2002 og í samstarfi við Vinstri gæn undanfarin tvö ár megi segja að kominn sé uppskerutími.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Margt gott í gangi hjá ykkur.  Hér eru leikskólamál sem betur fer í nokkuð góðu standi og margt jákvætt.  Alltaf er nú meira gaman að vera í meirihluta.  Tanny

Ásdís Sigurðardóttir, 24.3.2008 kl. 12:20

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ó já... ég var í minnihluta fyrstu fjögur árin og verð ég að segja að þrátt fyrir að hafa náð ýmsu fram í minnihlutanum hafa árin í meirihlutanum (sem bráðum verða oðin 6) verið mun skemmtilegri .

Herdís Sigurjónsdóttir, 24.3.2008 kl. 12:24

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Hæ Herdís. Krikaskóli er virkilega spennandi verkefni.

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.3.2008 kl. 18:30

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það er allt í góðum gír í Mosfellsbæ hjá ykkur sjálfstæðismönnum og Kalla. Frábært að heyra af því, ég myndi pottþét kjósa þig ef ég byggi í Mosó. Ég hef heyrt að það séu hugmyndir hjá nýja meirihlutanum í borginni að reyna svipaðar leiðir varðandi styrkgreiðslur til ungbarnafjölskyldna. Þá gæti verið gott fyrir þá að leita í smiðju til ykkar. Þó alltaf séu nægar hugmyndir hvernig hægt sé að ráðstafa peningum, grunar mig að einhver sveitarfélög mun þurfa að  kljást við minni tekjuauka og jafnvel tekjusamdrátt á næstunni. 

Sigurður Þórðarson, 24.3.2008 kl. 23:15

5 Smámynd: Bjarney Hallgrímsdóttir

Vá, flott hjá ykkur í Mosó - fleiri mættu taka ykkur til fyrirmyndar...

Bjarney Hallgrímsdóttir, 25.3.2008 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband