Sumarfjörið á Laugarveginum
24.4.2008 | 10:40
Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn, sem hefur verið harðari en mörg undanfarin ár. En nú er vor í lofti og fuglarnir syngja. Það er merkilegt að þegar ég heyri fuglasönginn á vorin þá leitar hugurinn alltaf heim á Siglufjörð, á Laugarveginn.
Ég er fædd og uppalin á Laugarvegi 15 á Siglufirði og búa foreldar mínir enn í sama húsinu og fer ég oft heim. Þegar ég var krakki var mikið líf og fjör í Suðurbænum,enda fjöldinn allur af krökkum í hverju húsi en þó flestir á eina fjölskyldu á númer 16. Mér varð hugsað til þessa þegar ég las minningargrein um hana Lilju Jóels áðan. Ég fór við minningarathöfnina á Akranesi um daginn, enda þótti mér vænt um hana Lilju sem var magnaður persónuleiki og kraftmikil kona. Ég kannaðist alveg við sögustundirnar sem Gréta nefndi í minningargreininni. Sögustundum á tröppunum í góðu sumarveðri. Lilja á inniskóm og eldhússlopp með hóp af krökkum sem röðuðu sér í tröppurnar og hlustuðu af áhuga á lifandi sögur hennar. Hún var mjög skipulögð og vildi hafa allt í röð og reglu og vildi alls ekki hafa það að við krakkagrísirnir værum að rusla til í stofunni, en var samt svo ótrúlega umburðarlynd gagnvart okkur varðandi flest. Hún átti stórt jarðaberjabeð fyrir sunnan húsið sem freistaði margra krakka. En á uppskerutíma gaf hún okkur krökkunum jarðaber á tröppunum og var það örugglega útpælt trix hjá henni því fyrir vikið vorum við eins og lítið heimavarnalið að passa berin fyrir rányrkju villinganna á meðan berin voru að þroskast .
Ég man mjög vel eftir því þegar ég fékk að vera hjá þeim um tíma. Mamma hefur trúlega verið í siglingu með pabba eða eitthvað svoleiðis, en a.m.k. var ég alsæl yfir því að fá að vera hjá Jónínu Hafdísi vinkonu minni á númer 16. Ég man svo vel eftir morgunmatnum við eldhúsborðið, haframjöli með kakói og sykri og lýsi. Lýsið tóku allir og punktur og tók það eins og allir hinir og sá lítinn tilgang með því þá, en Lilja vissi betur. Það er mér líka mjög minnisstætt ríkisherbergið í kjallaranum, herbergið með öllum gögnum sem ekki mátti sjá. Ég hef alltaf verið áhugasöm um gamla hluti og grúsk og þótti mér þessi leynd sem hvíldi yfir herberginu í meira lagi merkileg. En trúlega hafa þetta verið ósköp ómerkileg bókhaldsgögn ríkisverksmiðjanna, en á þessum tíma var þetta leyniherbergi, enda var ég búin að lesa allar ævintýrabækurnar spjaldanna á milli.
Það var alveg yndislegt að hitta alla krakkana á 16 við minningarathöfnina um Lilju á Akranesi um daginn. Það komu líka margir af krakkastóðinu, vinum þeirra á 16 og þótti Kristínu systur hræðilegt að komast ekki til að kveðja Lilju og eins Jóhanni bróður sem býr í Ameríku og mömmu og pabba. En ég hittin nokkra góða grannar, eins og Ingu Sjöfn og Möggu og Fredda á 14 og margir fleiri og var gaman að hitta alla.
Þegar maður sest niður og fer yfir þessi ár á Laugarveginum streyma fram minningar um atburði sem svo sannarlega hafa mótað mann og gert mann að þeirri manneskju sem maður er í dag. Minningar um tíma þegar Gvendur í bænum gerði við hjólin okkar á vorin og Gústi guðsmaður predikaði á torginu. Tíma og við krakkarnir lékum okkur á ónýtum síldarbryggjum, Gráa langa og átum Coco Puffs úr Versló sem við fundum á öskuhaugunum. Þá tók allt samfélagið einlægan þátt í sorg og gleði hvors annars. Þvílíkir tímar!
Hún Guðný Gull vinkona mín á Akureyri (á númer 14) kom með þá hugmynd í vetur að það væri gaman að hóa saman "krökkum" á Laugarveginum og hinu krakkastóðinu. Krökkunum sem voru eins og heimalingar hjá hvoru öðru milli þess sem við lékum okkur á stórhættulegum "leikvöllum". Mikið væri það nú gaman. Hver veit nema maður láti slag standa þegar skólinn er frá og hói saman liðinu. Það væri hægt að skella sér í "fallin spýta" eða "eina krónu" með afkomenunum og halda svo eina góða sögustund að hætti Lilju á Laugarveginum.
Vor í lofti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.