Náttúruhamfarir - hvað svo? Vísindakaffi miðvikudaginn 24. september
23.9.2008 | 23:18
Í kvöld, miðvikudaginn 24. september mun ég taka þátt í skemmtilegum viðburði. En mun ég ásamt þeim Dr. Guðrúnu Pétursdóttur forstöðumanni Stofnunar Sæmundar fróða, Dr. Berglindi Guðmundsdóttur sálfræðingi hjá áfallaþjónustu LSH, Ragnhildi Guðmundsdóttur og Eddu Björk Þórðardóttur frá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við HÍ kafa ofan í snjóflóð og undir jarðskorpuna og velta upp sálfræðilegum áhrifum náttúruhamfara. Umræðuefnið er Náttúruhamfarir - hvað svo?
Ég hvet alla til að mæta í vísindakaffið og spjalla við okkur stöllur og ná í einn kaffibolla í Vísindavökustellið. Kaffiboðið fer fram á kaffistofu Listasafns Reykjavíkur frá kl. 20:00-21:30.
Náttúruhamfarir - hvað svo?
Þegar náttúruhamfarir ríða yfir er strax brugðist við með leit og björgun, áfallahjálp, opnun fjöldahjálparstöðva, hreinsun rústa og fleiri aðgerðum. En hvað tekur svo við? Hvað ber að gera næst? Hver á að gera það? Hvernig verður samfélaginu komið aftur á réttan kjöl? Hvernig mun þolendum reiða af? Hver eru langtíma áhrif áfalla? Hvað er best að gera? Getur reynslan af fyrri áföllum kennt okkur eitthvað um það?
Þetta er viðfangsefni Vísindakaffis Rannís sem haldið verður í Listasafni Reykjavíkur miðvikudaginn 24. september 2008 kl. 20:00. Þar koma saman fimm konur sem hafa rannsakað frá ýmsum sjónarhornum langtíma afleiðingar náttúruhamfara og viðbrögð við þeim.
Guðrún Pétursdóttir og Herdís Sigurjónsdóttir segja frá rannsókn og greiningu á verkefnum sem sveitarfélög þurftu að sinna eftir snjóflóðin á Vestfjörðum 1995 og jarðskjálftana á Suðurlandi sumarið 2000. Edda Björk Þórðardóttir og Ragnhildur Guðmundsdóttir segja frá rannsóknum sínum á sálrænum og heilsufarslegum afleiðingum snjóflóðanna á Vestfjörðum 1995 og tsunami-flóðbylgjunnar í Suðaustur-Asíu 2004. Berglind Guðmundsdóttir segir frá yfirstandandi rannsókn á reynslu Sunnlendinga eftir jarðskjálftana 29. maí 2008. Að auki verður Dr. Benedikt Halldórsson jarðeðlisfræðingur og jarðskjálftaverkfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi til staðar í salnum ef upp koma spurningar varðandi jarðskjálftana sjálfa.
Nánar um vísindamennina:
Dr. Guðrún Pétursdóttir er dósent við Hjúkrunarfræðideild H.Í. og framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir. Hún lauk BA námi í sálarfræði við HÍ, meistaraprófi í lífeðlisfræði við Oxford háskóla og doktorsprófi í taugalífeðlisfræði frá Háskólanum í Osló. Undanfarin 15 ár hefur hún stýrt þverfræðilegum rannsóknarstofnunum við H.Í. og fjölbreyttum rannsóknarverkefnum á þeirra vegum.
Herdís Sigurjónsdóttir er bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og fyrrum verkefnisstjóri neyðarvarna og neyðaraðstoðar hjá Rauða krossinum. Hún er lífeindafræðingur og stundar nú meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum við H.Í., þar sem hún rannsakar stjórnsýslu og viðbrögð við náttúruhamförum.
Dr. Berglind Guðmundsdóttirsálfræðingur hjá Sálfræðiþjónustu /Áfallamiðstöð LSH. Berglind stundar rannsóknir við Sálfræðiþjónustu LSH og Rannsóknarstofu í slysa-, ofbeldis- og bráðafræðum á Slysa- og bráðasviði Landspítala en þar undir falla Áfallamiðstöðin og Neyðarmóttaka vegna kynferðislegs ofbeldis. Helsta rannsóknarverkefni Berglindar um þessar mundir er rannsókn á áhrifum jarðskjálftans 29. maí 2008 á íbúa á Suðurlandi.
Ragnhildur Guðmundsdóttir er doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og rannsakar langtímaheilsufarsafleiðingar náttúruhamfara. Hún lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands og lýkur M.Sc. prófi í klínískri sálfræði, tölfræði og aðferðafræði frá Universiteit Leiden í Hollandi nú í ár, ásamt sérnámi í hugrænni atferlismeðferð á vegum Félags um hugræna atferlismeðferð og Oxford Cognitive Therapy Centre. Hún tók hluta af námi sínu og starfsþjálfun við Universität Basel í Sviss og hefur unnið við sálfræðimeðferð, rannsóknir og kennslu.
Edda Björk Þórðardóttir er framhaldsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Hún lauk B.A. gráðu í sálarfræði frá Háskóla Íslands þar sem hún rannsakaði langtímaeinkenni áfallastreituröskunar hjá þolendum snjóflóðsins í Súðavík.
Hér er meira um Vísindavöku 2008
Í aðdraganda Vísindavöku er hellt upp á fjögur Vísindakaffi 22., 23., 24. og 25. september. Þar kynna nokkrir af færustu vísindamönnum þjóðarinnar rannsóknir sínar fyrir almenningi, og gefst fólki kostur á að spyrja þá spjörunum úr. Einnig er blásið til teiknisamkeppni og ljósmyndasamkeppni fyrir börn og ungmenni, auk þess sem RANNÍS veitir árlega viðurkenningu fyrir vísindamiðlun.
Vísindavaka 2008 verður föstudaginn 26. september í Listasafni Reykjavíkur kl. 17:00-22:00. Á Vísindavöku gefst almenningi kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á Vísindavöku, en hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins. RANNÍS stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi og í ár er samstarfsaðilum á landsbyggðinni boðið að vera með og kynna rannsóknir og fræði um allt land.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 24.9.2008 kl. 08:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.