Bremsuleysið á enda
26.10.2008 | 15:04
Undanfarnar vikur hafa verið einkennilegar, ekki bara fyrir mig og mína heldur allan heiminn. Það er ljóst að efnahagskreppan lætur engan ósnortinn og ekki síst hér heima enda áfall sem teygir anga sína inn í hverja fjölskyldu með einum eða öðrum hætti.
Ég hef persónulega aldrei verið spurð eins oft að því eins og undanfarnar vikur hvort ég hafi ekki mátað mig inn í aðra stjórnmálaflokka, hvort ég ætti nú ekki betur heima í einhverjum þeirra vinstri flokka sem nú bjóða fram. Ég er sannfærð um að margir sjálfstæðismenn hafa verið spurðir að hinu sama. Mikið er talað um vinstri sveiflu og sveif sá andi a.m.k. yfir kvöldverði sem var haldinn eftir aðalfund í ágætu félagi sem ég er meðlimur í um síðustu helgi. En það var stórmerkileg upplifun fyrir mig persónulega þegar Nallinn eða Internationalinn gamli þjóðsöngur Sovétríkjanna varð þemasöngur kvöldsins.
Það er mikil reiði í samfélaginu, eðlilega, enda varð þetta mikið áfall fyrir alla þjóðina og ekki batnaði það þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn okkur. Hér er mikið um mótmæli og hefur það sérkennilega ástand skapast að mótmælendur hafa verið í samkeppni um mótmælendur, en það virtist a.m.k. gerast í gær þegar tveir hópar voru að mótmæla því sama, á sama stað á nánast sama tíma. Fjölmargir hópar hafa verið stofnaðir á Facebook, á móti ríkisstjórninni, seðlabankastjóra, Bretum og svona mætti lengi telja.
Þetta er ekki það versta sem íslensk þjóð hefur gengið í gegnum skrifar Davíð Þór í hugvekju sinni á baksíðu Fréttablaðsins í morgun, þar sem hann minntist gamallar frænku sinnar sem sagði honum frá frostavetrinum mikla 1918 þegar Spánska veikin gekk og hundruð landsmanna létust, frost fór niður fyrir -30°C og ís var landfastur og lokaði siglingaleiðum. Ég er honum sammála. Líkt og í kjölfar annarra áfalla tekur tíma að ná yfirsýn og skipuleggja hjálparstarfið og erum við enn í því ferli. Mikilvægt er að hefja rannsókn á málinu, til að varpa ljósi á atburðinn sjálfan og ekki síst til að nýta þessa reynslu til að læra af, bæta kerfið og fyrirbyggja að slíkt geti gerst aftur.
Næsta skref verður að styrkja íslenskt efnahagslíf aftur til framtíðar. Í dag virðist það mörgum vera fráleitt og ekki síst þeim sem eiga um sárt að binda. En það er margsannað að það að veita náunganum aðstoð og stuðning skilar mun betri árangri en svartsýni og bölmóður og gildi einu hvort um er að ræða þann sem veitir aðstoð eða þiggur.
Það er óhætt að segja að íslenskt samfélag hafi nauðhemlað. Það mátti alveg hægja á og hefði verið mun betra ef stigið hefði verið varlega á bremsuna í stað þess að klossbremsa, eins og raunin varð. Ég hef oft talað um bremsuleysi í þessu sambandi, kaupæði og sýndarveruleika alsnægta sem hefur verið alsráðandi og er ég hrædd um að fæstir geti sagt sem svo að þeir hafi ekki tekið þátt í brjálæðinu. Nú þurfum við öll, stjórnmálaflokkar, fyrirtæki og einstaklingar að standa saman, bæði hér heima og um allan heim. Við þurfum ekki á sundrung þjóðar og galdrabrennum" á Austurvelli að halda. Nú sem svo oft áður þurfum við Íslendingar að snúa bökum saman, bretta upp ermar og vinna saman. Við búum betur en mörg önnur lönd, undirstaðan er styrk. Gott menntakerfi, heilbrigðiskerfi og auðlindir sem munu hjálpa okkur í þeirri vegferð sem framundan er, við að efla íslenskt samfélag á ný.
Minnihluti styður stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Herdís, ég er fokreið út í "mína menn" Geir H. Haarde sagði að engra aðgerða væri þörf fram á síðustu stundu og búms! Þjóðin tapar nánast aleigunni. Margir öllum ævisparnaðinum og svo mætti lengi telja. "Galdrabrennur" á Austurvelli væru óþarfar ef menn öxluðu sína ábyrgð. Þeir menn sem brugðust eiga að víkja.
Auðvitað bretta allir upp ermar en ég mun ekki treysta þessum mönnum aftur.
Vilborg Traustadóttir, 26.10.2008 kl. 15:20
Sorry Herdís ég er EKKI reið við þig! ;-)
Vilborg Traustadóttir, 26.10.2008 kl. 16:24
Það var nú gott Vilborg, enda kom ég ekki nálægt bankamálunum, en vissulega kaus ég Sjálfstæðisflokkinn, eins og fleiri og keypti mér jeppa, en þá er það upptalið, ég á ekki einu sinni flatskjá, sem virðist vera helsta viðmiðun í krepputalinu.
En við verðum nú samt að gæta okkar, það eru víst ekki afleiðingar af stjórn Sjálfstæðisflokksins, sem sem gætir í "veikum" hagkerfum annarra landa um allan heim. Ég held að enginn hafi í raun áttað sig á stöðu mála, ekki gerði ég það a.m.k. sjálf, það eitt er víst.
Herdís Sigurjónsdóttir, 26.10.2008 kl. 17:49
Við eigum að vísu flatskjá en það er langt síðan við fengum okkur hann. Ég á jeppling og hann sparneytinn.
Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn og einmitt þess vegna læt ég í mér heyra. Mér finnst mér misboðið á mjög margan hátt núna.
Og allir sem ábyrgð eiga að bera benda hver á annann.
Vilborg Traustadóttir, 26.10.2008 kl. 19:57
Ég tók nú bara þetta flatskjárdæmi því það er alltaf tekið upp, í mínum huga skiptir það ekki máli. En nákvæmlega vegna þess að allir benda á alla verður að rannsaka málið og fá staðreyndir málsins upp á borðið, aðdraganda og greiningu á öllu ferlinu.
Ég ætla rétt að vona að þú hafir ekki haldið að ég sé ánægð með stöðu mála, ég er það hreint ekki.
Herdís Sigurjónsdóttir, 26.10.2008 kl. 21:18
Breiðum út faðminn, fyrir nágranna, vini og aðra, setjum síðan undir okkur hausinn og keyrum þetta upp aftur. Kv. eigandi flatskjás og Game Over jeppa. GF
Guðm. Fylkis (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 01:17
Nei þag getur enginn verið ánægður með stöðu mála, það er allt að fara fjandans til. ég var að koma úr Kringlunni og verslunareigendur eru mjög uggandi. Þeir eiga nóga peninga til að greiða fyrir vörur en það er ekki til neinn gjaldeyrir og því skilar hann sér ekki í gegn um ríkisvædda bankakerfið okka og því engin von til að fá vöruna til landsins.
Þeir sem flytja út senda fiskinn eða aðra vöru sem þeir eru að flytja út og fá enga peninga fyrir það. Allt týnt í bönkunum!
Það er varla von til þess að slík bankastarfsemi skili okkur neinu.
Eða?
Vilborg Traustadóttir, 28.10.2008 kl. 17:38
Frábær færsla hjá þér!
SEKUR! Keypti á undanförnum 5 árum: Einbýlishús, nýjan fínan bíl og flatskjá og mikið fleira. Allt nema bíllinn og húsið var staðgreitt!
Fór ég of geyst? Veit það þekki, en sennilega. Hverjum er það að kenna? Mér? Hef ég veturinn af? Já!
Gerði ég áætlanir og stóð ég í skilum undanfarin 5 ár? Já, alltaf! Hafði ég efni á húsinu og bílnum? Já, fyrir kreppu var þetta leikur einni og ég hefði getað bætt við skuldbindingar, en hafði vit á að gera það ekki!
Vandamálið er að það er fullt af fólki eins og mér, sem gerði fullkomlega raunsæjar áætlanir og stóð við þær árum saman, en kemst hugsanleg í einhver vandræði í vetur vegna ytri aðstæðna, sem gjörbreytast yfir nótt!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.11.2008 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.