Langþráður framhaldsskóladraumur að rætast
6.12.2008 | 00:43
Ég er afskaplega glöð yfir því að framhaldsskóladraumur okkar Mosfellinga sé að rætast og skólastarfið hefjist næsta haust. Mosfellsbær er mikill skólabær og því táknrænt að fyrsta skólahúsnæðið Brúarland muni hýsa framhaldsskólann fyrstu árin. Nýtt skólahúsnæði verður svo byggt í miðbænum og tekið í notkun haustið 2011.
Við höfum hug á að skólinn kenni sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi, bæði í náttúru sem og umhverfi mannsins og sjálfbærri menningu, enda umgjörðin öll til staðar. Við höfum heita vatnið, árnar og ósnortna náttúru, öflugt íþrótta og tómstundastarf, svo ekki sé talað um alla menninguna. Ég hef oft sagt það að það hljóti að vera eitthvað í vatninu í Mosfellsbænum, hér er örugglega mun fleiri listamenn en gengur og gerist. Hér er öflugt leikfélag, myndlistarskóli og skólahljómsveit sem Listaskóli Mosfellsbæjar tengir listilega saman. Hér starfa á annan tug kóra, frægar hljómsveitir hafa komið frá Mosfellsbæ og bílskúrsböndin mýmörg svo eitthvað sé nefnt. Báðir grunnskólar leggja líka mikla áherslu á listir og sköpun og umhverfi. Ætli listaspíran mín hún Ásdís Magnea sé ekki einmitt "afrakstur" 14 ára leik- og grunnskólagöngu í Mosfellsbæ, en hún stundar nú nám á lista og fjölmiðlabraut í Borgarholtsskóla, stundar söngnám í Listaskóla Mosfellsbæjar og tekur þátt starfi Leikfélags Mosfellssveitar.
Brátt verður skólameistari nýja framhaldsskólans ráðinn og hefst þá mótunarstarfið. Við Mosfellingar höfum vissulega skoðanir á því hvaða áherslur við viljum sjá í skólastarfinu, en framhaldsskólar eru á hendi ríkisins og því mun skólameistari ásamt skólanefnd sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir veitir formennsku og menntamálaráðuneyti móta starfið. Það er jákvætt að ekki sé búið að byggja húsnæðið, því þá er hægt að móta skólastefnu og skólahúsnæði saman, líkt og við gerðum með Krikaskóla og heppnaðist frábærlega að mínu mati.
Það er vissulega krepputíð eins og Ný dönsk, eða "Gammel Dansk" eins og einhver kallaði þá syngur um þessa dagana, en tilhugsun um að brátt komi framhaldskóli í Mosfellsbæ fær mann vissulega til að horfa jákvætt fram á veginn. Svo er bara að vona að næsti framhaldsskóli komi í Fjallabyggð.
Myndin er tekin fyrir framan Brúarland. Á henni eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Herdís Sigurjónsdóttir formaður bæjarráðs og fræðslunefndar og Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar.
Framhaldsskóli í Brúarlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Mosfellsbær | Breytt 3.1.2010 kl. 15:49 | Facebook
Athugasemdir
Þið eruð sko dugleg þarna í Mosó, gangi ykkur allt í haginn í skólamálunum. Kær kveðja og njóttu helgarinna vina mín
Ásdís Sigurðardóttir, 6.12.2008 kl. 05:21
Sæl Herdís. Þetta er einfaldlega frábært framfaraskref í menntamálum bæjarins okkar. Mín fjölskylda finnum vil hvað það er mikilvægt að er mikilvægt að hafa menntun á grunnskólastigi. Unglingurinn okkar er í 10. bekk en náði að ljúka samræmdum prófum í stærðfræði og ensku í 9. bekk. Hann þarf því að sækja þessi fög í Borgó í vetur, með tilheyrandi fyrirhöfn. Þetta litla dæmi okkar sýnir að þörfin er fjölbreytt.
Það er greinilegt að þið hafið unnið gott undirbúningsstarf hvað varðar hlutverk og tilgang skólans. Eins og ég skrifaði annars staðar þá finnst vel til fundið að glæða lífi í Brúarlandið. Það er svo merkilegt að stundum þarf maður að bregða sér í burtu til að sjá hvað maður hefur. Við fjölskyldan lögðumst í útlegð í rúmlega 2 ár og komum til baka í sumar. Við tökum vel eftir jákvæðum breytingum, fyrir utan stækkun bæjarins, í aukinni þjónustu, meira lífi og fegurð. Litla jólatorgið okkar er lítið en afskaplega gott dæmi. Ég og krakkarnir göngum reglulega upp á Úlfarsfellið. Þar er útsýnið stórkostlegt. Ráðlegg öllum að gera slíkt hið sama, það sér fólk hvað bærinn hefur í kringum sig. Takk.
Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.