4 dagar til jóla
20.12.2008 | 22:15
Helgin er búin að vera yndisleg, kærleikur, jól og aftur jól.
Í gær fórum við mæðgur og amma Binna í Salthúsið í Grindavík. Á styrktartónleika til styrktar ungum hjónum sem misstu húsið sitt og allar veraldlegar eigur sínar vegna myglusveppasýkingar. Það höfðum verið endalaus veikindi á þeim og krökkunum og svo kom upp úr dúrnum að myglusveppur var að valda þessu. Svona eins og hjá Bylgju Hafþórs. Alveg ömurlegt þegar þetta gerist, því tryggingar ná ekki yfir slík mál. En við fórum sem sé og áttum góða menningarstund í Salthúsinu með Kristínu og strákunum. Kristín var flott að sýna undirföt, en þarna var náttfata og undirfatasýning og mátti bjóða í til styrktar góðu málefni. Það var líka happdrætti og keypti ég þrjá miða og viti menn ég fékk líka þrjá vinninga ... og svona líka flotta vinninga.
Í dag fórum við í okkar árlegu ferð í Hamrahlíðarskóg, til að kaupa jólatré. Sturla fór að vísu á bretti í Bláfjöll, en hann treysti okkur hinum fjórum og Skvísý fyrir þessu vandasama verki. Þegar í Hamrahlíðarskóg var komið, var múgur og margmenni í sama leiðangri. Við fengum sög og gengum og gengum og gengum og gengum og var ég farin að halda að þetta yrði eins og hjá Guðrúnu klipparanum mínu og Grétari sem gengu í einn og hálfan tíma og fóru svo heim án jólatrés. En svo fór nú ekki. Við Ásdís Magnea sáum fljótlega flott tré og vildum saga... en Elli minn vildi skoða meira uppfrá og til hliðar og aðeins neðar og aftur upp og ...... en svo enduðum við náttúrulega á því að saga þetta sem við sáum fyrst. Svo komum við niður að skúr og sáum annað betra, sagað og flott og skiptum við um tré í snarhasti. En við hittum þar þennan líka skemmtilega jólasvein. Mér fannst eins og ég hefði hitt hann fyrr, er alveg viss um að hann er Mosfellingur. Sædísi Erlu fannst hann Meiriháttar með stóru Mi og fékk hjá honum mandó og svo piparkökur í skógræktarskúrnum. Því næst fórum við á Torgið og keyptum okkur kakó og hlustuðum á rapp og hittum skemmtilegt fólk... og aftur jólasveininn skemmtilega, sem var ekki fúlt.
Mamman er núna að klára að skrifa á jólakortin (og blogga smá), pabbinn að flísaleggja og krakkarnir í skúrnum að mála jólagjafir...... Litlan er farin að sofa, hún vill alls ekki lenda í því að Jólasveinninn skemmtilegi fari fram hjá og sleppi því að setja í skóinn.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Elskulega Herdís, þetta eru fallegar myndir af þér og þínum og jólasveinninn ekki síðri. Hann er duglegur að koma í Mosó þessi skrítni karl.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.
P.s. Sjáumst í skötunni.
Karl Tómasson, 20.12.2008 kl. 22:42
Skemmtilegt og gleðileg jól.
Vilborg Traustadóttir, 20.12.2008 kl. 23:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.