Meistaraprófsfyrirlestur - Hlutverk sveitarstjórna eftir náttúruhamfarir og önnur samfélagsleg áföll
5.2.2009 | 06:41
Hlutverk sveitarstjórna eftir náttúruhamfarir og önnur samfélagsleg áföll
Greining á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í skipulagi almannavarna.
Fyrirlestur Herdísar Sigurjónsdóttur til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræðum
Sveitarfélögin gegna lykil hlutverki í samfélaginu og sinna stórum hluta opinberrar þjónustu við íbúana. Eftir hamfarir eins og jarðskjálfta eða snjóflóð bregst kerfi almannavarna við og fjöldi ólíkra viðbragðsaðila starfar á áfallasvæðinu. Leit og björgun og aðhlynning slasaðra hafa forgang. Meðan hjálparlið er að störfum á slysavettvangi, sinnir sveitarfélagið margs konar þjónustu við þolendur s.s. hreinsun og viðgerðum, húsnæðisaðstoð og annarri félagslegri aðstoð og ráðgjöf, eftir eðli áfallsins.
Þessi rannsókn beindist að stjórnsýslu sveitarfélaga og viðbrögðum vegna náttúruhamfara og annarra samfélagsáfalla. Gerð var almenn lagagreining á hlutverki ríkis, sveitarfélaga og annarra lykilviðbragðsaðila í skipulagi almannavarna. Jafnframt voru verkferlar og viðbragðsáætlanir skoðaðar og fléttaðar saman við hið raunverulega hlutverk sem greining hefur sýnt að sveitarfélög gegni eftir hamfarir. Höfundur kom að aðstoð við sveitarfélög á Suðurlandi eftir jarðskjálftana 29. maí 2008 og nýttist sú reynsla í verkefninu. Aðferðum verkefnisstjórnar og gæðastjórnunar var beitt við alla þætti verkefnisins og notaði höfundur m.a.hugkort við greiningu og framsetningu niðurstaðna.
Lagagreiningin var jafnframt hluti af rannsóknarverkefninu Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum (LVN)". Lokaafurð þess verkefnisins voru leiðbeiningar fyrir starfsmenn sveitarfélaga um viðbrögð í kjölfar náttúruhamfara, sem þagar hafa verið nýttar af sveitarfélögum á Suðurlandi.
Niðurstaðan sýnir að starfsemi sveitarfélaga er í raun ekki hluti af skipulagi almannavarna, nema hvað almannavarnanefndir varðar. Almannavarnanefndir eru skipaðar af sveitarstjórnum og eru eru lögum samkvæmt ábyrgar fyrir gerð viðbragðsáætlana, sem fyrst og fremst lúta að stjórnun og samhæfingu við leit og björgun á fólki og allra fyrstu viðbrögðum. Þær áætlanir ná ekki til starfsemi sveitarfélaga og nærþjónustu sem þau veita þolendum eftir náttúruhamfarir og önnur áföll.
Meistaraverkefnið hefur hlotið góðar undirtektir sveitarstjórna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Það gefur vísbendingu um að fullur áhugi sé meðal aðila um að bæta viðbragðskerfið og tryggja þátttöku sveitastjórna í stefnumótun málaflokksins og bæta raunverulegu hlutverki sveitarfélaga við skipulag almannavarna.
Leiðbeinendur:
Guðrún Pétursdóttir framkvæmdastjóri stofnunar Sæmundar Fróða
Gunnar Stefánsson prófessor í iðnaðarverkfræði
Páll Jensson prófessor í iðnaðarverkfræði
Fyrirlesturinn er opinn öllum
Staðsetning viðburðar: Askja Nánari staðsetning: stofa 132
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú ert svo dugleg gullið mitt. Gangi þér allt í haginn
Ásdís Sigurðardóttir, 5.2.2009 kl. 21:54
þetta var rosalega flott hjá þér reyndu svo að slappa af og hvíla þig aðeinssjáumst
Guðrún Indriðadóttir, 5.2.2009 kl. 23:03
Ert bara flott í þessu. Vonandi hafa stjórnendur sveitafélaga vit á að nýta sér svona sérþekkingu í náinni framtíð.
Marinó Már Marinósson, 6.2.2009 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.