Ég ætla að bjóða mig fram til setu í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins
7.2.2009 | 12:27
Ég er búin að taka ákvörðun um að bjóða mig fram til setu í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á næsta landsfundi. Á síðasta landsfundi velti ég þessu fyrir mér og ákvað að bjóða mig fram næst. Svo var landsfundinum flýtt eins og flestir muna og þá gaf ég þetta upp á bátinn því ég var á kafi í meistararitgerðarskrifum. En í lok febrúar verð ég orðin meistari í umhverfis- og auðlindafræðum og því ekkert að vanbúnaðir að láta reyna á miðstjórnarkosninguna í lok mars.
Ástæða þess að ég ætla að bjóða mig fram er vel ígrunduð og tel ég mig hafa ýmislegt fram að færa og ekki síst á þessum uppbyggingartímum sem eru framundan. Ég hef bæði góða reynslu af starfi í félagasamtökum, hef mikinn áhuga og þekkingu á ferlum og skipulagningu, hef góða menntun og er m.a. sérfræðingur í áfallastjórnun og endurreisn og síðast en ekki síst er ég mikil sjálfstæðiskona sem er tilbúin að leggja töluvert á mig til að endurskipuleggja og efla flokkinn minn.
Þegar ég hef nefnt þetta við fólk á undanförnum dögum segja flestir. Já en ætlar þú ekki bara að fara á Alþingi? ..... og finnst mér alltaf jafn merkilegt hvernig fólk horfir á pólitíska framabraut. Fyrst þátttaka í félagi ungra, svo þátttaka í nefndarstörfum, þátttaka í sveitarstjórn og efsta stig er seta á Alþingi og loks ráðherradómur. En ég lít ekki svo á. Það er vissulega göfugt að vera á Alþingi, ég er ekki að draga úr því en í mínum huga er ég nákvæmlega að sinna því sem ég hef mestan áhuga á sveitarstjórnarstiginu. Að skipuleggja nærþjónustu við íbúana og starfa fyrir bæjarfélagið mitt Mosfellsbæ. Það hef ég gert í rúm tíu ár og er alltaf að takast á við ný ögrandi verkefni með góðu samstarfsfólki bæði kjörnum fulltrúum og starfsmönnum.
En varðandi þingmennskuna er ég svo sem alin upp réttum megin Laugarvegarins á Siglufirði og ætti þar að leiðandi að eiga hafa möguleika á þingmennsku, ef litið er til allra þeirra þingmanna sem hafa búið Austan megin götunnar. En ég hef ekki séð Alþingisljósið ennþá.
Núna langar mig hins vegar til að vera virkari í flokksstarfinu. Ég vil leggja mitt af mörkum til að styrkja innra starf flokksins og tel að seta í miðstjórn sé rétti vettvangurinn. Ekki það að konur skorti í miðstjórn, en af ellefu miðstjórnarfulltrúum sem kosnir voru á síðasta landsfundi voru átta öflugar konur og því töluvert hærra hlutfall af estrógeni en testósteróni í þeim hópi, en þegar fastafulltrúarnir eru taldir með hafa karlar nú samt ennþá vinninginn.
Myndin sem fylgir er tekin af Sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ á síðasta landsfundi.
Öld testósterónsins lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert rétt kona í hlutverkið. Gangi þér vel.
Vilborg Traustadóttir, 9.2.2009 kl. 21:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.