Efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins: Landið verði leyst úr fjötrum
21.4.2009 | 23:20
Sjálfstæðisflokkurinn kynnti í dag viðamiklar tillögur sínar í efnahagsmálum. Tillögurnar hafa það að markmiði að leysa efnahagslífið - fyrirtæki og heimili - úr þeim efnahagslegu fjötrum sem fjármálakreppan hneppti það í síðastliðið haust.
Það er lífsnauðsyn að Ísland festist ekki í viðjum hafta og að sá sveigjanleiki sem efnahagslífið býr yfir verði ekki drepinn í dróma með afturhaldi og lyfleysum," segir í yfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins. Þar segir einnig að til að Ísland komist fyrr út úr fjármálakreppunni en önnur lönd þurfi að mynda það efnahagslega umhverfi sem geri heimilum og fyrirtækjum kleift að takast á við aðsteðjandi vanda. Það vilji Sjálfstæðisflokkurinn gera.
Jafnframt segir Sjálfstæðisflokkurinn nauðsynlegt að tekið verði á þeim vanda sem ríkisjóður glímir við vegna samdráttar í efnahagslífinu án þess að ráðstöfunartekjur heimilanna verði skertar með skattahækkunum.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður og dr. Tryggvi Þór Herbertsson hagfræðingur og þingmannsefni flokksins, kynntu tillögurnar á fundi í Valhöll síðdegis í dag.
Efnahagstillögurnar eru í níu liðum:
Tuttugu þúsund ný störf á kjörtímabilinu. Umhverfi fyrir ný störf verði myndað og orkulindir landsins nýttar með fjölbreyttum, orkufrekum iðnaði. Þetta verði gert með skattalegum hvötum, skynsamlegri efnahagsstjórn og samvinnu við atvinnulífið.
- Staða heimilanna verði bætt. Eitt mikilvægast verkefni stjórnvalda er að varðveita greiðsluvilja heimilanna. Það verður aðeins gert með því að létt verði af heimilunum þeim erfiðleikum sem verðbólga, háir vextir og gengisfall sköpuðu. Greiðslubyrði verði lækkuð tímabundið um 50%. Stimpilgjöld verði afnumin og hugað að höfuðstólsleiðréttingu lána.
- Rekstrarumhverfi fyrirtækja verði lagað. Gera þarf stjórnendum fyrirtækja kleift að endurskipuleggja skuldir fyrirtækja. Það þarf að laða að erlenda fjárfesta, veita skattaafslætti til, nýsköpunar, rannsóknar- og þróunarstarfs og endurvekja hlutabréfaafslátt til almennings.
- Efling atvinnulífsins er eina ábyrga leiðin til að lágmarka lánsfjárþörf ríkisins. Það þarf að auka skatttekjur án þess að leggja auknar byrðar á heimilin og það verður gert með myndun nýrra starfa. Jafnframt þarf að hagræða í opinberum rekstri án þess að skerða þá þjónustu sem ríkið veitir í velferðar-, heilbrigðis og menntamálum - það er forgangsmál.
- Hækkun skatta er versta meðalið til að örva efnahagslífið. Það þarf að endurreisa skattstofna og halda aftur af skattahækkunum.
- Bjóða þarf langtímalán án verðtryggingar og draga þannig úr verðtryggingu án þess að samningsfrelsi sé skert. Minnkandi vægi verðtryggingar eykur jafnræði milli lántakenda og lánveitenda.
- Bæta þarf lánshæfi Íslands og það verður aðeins gert með trúverðugri efnahagsáætlun fyrir landið, jafnvægi á rekstri ríkissjóðs og stöðugum gjaldmiðli.
- Stærð fjármálakerfisins þarf að miðast við þarfir íslensk efnahagslífs. Það þarf að hagræða í fjármálakerfinu og undirbúa skráningu banka á markaði. Endurskoða þarf reglugerðarumhverfi fjármálamarkaðar og umgjörð peningamála.
- Aflétta þarf gjaldeyrishöftum þannig að hagkerfið nái jafnvægi. Halda þarf krónunni sem gjaldmiðli um sinn en kanna möguleika á upptöku evru í samvinnu við AGS og sátt við ESB.
Með því að fylgja þessum tillögum má ná Íslandi upp úr hjólförunum og vernda það velferðarsamfélag sem hér hefur verið byggt.
Brýnasta verkefni stjórnmálanna í dag er að koma í veg fyrir að íslenskur almenningur verði hnepptur aftur í höft eftirstríðsáranna eins og nú er stefnt að," segja sjálfstæðismenn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frábærar tilögur og okkur mun vonandi ganga vel á Laugardaginn
Hilmar Gunnlaugsson, 23.4.2009 kl. 20:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.