7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ - nýtt utanvegahlaup

Sturla Sær on the top of Reykjafell Sturla í einni af tindagöngunum fjölskyldunnar

Nú styttist í fyrsta 7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ, en það verður haldið 13. júní nk. Hlaupaleiðin 35 km fyrir 7 tinda hlaupið, en einnig er hægt að velja sér styttri leið 17 km á 4 tinda. Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali, en aðeins er lítill hluti leiðarinnar í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ og verður gaman að sjá hlauparana bruna um hverfið sitt. Hér er kort af hlaupaleiðinni.

Skátafélagið Mosverjar á hugmyndina, Gunni Atla held ég og fengu þeir til liðs við sig Ella Níelsar, Mosfellsbæ, Björgunarsveitina Kyndil til að koma þessu í framkvæmd. Hér á bæ hafa skátar fjölskyldunnar gengið 7 tinda gönguna, sólarhringsgöngu á þessa tinda, en hlaupið er nýtt utanvegahlaup sem ég vona að verði vinsælt að hlaupa.

Eftirfarandi upplýsingar um hlaupið eru af Mosverjasíðunni.

Hlaupaleiðin 35 km. 7 tinda hlaupið

Hlaupaleiðin 35 km. 7 tinda hlaupið.
Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali. Aðeins lítill hluti leiðarinnar er í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er gegnum íbúðarhverfi að undirgöngum á vesturlandsvegi. Farið þaðan um skógræktarsvæðið við Hamrahlíð og hlaupið austur Úlfarsfellið með viðkomu á tindinum (1). Þaðan austur af fjallinu með stefnu á Hafravatn. Áfram áleiðis á Reykjaborg um Borgardal. Þegar komið er á Reykjaborg (2) er stefnan tekin norður af Reykjaborg, um Húsadal og yfir Varmá og uppá  Reykjafell (3). Þaðan er hlaupið niður í Skammadal og áfram uppá efsta hnjúk Æsustaðafjalls (4). Áfram suður eftir fjallinu og stefnan tekin austur að Torfdalsbrúnum og áfram upp á Hjálminn. Þaðan áfram í austur og alla leið á hæsta tind Grímmannsfells.(5) Farið síðan vestur á Flatafell og áfram niður að Hraðastöðum. Haldið síðan þvert yfir Mosfellsdal um Guddulaug og síðan vestur að Mosfellskirkju. Þaðan farið á Mosfellið. Fyrst í norður frá kirkjunni uns komið er upp fyrir öll gil, og þá sveigt til vesturs rakleiðis á hæsta hnjúkinn.(6). Farið síðan í suður niður af fjallinu og um bæjarhlaðið á Hrísbrú. Haldið áfram niður veginn og yfir Köldukvísl og Suðurá á brú. Síðan farið á Helgafell frá Skammadalsvegar og Þingvallavegar. Þegar Helgafellstindinum (7) er náð er farið suð-vestur af fjallinu og komið niður við Helgafell. Farið áfram gegnum Áslandshverfið og niðrá malbikaðan göngustíg meðfram Vesturlandsvegi. Þar farið um undirgöng  og eftir göngustíg áleiðis að íþróttamiðstöðinni við Varmá. Áfram haldið á göngustígum norður og vestur með Holtahverfi of Tangahverfi að golfvelli og síðan að Lágafellslaug í mark.

Hlaupaleiðin 17 km.  3 tinda hlaupið.

Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali. Aðeins lítill hluti leiðarinnar er í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er gegnum íbúðarhverfi að undirgöngum á vesturlandsvegi. Farið þaðan um skógræktarsvæðið við Hamrahlíð og hlaupið austur Úlfarsfellið með viðkomu á tindinum (1). Þaðan austur af fjallinu með stefnu á Hafravatn. Áfram áleiðis á Reykjaborg um Borgardal. Þegar komið er á Reykjaborg (2) er stefnan tekin norður af Reykjaborg, um Húsadal og yfir Varmá og uppá  Reykjafell (3). Þaðan er hlaupið niður í Skammadal, suður með Helgafelli og áfram gegnum Áslandshverfið og niðrá malbikaðan göngustíg meðfram Vesturlandsvegi. Þar farið um undirgöng  og eftir göngustíg áleiðis að íþróttamiðstöðinni við Varmá. Áfram haldið á göngustígum norður og vestur með Holtahverfi of Tangahverfi að golfvelli og síðan að Lágafellslaug í mark.

Skráning, skráningargjald og verðlaun

Gjaldið fyrir 35 km er 2.500 kr og fyrir 17 km er gjaldið 1.500 kr. Takmarkaður þátttökufjöldi og skráningu lýkur í síðasta lagi 10. júní. Skráning fer fram á hlaup.is

Verðlaun fyrir 3 fyrstu sæti karla og kvenna í báðum vegalengdum.

Aðrar upplýsingar

Mosfellsbær, Skátafélagið Mosverjar og Björgunarsveitin Kyndill halda hlaupið.
Þátttakendur séu komnir að Lágafellslaug minnst 30 mín fyrir hlaup.
Frítt er í Lágafellslaug að hlaupi loknu.
Drykkjarstöðvar verða á leiðinni.
Sperrun verður við Golfvöllinn í Mosfellsdal kl: 14.00 og hlaupurum ekið að Lágafellslaug.
Þátttakendur eru að öllu leiti á eigin ábyrgð í hlaupinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Aldeilis duglegt fólk þarna á ferð. Góða skemmtun

Ásdís Sigurðardóttir, 30.5.2009 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband