7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ
15.6.2009 | 21:12
Ég ákvað í gærmorgun að drífa mig út og horfa á hlaupahetjurnar leggja í 7 tinda hlaupið frá Lágafellsskóla. 37 kílómetra af þúfum og urð og grjóti utan síga og stendur þetta utavegahlaup því vel undir nafni. Um 30 manns fóru í 37 kílómetrana og um sjötíu fóru 17 kílómetra á fjóra tinda.
Það kom skemmtilega á óvart hvað ég þekkti margar hetjur, Stefán Gísla, Árni Birgis, Steffan arkitekt, Pétur, Ingi, Halla Karen og þrír Siglfirðinga þau, Biggi Gunnars, Ella Gísla og Óla Vals hlupu af stað þegar Haraldur bæjarstjóri ræsti hlaupið.
Þegar ég arkaði upp í skóla með myndavélina var ég á inniskónum, en fór samt með henni Döggu upp að Hafravatni til að sjá hlauparana koma niður af fyrsta tindinum, Úlfarsfelli. Þaðan lá leiðin í Skammadal og þar fór ég að hjálpa Vigdísi að brynna þyrstum hlaupurum, orkudrykkjum og vatni og eins fengu margir bananabita. Þar var fólkið á vegamótum og gat valið að fara 37 kílómetrana eða 17. Einhverjir hættu við að fara löngu leiðina, enda var hlaupaleiðin erfiðari en fólk átti von á. En flestir héldu áfram á tindana sjö.
Úr Skammadal fór ég að Hraðastöðum, en sá enga hlaupara, þeir voru ekki komnir niður af Grímannsfellinu. Ég fékk far með þeim mæðgum Vigdísi, Ingu og Eyrúnu og hittum við Gunna Atla við Suðurá og tók Inga Ævars við "brynningum". Það var síðasta stopp fyrir Helgafell og lokasprettinn í markið við Láfellsskóla.
Eins og keppendur endaði ég við markið við Lágafellsskóla. Þar kom hver keppandinn að fætur öðrum og voru allir sammála um að hlaupið hefði verið erfitt, en ótrúlega skemmtilegt. Það var þó greinilega of langt á milli stika á einhverjum köflum og því villtust einhverjir af leið, en "allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó". Nokkuð margir höfðu orð á því að þeir hefðu aldrei séð Mosfellsbæ fyrr og þá náttúrufegurð sem við Mosfellingar þekkjum svo vel.
Til hamingju Mosverjar með 7 tinda hlaupið, ég er viss um að það verður haldið að ári.
Hér eru myndir sem ég tók af hlaupurum og sérlegum sjálfboðaliðum hlaupsins.
Flokkur: Mosfellsbær | Breytt 3.1.2010 kl. 15:44 | Facebook
Athugasemdir
Þvílíkur dugnaður í þessu fólki
Ásdís Sigurðardóttir, 16.6.2009 kl. 11:52
Hæ Herdís
Ég hef boðið upp á hlaup á fellin í Mosó tengt bæjarhátíð síðustu ár. Regnbogahlaupið er á fellin fjögur. Gæti verið að þessi hugmynd að þessu hlaupi komi þaðan?
Ég merkti gönguleiðir á fellin fyrir fimm árum og sumt af því orðið góðir stígar í dag. Síðan er fer bærinn í samvinnu við skátana um merkingar á fellin. Hafði mín virkni áhrif á þann áhuga?
Það sem að ég skil ekki er hvers vegna mér er ekki boðin þátttaka í þessari vinnu sem er látin fylgja í kjölfar minnar vinnu. Foringi skátanna segir þetta samstarfsverkefni. En sennilega mega menn ekki vera virkir í Varmársamtökunum?
Með kærri kveðju,
G
Gunnlaugur B Ólafsson, 17.6.2009 kl. 12:09
Ég má nú til með að svara þessu.
Skátarnir fóru í sína fyrstu skipulögðu 7 tinda göngu fyrir 6 árum og þá var búið að skoða leiðina og ganga hana og spá mikið í gönguna. Ekki láta þér detta það í hug að hugmyndin sé þín hún er fullkomlega skátanna sjálfra.
Núna fóru skátarnir í sína 3 áheita 7 tinda göngu og var ákveðið að slá til hlaups einnig og þetta er allt hugmynd skátanna og fengum við Björgunarsveitina Kyndil til samstarfs í hlaupið, og það er einnig hugmynd skátanna.
Samstarf Mosverja og Mosfellsbæjar er eitthvað sem bæjarbúar eru að gleðjast yfir að fá vel merktar gönguleiðir sem haldið verður við og gert verður aðgengilegt göngukort einnig. Þessi hugmynd hefur blundað mjög lengi hjá skátunum og kom upp áður en fyrsta 7 tinda gangan var farin til að skýra það einnig.
Erlendur Örn Fjeldsted, 17.6.2009 kl. 16:35
Gott og vel. Það er nýlunda að það sé skipulagt opið hlaup, en ég veit af þessari göngu skátana. En mér er sagt að bæði undirbúningur þessa hlaups og líka merkingarnar séu "samstarfsverkefni". Það hlítur auðvitað að vekja tortryggni hjá mér, þó að slík hugarstemming sé ekki minn eðliseiginleiki, að í báðum þessum tilfellum sé gengið framhjá mér, þó ég sé sá einstaklingur sem að mestan bakgrunn hafi í málinu.
Bæjarbúar geta vel glaðst líka yfir framtaki mínu á sínum tíma og bæjarstjórn látið það njóta sanngirni. Meira að segja fékk ég stuðning frá íþrótta- og tómstundafulltrúa Mosfellsbæjar í fyrra til að endurbæta merkingar sem ég hafði áður sett upp. Nokkrum mánuðum síðar heyri ég af fyrirhuguðu samstarfi og fjárstuðningi við skátana. Geri ráð fyrir að halda áfram að viðhalda og merkja þær leiðir sem ég hef verið að byggja upp.
Það er búið að gefa tóninn að menn láti eins og þeir viti ekki að hinn aðilinn sé til, en það var ekki mín melódía.
Gunnlaugur B Ólafsson, 17.6.2009 kl. 17:27
Hæ Herdís
Já þetta var sannanlega frábært hlaup og vel að því staðið í alla staði, flott skipulag, góðar merkingar, skemmtilegt fólk á drykkjarstöðvunum (mikilvægt). Auðvitað má alltaf eitthvað betur fara enda ekki hægt að búast við því að allt sé fullkomið í fyrstu tilraun. Alveg ofboðslega erfitt og sennilega það erfiðasta sem ég hef gert og hef ég þó reynt ýmislegt. En Mosfellsbær ætti að grípa tækifærið á lofti og markaðssetja sig sem hlaupbæ með því að merkja hlaupleiðir og koma upp skiltum hér og þar með merktum leiðum og vegalengdum. Hlaupaleiðirnar hér í kring eru frábærar og örugglega öfundsverðar.
kveðja BG
Biggi Gunnars (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.