Ríkisstjórnin samþykkti í júní frumvörp dómsmálaráðherra um persónukjör í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og voru þau send stjórnarþingflokkunum til afgreiðslu. Ég sá á málalista ríkisstjórnarinnar að þetta mál er eitt af forgangsmálunum, og stefnt er að því að málið verði afgreitt á haustþinginu. Enda var Steingrímur J. búinn að segja að hann vildi prufukeyra það á sveitarstjórnarkosningunum, okkur sveitarstjórnarmönnum til mikillar hrellingar, enda hefur verulega skort á kynningu og umræðu um málið.
Persónukjörskerfið sem er til umfjöllunar er að írskri fyrirmynd. Með þessum breytingum er hvorki hróflað við listakosningu né hlutfallskosningakerfinu hér á landi og eftir sem áður getur kjósandinn aðeins valið einn stjórnmálaflokk.
Þar er lagt til að kjörseðillinn verði tvískiptur. Efri hluti framboðslistans er óraðaður. Eru nöfn þeirra sem boðnir eru fram til persónukjörs raðað í stafrófsröð en varpa skal hlutkesti um hver skuli vera efstur. Kjósandinn getur raðað frambjóðendum þess lista sem þeir merkja við, í þá röð sem þeir vilja á svipaðan hátt og tíðkast í prófkjörum.
Neðri hluta listans skipa frambjóðendur sem boðnir eru fram með sama hætti og við þekkjum. Geta stjórnmálaflokkar ráðið með hvaða hætti þeir raða listanum. Þeir geta notað prófkjör, forval, uppstillingu eða hvaða leið sem þeir kjósa. Fjöldi frambjóðenda getur verið breytilegur, allt frá því að engir séu boðnir fram í hin röðuðu sæti til þess að sætin séu fullmönnuð.
Persónukjörið og röðun kjósandans á efri hluta listans hefur því áhrif á það hvaða frambjóðendur hreppa þau sæti sem listinn fær í viðkomandi sveitarstjórn, en neðri hluti listans er í raun aðeins leiðbeinandi fyrir kjósandann. Einnig sá ég að yfirstikanir eins og við þekkjum í dag munu ekki gilda lengur.
Þrátt fyrir að þetta mál sé á dagskrá á haustþingi sýnist mér sveitarstjórnarmenn ekki ganga út frá því að það verði samþykkt fyrir kosningar næsta vor. Persónulega sé ég það sem ókost að hafi ekki oddvita í kosningabaráttunni, enda heyrist mér líka fólk vera að fara hefðbundnar leiðir í vali á lista eins og áður og verður fyrsta prófkjörið hjá Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi haldið í byrjun nóvember.
Ekki hef ég á móti lýðræðisumbótum og síður því að kjósendur hafi meira að segja um röðun á listum, en ég sé það bara ekki gerast með þessum breytingum. Ég er verulega hugsi yfir þessum boðuðu breytingum sem mér finnst ekki hafa fengið nægilega umfjöllun eða umræðu í samfélaginu.
Er núverandi kosningakerfi svo slæmt? Er gjörsamlega ómögulegt fyrir fólk að hafa áhrif á röðun fólks á lista? Er kosningaþátttaka slæm? Svarið er nei og sýnist mér þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar því miður fyrst og fremst vera til að breyta, breytinganna vegna. Af hverju var til dæmis ekki valið að ganga alla leið og leyfa kjósendum að velja á listann sinn fólk úr öllum flokkum?
Ég fór til Bandaríkjanna í sumar og var verið að kjósa til borgarstjórnar og ræddi ég kosningar við marga heimamenn og setti mig inn í málefnin og las leiðbeiningarnar fyrir þá sem ætluðu að kjósa. Um var að ræða töluvert flókið ferli, enda var lítill áhugi og kosningaþátttaka dræm. Ég vona að þróunin verði ekki svona hérna á Íslandi. Hér klæða flestir sig upp og mæta á kjörstað og kjósa þann flokk og fólk sem það treystir til að vinna fyrir sig og með sér að framförum í samfélaginu á hverjum tíma.
Hvernig sem meðferðin verður á persónukjörsfrumvarpinu á Alþingi þá vona ég að okkur auðnist að hafa kosningar á Íslandi þannig að kerfið verði ekki svo flókið að fólk treysti sér ekki til að kjósa og eins hitt að fólk sjái tilganginn í því að kjósa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:05 | Facebook
Athugasemdir
Það er mög í tísku að gagnrýna flokka og flokksræði en ég er ekki viss um að sú gagnrýni sé á rökum reist því flokkarnir eru upphugsaðir til að veita hugmyndumfólks brautargengi, Ef ég skil þetta rétt dregur þetta kerfi úr vægi prófkjörna eða lýðræðislega kjörinna kjörnefnda.
Sigurður Þórðarson, 11.10.2009 kl. 12:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.