Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2010

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2010 var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn 16. desember sl. og var hún unnin sameiginlega af öllum flokkum í bæjarstjórn líkt og gert var fyrir árið 2009.  Eðlilega eru mismunandi áherslur hjá flokkum og hefðum við örugglega hvert og eitt viljað hafa sumt öðruvísi en reyndin varð. Að mínu mati er mjög jákvætt að okkur tókst að ná sameiginlegri niðurstöðu.

Fjárhagsleg staða Mosfellsbær er vissulega betri en margra sveitarfélaga í landinu og má það fyrst og fremst þakka ábyrgri fjármálastjórn og innleiðingu nýrra vinnubragða við fjárhagsáætlunargerð á undanförnum árum. Mikil skuldsetning er að sliga mörg sveitarfélög í landinu og því kemur sér vel nú að frá því árinu 2002 hefur markviss verið unnið að því að minnka skuldir Mosfellsbæjar. Það auðveldar róðurinn.

Megináherslur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010 eru að standa vörð um fjölskyldur og velferð en jafnframt að bjóða áfram upp á góða þjónustu í Mosfellsbæ.  Takmarkið er að halda áfram að byggja upp okkar samfélag þrátt fyrir erfitt árferði.

Rekstrarforsendur sveitarfélagsins eru gjörbreyttar, og þarf að bregðast við lægri tekjum sem og hækkun kostnaðar og launa. Rekstrargjöld hafa nánast staðið í stað frá árinu 2008 þrátt fyrir mikla verðbólgu og hafa því lækkað að raungildi. Áhersla er lögð á hagræðingu í rekstri, frekar en hækkun gjaldskrár vegna þjónustu í grunn- og leikskólum og skerðingu styrkja. Auk þess sem aðhalds verður gætt í rekstri líkt og undanfarin ár.

Í fjárhagsáætluninni er gert er ráð fyrir að skatttekjur lækki að raungildi milli ára. Þrátt fyrir það verði veltufé frá rekstri jákvætt um 86 mkr og áætluð rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 3,5 mkr. Heildartekjur A og B hluta bæjarsjóðs Mosfellsbæjar á árinu 2010 eru áætlaðar 4.612 mkr. en gjöld án fjármagnsliða áætluð 4.190 mkr.  Rekstrarafgangur án fjármagnliða er áætlaður 423 mkr., fjármagnsliðir er 425 mkr. og því rekstrarniðurstaða samstæðunnar neikvæð um 2 mkr.

Útsvarsprósenta verður 13,19% og er enn 9 punktum undir leyfilegu hámarksútsvari, sem er sama bil og árið á undan. Útsvarstekjur eru áætlaðar 2.682 mkr. sem er hækkun um 2,7% milli ára.

Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 460 mkr. aukning um tæpar 2 mkr frá fyrra ári vegna fjölgunar íbúða. Álagningahlutfall fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis er óbreytt en fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði verður leiðréttur sem nemur lækkun fasteignamats.

Samantekt um áherslur í fjárhagsáætlun ársins 2010:

  • Að standa vörð um skóla- og æskulýðsstarf og að forgangsraðað verði í þágu barna og velferðar.
  • Að þjónustugreiðslur barnafjölskyldna í leik- og grunnskólum verði óbreyttar og lækki því að raungildi.
  • Að óhjákvæmilegri hagræðing í rekstri skóla og leikskóla verði gerð með góðri samvinnu forstöðumanna og starfsfólks skólanna hefur tekist að takmarka eins og hægt er áhrifin af því á nemendur og barnafjölskyldur.
  • Að áhersla verði lögð á að hagræðing í rekstri komi ekki niður á félagsþjónustu bæjarins og bætt verði í þann málaflokk til að koma til móts við aukna þörf.
  • Að aukin hagræðingarkrafa verður gerð á yfirstjórn sveitarfélagsins, sem og stjórnunardeildir stofnana. Starfsfólk Mosfellsbæjar tekur að sér aukin verkefni auk þess sem áhersla er á enn frekara samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná sem mestri hagræðingu.
  • Að samkomulag sem gert var við æðstu stjórnenda um 6-7% lækkun launa 2009 gildi áfram, auk þess sem gert er ráð fyrir sérstöku átaki í lækkun starfstengds kostnaðar.
  • Að niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum skerðist ekki.
  • Að heimgreiðslur til foreldra ungra barna skerðist ekki.
  • Að styrkir til íþróttafélaga vegna barna og unglingastarfs aukist um 15% á milli ára, sem er til marks um þá áherslu sem lögð er á að leggja rækt við barna og unglingastarf í Mosfellsbæ.
  • Að stuðla að áframhaldandi samstarfi frístundaselja við íþróttafélög um þróun Íþróttafjörs, samþættingar íþrótta- og tómstundstarfs fyrir yngstu grunnskólanemendur, en Íþróttafjörið sem hófst í haust hefur stuðlað að þróun heildstæðs skóladags fyrir börn og fjölskyldur sem hefur verið markmið Mosfellsbæjar í mörg ár.
  • Að frístundaávísun verði ekki skert.
  • Að Krikaskóli verði tekinn í notkun snemma á næsta ári.
  • Að hafist verði handa við byggingu nýs framhaldsskóla í miðbæ Mosfellsbæjar í samvinnu við ríkisvaldið.
  • Að hafist verði handa við byggingu hjúkrunarheimils að Hlaðhömrum í samvinnu við Eir og ríkisvaldið. Í tengslum við þá framkvæmd verður byggð félagsaðstaða fyrir aldraða.
  • Að hagræða í viðhaldsverkefnum og forgangsraðað út frá öryggissjónarmiðum og brýnni þörf.
  • Að ábyrgðar verði gætt í forgangsröðun framkvæmda og ekki verði hafnar stærri framkvæmdir sem unnt er að bíða með en lögð áhersla á minni mannaflsfrekar framkvæmdir.
  • Að veltufé frá rekstri sé jákvætt og að afkoma bæjarins verði í jafnvægi.
  • Að álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði breytist ekki, en leiðrétt verður álagning á atvinnuhúsnæði sem nemur lækkun fasteignamats.

Lítil teikn eru á lofti um að ástandið í samfélaginu breytist til batnaðar á næstu árum og ríkir mikil óvissa. Því er enn mikilvægara en áður að gera áætlanir með það í huga, að gæta aðhalds í rekstri og forgangsraða í þágu velferðar íbúa. Það var takmark allra þeirra fjölmörgu sem komu að gerð fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar fyrir árið 2010 og er það von mín að með góðri samvinnu muni það takast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband