Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
Snjóflóð og snjóflóðavarnir á Íslandi
23.3.2007 | 12:46
Náttúruhamfarir eru algengar á Íslandi, landi elds og ísa eins og oft er sagt. Búið er að reisa fjölmarga snjóflóðavarnargarða undanfarinn áratug eða svo á þeim svæðum á landinu sem hætta stafar af snjóflóðum og sá ég í blöðunum að í júní hefjast framkvæmdir við slíkan garð á Bolungarvík og þurfa íbúar þá ekki lengur að rýma hús sín í hættuástandi. Heyrst hafa gagnrýniraddir um að verið sé að byggja rándýra varnargarða fyrir nokkrar hræður, betra sé að flytja fólki í blokk á höfuðborgarsvæðinu, en það fólk þekkir yfirleitt málið ekki af eigin raun.
Áhugi minn á snjóflóðamálum og náttúruhamförum hefur lengi verið fyrir hendi og er sjálfsagt engin tilviljun að ég starfa við þessi mál í dag og hef lagt megináherslu á náttúruhamfarir í framhaldsnámi mínu í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ. Ég held að ein ástæðan þessa áhuga sé eflaust sú að ég hef alltaf verið mikið náttúrubarn, Siglfirðingur og alin upp í sjómannasamfélagi þar sem hafið tók sinn toll og á fólk bjó við snjóflóðaógn á vetrum. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir náttúruöflunum, sem eru svo kraftmikil og óútreiknanleg, en þótti mér alltaf jafn spennandi þegar það komu jarðskjálftar á Siglufirði. Fjörðurinn er svo þröngur að drunurnar fyrir skjálftann voru eins og þegar vörubíll keyrði eftir Laugarveginum og svo á eftir kom skjálftinn sjálfur.
Snjóflóð hafa valdið miklum mannskaða á Íslandi í gegnum aldirnar. Ég man þegar ég var krakki og heyrði sögu af hræðilegu snjóflóði við Siglufjörð, á Siglunesi þar sem 50 manns fórust á leið til kirkju á aðfangadegi á 17. öld og er það trúlega mannskæðasta snjóflóð hér á landi. Önnur saga sagði frá flóðum sem féllu í Siglufirði í byrjun 20. aldar og fórust alls 18 manns í þeim flóðum. Snjóflóð hafa tekið um það bil 200 mannslíf á hverri öld og sá ég í heimildum að frá upphafi byggðar á Íslandi hafi um 700 íslendingar farist í snjóflóðum. Á tuttugustu öld fórust samtals 193 af völdum snjóflóða of þar af 69 eftir 1974. Ég man eftir snjóflóðum í Neskaupsstað 1974, á Patreksfirði og svo í Súðavík og Flateyri 1995. Þessi mannskæðu flóð hafa skilið eftir sig hræðileg ör og er vart hægt að ímynda sér þjáningar þeirra fórnarlamba, aðstandenda og björgunarmanna sem komu björgunarstarfinu. Það má þó með sanni segja um okkur Íslendinga að við stöndum saman og sýnum samhug þegar á reynir.
Eins og ég sagði fyrr þá er ég alin í Siglufirði og man ég eftir mörgum snjóflóðum sem féllu og stundum fóru skíðalyfturnar. Flest flóðin fékku utan byggðar, en líka í byggð og þá sérstaklega syðst við Suðurgötuna, sem er gatan fyrir ofan Laugarveginn þar sem ég átti heima. En á þeim stað er risinn fallegur snjóflóðavarnargarður og annar til og eru þeir nefndir Stóriboli og Litliboli og hefur marg oft reynt á þessa varnargarða. Fyrir ofan bæinn er nú verið að reisa mikil snjóflóðavarnarmannvirki sem eiga eftir að auka öryggi bæjarbúa enn frekar.
Ég hugsaði ekki mikið út í afleiðingar flóðanna sem barn, en eftir því sem maður eldist og skoðar málin þá má telja kraftaverk að ekki hafi orðið mannskaðar í þessum snjóflóðum. Eitt sinn fór flóð í gegnum tvö hús og stofu annars hússins og man ég að tilviljun ein réð því að börnin á heimilinu voru ekki stödd í stofunni. Þessi hús hafa alltaf síðan verið kölluð snjóflóðahúsin. Í annað sinn féll stórt snjóflóð og sópaði það með sér eina leikskóla bæjarins í sjó fram og man ég eftir braki af rólum og ruggum um svæðið. Þetta flóð féll að kvöldi til og þarf ekki að fara neitt frekar út í afleiðingarnar ef flóðið hefð fallið um hábjartan dag og leikskólinn verið opinn og fullur af börnum. Ég man líka eftir flóði og trúlega var það sama flóðið, sem fór á hænsnahús og drap megnið af hænsnunum og í minningunni var fólk um allt að bjarga hænum úr snjónum.
En þegar ég les fréttir af rýmingum vegna flóðahættu eins og í morgun þá er ég fegin að þessi ógn hangir ekki lengur yfir bæjarbúum í Siglufirði eða Fjallabyggð, sem stendur svo sannarlega undir nafni. Ég verð líka enn fengnari þegar búið verður að reisa varnargarðana í Bolungarvík og á þeim stöðum þar sem þörf er fyrir byggingu slíkra varnargarna til að beina ofanflóðum frá byggð.
Barnaverndarmál og brot á börnum
22.3.2007 | 13:44
Að mínu mati er margt sem veldur þessari aukningu í tilkynningum til yfirvalda og er þarna um jákvæða þróun að ræða. Þá er ég ekki að meina að jákvætt sé að verið sé að brjóta meira á börnum síður en svo, ég held nefnilega að það sé ekki raunin heldur að um sé að ræða betri skráningu og aukna meðvitund og ábyrgð allra í samfélaginu. Sem fyrrverandi formaður fjölskyldunefndar á árunum 2002 - 2006 og bæjarfulltrúi frá 1998 þá hef ég greinilega orðið vör þessa vakningu. Fólk er nærri hætt að tala um kærur og talar frekar um tilkynningar, en skv. barnaverndarlögum ber okkur, hvort sem við störfum með börnum eða erum almennir borgarar, að tilkynna til barnaverndaryfirvalda ef við verðum vitni að brotum á börnum. Tilkoma Barnaverndarstofu og aukin samvinna milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisstofnana og skóla hefur haft jákvæð áhrif svo ekki sé talað um aukna vitund barnanna sjálfra um þeirra rétt og möguleika til tilkynningar ef á þeim er brotið. Í Mosfellsbæ hefur jafnan verið hlutfallslega hátt hlutfall tilkynninga á landsvísu. Er það ekki vegna þess að í bænum sé allt í hers höndum, heldur vegna þess að öll brot fá sömu meðhöndlun. Þetta er eins og t.d. með brot á útivistarareglum. Börnin eru boðuð í viðtal ásamt foreldrum og forráðamönnum og brotið rætt. Langflestir eru ánægðir með þetta vinnulag og eins og áður sagði er þá er þetta fyrst og fremst hugsaði sem forvörn, sem gefist hefur vel og eins er um góða samvinnu við lögregluna í málefnum barna að ræða.
Að mínu mati var risa stórt skref var stígið þegar 112 númverið virkjað til barnaverndatilkynninga. Nú er fólki gefinn kostur á að tilkynna í gegnum 112, eitt númer fyrir landið allt og á það klárlega einhvern þátt í fjölgun tilkynninga. Neyðarnúmerið 112 var m.a. verið kynnt í skólum og hanga uppi veggspjöld sem minna á þetta og eru börn mun meðvitaðari eins og ég var áður búin að nefna. Barnaverndaryfirvöld eru náttúrulega ekki Grýlur heldur yfirvöld sem gæta hagsmuna barna samkvæmt lögum og er mikilvægt að við höfum það ávalt í huga þegar við verðum þess áskynja að verið er að brjóta á börnum. Það er betra að tilkynna og láta kanna málið, en sitja uppi með það alla tíð að hafa ekki tilkynnt, þess bera fréttir liðinna vikna glöggt vitni. Við erum jú að tala um börnin okkar.
Hér fyrir neðan er fjóðrði kafli barnaverndarlaga sem fjallar um m.a. tilkynningaskyldu og nafnleynd.
Barnaverndarlög.
IV. KAFLI
Tilkynningarskylda og aðrar skyldur við barnaverndaryfirvöld.
16. gr.
Tilkynningarskylda almennings.
Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.
Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða.
17. gr.
Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.
Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.
Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.
Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
18. gr.
Tilkynningarskylda lögreglu og skýrslutaka af börnum.
Ef lögregla verður þess vör að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu skal hún tilkynna barnaverndarnefnd um það. Þegar grunur leikur á að refsiverður verknaður hafi verið framinn annaðhvort af barni eða gegn því skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins. Barnaverndarnefnd skal tilkynna foreldri barns um slíkt mál mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því.
Um skýrslutökur af börnum sem brotaþolum, sakborningum eða vitnum í opinberum málum, hvort heldur sem er á rannsóknarstigi eða við meðferð máls fyrir dómi, gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mála og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim.
19. gr.
Nafnleynd tilkynnanda.
Hver sá sem tilkynnir til barnaverndarnefndar skal segja á sér deili.
Ef tilkynnandi skv. 16. gr. óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ákvörðun barnaverndarnefndar um nafnleynd er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála. Leiðbeina skal tilkynnanda um rétt hans til að kæra ákvörðun barnaverndarnefndar.
Ákvæði 2. mgr. um rétt til nafnleyndar á ekki við um tilkynnendur skv. 17. og 18. gr.
Mosfellsbær | Breytt 27.3.2007 kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Umhverfisumræða á villigötum
21.3.2007 | 15:23
Mikið hefur verið rætt um Framtíðarlandið og sáttmálann góða. Ég á eftir að kynna mér hann og ætla að nota daginn í dag, en er ljóst að ég skrifa ekki undir með neinum fyrirvara. Það er kannski erfitt fyrir mig að fjalla meira um sáttmálann þar sem ég hef ekki lesið hann, en mun ég fjalla um það seinna.
Það er mín skoðun að umhverfisumræðan sé komin út í tóma vitleysu og er fólk farið að slá fram einhverjum frösum án innistöðu, sem bendir líka til góðra áróðursmeistara innanborðs og að "markaðs"setning sé í lagi. Svona eins og fyrir 20 árum þegar Theresa mágkona ætlaði að ættleiða hval hjá ákveðnum náttúruverndarsamtökum...bara af því bara. Annað dæmi um þetta er t.d. þegar Varmársamtökin fóru að mótmæla 500 m löngum tengivegi sem leggja á fyrir ofan Álafosskvosina sem verið hafði á skipulagi í áratugi. Nú þegar komið var að lagningu brautarinnar sem eðlileg tenging við Helgafellshverfið sem er að rísa fyrir ofan, varð allt brjálað. Bæjaryfirvöld höfðu algjörlega farið að öllum leikreglum,og hef ég áður skrifað um það mál og áhugasamir geta lesið það hér. Meðan á þessu stóð hafði fólk um allt land skoðun á málinu og heyrði maður ítrekað og las...."tengibrautinni sem átti að leggja í GEGNUM Álafosskvosina" , sem er náttúrulega algjör vitleysa...tengibrautin er fyrir OFAN kvosina. Dag eftir dag heyrði maður umfjöllun um þetta mál og best þótti mér samt þegar talað var um Álafosskvíslina í fréttatíma eftir fréttatíma.....sem átti víst að vera Varmáin held ég við Álafosskvosina. Aðrir töluðu um að þetta svæði væri í Mosfellsdalnum og enn aðrir grétu jafnvel í beinni fyrir framan gröfur og höfðu sterkar fullmótaðar skoðanir á þessum umhverfisspjöllum .... en vissu lítið sem ekki neitt um málið og af hverju þau voru á móti.
Ég er svolítið hugsi yfir þessari umhverfisumræðu. Maður hefur heyrt ótrúlegustu fullyrðingar undanfarið og er algengt að fólk tali um að við sjálfstæðismenn höfum ekki áhuga á umhverfismálum. Hvað er verið að tala um? Hvað er að hafa áhuga á umhverfismálum?
Er það að:
- hætta að virkja fallvötnin?
- byggja ekki nein álver og því síður kjarrorkuver?
- hætta að veiða fisk og hval?
- hætta að yrkja jörðina og leggja niður búskap í sveitum landsins?
- leggja ekki nýja vegi og brýr?
- byggja ekki jarðgöng?
- sleppa því að malbika, ólíunnar vegna
- byggja ekki ný íbúahverfi á fyrrum landbúnaðarsvæðum?
Ég spyr mig, því ef svo er þá þakka ég fyrir að Jón Þorláksson landsverkfræðingur og stofnandi Sjálfstæðisflokksins var ekki í þeim hópi. Því ef svo hefði verið þá værum við enn keyrandi um í kindaslóðum og sætum enn atvinnulaus með sultardropa í nefinu, hóstandi í kolarykinu (talandi um svifryk). Það má vel vera að einhverjir segi sem svo að um útúrsnúning sé að ræða, en með þessum orðum er ég að undirstrika það að fólk þarf að horfa á hlutina í samhengi, við viljum jú flest halda landinu í byggð. Það er ekkert sjálfgefið að við Íslendingar höfum það eins gott og raun ber vitni.
Einn frasinn sem svífur yfir vötnunum þessa dagana er að það eigi að virkja hugvit manna, en ekki náttúruna. Já einmitt, við Íslendingar eigum að halda áfram að virkja hugann og þá gríðarlegu þekkingu og áratugareynslu sem við höfum á nýtingu á hreinni orku og gefur nýji umhverifs- og auðlindaháskólinn á Keflavíkurflugvelli Íslendingum aukin tækifæri á heimsvísu. Í mínum huga þá verðum við að horfa á stóru samfélagsmyndina og muna að hlutirnir eru ekki bara gráir eða grænir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Leikskólar Mosfellsbæjar opnir á sumrin
20.3.2007 | 11:16
Mosfellsbær | Breytt 27.3.2007 kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir og jafnréttismál
19.3.2007 | 11:24
Dagur 1. kæru bloggvinir
Það er mjög sérstakt fyrir mig sem nú ætti að vera búin að fara í tímana mína í háskólanum og komin í vinnuna að liggja á mánudagsmorgni uppi í rúmi og hafa ekki leyfi til að gera neitt annað en að hlusta á útvarpið og blogga .....og það samkvæmt læknisráði (hann reyndar nefndi ekki bloggið sérstaklega). Þeir sem þekkja mig vel vita að ég nærist á því að lesa fréttir, hlusta á fréttir og skrifa og því væri þetta draumastaðan ..... en við sjáum hvernig málin þróast og hvort 6 vikna daglegt blogg færir mér fleiri eða færri bloggvini.
En að máli dagsins.
Í morgunþætti Heimis og Kollu á Bylgjunni var verið að tala um jafnrétti og kynjakvóta. Ég verð alltaf jafnhissa á þessari umræðu og hef margoft skrifað um þetta mál, enda kona með mjög sterka réttlætiskennd. Ég held að bæði kynin þurfi að viðurkenna að munur er á kynjunum, við konur þurfum að trúa því sjálfar að við getum gert allt það sem við viljum gera og gildir það sama um karla. Það dylst engum sem les söguna að konur hafa haft á brattann að sækja í jafnréttismálum, jafnt á Íslandi sem í öðrum löndum og hafa rannsóknir sýnt að hér á landi er enn nokkuð í land í launamálum. Ég hef oft velt þessu máli fyrir mér. Hvað er það í okkar samfélagi og viðhorfum til starfa sem veldur þessu, gæti verið að launaleyndin hefði einhver áhrif? Mikið var rætt um það í tengslum við jafnréttisfrumvarpið um daginn og voru m.a. rök Vilhjálms Egilssonar hjá SA og fleirum sem sögðu að ef launaleynd yrði afnumin færi allr í bál og brand. Það myndi leiða til þess að allir lækkuðu í launum og ekki væri lengur hægt að umbuna góðum starfsmönnum bíddu . ætti þetta ekki einmitt að leiða til hins gagnstæða? Í það minnsta kaupi ég ekki þessi rök. Ég sé samt það samt í hendi mér að kostar meiri vinnu fyrir yfirmenn fyrirtækja, af hvaða kyni sem þeir kunna að vera. Þeir verða að vita upp á hár fyrir hvað verið er að umbuna og þurfa náttúrulega að standa og falla með sínum ákvörðunum. Hin rökin um að þetta leiði til lélegs mórals á vinnustöðum þá hef ég líka skoðun á því. Ég tel að það verði klárlega aukin meðvitund meðal starfsmanna um árangustengingu í starfi sem leiði til samkeppni, en við sem höfum púlað í bónus í frystihúsi vitum að þannig er hægt að auka framleiðni og fólk veit þá hvað það er sem skilar fleiri krónum í launaumslagið ... hver vill það ekki?
Nýliðun í þingmannaliðinu
18.3.2007 | 13:37
Í nótt lauk 133. löggjafarþingi og þingfundum frestað fram á sumar, eða fram yfir þingkosningar sem fara fram 12.maí næstkomandi.
Fjölmargir þingmenn voru kvaddir að þessu sinni og því ljóst að margir nýliðar verði í þingmannahópnum eftir kosningar. Að baki þessa fóks sem nú senn hættir liggja mörg þingmál og ráðherradómur þar á meðal er fyrsti umhverfisráðherra okkar sjálfstæðismanna, hún Sigríður Anna Þórðardóttir sem vann að mörgum góðum málum í umhverfisráðuneytinu, sem sum hver eru að verða að veruleika núna. Margir eiga líka örugglega eftir að sakna Halldórs Blöndal, sem er dáður í sínu kjördæmi og fylgdi málum fast eftir.
Það hafa mörg mál verið afgreidd á þessu þingi og mörg orðið að lögum á liðum dögum. Ég var að vona að ný lög um almannavarir litu dagsins ljós, en munu þau bíða haustsins og vonandi mun Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra verða sá sem fylgir því máli eftir. Það var skondið að fylgjast með alþingi í gær .... stjórnarandstöðuþingmenn kepptust við að vera með skoðanir á þeim málum sem biðu atkvæðagreiðslu.. í þeim eina tilgangi að geta komist að í umræðunni og lýst því yfir að kominn væri tími til að hvíla ríkisstjórnina og þegar þau næðu völdum yrði nú tekið á málunum með öðrum hætti en nú er gert og barnafólk, sjúkir, fátækir, atvinnulausir, aldraðir.......... bara öll íslenska þjóðin aftur átt glaðan dag ...right...ég velti því nú bara fyrir mér hvað það tæki vinsti menn langan tíma að koma ríkisskútunni á hliðina ef þeir næðu völdum.
Nú fer kosningabaráttan að hefjast fyrir alvöru og senn kemur í ljós hvaða kosningamál verða efst á baugi (með litlu B-i). Það verður líf og fjör í baráttunni í Kraganum. Í dag eru 5 sjálfstæðisþingmenn og eru aðeins tveir af þeim fimm sem eru í dag sem halda áfram og því mikil nýliðun. Í næstu kosningum verður einum þingmanni bætt við í Kraganum og spái ég því að það verði sjötti sjálfstæðisþingmaðurinn og Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Ef ég reynist sannspá þá geta þeir sem lýst hafa yfir áhyggjum sínum af skoðanaleysi alþingismanna og lognmollu á alþingi andað léttar.
![]() |
Fundum Alþingis frestað fram á sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mosfellsbær lækkar verð skólamáltíða í leik- og grunnskólum
6.3.2007 | 21:27
Ég var að koma af fundi fræðslunefndar þar sem lagt var til við bæjarráð að verð skólamáltíða lækki vegna lækkunar virðisaukasaktts á matvæli sem gók gildi 1. mars sl. Það var algjör samstaða um þetta mál á fundinum.
Bókun fræðslunefndar
"Fræðslunefnd Mosfellsbæjar fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun virðisaukaskatts á matvæli sem tók gildi 1. mars sl. Mikilvægt er að lækkunin skili sér til barnafjölskyldna í bæjarfélaginu og því leggur nefndin til við bæjarráð að verð á skólamáltíðum í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar verði lækkað um 5%. Lækkunin er byggð á raunlækkun máltíða að teknu tilliti til rekstrar- og launakostnaðar. Lagt er til að lækkunin miðist við 1. mars og er fjármáladeild falin nánari útfærsla málsins. Jafnframt eru skólastjórnendur grunnskólanna hvattir til að láta virðisaukalækkunina ná til annarra matvæla sem seld eru til nemenda í skólunum."
Mosfellsbær | Breytt 27.3.2007 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vistvernd í verki
4.3.2007 | 13:04

Hvers vegna á að skila rafhlöðum?
Í rafhlöðum eru spilliefni sem eru hættuleg bæði heilsu okkar og náttúrunni komist þau í snertingu við umhverfið. Það er því mikilvægt að engar rafhlöður endi í heimilissorpinu heldur sé komið til úrvinnslu til viðurkenndra aðila sem hafa þekkingu til að farga eða eyða rafhlöðunum, og þar með lágmarka umhverfis- og heilsuspjöll af völdum rafhlaðna.
Frá því við fjölskyldan tókum þátt í verkefninu Vistvernd í verki árið 2001 höfum við verið meðvitaðari um neysluvenjur okkar síðan. Við höfum tamið okkur vistvænna heimilishald og sífellt verið að vinna í því að skoða hvort ekki er eitthvað sem betur má fara í þeim málum og hvet ég fólk til kynna sér málið að fara á námskeið.
Við fórum á námskeið í Vistvernd í verki árið 2001. Þar sem ég er frekar upptekin kona var ég alltaf að bíða eftir því að ég hefði tíma til að fara á námskeiðið því ég hélt að þetta væri svo mikið mál, en þegar við svo loksins byrjuðum sá ég fljótlega að þessi bið hafði verið með öllu óþörf. Það var nákvæmlega enginn aukatími sem fór í þetta umhverfisstúss. Við vorum sex fjölskyldur sem hittumst reglulega og héldum við fundi með reglulegu millibili um fyrirfram ákveðið fundarefni s.s. sorp, orku, samgöngur, innkaup og vatn, sem einkenndust af fróðleik og skemmtilegu spjalli við fólk sem statt var í sömu sporum og við og margt kom á óvart. Fljótlega fórum við að breyta ýmsu, fengum okkur sparperur þar sem það gekk, slökktum ljósin þegar við fórum út úr herbergjum, flokkuðum heimilisúrgang og förum reglulega með pappír, fernur og pappírsumbúðir í grenndargáma og restina í endurvinnslustöðina í Blíðubakka.
En í sjálfu sér höfðum við lengi verið meðvituð og því var þetta ekki stórátak fyrir okkur. Þegar við byggðum húsið okkar 2000 til að mynda þá völdum við viðhaldfrítt efni og pössuðum að húsið væri vel einangrað og létum taka það út með hitamyndavél í lokin. Á þeim tíma voru ekki margir með gólfhita, en við völdum það og töldum að með því væri hægt að ná fram verulegum sparnaði og það kom á daginn. Við búum í parhúsi og munar töluverðu á upphitunarkostnaði á þessum tveimur húsum sem eru í sjálfu sér alveg eins. Við völdum líka spansuðuhellu, sem ég gæti ekki verið án í dag. Þetta helluborð var aðeins dýrara þá, en okkur þótti góður kostur að hellan hitnaði strax og að aðeins hitnaði það svæði sem er undir pottinum. Utan við öryggisþáttinn, en ekki er hægt að kveikja í pappír eða öðru, hellan hitnar aðeins ef um stál er að ræða og kólnar um leið og potturinn er tekinn af.
En það er eitt sem ekki var tekið með á þeim tíma sem ég tók þátt, en það er áhrif okkar vegna ferðalaga. En í umhverfis- og auðlindafræðunum í haust gekk eitt verkefnið út á að reikna út áhrif lifnaðarhátta okkar og notkun landsvæðis pr. einstakling (ecological footprint). Þá var m.a. tekið inn hvað maður borðar, kaupir, hvort maður á bíl og ferðast mikið .... en áhrifin margfölduðust ef mikið var ferðast með flugi. Hægt er að reikna út m.t.t. einstaklings eða heillar þjóðar og erum við Íslendingar nokkuð há í samanburði við aðra, en ég mun skrifa sérstaka færslu um þetta mál some day. Enda áhugavert að sjá hvar maður stendur og taka á málinu, okkar sjálfra vegna og komandi kynslóða. Prófaðu sjálfur.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tengibraut í Mosfellsbæ og eðlileg þróun byggðar
3.3.2007 | 12:52
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars.
| ||
Ástæða þessa skrifa er grein Jónasar Sigurðssonar oddvita samfylkingarinnar í Mosfellsbæ er birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar sl. og fjallaði um tengibraut í Mosfellsbæ.
|
Mosfellsbær | Breytt 27.3.2007 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)