Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Mamma mikið rosalega gat ég nú verið vitlaus
4.11.2008 | 08:36
Ekki er ég hissa á því að íslensk vara seljist í meira mæli en áður, ég og mín fjölskylda göngum á "íslenskt já takk" eins og svo margir aðrir.
Þetta eru ótrúlega merkilegir tímar sem við erum að lifa á Íslandi í dag og reyni ég að sjá jákvæðu hliðar málsins. Ég er búin að tjá mig um það að tímabært hafi verið að bremsa og stend við það, en tel jafnframt að það hefði nú verið betra að vera með ABS hemlabúnað og hafa náð að hafa stjórn á bílnum í stað þess að klossbremsa og enda út af eins og við gerðum.
Ég tek eftir því hjá krökkunum, unglingunum að þau eru mörg hver að upplifa í fyrsta skipti að þurfa að hugsa um hverja krónu og höfum við foreldrarnir vissulega ýtt undir þessar ranghugmyndir með góðri hjálp samfélagsins. Átt' ekki kort syndromið (bjó þennan frasa til eftir að ung dóttir mín sagði þetta við mig þegar ég átti ekki pening) er að minnka og er nú verið að vinna í því að leiðrétta þessar ranghugmyndir barnanna um að peningar vaxi á trjánum. Ég heyrði af einni 14 ára stelpu sem hafði gengist upp í því að kaupa rándýra merkjavöru árum saman, enda ekki barn með börnum nema eiga Disel og tilheyrandi. En svo núna þegar hún fór að velta hlutunum fyrir sér í fjármálakreppunni og áttaði sig á því að lífið var ekki bara merkjavara. Þá sagði hún við mömmu sína "mamma, mikið rosalega gat ég nú verið vitlaus". greinilega Aha móment hjá henni og viska sem hún vonandi býr að út lífið.
Skortur á munaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Morgunblaðið segir söguna
2.11.2008 | 12:32
Ég sat í morgun við eldhúsboðið og las nýja sunnudagsblaðið, sem ber aldurinn vel, þrátt fyrir háan aldur, en það var stofnað 1913 og er því 95 ára. Þetta var því 300 tölublaðið af 96. árgangi.
Ekki ætla ég að fjalla um fréttir dagsins, en á forsíðunni voru m.a. myndir af James Bond, Páli Óskari og Kolbrúnu Halldórs og yfir síðuna var skrifað "Óvissa, reiði og kvíði" sem er vissulega áætis lýsing á Íslandi í dag. En ég fór þá að velta því fyrir mér hvað dagblöðin eru í raun dýrmæt heimild. Þarna er verið að segja fréttir, bæði innlendar og erlendar, fréttir af pólitík, út atvinnulífunu og af daglegu lífi fólks. Fjöldi minningargreina og aðsent efni fólks sem vill láta skoðanir sína í ljós.
Þegar ég er að undibúa afmælisræður þá fer ég oft í gamla mogga í gagnasafninu og skoða hvað var í blaðinu daginn sem afmælisbarnið fæddist. Hvaða fréttir voru á forsíðunni? Hvað kostaði blaðið og hvað var verið að auglýsa á þeim tíma? Þá getur maður séð hvað samfélagið hefur breyst á þeim tíma frá því að viðkomandi fæddist. Ég gerði þetta síðast þegar ég var að undirbúa afmælisræðu föður míns sem varð áttræður í byrjun september. Daginn sem hann fæddist var mogginn bara fjórar síður og kostaði 5 aura, en síðan eru liðin rúm 80 ár.
En það er ljóst að eftir 50 ár, þegar fjármálakreppan ekki eins fersk í minni manna og börnin sem fæðast á Íslandi í dag halda upp á fimmtugsafmælið verður gott að hafa gagnasafnið. Að fletta upp á mogga dagsins í dag 2. nóvember 2008, að vísu er blaðið nú upp á 88 síður, sem krefst örlítið meiri heimildarvinnu en þá verður heimildarleit örugglega líka orðin einfaldari og mogginn ekki lengur gefinn úr á pappír heldur sjálfsagt einhverjum tölvuskjáþynnum. Þá verður hægt að sjá að hér á landi var mikil óvissa, reiði og kvíði, að olíuvinnsla átti að hefjast á Drekasvæðinu 2018 og James Bond var þá að bjarga heiminum í 22. skipti, hvorki meira né minna.
Andlit blaðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |