Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Hamfaraárið mikla 2008
29.12.2008 | 13:46
Árið 2008 hefur svo sannanlega verið ár hamfara. Þrátt fyrir að ársins verði trúlega minnst í sögubókum sem árs alþjóðlegra efnahagshamfara hafa afleiðingar náttúruhamafara einnig verið skelfilegar. Rúmlega 220 þúsund manns hafa látið lífið og ollu þær einnig meira fjárhagslegra tjóni. Sá sem mesta tjóninu olli var fellibylurinn Nargis sem reið yfir Búrma í maí og varð 135 þúsund manns að bana. Þá létu 70 þúsund manns líf sit í jarðskjálfta í Sichuan héraði í Kína í sama mánuði. Tilkynnt var um hvarf 18 þúsund manns og misstu 5 milljónir manna misstu heimili sín.
Það situr verulega í mér ferð sem ég fór til New Orleans í byrjun árs. Þar mátti enn sá afleiðingar þess þegar fellibylurinn Katrín reið yfir 2005, með hræðilegum afleiðingum eins og flestir muna. Það sem sló mig mest var að ekki var að sjá að endurreisn væri hafin að neinu viti og borgin enn í sárum. Yfirvöld brugðust og kom fram hjá þeim sem ég ræddi við að það sem búið var að gera við var gert af einstaklingunum sjálfum, yfirvöld voru rétt að hefjast handa þarna í upphafi árs, nærri þremur árum eftir hamfarirnar. Draugahverfi, skemmd hús, fólk í tjöldum og eymd og tekur eflaust mjög langan tíma að byggja borgina upp aftur.
Það eru nákvæmlega viðbrögð eins og í New Orleans sem þarf að fyrirbyggja og vinn ég að því með með þeim verkefnum sem ég er að vinna að í Háskólanum og vonandi störfum í framtíðinni. Að flétta saman stjórnsýslu og umhverfismál í víðu samhengi, með áherslu á afleiðingar náttúruhamfara.
Það kom líka bersýnilega í ljós hvað viðbrögð stjórnvalda skiptu miklu máli í Suðurlandsskjálftunum hér heima sl. sumar. Almannavarnir komu sterkar inn og sveitarfélögin sýndu og sönnuðu hvers þau voru megnug í stuðningi við þolendur. Það var ánægjulegt að vinna með starfsfólki sveitarfélaganna og einstakt að fá tækifæri til að taka þessi viðbrögð inn í meistaraverkefnið mitt, sem fjallar einmitt um stjórnsýslu sveitarfélaga og viðbrögð í kjölfar náttúruhamfara.
Mesta hamfaraárið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gleðileg jól
25.12.2008 | 11:19
Jólin eru tími kærleika og friðar. Tíminn þegar jólalögin fara að hljóma og mannlífið fær á sig annan blæ. Fallegar jólaskreytingar lífga upp á umhverfið og jólaljós lýsa upp skammdegið. Spenningur barnanna eykst dag frá degi og velta mörg fyrir sér þessum jólasveinum sem ná að gefa öllum börnum í skóinn á einni nóttu, vita hvort þau fara snemma að sofa og eru þæg og góð. Já en, hvernig komast þeir inn? Við foreldrar endurnýtum alla gömlu góðu frasana, sem við fengum að heyra sem börn við sömu heimspekilegu jólasveinaumræðurnar.
Fjölskyldu og vinabönd eru treyst á þessum tíma. Fjölskyldur koma saman og jólakveðja send í jólakorti eða netpósti til vina og fjölskyldna og fólk minnist liðinna ára. Í ár er annar blær á jólaundirbúningi og hefur efnahagskreppan vissulega sett mark sitt á samfélagið. Margir eiga um sárt að binda um þessar mundir og sinna margir bæði opinberir aðilar og hjálparstofnanir aðstoð við þá sem þurfa. Minni áhersla er á hið efnahagslega og höfum við Íslendingar skipt niður um marga gíra í kaupæðinu, sem vissulega mátti gerast, en kannski ekki svona harkalega. Nú er mikilvægt að huga að hinum innri búnaði og öllu sem skiptir okkur mestu máli í lífinu, fjölskyldu og vinum. Er ekki einmitt gott að staldra við og velta því fyrir okkur hvort ekki sé kominn tími til að nýta betur tímann sem við eigum og njóta. Ég hvet fólk líka til að staldra við og fara yfir það í huganum hvort mögulega er einhver í nærumhverfinu sem gæti verið einmana. Einhver sem ekki fær þess notið að tala við eða hlæja dátt með einhverjum. Einmanaleikinn nístir sál og eru meiri líkur á að hann sverfi að á efri árum ævinnar og einmitt um jólin. Kannski er sjaldan mikilvægara en einmitt í ár að hafa þetta í huga.
Jólin eru vissulega trúarhátíð kristinna. Haldið er upp á komu Krists í heiminn, ljóss heimsins sem fæddist í Betlehem. Helgileikir eru hluti af undirbúningi jólanna. María, Jósef, jólastarnan. Jesú er reifaður og lagður í jötu fær gull, reykelsi og myrru að gjöf frá vitringunum þremur. Spaugstofan var með nýja útgáfu af helgileiknum. En í Útrásarvíkingaútgáfu þeirra var ekki gefið gull, reykelsi og myrra heldur bull, elgelsi og pirra. Það var þó ekki andinn í bæjarstjórn Mosfellsbæjar í ár, en við unnum saman að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár, sem var ánægjulegt og ríkir alger samstaða í hópnum um að takast á við breyttar forsendur og óvissuna sem framundan er. En þrátt fyrir mótbyr er margt jákvætt framundan í Mosfellsbæ. Ráðist verður í ýmsar framkvæmdir, viðbyggingu við íþróttahúsið við Varmá, Krikaskóli verður byggður og Brúarlandi verður breytt. Nýr framkahdsskóli mun svo hefjast haustið 2009, einnig mun hjúkrunarheimili rísa á næstu árum og ævintýra og útivistargarður Mosfellinga verður að veruleika.
Á dögunum fékk ég boð á Andlitsskinnunni um að vera með í hópnum, Ég óska mér minni pakka og meiri kærleika", sem ég gekk til liðs við. Hópur sem gengur út á að skora neysluhyggju liðinna ára á hólm, eyða minna fjármagni í veraldlegar gjafir, en gefa vinum og vandamönnum meira af kærleika og ást. Þrátt fyrir tímabundna efnahagslega erfiðleika getum við ennþá gefið tíma okkar. Því hvet ég ykkur til að ganga til liðs við hópinn og gefa meira af ykkur sjálfum og búa þannig til kvíðaminni og innihaldsríkari jól fyrir þig og þína.
Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Hér eru nokkrar fjölskyldujólamyndir.
Gengið vonum framar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.12.2008 kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ættfræðiáhugi
21.12.2008 | 15:00
Ættfræði er eitt af mínum áhugamálum, en ég hef svo sem ekki mikinn tíma sem stendur, en minn tími mun koma.
Ég hef gaman að því að leita heimilda um forfeður mína og svo koma heilu ættirnar í leitirnar, bara ef maður opnar augun. Herdísarnafnið hefur hjálpað mér, en það eru margar Herdísar í pabbaætt, ætt galdramanna af Ströndum. Ég spjallaði við einn frænda minn á Andlitsskinnunni áðan, hann Pétur Jóns og sagði hann mér að handverkshúsið Kört í Trékyllisvík hefði fengið 400 þúsund króna styrk úr Þjóðhátíðarsjóði til að setja upp sýningu um æfi og störf Þorsteins Þorleifssonar í Kjörvogi, sem var langalangafi minn. Við spjölluðum um að nú ættum við að nýta tækifærið og koma halda ærlegt ættarmót á Ströndunum. Halli frændi Gísa á Akureyri og Pétur voru búnir að tala um að gera eitthvað og bauð ég mér alveg sjálf í undirbúningsnefndina. það er ljóst að eitthvað verður gert í þessu á nýja árinu.
Annar leggur var hristur saman nýverið. En við Stefanía María frænka mín Pétursdóttir tókum okkur til og buðum í frænkuboð í Salthúsinu hjá Kristínu systur í Grindavík. Það var okkar fyrsta frænkumót, en klárlega ekki síðasta og kemur mamma næst. Við stefnum að því að halda frænkumót í Hrísey í sumar, en við frænkur eigum eftir að plana það betur. Planið er að fara einn laugardag út í Hrísey, fara og skoða Ystabæ og verja deginum í góðum félagsskap og treysta böndin.
Hver veit nema árið 2009 verði bara ár ættarmótanna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4 dagar til jóla
20.12.2008 | 22:15
Helgin er búin að vera yndisleg, kærleikur, jól og aftur jól.
Í gær fórum við mæðgur og amma Binna í Salthúsið í Grindavík. Á styrktartónleika til styrktar ungum hjónum sem misstu húsið sitt og allar veraldlegar eigur sínar vegna myglusveppasýkingar. Það höfðum verið endalaus veikindi á þeim og krökkunum og svo kom upp úr dúrnum að myglusveppur var að valda þessu. Svona eins og hjá Bylgju Hafþórs. Alveg ömurlegt þegar þetta gerist, því tryggingar ná ekki yfir slík mál. En við fórum sem sé og áttum góða menningarstund í Salthúsinu með Kristínu og strákunum. Kristín var flott að sýna undirföt, en þarna var náttfata og undirfatasýning og mátti bjóða í til styrktar góðu málefni. Það var líka happdrætti og keypti ég þrjá miða og viti menn ég fékk líka þrjá vinninga ... og svona líka flotta vinninga.
Í dag fórum við í okkar árlegu ferð í Hamrahlíðarskóg, til að kaupa jólatré. Sturla fór að vísu á bretti í Bláfjöll, en hann treysti okkur hinum fjórum og Skvísý fyrir þessu vandasama verki. Þegar í Hamrahlíðarskóg var komið, var múgur og margmenni í sama leiðangri. Við fengum sög og gengum og gengum og gengum og gengum og var ég farin að halda að þetta yrði eins og hjá Guðrúnu klipparanum mínu og Grétari sem gengu í einn og hálfan tíma og fóru svo heim án jólatrés. En svo fór nú ekki. Við Ásdís Magnea sáum fljótlega flott tré og vildum saga... en Elli minn vildi skoða meira uppfrá og til hliðar og aðeins neðar og aftur upp og ...... en svo enduðum við náttúrulega á því að saga þetta sem við sáum fyrst. Svo komum við niður að skúr og sáum annað betra, sagað og flott og skiptum við um tré í snarhasti. En við hittum þar þennan líka skemmtilega jólasvein. Mér fannst eins og ég hefði hitt hann fyrr, er alveg viss um að hann er Mosfellingur. Sædísi Erlu fannst hann Meiriháttar með stóru Mi og fékk hjá honum mandó og svo piparkökur í skógræktarskúrnum. Því næst fórum við á Torgið og keyptum okkur kakó og hlustuðum á rapp og hittum skemmtilegt fólk... og aftur jólasveininn skemmtilega, sem var ekki fúlt.
Mamman er núna að klára að skrifa á jólakortin (og blogga smá), pabbinn að flísaleggja og krakkarnir í skúrnum að mála jólagjafir...... Litlan er farin að sofa, hún vill alls ekki lenda í því að Jólasveinninn skemmtilegi fari fram hjá og sleppi því að setja í skóinn.
Ég er ekki farin að sjá ljósið
14.12.2008 | 18:34
Ég fagna þessari auknu umræðu meðal þjóðarinnar um Evrópumálin, en undanfarið hefur mér fundist hún frekar einhæf og frasakennd, "Evran bjargar þessu". Ekki ætla ég að gera lítið úr ástandinu og ég tek undir það að vissulega þaraf að taka peningamálin til endurskoðunar, en ég vil að við skoðum alla kosti í stöðunni.
Það er mín skoðun að ef Ísland myndi gerast aðili að Evrópusambandinu yrði sjálfstæði og fullveldi okkar skert enn frekar og ég fær hroll við tilhugsunina um að við missum tökin á náttúruauðlindum okkar, framtíð barnanna okkar. Fólk segir "við semjum bara um það". Í mínum huga er það ekkert bara. Það hefur verið rætt um það að við fáum enga sérmeðferð, engar sérlausnir eða undanþágur.
En að stjórnkerfinu þarna úti í henni stóru Evrópu. Ég hef skoðað mikið af því sem snýr að umhverfismálum og á því sviði höfum við tekið upp flestar tilskipanir svo í sjálfu sér yrðu ekki miklar breytingar í sjálfu sér. En mér sýnist samt að t.d. í loftslagsmálunum ætli Evrópusambandið að vera með sitt eigið kerfi, svona til hliðar við Sameinuðu þjóðirnar og þá sáttmála sem við höfum undirgengist þar. Ég varð ekki hrifin. En svona er þetta líka í fleiri málaflokkum og er báknið orði svo risavaxið að ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi góða yfirsýn. Ég get ekki heldur séð hvernig við eigum að láta okkar veiku 300.000 Íslendinga rödd heyrast þarna inni. Þið verðið bara að fyrirgefa.
Já eins og yfirskriftin bendir til þá er ég ekki farin að sjá ljósið.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ráðgjöf Hvatarkvenna
6.12.2008 | 09:23
Ég er að fara niður á Skúlagötu til að starfa með Hvatarkonum í dag.
Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík býður landsmönnum upp á ókeypis ráðgjöf. Félagið hefur safnað saman fagaðilum og sérfræðingum sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að leiðbeina fólki vegna ástandsins sem skapast hefur.
Fagaðilar og sérfræðingar veita ráðgjöf um:
Hópur 1 - Löglærðir einstaklingar sem veita ráðgjöf um gjaldþrotamál og skattaráðgjöf fyrir einstaklinga.
Hópur 2 - Sérfræðingar á sviði velferðamála. Hér verður leitast við að ráðleggja einstaklingum um þá félagsþjónustu sem er í boði og hvaða þjónustu sveitarfélögin bjóða upp á.
Hópur 3 - Sérfræðingar á sviði almannatrygginga, lífeyriskerfinu og heilbrigðiskerfinu almennt. Hér verður leitast við að ráðleggja einstaklingum um hvernig þessi þjónusta nýtist þeim best.
Hópur 4- Sérfræðingar í húsnæðislánum og fjármálum heimila. Hér verður leitast við að veita fólki ráðgjöf um þau mál sem snúa að skuldastöðu heimilanna s.s. vanskil, endurfjármögnun, frystingu lána o.fl.
Hópur 5- Ráðgjöf um atvinnumál (þ.e.a.s. atvinnuleysistryggingarbætur, rétt o.s.frv.)
Hópur 6 - Sérfræðingar á sviði sálrænnar ráðgjafar. Hér verður boðið upp á áfallahjálp og aðra aðstoð sem snýr að andlegri heilsu einstaklinga sem hafa orðið fyrir áfalli.
Einnig verða úrræði ríkisstjórnarinnar kynnt og hvernig almenningur getur nýtt sér þau.
Pólskumælandi og enskumælandi á svæðinu. Aðgengi fyrir fatlaða.
Nánari upplýsingar www.xd.is
Opið hús milli kl: 10-17 föstudaginn 5. og laugardaginn 6. desember á Skúlagötu 51 (gengið inn Skúlagötumegin)
Allir velkomnir
Langþráður framhaldsskóladraumur að rætast
6.12.2008 | 00:43
Ég er afskaplega glöð yfir því að framhaldsskóladraumur okkar Mosfellinga sé að rætast og skólastarfið hefjist næsta haust. Mosfellsbær er mikill skólabær og því táknrænt að fyrsta skólahúsnæðið Brúarland muni hýsa framhaldsskólann fyrstu árin. Nýtt skólahúsnæði verður svo byggt í miðbænum og tekið í notkun haustið 2011.
Við höfum hug á að skólinn kenni sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi, bæði í náttúru sem og umhverfi mannsins og sjálfbærri menningu, enda umgjörðin öll til staðar. Við höfum heita vatnið, árnar og ósnortna náttúru, öflugt íþrótta og tómstundastarf, svo ekki sé talað um alla menninguna. Ég hef oft sagt það að það hljóti að vera eitthvað í vatninu í Mosfellsbænum, hér er örugglega mun fleiri listamenn en gengur og gerist. Hér er öflugt leikfélag, myndlistarskóli og skólahljómsveit sem Listaskóli Mosfellsbæjar tengir listilega saman. Hér starfa á annan tug kóra, frægar hljómsveitir hafa komið frá Mosfellsbæ og bílskúrsböndin mýmörg svo eitthvað sé nefnt. Báðir grunnskólar leggja líka mikla áherslu á listir og sköpun og umhverfi. Ætli listaspíran mín hún Ásdís Magnea sé ekki einmitt "afrakstur" 14 ára leik- og grunnskólagöngu í Mosfellsbæ, en hún stundar nú nám á lista og fjölmiðlabraut í Borgarholtsskóla, stundar söngnám í Listaskóla Mosfellsbæjar og tekur þátt starfi Leikfélags Mosfellssveitar.
Brátt verður skólameistari nýja framhaldsskólans ráðinn og hefst þá mótunarstarfið. Við Mosfellingar höfum vissulega skoðanir á því hvaða áherslur við viljum sjá í skólastarfinu, en framhaldsskólar eru á hendi ríkisins og því mun skólameistari ásamt skólanefnd sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir veitir formennsku og menntamálaráðuneyti móta starfið. Það er jákvætt að ekki sé búið að byggja húsnæðið, því þá er hægt að móta skólastefnu og skólahúsnæði saman, líkt og við gerðum með Krikaskóla og heppnaðist frábærlega að mínu mati.
Það er vissulega krepputíð eins og Ný dönsk, eða "Gammel Dansk" eins og einhver kallaði þá syngur um þessa dagana, en tilhugsun um að brátt komi framhaldskóli í Mosfellsbæ fær mann vissulega til að horfa jákvætt fram á veginn. Svo er bara að vona að næsti framhaldsskóli komi í Fjallabyggð.
Myndin er tekin fyrir framan Brúarland. Á henni eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Herdís Sigurjónsdóttir formaður bæjarráðs og fræðslunefndar og Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar.
Framhaldsskóli í Brúarlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mosfellsbær | Breytt 3.1.2010 kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)