Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Krikaskólaskóflustunguskóflur

Mynd_skoflustunga_krikaskoli_

Í gær tókum við Halli, Kalli og leikskólakrakkar í Brekkukoti, sem fara í Krikaskóla á næsta ári fyrstu skóflustungurnar að Krikaskóla. Þetta var skemmtilegt og ekki var verra að ekki rigndi og var meira að segja sól, sem ekki hefur nú ekki sést mikið að undanförnu.

Þetta var alveg yndislegt og ekki síst fyrir þær sakir að krakkarnir nutu sín í botn og fóru þau bara nokkuð langt með grunninn ;). Þrúður skólastjóri Krikaskóla sagði að þau væru að hugsa um að bjóða upp á skóflustunguþjónustu í hverfinu. Að taka fyrstu skóflustungur að þeim húsum sem byggð verða í Helgafellshverfi á næstunni ... enda eiga þau þessar flottu skóflustunguskóflur.

Hér er einn gullmoli frá því í gær.

Valtýr Elliði, 4 ára: Ég er að moka.

Sólveig Kr. Bergmann: Af hverju?

valtyr_ellidi_krikaskoli_001

Valtýr Elliði: Af því ég ætla að byggja skóla.


mbl.is Skóli frábrugðinn öðrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruhamfarir - hvað svo? Vísindakaffi miðvikudaginn 24. september

Í kvöld, miðvikudaginn 24. september mun ég taka þátt í skemmtilegum viðburði. En  mun ég ásamt þeim Dr. Guðrúnu Pétursdóttur forstöðumanni Stofnunar Sæmundar fróða, Dr. Berglindi Guðmundsdóttur sálfræðingi hjá áfallaþjónustu LSH, Ragnhildi Guðmundsdóttur og Eddu Björk Þórðardóttur frá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við HÍ kafa ofan í snjóflóð og undir jarðskorpuna og velta upp sálfræðilegum áhrifum náttúruhamfara. Umræðuefnið er Náttúruhamfarir - hvað svo?

Ég hvet alla til að mæta í vísindakaffið og spjalla við okkur stöllur og ná í einn kaffibolla í Vísindavökustellið. Kaffiboðið fer fram á kaffistofu Listasafns Reykjavíkur frá kl. 20:00-21:30.

Náttúruhamfarir - hvað svo?

Þegar náttúruhamfarir ríða yfir er strax brugðist við með leit og björgun, áfallahjálp, opnun fjöldahjálparstöðva,  hreinsun rústa og fleiri aðgerðum. En hvað tekur svo við? Hvað ber að gera næst? Hver á að gera það? Hvernig verður samfélaginu komið aftur á réttan kjöl? Hvernig mun þolendum reiða af? Hver eru langtíma áhrif áfalla? Hvað er best að gera? Getur reynslan af fyrri áföllum kennt okkur eitthvað um það?

Þetta er viðfangsefni Vísindakaffis Rannís sem haldið verður í Listasafni Reykjavíkur miðvikudaginn 24. september 2008 kl. 20:00. Þar koma saman fimm konur sem hafa rannsakað frá ýmsum sjónarhornum langtíma afleiðingar náttúruhamfara og viðbrögð við þeim.

Guðrún Pétursdóttir og Herdís Sigurjónsdóttir segja frá rannsókn og greiningu á verkefnum sem sveitarfélög þurftu að sinna eftir snjóflóðin á Vestfjörðum 1995 og jarðskjálftana á Suðurlandi sumarið 2000. Edda Björk Þórðardóttir og Ragnhildur Guðmundsdóttir segja frá rannsóknum sínum á sálrænum og heilsufarslegum afleiðingum snjóflóðanna á Vestfjörðum 1995 og tsunami-flóðbylgjunnar í Suðaustur-Asíu 2004. Berglind Guðmundsdóttir segir frá yfirstandandi rannsókn á reynslu Sunnlendinga eftir jarðskjálftana 29. maí 2008.  Að auki verður  Dr. Benedikt Halldórsson jarðeðlisfræðingur og jarðskjálftaverkfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi til staðar í salnum ef upp koma spurningar varðandi jarðskjálftana sjálfa.  

Nánar um vísindamennina:

Dr. Guðrún Pétursdóttir er dósent við Hjúkrunarfræðideild H.Í. og framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir. Hún lauk BA námi í sálarfræði við HÍ, meistaraprófi í lífeðlisfræði við Oxford háskóla og doktorsprófi í taugalífeðlisfræði frá Háskólanum í Osló. Undanfarin 15 ár hefur hún stýrt þverfræðilegum rannsóknarstofnunum við H.Í. og fjölbreyttum rannsóknarverkefnum á þeirra vegum.

Herdís Sigurjónsdóttir er bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og fyrrum verkefnisstjóri neyðarvarna og neyðaraðstoðar hjá Rauða krossinum. Hún er lífeindafræðingur og stundar nú meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum við H.Í., þar sem hún rannsakar stjórnsýslu og viðbrögð við náttúruhamförum.

Dr. Berglind Guðmundsdóttirsálfræðingur hjá Sálfræðiþjónustu /Áfallamiðstöð LSH. Berglind stundar rannsóknir við Sálfræðiþjónustu LSH og  Rannsóknarstofu í slysa-, ofbeldis- og bráðafræðum á Slysa- og bráðasviði Landspítala en þar undir falla Áfallamiðstöðin og Neyðarmóttaka vegna kynferðislegs ofbeldis. Helsta rannsóknarverkefni Berglindar um þessar mundir er rannsókn á áhrifum jarðskjálftans 29. maí 2008 á íbúa á Suðurlandi.

Ragnhildur Guðmundsdóttir
er doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og rannsakar langtímaheilsufarsafleiðingar náttúruhamfara. Hún lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands og lýkur M.Sc. prófi í klínískri sálfræði, tölfræði og aðferðafræði frá Universiteit Leiden í Hollandi nú í ár, ásamt sérnámi í hugrænni atferlismeðferð á vegum Félags um hugræna atferlismeðferð og Oxford Cognitive Therapy Centre. Hún tók hluta af námi sínu og starfsþjálfun við Universität Basel í Sviss og hefur unnið við sálfræðimeðferð, rannsóknir og kennslu.

Edda Björk Þórðardóttir er framhaldsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Hún lauk B.A. gráðu í sálarfræði frá Háskóla Íslands þar sem hún rannsakaði langtímaeinkenni áfallastreituröskunar hjá þolendum snjóflóðsins í Súðavík.

Hér er meira um Vísindavöku 2008

Í aðdraganda Vísindavöku er hellt upp á fjögur Vísindakaffi 22., 23., 24. og 25. september. Þar kynna nokkrir af færustu vísindamönnum þjóðarinnar rannsóknir sínar fyrir almenningi, og gefst fólki kostur á að spyrja þá spjörunum úr. Einnig er blásið til teiknisamkeppni og ljósmyndasamkeppni fyrir börn og ungmenni, auk þess sem RANNÍS veitir árlega viðurkenningu fyrir vísindamiðlun.

Vísindavaka 2008 verður föstudaginn 26. september í Listasafni Reykjavíkur kl. 17:00-22:00. Á Vísindavöku gefst almenningi kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á Vísindavöku, en hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins. RANNÍS stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi og í ár er samstarfsaðilum á landsbyggðinni boðið að vera með og kynna rannsóknir og fræði um allt land.

 


Fyrsti jafnréttisdagur Mosfellsbæjar 18. september 2008

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar stendur fyrir jafnréttisþingi sem haldið verður í Hlégarði í Mosfellsbæ fimmtudaginn 18. september 2008. Þingið er haldið til heiðurs Helgu J. Magnúsdóttur í samvinnu við Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands.

Helga J. Magnúsdóttir fæddist 18. september 1906, en bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að fæðingardagur hennar verði árlegur jafnréttisdagur í bæjarfélaginu. Á þessu ári eru 50 ár síðan Helga settist fyrst kvenna í stól oddvita í Mosfellsbæ. Hún lét meðal annars málefni kvenna sig varða, var formaður Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu 1948-1966, formaður Kvenfélags Lágafellssóknar 1951-1964, í varastjórn Kvenfélagasambands Íslands 1953 síðan í aðalstjórn þess og formaður 1963-1977.

 

 

Dagskrá:

13:00     Setning. Jóhanna B. Magnúsdóttir, formaður fjölskyldunefndar

13:10     Ávarp. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar

13:20     Hver var Helga J. Magnúsdóttir? Salóme Þorkelsdóttir, fyrrverandi fulltrúi í hreppsnefnd Mosfellsbæjar, fyrrverandi alþingismaður og forseti Alþingis

13:40     Bökum betra samfélag. Er j í kvenfélag?  Sigurlaug Vilborg, forseti       Kvenfélagasambands Íslands

14:00    Áhrif kvenna í sveitarstjórn.  Guðrún Helga Brynleifsdóttir, bæjarfulltrúi Seltjarnarness

Fyrirspurnir

14:20    Kaffi

14:40    Hlutdeild kvenna í sveitarstjórnum. Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands.

15:00     Konur í verkum Halldórs Laxness. Dagný Kristjánsdóttir prófessor

15:20     Fyrirspurnir og umræður

15:30     Afhending jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar

15:40 -17:00       Móttaka í boði Mosfellsbæjar


Hann pabbi minn á afmæli í dag

Pabbi, mamma, Kristín, Jóhann og Herdís Jóhann bróðir, pabbi, ég, mamma og Kristín systir

Pabbi minn, Sigurjón Jóhannsson er áttræður í dag, 8. september og vil ég fyrir hönd allra afkomenda sem ganga undir nafninu Sigló Group óska afa á Sigló til hamingju með daginn.

Hann pabbi er alveg einstakur maður. Ég er yngst og var hann viðstaddur fæðingu mína, sem var ekki algengt á þeim tíma, en ég fæddist heima á Laugarveginum þegar Kristín systir var sjö og Jóhann bróðir nýorðinn fimm ára. Ég hef nú alltaf verið pabbastelpa og þegar pabbi kom í land þá hékk ég í honum og þvældist með honum niður á bryggju, inn í bústað og út um allt og voru skemmtilegar ferðirnar hjá okkur þegar við fórum með klinkið í sjoppuna til Matta Jóhanns til að spila í Rauða kross kassanum. Pabbi á það til að vera með hvíta lygi, svona rétt til að láta fólki líða betur. Ég man til dæmis eftir því þegar ég kom heim frá Agnesi með appelsínugult, rautt og hvítt hár, eða kannski var það þegar ég kom burstaklippt heim, en það hlógu allir að mér og ég varð voða sár og þá kom pabbi og sagði "ef þetta hefði verið í móð í gamla daga hefði ég örugglega líka verið svona" LoL... og ég næstum trúði því, en a.m.k. þá leið mér betur á þeirri stundu.

Það er ótrúlegt hvað pabbi hefur upplifað miklar samfélagsbreytingar og er gaman að hlusta á sögurnar hans. Sögur frá því að hann var barn og unglingur í Fljótunum, frá sjómennsku, skotveiði, mannbjörg og lífsháska. Hann bjó í Vestmannaeyjum til 5 ára aldurs, en fæddist samt á Siglufirði þegar amma var á ferðalagi. Svo flutti fjölskyldan í Vík þar sem þeir Steini ólust upp í Haganesvíkinni og sprelluðu ýmislegt saman bræðurnir og fóru svo báðir í stýrimannaskólann. Svo flutti pabbi á Siglufjörð og þar kynntist hann mömmu og hafa þau búið þar alla tíð, utan við veturinn á Raufarhöfn. Þá var ég fjögurra ára og pabbi var skipstjóri á togara þar. Það var viðburðarríkur vetur, við sigldum Austur í haugasjó og ég sat í brúnni hjá pabba og horfði á fuglana með gula nefið, alsæl á meðan allir aðrir fjölskyldumeðlimir lágu í koju hund sjóveikir. En ég var ekki eins hress í annað sinn sem hann fór með mig á sjóinn. Ég varð svo veik að hann hélt að ég væri með botlangakast og fór hann með mig í land, mér til mikillar hrellingar og skammaðist ég mín ekkert lítið, en trúlega var þetta gubbupest, því ég hef ekki orðið sjóveik, hvorki fyrr né síðar.

Pabbi var stýrimaður og skipstjóri í hálfa öld og var m.a. á Margréti, Hafliða, Elliða og Sigluvík frá Siglufirði, Ólaf bekk frá Ólafsfirði og fleiri togara og skip. Hann var fiskinn karlinn og svo finnst mér alltaf mikið til um björgunarsögurnar og sé ég þetta alveg fyrir mér, enda las ég ævintýrabækurnar sem krakki og elska spennusögur og ekki er verra þegar þær enda vel. ÉG var að telja það saman að pabbi hefur tekið þátt í björgun á 47 mönnum. Hann stakk sér til sunds úti á rúmsjó og bjargaði einum manni sem fór fyrir borð. Hann bjargaði tveimur í höfninni á Keflavík ásamt félaga sínum. Tók þátt í björgun á Havfrúnni færeysku ásamt fleirum, skútu sem fórst við Almenningana heima og náðu þeir 11 manns í land við erfiðar aðstæður. Svo bjargaði hann einum manni í höfninni á Ísafirði, en sá lamdi í skipshliðina þar sem pabbi var í koju og náði pabbi honum upp. Pabbi var fyrsti stýrimaður á Hafliða þegar þeir voru höfðu legið í vari í brælu. Þeir fóru svo út og köstuðu á svipuðum tíma og Fylkir, en þegar pabbi ætlaði að fara að hífa sá hann fallhlíf í fyrsta sinn, neyðarskeyti og fóru þeir og björguðu áhöfninni. Þar björguðu þeir 32 manns og af þeim voru 26 af félögum pabba, en hann hafði sjálfur verið á Fylki tveimur árum áður.

Hann pabbi elskar að veiða, fiskur, selur og skotveiðar á haustin. Gæsir og rjúpur og segi ég stolt að ég sé af mikilli rambófjölskyldu og skal, skal, skal, bráðum ná því að fara sjálf á gæs, enda búin að vera með byssuleyfi í rúm tíu ár og á alveg sjálf tvær haglabyssur. Pabbi hefur verkað hákarl og heima var soðin hin heimsfræga hákarlastappa ... og var húsið algjörlega dauðhreinsað á eftir. En í seinni tíð hefur stappan verið gerð "að heiman"  mmmmmmm, ég fæ vatn í munninn bara við það að hugsa um stöppuna.

Mamm og pabbi

Afi og amma á Sigló hafa verið gift i rúm fimmtíu ár, hálfa öld InLove, og eiga þau nú þrjú börn, tíu barnabörn og fjögur barnabarnabörn. Svo ekki sé nú talað um öll skábörnin og barnabörnin þeirra Kristínar og Dodda, strákana í Hjarðarhaga og strákana Balda og Gróu, sem allir hafa fyrir löngu fengið barnabarnastatus.... þvílíkt ríkidæmi. Hann pabbi líka hvert bein í mörgum af þeim strákum sem voru með honum til sjós og koma enn margir í heimsókn á Laugarveginn þegar þeir eiga leið um og heilsa upp á Budda skipstjóra.

Baldi og pabbi Baldi og pabbi á gæs

 


Endurreisn samfélags eftir náttúruhamfarir, fundur í HÍ 4. september

Það var hnútur í maganum í gær þegar Gustav nálgaðist New Orleans. Ég fór þangað á náttúruhamfararáðstefnu fyrr á þessu ári og sá með eigin augum hvað endurreisn samfélagsins þar hefur gengið hægt fyrir sig. Það hefði því verð hörmulegt fyrir íbúa svæðisins ef Gustav hefði skilið eftir sig "sviðna" jörð eins og Katrín og Ríta gerðu fyrir þremur árum síðan. Flóðvarnargarðarnir 30 héldu núna, en byggðin er undir sjávarmáli eins og flestir vita og vegna rigninga eru allar dælur á fullu að dæla rigningarvatni upp úr dældinni í þessum skrifuð orðum.

Næstkomandi fimmtudag, 4. september verður haldin opinn fundur í hátíðarsal Háskóla Íslands og verð ég með erindi á þeim fundi. Þar mun rannsóknarhópurinn sem ég hef starfað með síðastliðin tvö og hálft ár kynna niðurstöður rannsókna okkar um endurreisn samfélags eftir náttúruhamfarir. Verkefnið heitir Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum og er fyrri hluti meistaraverkefnis míns Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, partur af rannsókninni. Ég greindi þau lög, reglugerðir og sjóði sem gilda á neyðar og endurreisnartímum og eins samskipti og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í kjölfar náttúruhamfara. Ein afurð rannsóknarinnar eru leiðbeiningar fyrir sveitarfélög sem við höfum gert, sem er áætlun sem þau geta stuðst við eftir náttúruhamfarir, en það eru sveitarfélögin sem leiða endurreisnarstarf eftir slík áföll. Hef ég verið að vinna með sveitarfélögum á Suðurlandi eftir jarðskjálftana þar í sumar, en þau tóku nýttu sér þessa vinnu okkar og hafa aðlagað að sínu stjórnkerfi og var það mikil og góð reynsla.

Ég hvet alla áhugasama til að koma og hlusta á niðurstöður okkar á fundinum sem hefst kl.13.15.

Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og ráðgjafastofan Rainrace ehf

bjóða til fundar um

Endurreisn samfélaga eftir náttúruhamfarir

í Hátíðarsal Háskóla Íslands

fimmtudaginn 4. september 2008 kl.13:30 - 17:00.

Kynntar verða niðurstöður verkefnisins

Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum,

sem fjölmörg sveitarfélög, ráðuneyti, ríkisstofnanir, félagasamtök, ásamt íbúum hamfarasvæða og sérfræðinga á sviði áfallastjórnunar hafa komið að. 

Meðal afurða verkefnisins eru leiðbeiningar um endurreisn, sem sveitarfélög á Suðurlandi vinna nú eftir.

Dagskrá

Setning: Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða.

Ávarp: Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sem jafnframt er formaður almannavarna og öryggismálaráðs.

Erindi flytja:

Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, Herdís Sigurjónsdóttir, Sólveig Þorvaldsdóttir, kynna niðurstöður rannsóknarinnar Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og mun hann m.a. fjalla um endurreisn samfélags eftir náttúruhamfarir.

Ólafur Örn Haraldsson, verkefnisstjóri þjónustumiðstöðvar almannavarna á Suðurlandi, hann mun fjalla um starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar sem opnuð var í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í maí 2008.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri í Árborg sem fjallar um viðbrögð sveitarfélags eftir náttúruhamfarir.

Fundurinn er opinn og allir velkomnir

Hér er meira um verkefnið.

Á fundinum verður gerð grein fyrir meginniðurstöðum verkefnisins Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum. Verkefnið tekur á endurreisn, sem er þáttur í starfi almannavarna sem lítið hefur verið rannsakaður til þessa hér á landi. Niðurstöður sýna mikilvægi þess að undirbúa markvisst endurreisn samfélaga eftir náttúruhamfarir og önnur áföll.

Kynnt verður afurð verkefnisins sem eru almennar leiðbeiningar sem sveitarfélög geta nýtt sér til að útbúa viðbragðsáætlun um viðbrögð vegna neyðaraðstoðar og endurreisnar í kjölfar náttúruhamfara. Ráðist var í verkefnið vegna þess að reynsla af fyrri áföllum hefur sýnt að slíkra leiðbeininga er þörf. Leiðbeiningarnar eru byggðar á greiningu á margþátta reynslu sem safnast hefur vegna afleiðinga snjóflóða og jarðskjálfta hér á landi undanfarin ár, einnig á greiningu á lögum og reglum sem varða náttúruhamfarir, úttekt á mögulegri fjárhagsaðstoð til þolenda, og upplýsingum um áfallahjálp og aðkomu hjálparsamtaka, einkum Rauða kross Íslands.

Í leiðbeiningunum felst tillaga að tímabundnu starfsskipulagi sveitarfélaga í kjölfar áfalla sem hvert sveitarfélag í landinu getur notað til að útbúa sértækar leiðbeiningar fyrir sig. Hveragerði og Árborg nýttu þessar leiðbeiningar í notkun við uppbyggingu eftir jarðskjálfta 29. maí s.l. og verður sú reynsla kynnt á fundinum.

Verkefnið hefur verið unnið sl. 2 ár í samvinnu Stofnunar Sæmundar fróða og ráðgjafastofunnar Rainrace ehf., með aðstoð fjölmargra sveitarfélaga, ráðuneyta, ríkisstofnana, félagasamtaka, að ógleymdum íbúum hamfarasvæða og ýmsum sérfræðingum í viðlagamálum.


mbl.is Gustav reyndist veikari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband