Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Árið 2008 - annáll fjölskyldunnar í Rituhöfða 4

Árið 2008 fór vel af stað hjá Rituhöfðaliðinu allir bara nokkuð frískir og glaðir að vanda. Að vísu fór pabbinn til tannlæknis í upphafi árs, sem væri í sjálfu sér ekki fásögu færandi nema tannlæknaferðin breyttist skyndilega í litlu hryllingstannlæknaferðina þegar tannsinn „missti sig" og slípiskífan fór í gegnum tunguna á karlinum. Já við vitum, ef það er ekki hægt, þá lendir Elli í því.

En þetta átti eftir að versna því sama dag og slysið varð fór mamman í ráðstefnuferð til New Orelans. Útlitið var ekki svo svart í upphafi en áður en vélin fór í loftið frá Keflavík var sá slasaði á leið á heilsugæsluna því hann fann „pínu" til. Svo varð tungan fimmföld og þegar vélin lenti í Boston var karlinn stórslasaður á leiðinni í aðgerð á Borgarspítalanum um miðja nótt og börnin ein heima. En Sirrý stóra systir kom og bjargaði heimilinu þessi elska.

manUn_1

Svo slapp hann nú út af spítalanum og ætlaði sko ekki að láta svona „smottirí" stöðva sig í því að fara með UMFUS til Manchester á minningarleik ManUnited og ManCity þremur dögum síðar. Hann ætlaði sko EKKI að missa af þessu þrátt fyrir þrefalda tungu og verki. Hann fór, þöglumæltur og talaði að vísu ekki mikið, en skemmti sér vel með strákunum.

 Kvartettinn orðinn að kvintett IMG_5610 IMG_5573

Mamman kláraði líka náttúruhamfararáðstefnuna í New Orelans og þótti best að Jóhann stóri bróðir og Shirley komu þangað líka. Rituhöfðafrúin skemmti sér hið besta þegar hún tók lagið með svörtum og sykurlausum NO götusönghópi, en lærði líka mikið á ráðstefnunni og skoðaði m.a. hræðilega afleiðingar fellibylsins Katrínar árið 2005 þar sem þúsundir manna létust og tjón varð á 95% húsa í New Orleans.

Enn annars smá rapport af fjölskyldumeðlimum.

  Elli og Sædís Erla í brekkunni 

Elli er enn að vinna hjá Nýsi sem er eitt af þeim fyrirtækjum sem standa tæpt í dag og mun koma betur í ljós í upphafi nýs árs hvernig kreppan leikur fyrirtækið. En við höldum bara áfram að vera bjartsýn, brosum og tökum einn dag í einu.

 

n1350647508_98986_6025 IMG_9617 Elli og Skvísý útkeyrð

Elli hélt áfram að æfa fótbolta með félögunum í UMFUS á árinu. Hann varð þó að taka sér laaaaaangt frí eftir æfingu með strákunum á Tungubökkunum um miðjan júlí, þar sem hann tókst á við mótherja og móður jörð og endaði á slysó, einu sinni enn. Hann braut náði að brjóta á sér sperrilegginn og slíta allt sem hægt var að slíta í ökklanum í sama sprakinu ... og reif beinhimnuna upp eftir öllum leggnum. Já nýtt slys á afrekaskrána Sideways. Hann fór svo í aðgerð og breyttist sumarfríið því í veikindarleyfi. Ég man alltaf eftir svipnum á hjúkkunni sem var á ganginum þegar hann beið eftir að komast í aðgerð og kannaðist við hann eftir tunguslysið og sagði „nei þú aftur". Sögin mátti því bíða úti á palli fram á haust, uns UMFUS félagarnir tóku að hjálpa UMFUS hrakfallabálki Nr. 1, þeir eru nefnilega svona eins og mafían, standa við bakið á sínum. En hrakfallabálkur númer eitt fór samt á rjúpu með Banda og Dóra og endaði svo árið með því að ganga 20 kílómetra með UMFUS á tindana í Mosfellsbænum, geri aðrir betur. Það eru nokkrir búnir að leggja það til að nú yrðu fótboltaskórnir Ella bronsaði og settir á hilluna, en mömmunni þætti nú meira við hæfi að þeir yrðu bara gifsaðir.

DSC08148 IMG_8926

Elli hélt áfram að skátast á árinu, en þátttaka landsmótsins á Akureyri fór þó fyrir ofan garð og neðan vegna fótbrotsins og varð stutt heimsókn í Mosverjabúðir því að duga í þetta sinn. Á haustmánuðum hætti hann í stjórn Kiwanisklúbbsins Mosfells, en tekst samt einhvern vegin alltaf að ná sér í verkefni þar.

 IMG_8066 Herdís og Sigrún María í Vatnajökulsþjóðgarði

Rituhöfðamamman er enn að þykjast vera atvinnupólitíkus, en er náttúrulega háskólanemi og er nú á lokaspretti meistaranámsins í  umhverfis- og auðlindafræðum og stefnir enn að því að  útskriftin í febrúar 2009. Þann 29. maí hófst síðasta HÍ námskeiðið Stjórnun þjóðgarða með málþingi í Öskju. Gamla almannavarnahjartað fór að slá örar þegar húsið tók að skjálfa, JARÐSKJÁLFTI og sá ekki af minni gerðinni. Samt var námskeiðið nú klárað með yndislegri helgi í Vatnajökulsþjóðgarði. En þegar heim kom hófst jarðskjálftavinna með sveitarfélögum á Suðurlandi. Leiðbeiningar um viðbragðsáætlun fyrir starfsmenn sveitarfélaga sem voru afrakstur rúmlega þriggja ára rannsóknaverkefnis, Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum, sem Dr. Guðrún Pétursdóttir stýrði fór strax í notkun. Að vísu voru þær ekki alveg tilbúnar og átti að klára þær með Ísafjarðarbæ, en tekin var ákvörðun um að nýta frekar jarðskjálftann sem gert var og var LVN bókin góða gefin út í september og niðurstöður hennar kynntar með pompi og prakt á málþingi í Háskólanum 4. september og einnig á Vísindakaffi Rannís.

MBL0176991

Tími Rauða kross sjálfboðaliðans var runninn upp og situr frúin nú í þriggja manna rekstrarstjórn fatasöfnunarverkefni Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði, verkefni sem hún startaði með deildunum á tímum svæðisfulltrúans um árið. Búið er að flytja reksturinn, opna nýja verslun að Laugavegi 16, breyta fyrirkomulagi fataúthlutunar og halda sparifatasöfnun til að geta komið betur til móts við aukna þörf fyrir jólin. Kerlingin gekk einnig til góðs í byrjun kreppunnar og þótti náði ljósmyndari moggans mynd af henni á Krepputorgi þar sem hún var að safna í bauk meðal kaupóðra Íslendinga í ToysR‘Us með fullar innkaupakörfur af leikföngum.

Imported Photos 00001

Frúin komst að því á árinu hvað hún þekkir óskaplega marga kennara þegar hún birtist sem forsíðustúlka á mynd á Skólavörðunni, þar sem verið var að kynna Krikaskóla og er hún enn að bíða eftir fleiri tilboðum í módelstörf. Vorið hófst með því að mamman fékk græna fingur fór á námskeið í lífrænni matjurtaræktun á Dalsá í Mosfellsdalnum, hjá henni Jóhönnu Magnúsdóttur. En eitthvað fór nú samt lítið fyrir uppskerunni. 

IMG_8729 IMG_7657 IMG_9388

Líkt og fyrri ár var frúin styrktarfélagi í World Class, en fór í frábæra heilsuferð með Kristínu systur og Vilborgu (næstum systur) til Póllands í maí og komu þær systur öllu léttari og endurnærðar heim Uzboja. Sumarið fór í fellagöngu með tengdó á meðan karlinn var heima fótbrotinn og krossuðum við við Mosfell, Reykjafell og Úlfarsfell, en Sædís Erla stóð sig best og hlóp upp og niður án þess að blása úr nös. En haustið fór í skólastress og kreppu, en stefnt er að því að árið 2009 verði ár heilsuræktarinnar og látið verði af hinum árlega árgjaldastyrk til World Class, það er ekki hægt að fara til Póllands í hvíld á krepputímum, en Elli púlar svo sem er fyrir tvo W00t.

DSC09517utskrift asdisIMG_0151DSC09435

Ásdís Magnea er orðin sextán ára. Hún útskrifaðist frá Lágafellsskóla í maí og sem formaður nemendafélagsins hélt hún útskriftarræðu nemenda með glæsibrag og gerði foreldra sína eðlilega afar stolta. Hún fór í Borgarholtsskóla, á lista og margmiðlunarbraut, enda listaspíra fram í fingurgóma og nýtur hverrar mínútu framhaldsskólalífsins. Hún er í nýnemaráðinu og tók líka þátt í Leiktu betur með Borgó, enda virkur félagi í Leikfélagi Mosfellssveitar og nokkuð efnileg í leiknum og tók þátt í nokkrum sýningum á árinu eins og "Ýkt kominn yfir þig" í ágúst, jólasýningu og fleira. Í haust fór hún í Listaskóla Mosfellsbæjar, í söngnám og má segja að hún blómstri þessi elska, lífsglöð og yndisleg. Skátaáhuginn er eitthvað að dofna en hún fór nú samt með Mosverjum á landsmótið á Akureyri, en segja þeir ekki „einu sinni skáti ávalt skáti". Hún var að vinna á leikskólanum Huldubergi í sumar og fékk vinnu með skólanum í vetur og nær þar að fá góða útrás fyrir bæði söng og leik .... og þykir ekki verra að fá líka borgað fyrir það.  Ásdís Magnea byrjaði að læra á bíl í desember. Hún settist inn bílinn, startaði og keyrði af stað ... og þá sagði kennarinn það sama og sagt var við mömmu hennar í fyrsta ökutímanum .... „nú já ég sé að þú hefur keyrt fyrr".

IMG_8835 CIMG8650 IMG_9130 

Sturla Sær er orðinn táningur, þrettán ára og næstum orðinn eins stór og Ásdís Magnea (sem er afrek út af fyrir sig). Hann er kominn í 8. bekk í gaggó West í Lágafellsskóla, er mjög virkur félagslega, með heilan her af félögum í kring um sig og stendur sig vel í skólanum, en á það samt til að tala of mikið í tímum ;). Hann vann sína fyrstu kosningabaráttu um sæti í nemandaráðinu og seinna náði hann líka sæti í ungmennaráði Mosfellsbæjar og situr þar með Ásdísi systur sinni sem er fulltrúi framhaldsskólanema. Útrás fær hann við snjóbrettaiðkun sem hann stundar af krafti þegar snjórinn sést og eins hélt hann áfram að æfa bæði handbolta og fótbolta með Aftureldingu á árinu. Hann fór í frábæra æfingarferð með fótboltanum til Danmerkur í upphafi sumars, þar sem hann og annar félagi hans redduðu sér m.a. sjálfir sumarklippingunni og þurftu ekki klippingu fyrr en um haustið (líkur mömmu sinni þessi elska). Sturla hefur verið kirkjurækinn með eindæmum á haustmánuðum, enda sveinninn farinn á fullu í fermingarundirbúningi og mun hann fermast 5. apríl 2009.

IMG_0418 IMG_9714 DSC08817IMG_7117

Fröken Sædís Erla varð fimm ára í október og er hún eins og amma og afi á Sigló segja, algjör sólargeisli. Hún er á lokaári sínu í leikskólanum Huldubergi og deildinni Silfurbergi. Hún byrjaði í fimleikum í haust hjá Aftureldingu og skemmtir sér hið besta, með Önnu Siggu vinkonu sinni og Bengtu Kristínu bekkjarsystur.  Hún heldur sem fyrr uppi stuðinu, talar enn jafn mikið og erum við jafnviss og fyrri ár að hún verði stjórnmálamaður, hún er nefnilega ótrúlega lagin við að tala í kring um hlutina og ná sínu fram.  Hún er ætlar ekki að verða heldur segir okkur að hún sé listamaður og málaði stolt jólagjafir handa foreldrum sínum fyrir jólin. Desember var þeirri stuttu svolítið erfiður og þá sérstaklega það að fara að sofa vitandi það að einhver jólasveinn kæmi inn um gluggann. Aðfaranótt aðfangadags var þó verst, en þá var það ekki tilhugsunin um jólasveininn, heldur alla pakkana sem biðu þess að verða teknir upp og má segja að vakan hafi byrjað um kl.3 um nóttina. En stórfrétt ársins er líklega sú að vinan sæla er komin með lausar tennur, sem er sko ekkert smá þegar maður er fimm.

 Lucy gamla í garðinum Systurnar Skvísý og Lucy Voffi gullfiskur

Lucy okkar hélt áfram að búa hjá ömmu og afa á Sigló, en fór hún í himnasveitina sl. haust sem var sárt, en gott fyrir hana því hún var svo slæm af fæðuofnæmi elsku kerlingin. Ásdísi Magneu langaði voðalega mikið í hund aftur, en fékk svo gullfisk frá Kristínu frænku sinni og skírði hann Voffa (smá hint). Nú hún gafst ekki upp og eitt sumarkvöld sátu mæðgurnar og vöfruðu á netinu og fundu draumavoffann, litla fjögurra og hálfsmáðana tík í Sandgerði sem vantaði nýtt heimili. Fjölskyldan brunaði sem leið lá í Sandgerði til að taka hvuttann út og fórum aftur í hundana. Við gjörsamlega féllum strax fyrir litlu Skvísý okkar Fjeldsted sem er kokteill. Hálf poodle, ¼ pommi og ¼ peking og líður öllum vel með að vera komin með hund að nýju. Þau Elli eru búin að vera á hvolpanámskeiði og grínumst við með það að nú séum við á öllum skólastigum. Mamman í háskóla, Ásdís Magnea í menntó, Sturla Sær í grunnskóla, Sædís Erla í leikskóla og Skvísý á hvolpanámskeiði.

Allir fjölskyldumeðlimir sem geta skrifað eru komnir á Facebook og er búið að stofna hina og þessa hópa. Stofnaði mamman einn Siglufjarðarmafíuna og voru 282 einstaklingar búnir að skrá sig.

Vinir og stjórfjölskylda

 DSC02659 Stóra systir og hestarnir x_DSC06334

Ýmislegt markvert gerðist einnig hjá stórfjölskyldunni á árinu að vanda. Amma og afi á Sigló eru spræk og hefur afinn komið í heimsókn til okkar mánaðarlega allt árið, sem okkur þykir frábært, en hann fer í augnbotnasprautur á Lansann og er náttúrulega búinn að afsanna það sem sagt hefur verið um blinda bletti í augum, því blindi blettur afans er að fá sjón aftur. Amman er alltaf að mála postulín með Gallerí Sigló og gengur vel og hún meira að segja komin á Facebook. Í febrúar varð Kristín systir í Grindó fimmtug, en hún hélt ekki neitt sérstaklega upp á afmælið en við samglöddumst með allt árið í staðinn. Þórður Matthías Jr. útskrifaðist sem kokkur í maí með stæl og fékk verðlaun fyrir góðan árangur, enda búinn að sýna og sanna að hann er frábær kokkur og löngu farinn að starfa með kokkalandsliðinu. Þórður útskrifaðist sem kokkur

 IMG 0954  IMG 0480 

Afi á Sigló hélt upp á áttræðisafmælið í lok september með pompi og prakt í Salthúsinu hjá Kristínu og Dodda í Grindavík. Þar mættu hátt í hundrað vinir og fjölskyldumeðlimir til að fagna þessum stórmerka áfanga og komu Sarah, Cory og Emma litla sem leynigestir í afmælið afa til mikillar undrunar. En mátti karlinn varla vera að þessu þar sem afmælið var haldið í miðri gæsavertíð.  Kristín og Doddi tóku ákvörðun um að selja Salthúsið í lok árs. Þau voru búin að gera frábæra hluti þar og höfum við farið margoft og borðað með ýmsum og sló súperkokkurinn Doddi Jr. í gegn í hvert sinn. Jóhann og Co í Seattle hafa það alltaf jafn gott og blómstra allir í skóla og tómstundum og er alltaf jafn gaman þegar hann lætur sjá sig á klakanum kalda, sem gerist, okkur öllum til ánægju og yndisauka, nokkrum sinnum á ári. Amma Binna dansar alltaf jafn mikið og er jafn milljandi hress og fyrri daginn. Hefur að vanda farið nokkrar ferðir til útlanda á árinu. Siggi og Inga Rósa eru spræk og Birna María og Einar Kristján. Í lok árs ákváðu þau að opna fiskbúð í Mosfellsbæ og verður hún opnuð byrjun janúar, okkur og fjölmörgum  öðrum Mosfellingum til mikillar gleði. Í Noregi fæddist Per Inga og Moniku Siggudóttur Dúdda og Lilju lítill Jónatan 22. október og braggast hann vel.  Hjörleifur og Guðrún giftu sig í ágúst og sagði tengdó að þetta hefði verið brúðkaup aldarinnar, enda giftum við Elli okkur á síðustu öld he he.

Orðin eitt

Þetta ár var ár giftinganna í vinahópnum. Það var ekki óalgengt milli tvítugs og þrítugs en við höfum ekki upplifað svona ár lengi. Hjónin á Hæðinni, þau Elísabet og Hreiðar giftu sig með pompi og prakt í Lágafellskirkju, yndislegur dagur með góðum vinum. Svo var það „afmælisveislan" hennar Jónínu Hafdísar æskuvinkonu minnar í maí, en Gummi bað hennar loksins loksins loksins og giftu þau sig, en enginn vissi neitt fyrr en í „afmælinu", en ég missti því miður af því. Svo fórum við Elli í afmæli til lögguhjónanna Maju og Tedda sem endaði sem afmælisbrúðkaupsveisla. Stórfjölskyldan var boðuð á undan hinum og enginn vissi neitt og áður en fólk náði að átta sig mætti prestur og söngsveit og létu þau pússa sig saman og var pabbi brúðarinnar meira að segja á inniskónum. Svo mættum við hin í þessa líka frábærlega skemmtilegu söngveislu. Það mátti segja að þetta hafi verið rétti tíminn til að gera eitthvað miður löglegt af sér, því þarna var lögreglustjórinn og öll lögregluherdeildin stödd á einum stað í Mosfellsbænum. Í september giftu  Keiluhallarhjónin Rúnar og Björk sig og buðu okkur EKKI, en við verðum nú að fyrirgefa þeim það því aðeins börnin voru viðstödd, enda hafa þau bara haft 26 ár til að plana brúðkaupið og því bíðum við bara róleg eftir veislunni næstu áratugi ;).

Ferðalög fjölskyldunnar

DSC07388 skidi_siglo DSC07569

Líkt og fyrri ár fórum við á Siglufjörð um páskana og nutum þess að vera með ömmu og afa og fara á skíði (Sigló um páskana . Nokkur ferðalög voru líka farin í sumar, en vegna fótbrots voru þau nú færri en búið var að plana. Fellihýsið góða koma að góðum notum og fórum við í fyrstu útileguna með sjálfstæðisvinum og Kiwanisfélögum Ella, en hann var svo sniðugur að stefna þessum tveimur hópum á sama staðinn, Leirubakka við Heklurætur Fyrsta útilega sumarsins með Sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ og Kiwanisklúbbnum Mosfelli að Leirubakki við Helkurætur. Við fórum einnig á pollamótið á Akureyri með UMFUS og nutum samvista og fengu stóru strákarnir góða útrás í boltanum. Umfus Akureyri.

Reykjaskóli Gunna Dóra, Bjarki og Herdís Herdís, Bjarki og Gunna Dóra

Ekki sáum við ísbirni á Norðurlandi en mamman fékk að sjá framan í gömlu skólafélagana í Reykjaskóla á móti sem haldið var á Reykjaskóla í ágúst. Þar hittust skólafélagar sem voru í skólanum 1980-1982 og eðilega voru teknar margar myndir sem sjá má hér.

Pólitík

 900astifundurbaejarrds Bruarland_framhaldsskoli

Þetta var ár óróleikans hvað pólitíkina varðar og man maður ekki eftir fleiri meirihlutaskiptum í sveitarstjórnum og á þessu kjörtímabili, en sem betur fer ekki í Mosfellsbænum og gengur samstarf Sjálfstæðismanna við Vinstri græn vel. Síðan gerðist það sögulega að í fyrsta sinn vann öll bæjarstjórnin saman að fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009, sem gladdi formann bæjarráðs. Ýmislegt markvert gerðist á vettvangi bæjarmálanna. Vinabæjarmót í júní og tókum við að okkur tvær yndislegar danskar konur sem við höfum verið í sambandi við síðan. Vinabæjarmót í Mosfellsbæ

Mynd_skoflustunga_krikaskoli_Áfram var unnið að undirbúningi Krikaskóla, fjórða barninu og tók mamman fyrstu skóflustunguna með miklu stolti, enda hefur lengið verið unnið að þeim undirbúningi. Langþráður framhaldsdraumur varð að veruleika og verður framhaldsskólinn í Mosfellsbæ starfræktur frá haustinu 2009 þrátt fyrir kreppu. Ekki er því að leyna að ánægjulegt er að hinn framhaldsskólinn sem einnig verður haldið áfram með er skólinn sem starfrækja á í utanverðum Eyjafirði og staðsettur í Fjallabyggð.

Í upphafi október var bremsuleysi landans á enda eins og sjálfsagt er í fersku minni fólks. Stofnaður var krísuhópur í Mosfellsbæ og Ráðgjafartorg, sem sjálfsagt reynir fyrst á í upphafi nýs árs og eins tók mamman þáttí ráðgjafastofu Hvatarkvenna.

Rituhöfðinn 271 Mosfellsbæ

IMG 0032 Gular og glaðar Ritusveinarnir

Rituhöfðinn fékk nýtt póstnúmer á árinu, 271 Mosfellsbær.  Í túninu heima var tekið með stæl og vann gula hverfið AFTUR skreytikeppnina og þökkum við náttúrulega Rituhöfðanum þennan sigur. Götugrillið var haldið að vanda og var diskó og pönk þema. Það má segja að mamman hafi grillað búningakeppnina og var hún krýnd pönkdrottning Rituhöfðans með pompi og prakt og fékk að launum rauðvín (sem by the way er enn í skúrnum hjá Ástu og Gilla).

DSC09662 DSC09580 DSC09596

Í lok nóvember var haldinn jólaskreytidagur í Rituhöfðanum og hefur gatan aldrei verið jafn vel skreytt og í ár. 3 og 6 eru að vísu á skilorði, þau fengu sjens fram yfir útsölu til að ná sér í seríu á þakskyggnið til að ná þessu bustabæjalúkki sem við stefnum á að ná árið 2009.  Við komum okkur upp Facebook síðu „Rituhöfðinn rokkar" og hafa umræður verið líflegar þar inni og ekki síst í kring um aðfangadag, en þar sem jólasveinagiggið hjá Aftureldingu brást leituðum við að aðal jólasveinunum götunnar og fundum tvo sem auðvelt var að kaupa fyrir jólasveinaöl og slógu þeir heldur betur í gegn hjá Rituhöfðalingunum. Því má segja að við séum bara orðin nokkuð sjálfbær innan götunnar, komin með okkar eigin jólasveina.

Frænkurnar fræknu

Ættrækni mömmunnar hélt áfram á árinu. Við höfum haldið sambandi við kanadísku Vesturfarafjölskylduna okkar og stefnum að því að fara í heimsókn þegar við förum í brúðkaup þeirra Söru og Corys í Seattle á árinu 2009. Síðan gerðist það að á jafnréttisþingi í Mosfellsbænum hittust stórfrænkurnar Herdís og Stefanía María Pétursdóttir og ákváðu dag og stund frænkumóts.  Mótið var haldið og frænkurnar fræknu hittust í Salthúsinu í Grindavík í október og er stefnt að því að halda annað mót í Hrísey í júlí 2009. Frænkurnar fræknu í Grindavík. Síðan lifnuðu galdramenn af Ströndum við, sæl frænka kom upp á Facebook um jólin. Var það ekki Pétur frændi minn og gamall bekkjarbróðir úr Reykjaskóla „mættur". Sagði mér af sýningu sem sett verður upp í sumar og bauð ég mér í nefndina með honum og Halla frænda okkar á Akureyri. Stefnum við að móti á Ströndunum í sumar og eins og Halli sagði að það er kannski eins gott fyrir okkur að byrja strax í upphafi árs, því afkomendur Þorsteins eru tæplega 1000.

gamlars_1 

Gleðilegt ár kæru vinir

Við þökkum ykkur fyrir frábærar samverustundir á árinu sem er að líða og vonandi náum við að hitta ykkur sem flest á komandi ári.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband