Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Siðareglur sveitarstjórnarmanna

DSC01670

Siðareglur hafa verið mótaðar af mörgum starfsstéttum og hefur nokkuð verið fjallað um gerð siðareglna fyrir stjórnmálamenn.

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 2008 var lýðræðishópi sambandsins falið að gera tillögur að siðarreglum fyrir sveitarstjórnarmenn árið 2009. Þá var mikil umræða um það hvort lögfesta ætti gerð slíkra siðaregna eða hvort sveitarstjórnum ætti að vera frjálst að setja slíkar reglur á grundvelli leiðbeininga eða fyrirmyndar sem sambandið gæfi út. Einnig var fólk líka að velta því fyrir sér hvernig málsmeðferð ætti að vera ef slíkar reglur yrðu brotnar og hvaða viðurlög ættu að vera.

Í ágúst 2009 kynnti formaður nefndarinnar, Dagur B. Eggertsson, tillögur sínar á málþingi í Háskóla Íslands sem haldið var í samvinnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stofnunar stjórnsýslufræða. Málþingið bar yfirskriftina "Aukið lýðræði í sveitarfélögum" og þar.

Siðareglur

  • Siðareglur eru safn leiðbeininga um rétta breytni og veita leiðsögn um hvernig bregðast skuli við þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi.
  • Þær hvetja þannig til faglegra vinnubragða
  • Draga úr vandkvæðum við matskenndar ákvarðanir og auka traust á stjórnsýslu og stjórnmálum.

"Lýðræðishópurinn mælir með því að í lögum verði kveðið á um meginatriði og tilgang siðareglna sveitarfélaga og að ráðuneyti sveitarstjórnarmála staðfesti siðareglur þeirra á sama hátt og samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga til að tryggja að siðareglur séu í samræmi við ákvæði laga."

Siðareglur

  • Mælt er með því að ábyrgð vegna brota á siðareglum verði eingöngu pólitísk en ekki lagaleg, sbr. álit umboðsmanns Alþingis.
  • Ef mál er alvarlegt og hefur valdið sveitarfélagi eða almenningi skaða sé þó eðlilegt að sveitarstjórn vísi máli til opinberrar rannsóknar.
  • Lýðræðishópurinn mælir með því að skilyrði um kjörgengi, sbr. 3. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, og hæfi, sbr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, verði endurskoðuð í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun sveitarstjórnarlaga til að skerpa á ábyrgð sveitarstjórnarmanna gagnvart íbúum.
  • Sérstök siðanefnd fyrir sveitarstjórnarstigið verði sett á laggirnar á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún kveði upp leiðbeinandi álit í ágreiningsmálum.
  • Nánar verði kveðið á um stöðu hennar og hlutverk í sveitarstjórnarlögum.

Sambandið lét á sínum tíma þýða siðareglur Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins fyrir kjörna fulltrúa á sveitar- og héraðsstjórnarstigs sem fjallað var um á landsþingi 2006 og sendar sveitarstjórnum. Ég man að á þeirri ráðstefnu kom fram að Reykjavíkurborg væri búin að móta drög að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa, sem samþykktar voru í borgarstjórn í gær. 

Í siðareglum fyrir kjörna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg segir m.a.: "Markmið reglnanna er að skrá og skilgreina þá háttsemi sem kjörnir fulltrúar vilja sýna af sér við öll sín störf. Í þeim er m.a. fjallað um starfsskyldur kjörinna fulltrúa, valdmörk, hagsmunaárekstra, gjafir, fríðindi og trúnað. Með undirskrift sinni undirgangast fulltrúarnir siðareglurnar og lýsa því þar með yfir að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi í störfum sínum fyrir Reykjavíkurborg."

Kópavogsbær var þó fyrstur allra sveitarfélaga til að setja siðareglur fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur í sveitarfélaginu í maí 2009. Í frétt á netsíðu Kópavogs segir m.a. um málið:  "Markmiðið með siðareglunum er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til af bæjarfulltrúum og stjórnendum í störfum þeirra fyrir Kópavogsbæ og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Samkvæmt siðareglunum ber þeim m.a. að gæta almannahagsmuna og starfa fyrir opnum tjöldum á málefnalegum forsendum. Þeir mega hvorki hvetja eða aðstoða kjörinn fulltrúa eða starfsmann Kópavogsbæjar við að brjóta reglurnar né beita réttindum eða aðstöðu sem fylgja embætti þeirra í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra. Jafnframt eru ákvæði í siðareglunum um gjafir og fríðindi, hagsmunaárekstra, ábyrgð í fjármálum og þjónustu við almenning. "

Sveitarstjórnarmenn starfa m.a. á grundvelli lsveitarstjórnarlaga og hefur Mosfellsbær samþykktir fyrir störf þeirra. Ég er engu að síður fylgjandi gerð siðaregna fyrir kjörna fulltrúa og höfum við rætt um gera slíkra reglur í Mosfellsbæ. Á sínum tíma var ákveðið að hinkra eftir sniðmáti eða leiðbeiningum frá lýðræðishópi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem talað var um að ætti að leggja fram á þessu ári.

Nú er búið að kynna tillögur lýðræðishópsins sem taka til mála í bráð og lengd og líkt og fram kom þá eru siðareglur eru safn leiðbeininga um rétta breytni og veita leiðsögn um hvernig bregðast skuli við þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi. Þær hvetja þannig til faglegra vinnubragða og draga úr vandkvæðum við matskenndar ákvarðanir og auka traust á stjórnsýslu og stjórnmálum.


Borgarar taka málin í sínar hendur

Nærþjónusta er þjónusta við íbúa, í þeirra heimabyggð, í þeirra þágu. Ég hef velt slíkri þjónustu töluvert fyrir mér á liðnum, bæði varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga sem og í tengslum við efnahagshrunið og niðurskurðartillögur ríkis og sveitarfélaga á þjónustu. Sveitarfélög sinna meirihluta nærþjónustunnar heima í héraði, en einnig eru ýmsar ríkisstofnanir á vegum ríkisins í heimabyggð s.s. heilbrigðisþjónusta, löggæsla og kirkjan.

Ákvarðanir um skerðingu á þjónstu geta valdið miklum usla og höfum við séð nokkuð af slíkum mótmælum að undanförnu. Krafa um niðurskurð á sjúkrahúsum hafa valdið harðvítugum deilum líkt og ég upplifði þegar ég var á Siglufirði um daginn vegna uppsagnar yfirlæknis á sjúkrahúsinu í Fjallabyggð. Um var að ræða uppsögn yfirlæknis sem þjónað hefur byggðarlaginu í áratugi og fór sú ákvörðun illa í heimamenn. Þeir tóku til sinna ráða og mótmæltu harðlega. Sátt náðist og fyrri ákvörðun var breytt, yfirlæknirinn verður áfram að vinna í þágu íbúanna. 

Fleiri slík mál hafa sést að undanförnu. Mótmælendur frá Reyðarfirði mótmæltu með búsáhöldum á Egilsstöðum og kröfðust þess að fá yfirlæknirinn sinn til starfa. Ekki var það vegna samdráttar heldur vegna kæru um meint misferli með fjármuni stofnunarinnar. Eitthvað er búið að vandræðast með kæruna og hafa hin ýmsu embætti komist að því að málið sé ekki saknæmi. Fólkið sætti sig ekki við þetta lengur og mætti með potta, lúðra og skilti og krafðist réttlætis og þess að hann.

Ég ætla ekki að taka afstöðu í þessum máli varðandi sóknarprestinn á Selfossi, en það eru margir aðrir sem hafa gert það. Fyrst voru það kærendur, kirkjan setti hann í frí, dómstólar dæmdu hann saklausan, íbúar mótmælti, biskup færði hann til í starfi, presturinn endursendi biskupi bréfið og hélt fund með stuðningsmönnum sínum sem ályktaði og vildi fá hann til starfa og núna eru íbúar búnir að mótmæla harðlega.

Það er greinilegt að borgarar eru mun virkari í því að sýna afstöðu sína en áður. Það er þannig þegar þjónusta færist nær, þá verður hún persónulegri, enda kölluð nærþjónusta.


mbl.is Vilja Óskar Hafstein áfram sem prest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsfaraldur inflúensu

Mér varð hugsað til þess þegar ég lá með svínaflensuna í síðustu viku hvað stutt er síðan ég var nokkuð viss um að kominn væri heimsfaraldur. 

Þann 29. apríl sl. skrifaði ég blogg "Svínaflensan lögð af stað í leiðangur".

Svínainflúensan virðist vera lögð í hann um heiminn. Góðu fréttirnar eru þær að til eru lyf sem virka á svínaflensuna, ólíkt fuglaflensunni sem óttast var að breiddist út og búið er að fylgjast með á liðnum árum. 

Það eru mörg lönd sem hafa viðbúnað og viðbragðsáætlanir til að bregðast við farandi og er Ísland eitt þeirra. Ég tók þátt í mótun þeirrar áætlunar þegar ég vann hjá Rauða krossinum og fylgir því mikið öryggi fólgið í því að vita af því að aðilar eru búnir að móta samhæfingu og samstarf ef til faraldurs kemur. En þetta er þó viðráðanlegri stofn og er ég því bara nokkuð björt yfir ástandinu og óttast ekki að heilbrigðisyfirvöld og almannavarnir ráði ekki við verkefnið ef til þess kemur.

Hér eru frekari upplýsingar um pestina http://www.influensa.is/"

Á síðustu öld gengu þrír heimsfaraldrar inflúensu yfir; sá fyrsti var nefndur spánska veikin 1918-1919,  næsti heimsfaraldur sem fékk heitið Asíuinflúensan gekk yfir 1957-1958,  sá síðasti árin 1968-1969 var kenndur við Hong Kong. Þegar fuglaflensan fór að ganga var talið mögulegt að H5N1 fuglainflúensan gæti orsakað næsta heimsfaraldur inflúensu með stökkbreytingu eða samruna, en það reyndist verða H1N1 sem nú gengur eins og eldur í sinu um landið þessa dagana.

Á vef Landlæknis sá ég að þann 11. október 2009 höfðu alls 323 einstaklingar greinst með inflúensu A(H1N1)v 2009 á Íslandi sem staðfest var á veirufræðideild Landspítala. Þar af voru 171 karlar og 152 konur. Tilfelli hafa nú greinst hjá fólki með búsetu á öllum sóttvarnaumdæmum.

Síðastliðnar tvær vikur má sjá mikla aukningu á tilfellum sem staðfest eru með sýnatöku þrátt fyrir tilmæli frá því um miðjan ágúst (viku 33) um að dregið skyldi úr sýnatöku, sjá mynd 4. Samtímis fjölgaði sýnum sem send eru í rannsókn  og endurspeglar það að líkindum aukinn fjölda inflúensutilfella í samfélaginu. Hlutfall sýna sem reyndust jákvæð fyrir inflúensu A(H1N1)v 2009 hækkaði einnig mikið síðustu tvær vikur (sjá mynd 5) og má því álykta að þeir sem fá einkenni inflúensu núna séu mjög líklega með inflúensu A(H1N1)v 2009.

Þetta er algjörlega í samræmi við það sem maður sér í kring um sig. Mjög margir eru veikir og nú er bóluefnið komið til landsins og um að gera fyrir þá sem ekki þegar hafa veikst að láta bólusetja sig.

m3_11_10_09

m2_11_10_09

m5_11_10_09


mbl.is Byrjað að bólusetja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég veiktist af H1N1

DSC03941

Síðasta vika er ein af þessum vikum sem ég á örugglega eftir að muna um ókomna tíð, sem vikuna sem ég lá veik vegna H1N1, eða svínaflensu eins og pestin er nefnd í daglegu tali manna á milli.

Það eru mikil veikindi um allt og greinilegt að hér er inflúensufaraldur. Fyrir helgina voru yfir 20% barna í grunnskóla krakkanna minna veik og fjöldi kennara. Eins voru margir veikir í framhaldsskólanum hjá minni elstu. 

Við vorum þrjú hundveik hérna heima alla síðustu viku, ég Sædís Erla og Sturla Sær. Ásdís var bara svona hálfveik og lá okkur til samlætis hluta vikunnar, þannig að einkennin eru greinilega eitthvað misjöfn. Elli minn hefur trúlega fengið pestina seinnipart sumars, en þá var hann með pest sem lýsti sér eins og þessi sem við hin fengum.

Pestin byrjaði með höfuðverk og slappleika. Ég fór á Esjuna með Hafdísi Rut vinkonu minni á laugardaginn fyrir viku síðan og var að vísu ekki alveg að ná því af hverju ég var svona rosalega móð og svitnaði ótrúlega og fannst ég alveg í ömurlegu formi. En svo á sunnudeginum kom í ljós að trúlega var þetta ekki dagsformið, eða ekki eingöngu að minnsta kosti heldur trúlega pestin. Þá var ég búin að vera með þennan höfuðverkinn í nokkra daga. Við Sturla fengum svo hita, beinverki og lungnakvef. Það sem var ólíkt venjulegri inflúensu voru verkirnir sem við fengum í lungun, eða brjósthimnuna og svona í gegnum okkur. Svo fengum við líka rosalega verki í bakið, eða í allt brjóstbakið og vorum með mikið ofurnæmi í húðinni. Eins fengum við verki í augun og náðum ekki fókus þegar við vorum verst og virðist sem slímhimnan í augunum hafi heldur betur fengið pest.

Rúmri viku eftir að við veiktumst er Sturla Sær enn með hita og liggur heima. Við Sædís Erla erum komnar á ról, hún eftir tæpar tvær vikur og ég eftir rúma viku. En við förum varlega.

Ástæða þess að ég óskaði eftir sýnatöku er sú að ég er með ofnæmi og get ekki látið bólusetja mig. En líkt og Haraldur sóttvarnalæknir sagði í síðustu viku eru flestir þeirra sem eru með inflúensulík einkenni sýktir af H1N1, svo ég var nokkuð viss. En það var ágætt að fá þetta staðfest í dag.

Fyrir fólk sem er sæmilega hraust er H1N1 ekki ekkert til að hræðast. Það er mikilvægast að drekka vel, reyna að nærast og taka verkjalyf til að lækka hita og slá á verstu verkina. Það er verst fyrir þá sem eru veikir fyrir að fá svona sýkingu og sjálfsagt mál fyrir þá sem geta að láta bólusetja sig. Því fagna ég því að búið sé að flýta bólusetningum.

Þar sem ég starfa m.a. við að gera viðbragðsáætlanir við heimsfaraldri inflúensu, voru vinir mínir að grínast með að þetta væri vissulega ein leið til að taka vinnuna með sér heim ....

 


mbl.is 15 þúsund skammtar á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónukjör - verður það prufukeyrt í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári?

Ríkisstjórnin samþykkti í júní frumvörp dómsmálaráðherra um persónukjör í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og voru þau send stjórnarþingflokkunum til afgreiðslu. Ég sá á málalista ríkisstjórnarinnar að þetta mál er eitt af forgangsmálunum, og stefnt er að því að málið verði afgreitt á haustþinginu. Enda var Steingrímur J. búinn að segja að hann vildi prufukeyra það á sveitarstjórnarkosningunum, okkur sveitarstjórnarmönnum til mikillar hrellingar, enda hefur verulega skort á kynningu og umræðu um málið.

Persónukjörskerfið sem er til umfjöllunar er að írskri fyrirmynd. Með þessum breytingum er hvorki hróflað við listakosningu né hlutfallskosningakerfinu hér á landi og eftir sem áður getur kjósandinn aðeins valið einn stjórnmálaflokk.

Þar er lagt til að kjörseðillinn verði tvískiptur. Efri hluti framboðslistans er óraðaður. Eru nöfn þeirra sem boðnir eru fram til persónukjörs raðað í stafrófsröð en varpa skal hlutkesti um hver skuli vera efstur. Kjósandinn getur raðað frambjóðendum þess lista sem þeir merkja við, í þá röð sem þeir vilja á svipaðan hátt og tíðkast í prófkjörum.

Neðri hluta  listans skipa frambjóðendur sem boðnir eru fram með sama hætti og við þekkjum. Geta stjórnmálaflokkar ráðið með hvaða hætti þeir raða listanum. Þeir geta notað prófkjör, forval, uppstillingu eða hvaða leið sem þeir kjósa. Fjöldi frambjóðenda getur verið breytilegur, allt frá því að engir séu boðnir fram í hin röðuðu sæti til þess að sætin séu fullmönnuð.

Persónukjörið og röðun kjósandans á efri hluta listans hefur því áhrif á það hvaða frambjóðendur hreppa þau sæti sem listinn fær í viðkomandi sveitarstjórn, en neðri hluti listans er í raun aðeins leiðbeinandi fyrir kjósandann.  Einnig sá ég að yfirstikanir eins og við þekkjum í dag munu ekki gilda lengur.

Þrátt fyrir að þetta mál sé á dagskrá á haustþingi sýnist mér sveitarstjórnarmenn ekki ganga út frá því að það verði samþykkt fyrir kosningar næsta vor. Persónulega sé ég það sem ókost að hafi ekki oddvita í kosningabaráttunni, enda heyrist mér líka fólk vera að fara hefðbundnar leiðir í vali á lista eins og áður og verður fyrsta prófkjörið hjá Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi haldið í byrjun nóvember.

Ekki hef ég á móti lýðræðisumbótum og síður því að kjósendur hafi meira að segja um röðun á listum, en ég sé það bara ekki gerast með þessum breytingum. Ég er verulega hugsi yfir þessum boðuðu breytingum sem mér finnst ekki hafa fengið nægilega umfjöllun eða umræðu í samfélaginu.

Er núverandi kosningakerfi svo slæmt? Er gjörsamlega ómögulegt fyrir fólk að hafa áhrif á röðun fólks á lista? Er kosningaþátttaka slæm? Svarið er nei og sýnist mér þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar því miður fyrst og fremst vera til að breyta, breytinganna vegna. Af hverju var til dæmis ekki valið að ganga alla leið og leyfa kjósendum að velja á listann sinn fólk úr öllum flokkum?

Ég fór til Bandaríkjanna í sumar og var verið að kjósa til borgarstjórnar og ræddi ég kosningar við marga heimamenn og setti mig inn í málefnin og las leiðbeiningarnar fyrir þá sem ætluðu að kjósa. Um var að ræða töluvert flókið ferli, enda var lítill áhugi og kosningaþátttaka dræm. Ég vona að þróunin verði ekki svona hérna á Íslandi. Hér klæða flestir sig upp og mæta á kjörstað og kjósa þann flokk og fólk sem það treystir til að vinna fyrir sig og með sér að framförum í samfélaginu á hverjum tíma.

Hvernig sem meðferðin verður á persónukjörsfrumvarpinu á Alþingi þá vona ég að okkur auðnist að hafa kosningar á Íslandi þannig að kerfið verði ekki svo flókið að fólk treysti sér ekki til að kjósa og eins hitt að fólk sjái tilganginn í því að kjósa.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband