Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Bæjarráð Mosfellsbæjar mótmælir frestun tvöföldunar Vesturlandsvegar harðlega

Á fundi bæjarráðs í morgun samþykktum við einróma að senda samgönguráðherra og þingmönnum svohljóðandi bókun:
 
"Bæjarráð Mosfellsbæjar mótmælir harðlega þeirri forgangsröðun verkefna í vegagerð sem samgönguráðherra, Kristján Möller, hefur tilkynnt um. Í kjölfar ákvörðunar um niðurskurð í vegagerð  er tvöföldun Vesturlandsvegar við Mosfellsbæ frestað sem og öðrum brýnum verkefnum á höfuðborgar-svæðinu en á sama tíma tilkynnt um að ákvörðun hafi verið tekin um að ráðast í gerð jarðganga í gegnum Vaðlaheiði.

Tvöföldun hringtorgs og gerð hljóðmana meðfram Vesturlandsvegi, sem tilbúið er til útboðs, og átti að bjóða út í þessum mánuði ásamt tvöföldun á kaflanum frá Hafravatnsvegi að Þingvallavegi, eru afar brýnar framkvæmdir fyrir íbúa Mosfellsbæjar, sem og þá sem ferðast um þennan fjölfarna vegarkafla. Yfir sumartímann eru það 15.750 bílar á dag sem aka þennan vegakafla á Vesturlandsvegi og samsvarar það1,4 milljónum bíla á tímabilinu júní til ágúst.

Vesturlandsvegur er einn hættulegasti þjóðvegur landsins og liggur hann þvert í gegnum Mosfellsbæ.  Á síðustu áratugum hafa orðið fjölmörg banaslys innan bæjarmarka Mosfellsbæjar. Á þeim stutta kafla sem fresta á framkvæmdum við hafa orðið þrjú banaslys og að auki fjöldi alvarlegra slysa á kaflanum frá Álafosshringtorgi að Þingvallahringtorgi. Umferð er mjög þung á þessum kafla og umferðateppa algeng á álagstímum. Á síðustu tveimur árum hafa orðið tíu umferðaróhöpp og minniháttar slys á kaflanum frá Álafosshringtorgi að Áslandi. Að auki verða íbúar við Vesturlandsveg fyrir verulegri lífsgæðaskerðingu vegna umferðarhávaða og tafa vegna mikillar umferðar í gegnum bæinn.

Í ljósi þessa er ótækt að fresta framkvæmdum við hringtorg við Álafossveg og gerð hljóðmana við Vesturlandsveginn lengur en orðið er.

Mosfellsbær skorar á  samgönguráðherra að endurskoða ákvörðun sína um forgangsröðun verkefna í vegagerð með bætt umferðaröryggi."


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband