Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Í túninu heima - bæjarhátíð í Mosfellsbæ

Það verður mikið um að vera í Mosfellsbænum um helgina á bæjarhátíðinni okkar "Í túninu heima". Sú hátíð er árlegur menningarviðburður í Mosfellsbænum og dagskráin bæði skemmtileg og fjölskylduvæn og óhætt að segja að hér sé eitthvað fyrir alla.

IMG_2014 Sigurður Ingvi Snorrason, bæjarlistamaður Mosfellsbæjar

Í gær voru veittar umhverfisviðurkenningar og fengu tveir glæsilegir garðar viðurkenningu. Svöluhöfði 11 fyrir stílhreinan og fallegan garð og Dalatangi 7 fyrir fallegan og vel skipulagðan garð. Einnig fengu verkstæðin þeirra Jóns B og Bjössa í Hlíðartúni 2, sem hafa lagt áherslu á umhverfismál í öllu starfi sínu og er umhverfið í kring um verkstæðin vel snyrt og ætti að vera öðrum fyrirtækjum til eftirbreytni. En þetta vita náttútulega þeir Mosfellingar, sem notið hafa þjónustu þeirra í áratugi. Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar var einnig útnefndur Sigurður Ingvi Snorrason, klarínettuleikari. Mosfellingar þekkja hann vel og hefur hann í áratugi lagt mikið af mörkum til menningarlífs hér í bæ.

IMG_2038

Eftir dagskrána á torginu var komið að brekkusöng í Ullarnesbrekkunum. Ullarnesbrekkurnar eru staðsettar í nýja Ævintýragarði okkar Mosfellinga og fórum við þangað í litaskrúðgöngu. Fremst í skrúðgöngunni fór Ólína gulu á bjöllunni og við þessu gulu glöðu á eftir. 

IMG_2051  IMG_2085

Þegar við komum að brúnni við Varmána sviptum við Haraldur bæjarstjóri og Jónas Sigurðsson hulunni af bautasteini, sem hér eftir mun bjóða gesti velkomna í ævintýragarðinn. Þar er einnig hægt að öskra við ána, svona ef krepputaugar fólks eru þandar. 

IMG_2059 IMG_2105

Svo var komið að brekkusöngnum og byrjaði Karlakór Kjalnesinga sönginn og söng nokkur vel valin lög, sem þeir eru búnir að gefa út á diski sem hefur meira að segja að geyma Blakk sem er nú eitt af mínum uppáhalds. En við sungum það oft í Reykjaskóla um árið, en það er annað mál. Svo kom Hljómurinn okkar frábæri, sem aldrei klikkar og kunnu gestir vel að meta þá og sungu með af krafti öll skemmtilegu varðeldalögin.

IMG_2111  IMG_2107 Hjónin í 6.

Við fórum snemma heim, enda var litla skólastelpan hálf lúin eftir tvo stranga daga í nýja skólanum .... já og svo áttum við líka eftir að kveikja á ljósastaurnum við Rituhöfða 4 og gulu seríunni minni sem ég lét gera í litla reynitréð mitt um árið, fyrir fyrstu hátíðina. Við hittum líka góða granna sem voru að leggja síðustu hönd á skreytingar götunnar. Vegabréfaeftirlitið var komið á sinn stað og búið var að lýsa yfir sjálfstæði fríríkisins Rituhöfða, enda erum við löngu komin með póstnúerið 271.

Það er alveg hægt að mæla með því að fara í leikhúsið í Mosfellsbæ. Leikfélag Mosfellssveitar er að sýna Fúttlús, þann skemmtilega söngleik. Við fjölskyldan fórum á fimmtudaginn og skemmtum við okkur konunglega. Leikarar eru krakkar sem hafa verið á leiklistarnámskeiði í sumar og stóðu þau sig frábærlega, miklir talentar þar á ferð.

Í dag verður mikið fjör á Varmársvæðinu, skátarnir með ratleik, flóamarkaður í Álafosskvos og fleira og fleira.... Það er líka hægt að fara á grænmetismarkaðinn í Mosfellsdalnum og fylgjast með sultukeppninni sem er árlegur viðburður og skemmtilegur og er hægt að fá sér kaffi og skúffuköku,,,eða bara grænmeti : O fyrir þá sem eru í aðhaldi. 

Það er dagskrá í allan dag bæði í íþróttahúsinu og á svæðinu þar í grennd. Margt að gera fyrir ungu krakkana, unglinga og þá sem eldri eru. Elli er á Tungubökkunum, en þar fer fram mikið fótboltamót fullorðinna og hefur þátttakan aldrei verið meiri. Ólympíuleikar fyrirtækjanna í Mosfellsbæ fara fram við íþróttahúsið og ætlum við að mæta og hvetja Fiskbúðina Mos, þeirra Sigga og Stjána, en bæði tengdó og Sturla hafa bæði verið að vinna þar.

Í kvöld verða fyrst útitónleikar á torginu með Bubba og Egó og Pöpunum og fleiri góðum gestum. Kynnir kvöldsins kemur náttúrulega úr fríríkinu Rituhöfða, sjálfur Steindi Jr. og mun hann sjálfsagt ekki klikka á gríninu frkar en fyrri daginn.

Um miðnætti verður svo ball í íþróttahúsinu í kvöld með Egó og Pöpunum og veit ég að margir munu leggja leið sína á sveitaballið í borginni. Við Elli eigum boð í fjölmörg forpartý um allan bæ og utan. Því er ljóst að fjölmennt verður á ballinu og mikil stemming í sveitinni og ekki síst meðal okkar "gamlingjanna".


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband