Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
Takk fyrir stuðninginn kæru Mosfellingar
9.2.2010 | 14:12
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara 29. maí fór fram laugardaginn 6. febrúar 2010. Á kjörskrá voru 1341 manns og 826 manns kusu sem þýðir 61% kjörsókn. 15 manns gáfu kost á sér í prófkjörinu.
Röð efstu 7 var sem hér segir.
- Haraldur Sverrisson með 671 atkvæði í 1. sæti (83,5%)
- Herdís Sigurjónsdóttir með 364 atkvæði í 1. - 2. sæti (45,3%)
- Bryndís Haraldsdóttir með 340 atkvæði í 1.- 3. sæti (42,3%)
- Hafsteinn Pálsson með 324 atkvæði í 1. - 4. sæti (40,3%)
- Kolbrún G. Þorsteinsdóttir með 343 atkvæði í 1.-5. sæti (42,7%)
- Rúnar B. Guðlaugsson með 323 atkvæði í 1.-6. sæti (40,2%)
- Theodór Kristjánsson með 370 atkvæði í 1. - 7. sæti (46,0%)
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri gaf einn kost á sér í fyrsta sæti og hlaut hann 83,5% atkvæða í það sæti sem er glæsileg kosning. Sjálf sóttist ég eftir 2. sæti og náði því takmarki og hlaut 364 atkvæði í 1. og 2. sæti. Fjórir aðrir sóttust eftir 2. sætinu og því er ég sæl með að ná settu marki. Næsti maður inn hlaut 340 atkvæði í 1-3 sæti.
Áfram verða konur í forystusveit í Mosfellsbæ
Í Mosfellsbæ myndaðist náttúrulegur fléttulisti. Í átta efstu sætunum eru fjórar konur og fjórir karlar. Í fyrstu 5 sætunum eru þrjár konur og tveir karlar. Það er ekkert nýtt í Mosfellsbænum og á þeim tíma sem ég hef starfað fyrir Mosfellsbæ hafa oftar en ekki verið fleiri konur í bæjarstjórn. Árið 1954 var Helga Magnúsdóttir á Blikastöðum var fyrst kosin í sveitarstjórn og síðan endurkjörin 1958. Hún var oddviti og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins. Aðrar konur hafa einnig verið í forystusveit . Má nefna Salóme Þorkelsdóttur, fyrrverandi forseti alþingis sem var í sveitarstjórn og einnig Helgum Richter sem starfaði í 16 ár fyrir sveitarfélagið, ef ég man rétt. Ekki má heldur gleyma henni Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrrverandi oddvita okkar sjálfstæðismanna sem kjörin var 2002 og var bæjarstjóri til 2007, þegar hún var kjörin þingmaður og Haraldur tók við.
Kostnaður við prófkjör
Hvað varðar kostnað í prófkjörinu þá reyndi ég að halda honum í lágmarki og fékk enga styrki. Ég var með kosningaskrifstofu við stofuborðið í Rituhöfðanum. Ég gaf út einn bækling sem vinir mínir dreifðu í svokallaðri vinagöngu Herdísar. Ég gerði bókamerki og setti eina auglýsingu í Mosfelling. Ég vann allt efnið sjálf, var minn eigin kosningastjóri, með góðum stuðningi vina minna. Kostnaður sýnist mér vera rétt rúmar tvö hundruð þúsund krónur, en það kemur betur í ljós á næstu dögum. Ég mun birta uppgjörið.
Prófkjörstrix
Kosningabaráttan var snörp og verð ég að viðurkenna að ég er fegin að hún er yfirstaðin. Það á einfaldlega ekki við mig að slást við félaga mína. Ég tel mig hafa háð heiðarlega kosningabaráttu og hvatti kjósendur til að hugsa um hag listans. Í mínum huga er fráleitt að hugsa til þess að "trixið" til að koma sér áfram í prófkjörum almennt sé að hvetja stuðningsfólk til að merkja ekki við þá einstaklinga sem verið er að keppa við um sæti, hvort sem þeir eru frambærilegir eða ekki. Ég ætla ekki að spá í hvort slíkt hafi verið gert hér, en er afar þakklát þeim 605 Mosfellingum sem kusu mig. Ég þakka þeim fyrir að velja mig í forystusveit og treysta mér fyrir stjórn Mosfellsbæjar á næstu árum. Líkt og ég hef oft sagt að undanförnu þá mun ég áfram leggja áherslu á heiðarleika, góðan rekstur og skilvirka stjórnsýslu. Mér er umhugað um að efla Mosfellsbæ og tryggja að uppbygging samfélagsins verði í góðri sátt við íbúa og umhverfi.
Takk enn og aftur kæru Mosfellingar.
Okkur eru allir vegir færir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mosfellsbær er í sókn
5.2.2010 | 10:40
Mosfellsbær er víðfeðm náttúruparadís í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Búið er að byggja upp sterka innviði og erum við því betur undirbúin að nýta okkar hina einstöku náttúru, menningu og sögu, samfélaginu til góðs.
Ég held að flestir geti verið mér sammála um að Mosfellsbær er í sókn og mikilvægt að spila rétt úr þeim tækifærum sem felast m.a. í sérstöðunni. Því höfum við verið að marka okkur stefnur og tekið ákvarðanir sem efla bæði lífsgæði þeirra sem nú lifa og komandi kynslóða.
Heilsubærinn Mosfellsbær
Mosfellsbær gaf á síðasta ári út velferðaráætlun í anda Staðardagskrár 21 til ársins 2020 sem ber heitið Mosfellsbær - sjálfbært samfélag. Jafnframt hefur verið sett stefna um að Mosfellsbær verði leiðandi á sviði heilsueflingar, endurhæfingar og lýðheilsu. Í þessu felast margvísleg tækifæri fyrir samfélagið og ekki síst á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu.
Reykjalundur er stolt okkar Mosfellinga. Fyrirtækið er í fararbroddi á sviði endurhæfingar í landinu og eru eflaust mörg ónýtt tækifæri tengd þeirri starfsemi. Það var mikið gleðiefni þegar fyrirtækið PrimaCare tók ákvörðun um að reisa sjúkrahús sitt í Mosfellsbæ og var það hið einstaka umhverfi og metnaðarfull stefna Mosfellsbæjar í umhverfismálum sem átti þátt í staðarvali fyrirtækisins. Á vormánuðum skýrast næstu skref hjá PrimaCare og ef áætlunin stenst þá verða til 600 störf að ógleymdri afleiddri þjónustu sem til verður.
Ævintýralegt Varmársvæði
Varmársvæðið sem liggur á milli Varmár og Köldukvíslar er trúlega eitt mikilvægasta útivistarsvæði okkar Mosfellinga. Á 20 ára afmæli Mosfellsbæjar 9. ágúst 2007 var tekin ákvörðun um að svæðið yrði nýtt sem ævintýra- og útivistargarður. Hugmyndin er sú að garðurinn geti nýst allri fjölskyldunni, allan ársins hring til fjölbreyttrar útivistar.
Vígsla mosfellska ævintýragarðsins 2009
Varmársvæðið er um margt sérstakt, upp með Varmánni er það skógi vaxið að hluta, stígar liggja með ánni og þar að leiðandi mikið nýtt til útivistar. Varmá er á náttúruminjaskrá sem varmá, því heitar uppsprettur runnu í hana áður fyrr. En áin kólnaði eftir að farið var að virkja heita vatnið á svæðinu. Í námi mínu í umhverfis- og auðlindafræði skoðaði ég möguleika svæðisins og sýndu niðurstöður að margvísleg tækifæri eru til staðar sem nýst gætu íbúum og ferðamönnum á svæðinu. Slíkt svæði hefði einnig töluvert vísindalegt gildi og mætti m.a. skoða verndun og endurheimt vistkerfa.
Mér er umhugað um að efla bæinn okkar og tryggja að uppbygging samfélagsins verði í góðri sátt við íbúa og umhverfi. Ég vil nýta sérstöðu sveitarfélagsins til eflingar atvinnu, útivistar, nýsköpunar og menntunar og lít bjartsýn til framtíðar.
Ég heiti því að vinna áfram af krafti fyrir bæjarfélagið og óska eftir stuðningi í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna 6. febrúar.
Herdís Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi
Herdís gefur kost á sér í 2. sæti. Upplýsingar um Herdísi
Greinin birtist í Mosfellingi 5. febrúar 2010.
Mosfellsbær | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég vil vinna fyrir þig
1.2.2010 | 15:38
Ég hef verið bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ í 12 ár, er formaður bæjarráðs og sit í umhverfisnefnd. Brennandi áhugi á málefnum samfélagsins varð til þess að ég gaf kost á mér upphaflega. Áhuginn er enn til staðar og því ákvað ég að gefa kost á mér aftur. Stöðugt hefur bæst í reynslubankann á þessum árum. Ég hef verið forseti bæjarstjórnar, formaður í fræðslunefnd og fjölskyldunefnd. Ég hef setið í stjórn hjúkrunarheimilisins Eirar frá 2004, sit í almannavarnanefnd og er stjórnarformaður Sorpu.
Á þeim tíma sem ég hef setið í bæjarstjórn hef ég lært að starf bæjarfulltrúa er fjölbreytt, oft á tíðum vandasamt, en umfram allt mjög gefandi.
Nærþjónustan skiptir alla máli
Nærþjónusta við íbúa er mitt hjartans mál og skiptir miklu máli að í bæjarfélaginu sé veitt góð þjónusta á öllum sviðum. Mosfellsbær hefur lagt metnað sinn í að svo sé með þá þjónustu sem veitt er af sveitarfélaginu sjálfu, en það vita ekki allir að nærþjónusta er einnig veitt af ríkinu. Má nefna rekstur framhaldsskóla og var það ánægjuleg og eftirminnileg stund þegar Framhaldsskóli Mosfellsbæjar var settur í fyrsta sinn haustið 2009. Nú grillir loksins í byggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ, sem er mjög mikið ánægjuefni. Komið er vilyrði fyrir 30 rýma hjúkrunarheimili og er verið að ganga frá samningunum við ríkið um bygginguna. Því er langþráður draumur um öldrunarsetur í Mosfellsbæ að verða að veruleika. Einnig má nefna löggæslu, sem við viljum bæta. Nú er verið að skipuleggja lóð við Skarhólabraut þar sem rísa mun slökkvistöð og lögreglustöð, sem mun auka öryggi okkar Mosfellinga til muna.
Fleiri mikilvæg verkefni bætast við á næstu árum þegar málefni fatlaðra og öldrunarþjónusta verða færð frá ríki til sveitarfélaga. Einnig hefur m.a. verið rætt um heilsugæslu.
Fyrir fólkið
Þegar ég lít til baka er ég stolt af því sem ég hef komið að og veit líka að enn eru verkefnin ærin og ýmislegt sem þarf að bæta. Árið 2008 lukum við stefnumótun Mosfellsbæjar og mun sú stefna vísa okkur veginn að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Jákvæðni, virðing, framsækni og umhyggja er okkar leiðarljós. Markmiðið er að Mosfellsbær verði áfram eftirsóttur til búsetu, þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi.
Við, kjörnir fulltrúar megum aldrei missa sjónar á því að við erum að vinna í umboði íbúa og að ákvarðanir sem við tökum eru ekki okkar einkamál. Í störfum mínum fyrir Mosfellsbæ legg ég áherslu á heiðarleika, góðan rekstur, skilvirka stjórnsýslu og uppbyggingu samfélagsins, í góðri sátt við íbúa og umhverfi. Er það von mín að sú reynsla, menntun og þekking sem ég hef nýtist vel og ekki síst á þeim tímum sem við Íslendingar erum að ganga í gegnum núna.
Kæri Mosfellingur. Ég heiti því að vinna áfram af krafti og heilindum og óska eftir stuðningi þínum í annað sæti.
Herdís gefur kost á sér í 2. sæti.
Grein sem birtist í 2. tbl. Varmár í febrúar 2010