Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
Pólitísk spilling í Mosfellsbæ?
18.10.2011 | 09:41
Var að hlusta á 566. fund bæjarstjórnar frá því í síðustu viku sem ég gat ekki setið vegna vinnu erlendis og á ekki til eitt einasta orð yfir málflutningi. Ég hvet fólk til að hlusta á fundinn þrátt fyrir að hljóðgæði séu ekki upp á það besta. Hér er hægt að lesa fundargerð og hlusta á fundinn.
Málið sem um var rætt var Umgengni gagna í vörslu Mosfellsbæjar. Borin var upp tillaga á 1046. fundi bæjarráðs, en var henni vísað til dagskrár 566. fundar bæjarstjórnar þar sem afgreiðsla tillögunnar var ekki samhljóða í bæjarráði.
Tillagan var svohljóðandi:
"Bæjarstjórn óskar eftir því við lögmenn bæjarins að fram fari lögfræðileg skoðun á því hvort brotið hafi verið gegn reglum Mosfellsbæjar um meðferð mála, ákvæðum sveitarstjórnarlaga og ákvæðum annarra laga sem kveða á um vernd persónuupplýsinga þegar Íbúahreyfingin birti upplýsingar um afskriftir til lögaðila í Mosfellsbæ í dreifibréfi til íbúa Mosfellsbæjar í september sl."
Á bæjarstjórnarfundum sem ég var að hlusta á sagði Jón Jósef Bjarnason fulltrúi Íbúahreyfingarinnar m.a. að ég sem formaður bæjarráðs hafi brotið á honum og þekki ekki samþykktir bæjarins. Greinin sem hann vísar í er 47. gr. samþykkta Mosfellsbæjar þar sem segir m.a.
"Heimilt er að taka erindi til meðferðar í bæjarráði þótt ekki sé það tilgreint í dagskrá. Þó er skylt að fresta afgreiðslu slíks erindis ef einhver bæjarráðsmanna eða áheyrnarfulltrúi óskar þess".
Í því sambandi vil ég koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:
1) Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar las greinilega ekki rafræna fundarboðið þar fram kom að ætlunin væri að ræða málið og því hefði það ekki átt að koma honum á óvart.
2) Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar bað um að fresta því að málið væri sett Á DAGSKRÁ. Tillaga formanns um að taka málið á dagskrá var samþykkt með 2 atkvæðum. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar greiddi ekki atkvæð á móti heldur sat hjá.
3) Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar bað ekki um að AFGREIÐSLU MÁLSINS yrði frestað. Ég vek athygli á því að samþykktin tekur til frestunar á afgreiðslu erinda sem eru teknir á dagskrá á fundinum.
Hvað varðar annað sem hann heldur fram þarna í málin hans og bókun um pólitíska spillingu, ákvarðanatökufælni annarra bæjarfulltrúa en hans sjálfs og annað sem ég ætla ekki að hafa eftir og vísa því út í hafsauga. Ástæða þess að málið var tekið á dagskrá var sú að kanna hvort farið væri að lögum hvað varðar meðferð gagna vegna þess að ég og fleiri efuðust um það. Ég bíð með að tjá mig um það frekar uns lögfræðileg skoðun liggur fyrir.
Tillagan var þá borin upp á bæjarstjórnarfundinum:
"Bæjarstjórn óskar eftir því við lögmenn bæjarins að fram fari lögfræðileg skoðun á því hvort brotið hafi verið gegn reglum Mosfellsbæjar um meðferð mála, ákvæðum sveitarstjórnarlaga og ákvæðum annarra laga sem kveða á um vernd persónuupplýsinga þegar Íbúahreyfingin birti upplýsingar um afskriftir til lögaðila í Mosfellsbæ í dreifibréfi til íbúa Mosfellsbæjar í september sl."
Þetta var bókað við afgreiðslu málsins:
Bókun bæjarfulltrúa D lista og lista Vinstri grænna:
"Við vísum fullyrðingum og dylgjum í bókun Íbúahreyfingarinnar alfarið á bug, þær dæma sig sjálfar. Þetta mál snýst um hvort bæjarfulltrúar fari eftir þeim lögum og reglum sem þeir hafa undirgengist varðandi stjórnsýslu Mosfellsbæjar."
Bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar Hönnu Bjartmars:
"Aðalatriðið er að farið sé að lögum við birtingu upplýsinga og er því mikilvægt að engin vafi leiki á hvort gögn sem kjörnir fulltrúar fá í hendur séu trúnaðarmál eða ekki. Því er nauðsynlegt að þau gögn sem sett eru á fundargátt séu merkt hvað það varðar. Telji fundarmenn vafa leika á slíkri merkingu skjals þá sé afstaða tekin til þess á þeim fundi þar sem um málið er fjallað. Sé ágreiningur fyrir hendi er þá leitað úrskurðar í málinu."
Tillagan var borin upp til afgreiðslu:
Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum gegn einu.
Jón Jósef Bjarnason bæjarfulltrúi Íbúahreyfingar bókar að ekki sé ástæða til að leita til lögfræðings þegar heilbrigð skynsemi nægir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lýðræðisstefna Mosfellsbæjar
5.10.2011 | 18:18
Íbúar hafa verið virkjaðir við mótun draganna með ýmsum hætti á vinnslutíma. Hópur íbúa var valinn með slembiúrtaki úr þjóðskrá til að taka þátt í vinnufundi um íbúalýðræði með þjóðfundarsniði. Á vef Mosfellsbæjar var opnað vefsvæði um íbúalýðræði og íbúar hvattir til að koma með ábendingar. Skoðanakönnun var send út rafrænt og haldinn var íbúafundur um íbúalýðræði sem tekinn var upp og gerður aðgengilegur á vef Mosfellsbæjar. Allar fundargerðir hópsins voru birtar jafnóðum á vefnum, niðurstöður könnunar og önnur gögn sem hópurinn var að vinna með.
Lýðræðisleg vinnubrögð snúast um að komast að niðurstöðu sem flestir geta unað við og höfðu allir fulltrúar jöfn tækifæri til að afla sínum skoðunum fylgis, enda vel við hæfi að samræða sé notuð og hugmyndum leyft að þróast þegar unnið er að gerð lýðræðisstefnu. Þegar drögin voru samþykkt til kynningar náðist því miður ekki eining í stýrihópnum og lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar fram bókun varðandi tvær greinar stefnunnar.
Lýðræðisstefna Mosfellsbæjar verður ekki meitluð í stein og er mikilvægt að hún verði í stöðugri þróun í takti við samfélagið. Næstu skref eru því mjög mikilvæg. Með samþykkt lýðræðisstefnu í Evrópskri lýðræðisviku leggur Mosfellsbær af stað í vegferð þar sem aukið gegnsæi, þátttaka og samræða um málefni og ákvarðanir í nærumhverfi okkar eiga að verða sjálfsagður og eðlilegur þáttur í samskiptum bæjarbúa, kjörinna fulltrúa og starfsfólks bæjarins. Það er tilefni til bjartsýni að skoðanakönnun sýndi að 85% þeirra sem svöruðu hafa áhuga á að taka þátt í mótun samfélagsins og verður því að leita allra leiða til að ná til íbúanna með virkum hætti.
Að lokum þökkum við þeim starfsmönnum sem unnið hafa með stýrihópnum og lagt sig fram um að vinna vel og af trúmennsku að verkefninu. Síðast en ekki síst viljum við þakka þeim íbúum sem svöruðu kallinu og tóku þátt í mótun lýðræðisstefnunnar og hvetjum jafnframt Mosfellinga til að láta sig málin varða í framtíðinni.
Höfundar eru Anna Sigríður Guðnadóttir og Herdís Sigurjónsdóttir, fulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í stýrihópi um lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar
Greinin birtist í Mosfellingi, 11. tbl. 10. árg. 29. september 2011