Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
Annáll Rituhöfðafjölskyldunnar á fjögur árin 2010 og 2011
31.12.2011 | 17:50
Byrjað var að rita þennan annál á stysta degi ársins 2011, þann 21. desember í flughálku á leiðinni á Siglufjörð í síðustu ferð ársins. Tekið skal fram að Elli var að keyra. Ekki var skrifaður annáll fyrir árið 2010 og því verða tvö ár fléttuð saman að þessu sinni.
Árið 2010 var viðburðarríkt líkt og fyrri ár hjá Rituhöfðafjölskyldunni á fjögur. Endaði árið þó ósköp sorglega því afi á Sigló lést rétt fyrir jól eftir stutta, en hetjulega baráttu við krabbamein. Síðasti sólarhringurinn var tilkomumikill eins og skipstjórinn sjálfur, almyrkvi á tungli, vetrarsólstöður og kvaddi hann þann 22. desember, þegar daginn fór aftur að lengja. Í nóvember og desember bjuggum við systur heima á Laugarvegi 15 og kom Jóhann bróðir svo í byrjun desember og héldum við þá litlu L15 jólin með rjúpum og alles og þökkum við góðum Guði fyrir þann góða tíma sem við áttum öll saman þrátt fyrir allt og allt.
Árið 2010 byrjaði á Bessastöðum hjá gamla Rituhöfðasettinu á fjögur sem mætti með hinum rauðu ljósberunum við Bessastaði til að mótmæla Icesave lögunum og hvetja forsetann til að vísa þeim til þjóðarinnar, sem hann gerði blessunarlega. Já sem betur fer segja allir í dag.
Sumarið 2010 var gifting í Seattle líkt og árið 2009 þegar Sarah og Cory giftu sig, en nú var það Jóhann bróðir sem giftist sinni heittelskuðu og yndislegu Shirley þann 3. júlí. Fórum við Elli sem sérlegir fulltrúar Sigló Group. Hélt litla systir ræðu í veislunni fyrir hönd Íslandsliðsins með tilheyrandi myndasýningu og kennslu fyrir viðstadda um rætur Jóhanns,við ágæta athygli viðstaddra og undirtektir, enda byrjaði ræðan á íslensku sem er alltaf ágætis trix í útlöndum til að fá fólk til að hlusta. Endaði ræðan á því að Jóhann fékk afhenda bókina Viðvaning eða smíðabækling handa unglingum samantekinn úr ýmsum bókum og eptir eigin reynslu (þetta er skrifað svona) sem langa langafi okkar Þorsteinn Þorleifsson gaf út og Halli frændi tók saman og gaf út að nýju árið 2010. Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni.
Stutt rapport af fjölskyldumeðlimum.
Rituhöfðamamman vinnur hjá VSÓ Ráðgjöf í Borgartúni og unir sér vel þar við ýmis verkefni s.s. gerð neyðaráætlana og rannsóknir. Ánægjulegt var að fá tækifæri á að taka þátt í verkefni í Kákasuslöndunum fyrir Rauða kross Íslands og fór m.a. á fund og vettvangsferð til Georgíu í nóvember 2010, sem var mikil upplifun. Doktorsnámið hefur sóst heldur seint að mati þeirrar óþolinmóðu, enda í vinnu hjá VSÓ og bæjarmálunum en stendur það til bóta því um áramótin hefst langþráð námsleyfi og er stefnan sett á að ljúka doktorsnámi árið 2014, eða í það minnsta fyrir fimmtugt.
Farið var á Þjóðlagahátíð á Siglufirði sumarið 2011 og lærði frúin að kveða. Vorum við bara þrjár frænkur á námskeiðinu systurnar Eva Karlotta og Ragna Dís og sagði kennarinn okkur bara nokkuð efnilegar og vildi fá okkur á fund hjá Kvæðamannafélaginu til að taka nokkrar stemmur, sem hefur ekki orðið af ennþá í það minnsta.
Rituhöfðamamman hefur sinnt sjálfboðaliðastörfum á liðnum árum og mun ljúka störfum sínum í þriggja manna rekstrarstjórn fatasöfnunarverkefni Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði í lok árs 2011. Hún er þó einnig tiltæk ef á þarf að halda í neyðarvörnum að vanda. Var hamfaradísin vakin með eldgosi og var komin af stað stuttu síðar og fór fyrir teymi frá landsskrifstofu Rauða krossins til aðstoðar heimamönnum. Á fimmta hundrað manns í fjöldahjálparstöð þá um nóttina og gekk starf sjálfboðaliðanna frábærlega, en þetta var bara byrjunin. Fleiri eldgos fylgdu á eftir. Í apríl hófst svo eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls. Komst eldgos í Eyjafjallajökli í heimsfréttirnar þegar flugumferð var ógnað og þúsundir ferðamanna urðu strand vegna lokunar af völdu Eyjafjallaösku. Sögðu gárungarnir að við værum að senda ösku til Bretlands, eða Ash en ekki Cash eins og þeir vildu vegna IceSave málsins. Eldgos í Grímsvötnum og flóð á Suðurlandi héldu áfram að hafa áhrif á líf íbúa á Suðurlandinu. Einnig voru hræðilega náttúruhamfarir erlendis þó ekki verði fjallað um þær hér í þessum litla fjölskylduannál.
Líkt og fyrri ár var frúin styrktarfélagi í World Class, en fór í frábæra heilsuferð með Kristínu systur og Vilborgu (næstum systur) til Póllands í maí og komu þær systur öllu léttari og endurnærðar heim Uzboja. Zumbatímarnir hjá Sigrúnu grönnu má telja á fingrum annarrar handar, en stúdentaárið 2012 verðu nýtt til að rækta líkama og sál og látið verði af hinum árlega World Class styrk, enda hefur fyrirtækið fengið ágætis fyrirgreiðslu hjá bönkum líkt og alþjóð veit og nú þarf að fara að styrkja kerlinguna.
Elli vinnur hjá Verkfræðistofunni Eflu og flutti með þeim frá Suðurlandsbrautinni upp á Höfða og vinnur nú í gamla Tækniskólahúsinu og má því segja að hann sé kominn heim. Haustið 2011 var Elli settur sem byggingarstjóri yfir verkefni við álverið á Reyðarfirði og vinnur þar á virkum dögum. Hann er einnig að sinna verkefnum í bænum og Noregi og því er mikið að gera hjá karlinum.
Hann var kjörinn svæðisstjóri Kiwanis árið 2010 og sinnti því starfi fram til september 2011. Hann var sá síðasti á Grettissvæðinu sem samanstóð af Mosfelli í Mosfellsbæ, Skildi á Siglufirði og Drangey á Sauðarkróki, en sameinaðist klúbburinn Sögusvæðinu á Suðurlandi. Elli hefur einnig verið formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar í um tvö ár.
Elli hefur ekki verið að æfa fótbolta eins mikið með félögunum sínum í UMFUS og fyrri ár,...... . Karlinn er farinn að hjóla eins og enginn sé morgundagurinn. Hefur hjólað í vinnuna nær daglega frá því í mars á þessu ári með tilheyrandi hættum á Vesturlandsveginum og gefur strákunum á spítthjólunum ekkert eftir í UMFUS hjólaferðunum á gamla jálkinum sínum. Hjólaði hann m.a. í vinnuna og kom svo við í Þjórsárdalnum á leiðinni heim alls 145 km og geri aðrir betur. Hann fór einnig 80 km um höfuðborgarsvæðið í einum rykk.
Ásdís Magnea varð nítján ára á hrekkjavökunni 31. október sl. og er nemandi í Borgarholtsskóla. Hún hefur m.a. tekið þátt í starfi leikfélaginu í skólanum af krafti og fór með aðalhlutverk í uppfærslu félagsins á Lísu í Undralandi og söng eftirminnilega eins og sjá má hér.
Ásdís er listaspíra fram í fingurgóma og nýtur hverrar mínútu framhaldsskólalífsins og stundar jafnhliða söngnám við Listaskóla Mosfellsbæjar og stendur sig vel og syngur eins og engill. Hún er alltaf að prófa sig áfram með hárgreiðslur og háraliti líkt og myndir annálsins sýna. Með skóla hefur hún unnið á leikskólanum Huldubergi og Grillnesti. Hún vann einnig hjá Mosfellsbæ sumarið 2011 við að skipuleggja ýmsar uppákomur, sem var mikið fjör. Sem sé mikið að gera hjá minni og ætlar hún að fara að vinna á Hlein um helgar á nýja árinu og hlakkar til að takast á við ný spennandi verkefni.
Ásdís fór í sína fyrstu vinasólarlandaferð sumarið 2011, þegar þau Davíð, Kaja og Dagbjört fóru saman til Tenerife. Gekk allt að óskum og öll komu þau aftur, alsæl, brún og sælleg, búin að kafa með skrautfiskum og skjaldbökum. Hún fór til Írlands eftir prófin í desember til að heimsækja Ástu vinkonu sína, en kom heim korter í jól og brunaði á Siglufjörð til okkar hinna. Á heimleiðinni kom hún reyndar við á slysadeildinni á Akureyri þar sem lokkur í vörinni var skorinn úr henni, en hún lenti í smábarnatogi í hann á Írlandi þar sem lokkurinn hvarf inn í vörina með tilheyrandi ígerð í kjölfarið. Það er svo sem ekkert merkilegt í þessari fjölskyldu að fara á slysó, en svona slys var reyndar alveg nýtt á afrekalistanum.
Sturla Sær er nú orðinn sextán ára og alveg að fá bílpróf. Hann útskrifaðist úr Lágafellsskóla vorið 2011 og er nú kominn í Menntaskólann við Sund og er alsæll menntskælingur. Hann er orðinn stærri en pabbi, afi á Rifi og allir nema Siggi Freyr og Sigurjón Veigar og er loksins loksins laus við spangir úr efri góm eftir 7 ára meðferð. Að vanda er mikið að gera hjá karlinum og æfði hann bæði handbolta og fótbolta, en valdi svo fótboltann og fór í æfingarferð til Noregs með þriðja flokki sumarið 2010. En meiðsli hafa sett strik í reikninginn og varð hann að hætta boltanum í bili, sem hefur ekki verið auðvelt fyrir þennan íþróttastrák. Eru þó bundnar vonir við að þessu hörmungatímabili sé að ljúka og eitthvað verði hægt að gera í málunum á nýja árinu með góðri hjálp bæklunarlækna.
Sturla Fjelsted hefur unnið í Fiskbúðinni Mos hjá Sigga og Stjána tvö sumur og var líka sjómaður í nokkra tíma þegar hann fékk að fara með Sigurjóni Veigari frænda sínum með Hvalbátnum Hvali 8 frá Hvalfirði til Reykjavíkur eftir skemmtilegan lífsleiknidag með mömmu sinni og Jóhanni frænda í hvalaskurði einn fagran ágústmorgun 2010.
Hann fór til Svíþjóðar með vinabæjarkrökkunum 2010 og var hjá frábærri fjölskyldu og eignaðist stóran hóp vina sem hann heldur enn sambandi við og mögulega er sænski Sturlu-aðdáendahópurinn á Facebook enn við lýði. Hann er einnig listrænn strákurinn og hefur hannað stensla sem hann hefur notað á fatnað og málað myndir. Hönnuðu þeir félaganir Dagur og hann Cracy Day stenslabolalínuna milli þess sem þeir kepptust við að vinna Ból-keppnina fyrir bestu ásókn í félagsmiðstöðina Bólið, sem þeir unnu með stæl og fengu að launum ferð til Akureyrar í lok skólaárs bæði 2010 og 2011.
Fröken Sædís Erla varð átta ára í október og er nýbúin að læra að flauta og reynir það oft á taugar fjölskyldumeðlima. Hún er alltaf jafn glöð og hress og á margar góðar vinkonur sem hún leikur mikið við og ekki síst í Pet shop. Líkt og með Sturlu þá fáum við að heyra í foreldraviðtölum að hún mali kannski helst of mikið. Hún er mikill listamaður og teiknar út í eitt eins og hin tvö og syngur eins og engill í Lágafellsskólakór kirkjunnar. Eitthvað er hún að efast um tilvist jólasveinsins, en veit þó að þeir fá ekkert í skóinn sem ekki trúa.
Rituhöfðafjölskyldan hefur lítið skátast undanfarin ár, en hefur það nú breyst því fröken Sædís Erla byrjaði í skátunum haustið 2011. Nú er hún stoltur drekaskáti og hver veit nema hún verði skátahöfðingi eins og hún ætlaði sér þegar hún var yngri og geimfari í frístundum.
Skvísý okkar er alltaf jafn yndisleg og sjáum við aldrei eftir því að hafa farið aftur í hundana og njóta þær Sigló Lady sín vel þegar hin síðarnefnda hefur verið í pössun hjá okkur, eða við erum á Siglufirði. fórum aftur í hundana.
Ferðalög
Líkt og fyrri ár fórum við mikið á Siglufjörð bæði árin og vorum við með ömmu á Sigló og Kristínu núna um jólin sem var dásamlegt. Fóru Rituhöfðahjónin til Seattle líkt og áður sagði. Sumarið 2011 fór öll fjölskyldan til Spánar, Ásdís með vinunum til Tenerife en restin af fjölskyldunni í húsið hans afa á LaMarina sem var yndislegt. Nokkur ferðalög voru líka farin bæði sumrin, með VSÓ Ráðgjöf, skátunum, Eflu og UMFUS, en þó var minna um útilegur þar sem tjaldið heillar ekki eins mikið og fellihýsið gerði.
Pólitík
Prófkjör Sjálfstæðismanna fór fram í Mosfellsbænum 2010 og buðu 14 kraftmiklir sjálfstæðismenn sig fram og sóttist Rituhöfðamamman eftir öðru sætinu sem tókst. Valdist sterkur náttúrulegur fléttulisti með jöfnu hlutfalli kvenna og karla. Góð samstaða náðist í hópnum og skilaði það sjálfstæðismönnum 50% atkvæða og hreinum meirihluta, eða fjórum fulltrúum. Þrátt fyrir meirihluta var tekin ákvörðun um að halda áfram samstarfi við Vinstri græna og samanstendur meirihlutinn því af fimm fulltrúum af sjö, en fékk Íbúahreyfingin einn fulltrúa og Samfylking einn.
Bæjarmálin í Mosfellsbæ hafa gengið vel og auk bæjarstjórnarinnar var frúin kjörin til starfa sem formaður bæjarráðs, heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis og situr í stjórn Sorpu og almannavarnanefnd. Hef einnig verið að stússast í ýmsu öðru og var einnig skipuð í fagráð Brunamálaskólans og nefnd á vegum forsætisráðuneytisins sem er að útbúa verklagsreglur vegna tjónamála eftir náttúruhamfarir. Krikaskólinn var tekinn í notkun og hefur skólastarfið gengið frábærlega og sérlega gaman að hafa fengið að taka fyrstu skóflustunguna. Loksins, loksins, loksins er verið að byggja hjúkrunarheimilið okkar í Mosfellsbæ og verður ánægjulegt þegar Mosfellingar hafa kost á því að verja síðustu æviárunum innana bæjarmarkanna þrátt fyrir að vera lasburða, eins og barist hefur verið fyrir í rúman áratug. Síðustu ár hafa verið erfið í rekstri Mosfellsbæjar eins og í flestum sveitarfélögum á landinu og var því ánægjulegt að fjárhagsáætlun ársins 2012 gerir ekki ráð fyrir rekstrarhalla, sem hefur tekist vegna ráðdeildar í rekstri og samheldni starfsmanna og pólitíkusa í verkefninu.
Völva Vikunnar spáði því fyrir árið 2011 að ríkisstjórnin myndi falla og hefur svo sem verið beðið eftir því allt árið og eru margir áhyggjufullir yfir ástandinu í þjóðmálunum. Höfum við hjónin farið á nokkra samstöðufundi á Austurvelli á tímabilinu og erum við alveg sammála því að þjóðarskútan sigli um stjórnlaust, eða í það minnsta án siglingartækja, en erum ekki alveg eins sammála í Evrópumálunum og ekki orð um það meir.
Stórfjölskyldan
Útskriftir voru nokkrar á árunum. Sigurjón Veigar útskrifaðist sem vélstjóri (finnst vélstjóri alltaf flottara en vélfræðingur) í maí, Jóhann Pétur Jóhannsson úr menntaskóla í júní og Sarah Jóhannsdóttir útskrifaðist úr meistaranámi félagsráðgjöf í desember. Vorið 2011 útskrifaðist Sturla svo úr grunnskóla eins og áður sagði og Elli úr námi við Endurmenntun Háskóla Íslands, framkvæmdaferli mannvirkjagerðar sem var eins árs nám. Jóhann og Co í Seattle hafa það alltaf jafn gott og blómstra allir í skóla og tómstundum og er alltaf jafn gaman þegar Jóhann lætur sjá sig á klakanum kalda, sem gerist, okkur öllum til ánægju og yndisauka, nokkrum sinnum á ári.
Amma Binna dansar alltaf jafn mikið og er jafn milljandi hress og fyrri daginn og fór út til Danmerkur að dansa sumarið 2011. Siggi og Inga Rósa eru spræk og einnig Birna María og Einar Kristján sem nú er kominn í leikskólann Hulduberg í Mosfellsbæ. Fiskbúðin gengur eins og í sögu vinnur amma Binna þar og Sturla á sumrin og borðar Rituhöfðafjölskyldan mun meira af ferskum fiski en áður. Inga Rósa er farin að kokka í grunnskóla og hlakkar til þess að fá jólafrí, páskafrí og sumarfrí, sem er annað en þekkist í leikskólum þar sem hún var áður að vinna.
Suðurnesjaliðið er nokkuð sprækt og fæddist þeim Ragga og Söndru lítill gullmoli í janúar 2011 sem fékk nafnið Gabríel Reynir. Þórður er fluttur til Grindavíkur og vinnur í veitingarstaðnum í Bláa lóninu og er orðinn ráðsettur, kominn með sambýliskonu og bónusbarn. Siggi er kominn með annan fótinn til kærustunnar í Reykjanesbæ og stundar námið við Fjölbraut af kappi. Sigurjón, Halla og strákarnir í Vogunum blómstra og er Sigurjón á sjónum. Hummer blessaður er farinn í himnasveitina en tveir nýir loðnir fjölskyldumeðlimir hafa bæst við eða þau Bronco og Bjalla Sól, sem heldur uppi stuðinu og ræður alveg yfir stóra bróður og reyndar allri fjölskyldunni. Kristín systir flutti á Akureyri og rak Megastore á Akureyri í eitt ár, en flutti frá Akureyri í fjörðinn fallega Siglufjörð veturinn 2010.
Ættrækni mömmunnar hefur verið til helberrar skammar á liðnum árum, en vonir standa til að það breytist þegar frúin fer í námsleyfi og getur leyft sér að lifa og sjá mann og annan og einn og annan ættingja. Meira hefur verið um heimsóknir og ættar-hitting Ella megin. Fórum við m.a. í réttir í Miðfjarðarrétt og afmæli þeirra feðga Hjörleifs og Hannesar sumarið 2010. Buðum við heim móðurfjölskyldunni þegar Noregsleggurinn kom sama sumar og hittumst einnig á Hvammstanga stuttu síðar. Höfum við líka komið við hjá þeim Rúnari og Björk í sveitinni, en mættu heimsóknirnar vissulega vera fleiri, en hver veit hvað nýtt ár ber í skauti sér.
Tvær yndislegar konur úr stórfjölskyldunni, þær Hanna Magga frænka Ella og Maja mamma hennar Höllu létust á þessu ári og er þeirra sárt saknað af okkur öllum. Blessuð sé minning þeirra.
Rituhöfðinn er ekki lengur 271 Mosfellsbæ
Lífið í Rituhöfða hefur gengið vel, en þótti okkur þó súrt að póstnúmerinu 271 Mosfellsbær var úthlutað annað, því við höfðum bundið vonir okkar við að Rituhöfðinn fengi sitt eigið póstnúmer. Gula hverfið stóð sig að vanda vel í litakeppninni Í túninu. Götugrillið var á sínum stað (hjá Ástu og Gilla) og voru þemun suðrænt og seiðandi árið 2010 og Lopi árið 2011. Jólaskreytadagurinn var haldinn hátíðlegur bæði árin og þó stóð til að sekta Rituhöfða 4 seinna árið því pabbinn var á Reyðarfirði og því gekk frekar erfiðlega að koma útiskreytingum upp, en það tókst þó fyrir jól.
Gleðilegt ár kæru vinir Við enduðum árið á því að styrkja Björgunarsveitirnar okkar að vanda og vonum að þið hafið gert það sama því við vitum jú aldrei hvenær við þurfum á hjálp þeirra að halda.
Hér eru nokkrar myndir frá árunum 2010 og 2011, sem eru þó ekki í tímaröð.
Að lokum þökkum við ykkur fyrir frábærar samverustundir á liðnum árum og vonumst til að hitta ykkur sem flest á komandi ári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2012 kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)