Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
Í túninu heima - bæjarhátíð Mosfellinga 25. - 28. ágúst
19.8.2011 | 11:13
Bæjarhátíð okkar Mosfellinga, Í túninu heima, verður haldin í sjöunda sinn dagana 25.-28. ágúst n.k. Dagskráin hefur aldrei verið fjölbreyttari og skemmtilegri. Meðal nýjunga á hátíðinni í ár eru litboltavöllur og lazer-tag að Varmá auk þess sem stefnt er á að setja íslandsmet í planki á setningarhátíðinni á Miðbæjartorgi á föstudagskvöldið.
Hátíðin hefst á fimmtudagskvöld með tónlistardagskrá í Kaffi Álafossi og unglingadansleik í Hlégarði.
Brekkusöngurinn á föstudagskvöldinu er vinsæll og spila Hljómar og halda uppi stuði. Í fyrra var metþátttaka og hafði bleika hverfið sigur úr býtum í keppninni um bestu mætinguna. Við gulu látum það ekki gerast aftur! Heyrst hafa raddir um að þegar sé farið að undirbúa í öðrum hverfum hvernig tryggja megi að bleikir nái ekki að verja titil sinn í ár. Karnivalskrúðgangan (þar sem gulir ætla að vera flestir) verður með ögn breyttu sniði í ár. Hverfin hittast hvert um sig og ganga að Miðbæjartorgi þar sem setningarhátíðin fer fram. Ný keppnisgrein bætist við í ár: skrautlegasta skrúðgangan. Frést hefur að þegar sé uppi áform um skreytta sviðsvagna, hljóðfæraleik, hverfislitar fígúrur og þvíumlíkt, svo mikill er keppnisandinn.
Á Miðbæjartorgi verður reynt verður við íslandsmet í planki. Þaðan ganga hverfin öll saman í Ullarnesbrekkurnar þar sem kveiktur verður varðeldur og sunginn brekkusöngur. Víst er að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi á hátíðinni.
Hinir vinsælu útimarkaðir verða að vanda í Álafosskvos og Mosskógum í Mosfellsdal og er óhætt að mæla með fersku grænmeti og ýmsum öðrum varningi sem er þess virði að fá sér rúnt í Mosó. Sýningarbásar verða í Íþróttamiðstöðinni að Varmá og fjölbreytt dagskrá á inni- og útisvæði, tívolí verður við Hlégarðstún og sælkerahátíð í Hlégarði.
Bylgjan verður með beina útsendingu frá hátíðinni á laugardeginum kl. 12-16.
Hápunktur hátíðarinnar er að vanda á laugardagskvöld þegar útitónleikarnir fara fram á Miðbæjartorgi. Þar koma fram Sveppi og Villi, Hera Björk, Helgi Björns og Reiðmenn vindanna, Vinir Sjonna og hinn vinsæli Mosfellingur Steindi Jr. ásamt félögum.
Við Elli minn erum að fara í fertugsafmæli á laugardeginum hjá Huga vini okkar sem endar á stuðballi í íþróttahúsinu með Vinum Sjonna.
Nú er í fyrsta sinn boðið upp á aðstöðu fyrir tjöld, hjólhýsi og húsbíla á nýju tjaldstæði sem tekið hefur verið í notkun við Varmárskóla. Ókeypis aðgangur verður að tjaldstæðinu á bæjarhátíðinni og geta Mosfellingar því hvatt vini og vandamenn nær og fjær til að sækja sig heim og upplifa þessa skemmtilegu hátíð með sér.
Verið velkomin í túnið heima
Sá guli við Rituhöfða 4... slakur að vanda.
Mosfellsbær | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)