Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Við búum á Íslandi

Ágætt hjá Hjálmari Forna að bregðast við þessum ummælum og umræðu um málið að undanförnu. Það er langt síðan ég sætti mig við það að muna aldrei ná því að fólk hafi þessa sýn á málið, að þeir sem elska fólk af öðru kyni séu óæðri og ég tali nú ekki um þegar vitað sé í biblíuna um að þeir hinir sömu muni rotna í helvíti.

Við búum á Íslandi og er ég stolt af því hvernig við höfum verið að jafna rétt samkynhneigðra hér á landi. Ég hef ég alltaf verið fylgjandi því að þeir fái að gifta sig í kirkju af vígðum prestum ef þau vilja og hafi rétt til að ættleiða, eignast börn og lifa lífinu lifandi eins og gagnkynhneigðir. Það má ekki gleyma því hvað er óhugnarlega stutt síðan svartir voru óæðri þeim hvítu og gildir það viðhorf enn í sumum samfélögum. Ekki þarf heldur að fjölyrða um fordóma í garð múslima eftir árásina á tvíburaturnana í New York 11. september 2001 og né heldur um flæði útlendinga milli landa og rétt þeirra til atvinnu í hinu nýja landi.

Það er allt í lagi að hafa skoðanir sem við hvert og eitt tjáum með mismunandi hætti. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og verðum við sem uppalendur og fyrirmyndir barnanna okkar og þeirra sem við umgöngumst, í hvaða stöðu sem við erum í samfélaginu að hafa í huga. Hjálmar svarar þessu ummælum og skoðunum fullum hálsi og af æðruleysii, en eflaust er ekki svo um alla.


mbl.is Ef ég lendi í helvíti rotna ég þar glaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draugaganga

Whitney Houston látin eftir að hafa lifað í hálfgerðri draugagöngu frægðarinnar í langan tíma. Ég get ekki sagt að þetta hafi komið á óvart eftir allt sem á undan er gengið í lífi hennar, en samt lifði maður alltaf í voninni um að hún kæmi sér upp úr vímuefnaneyslunni.

Hún var mín uppáhalds söngkona og var sorglegt að fylgjast með henni síðustu árin. En þvílík söngkona hún Whitney Houston. 

Blessuð sé minning þessarar frábæru söngkonu.


Blákaldur veruleikinn og mikilvægi slysavarnaskóla sjómanna

þyrla 

Í gær settumst við Sædís Erla niður við hliðina á Sturlu og horfðum á restina af viðtali Sigmars í Kastjósinu við Eirík Inga Jóhannsson sem bjargaðist eftir sjóslys við Noregsstrendur þegar togarinn Hallgrímur sökk í óveðri fyrir skömmu. Þrír skipsfélagar hans fórust og má segja að röð kraftaverka hafi orðið til þess að Eiríkur Ingi komst af eftir tæplega fjögurra stunda volk úti á rúmsjó í brjáluðu veðri.

Þessi stutti bútur af viðtalinu sat í mér og settist ég því niður í morgun og horfði á það í heild sinni. Það er ljóst að ekki hefðu allir verið tilbúnir að koma fram og segja frá slíkri lífsreynslu, svo opinskátt og einlægt og skall blákaldur veruleiki sjómanna á okkur sem sátum og hlustuðum, með tár á hvörmum, gæsahúð og undrun yfir mannlegum styrk og stáltaugum Eiríks.

Þegar ég horfði og hlustaði voru voru margar hugsanir sem fóru í gegnum hugann, enda líf mitt fléttað sjómennsku þar sem ég er sómannsdóttir, -barnabarn, -systir, -frænka, mágkona, -vinkona auk þess sem ég hef sjálf verið til sjós. Flestar íslenskar fjölskyldur eiga sína sjómenn sem sótt hafa sjóinn og því held ég að þessi frásögn hafi hitt alla beint í hjartað. Þrátt fyrir sjóslysalaus ár að undanförnu fórust þrír sjómenn í þessu hörmulega slysi. Votta ég fjölskyldum þeirra og vinum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Hef ég heyrt í fólki að betra hefði verið að börn hefðu ekki horft á viðtalið og tek ég undir að vissulega er erfitt að útskýra fyrir mjög ungum börnum að slíkir hlutir geti gerst. Ég er þó á þeirri skoðun að börn hafi líka gott af því að læra að lífið er ekki alltaf dans á rósum, en þau eru misjöfn þessar elskur og sum of ung að skilja þetta, en ég er nokkuð viss um að mín 16 og 8 ára eiga eftir að muna eftir þessu viðtali, eins og ég.

Það var sérstaklega ein minning sem skaust upp í hugann þegar ég horfði á viðtalið. Ég man þegar ég var á sjónum að við fengum neyðarkall frá skipi og sigldum við ásamt mörgum öðrum skipum til aðstoðar. Ég var uppi í brú og fylgdist með skipinu halla og svo sökk það í hafið með stefnið upp. Það var nokkuð gott veður og nægur aðdragandi til að allir skipverjar náðu að koma sér í galla og flutu í sjónum í hring og sé ég enn fyrir mér ljósin á göllunum. Þeir voru heppnir að mörg skip voru á staðnum og því var eina spurningin hvaða skip ætti að fiska þá upp. Eitt skipið var á leið í land og tók þá með. Það er ekki hægt að ímynda sér aðstæður Eiríks, að vera einn í sjónum í mikilli ölduhæð að kallast á við öldurnar sem kepptust við að kaffæra hann. Óvissa um hvort neyðarsendir hefði farið í gang og hvort bjargar væri yfirleitt von. Engin skip í grennd og Ægir óútreiknanlegur í úfnu skapi. En bros barnanna hans og ofurkraftar héldu á honum hita.

Pabbi minn Sigurjón Jóhannsson sem lést fyrir rúmu ári síðan var stýrimaður og skipstjóri í hálfa öld. Hann var á Margréti, Hafliða, Elliða og Sigluvík frá Siglufirði, Ólaf bekk frá Ólafsfirði og fleiri togurum og skipum frá því að hann var 15 ár. Hann ræddi oft um hvað hann hefði verið lánsamur til sjós, að missa aldrei mann sjálfur. Mér fannst alltaf mikið til um björgunarsögurnar og lifði mig inn í þær. Mér taldist til að hann hefði bjagað sjálfur og tekið þátt í björgun 47 manna. Hann stakk sér til sunds úti á rúmsjó og bjargaði einum manni sem fór fyrir borð. Hann bjargaði tveimur í höfninni á Keflavík ásamt félaga sínum. Tók þátt í björgun á Havfrúnni færeysku ásamt fleirum, skútu sem fórst við Almenningana heima og náðu þeir 11 manns í land við mjög erfiðar og frumstæðar aðstæður. Svo bjargaði hann einum manni í höfninni á Ísafirði, en sá lamdi í skipshliðina þar sem pabbi var í koju og náði pabbi honum upp. Pabbi var fyrsti stýrimaður á Hafliða þegar þeir voru höfðu legið í vari í brælu. Þeir fóru svo út og köstuðu á svipuðum tíma og Fylkir, en þegar pabbi ætlaði að fara að hífa sá hann fallhlíf í fyrsta sinn, neyðarskeyti og fóru þeir og björguðu áhöfninni. Þar björguðu þeir 32 manns og af þeim voru 26 af fyrrverandi skipsfélögum pabba, en hann hafði sjálfur verið á Fylki tveimur árum áður. Fyrir nokkrum árum síðan fékk hann símhringingu sem honum þótti vænt um, það var einn af Fylkismönnunum sem þakkaði lífsbjörgina. 

Slysin gera ekki boð á undan sér og er örugglega ekki hægt að búa sig undir svona áfall. Það var þó greinilegt að Slysavarnaskóli sjómanna sem Slysavarnafélagið Landsbjörg á og rekur hefur átt sinn þátt í því að undirbúa Eirík fyrir baráttuna við náttúruöflin. Kom oft fram í frásögn hans brot úr þjálfun og viðbrögð sem hann hafði lært í skólanum. Ekki má heldur gleyma þætti Landhelgisgæslunnar í þessum málum sem vaka yfir okkur og eru tilbúin að bjarga við erfiðar aðstæður bæði á sjó og landi. Ég þakka fyrir skólann, aukna þjálfun og slysavarnir sjómanna og Eiríki Inga fyrir að deila sögu sinni með okkur.

GS39L7TI


mbl.is Aðdáunarverður lífsvilji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband