Skemmdarvargar í Álafosskvos

Skemmdir í Álafosskvos

Ég tók þá ákvörðun að fjalla ekki um tengibrautina í Helgafellshverfið fyrr en deiliskipulagið yrði auglýst að nýju með umhverfisskýrslunni, en bara gat ekki haldið aftur af mér lengur.

Ég er hálf miður mín yfir skemmdaverkunum í Álafosskvosinni og vona svo sannarlega að skemmdarvargarnir gefi sig fram. Ég sá ekki strax fréttirnar frá uppákomunni þar sem m.a. varaformaður Varmársamtakanna reif niður girðingu og skemmdi, en börnin mín sáu fréttirnar og undruðust mjög þetta háttalag fullorðna fólksins. Ég skoðaði svo allar fréttirnar tengdar málinu og næ ekki upp málflutning þeirra sem þar tjáðu sig og tek undir með þeim fjölmörgu sem hafa tjáð sig við mig um að orð forsvarsmanna Varmársamtakanna hafi náð að kynda verulega undir framkvæmdagleði skemmdarvarganna sem létu til sín taka síðustu nótt, þó svo að Varmársamtökin fordæmi verknaðinn.

Þær framkvæmdir sem verið er að mótmæla núna eru vegna lagna sem eru nauðsynlegar til að tengja hið nýja glæsilega íbúahverfi í Helgafellslandi. Þær framkvæmdir eru ekki háðar skipulaginu og verða lagnirar að koma á þessum stað, hvort sem tengibrautin verður að veruleika eða ekki.

Ég hef hitt marga á síðustu mánuðum sem hafa haldið að verið sé að leggja hraðbraut í gegnum Álafosskvosina, en hið sanna er að þessi vegur hefur verið á skipulagi í aldarfjórðung. Á undirbúningstímanum hefur vegurinn svo verið færður fjær kvosinni og hann aðlagaður enn frekar að landinu eins og sjá má á þessum myndum af tengiveginum. Ég skrifaði grein fyrir nokkru síðan um málið sem hægt er að lesa hér.

En til upprifjunar á þessu máli þá var Mosfellsbær búinn að tilkynna Skipulagsstofnun um þessa framkvæmd og komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Þessa ákvörðun Skipulagsstofnunar staðfesti umhverfisráðherra. Sú niðurstaða var kærð til kærunefndar skipulags- og byggingarmála sem komst að því að á grundvelli nýrra laga frá 2006 um umhverfismat áætlana yrði gera umhverfisskýrslu sem svo auglýst yrði með deiliskipulaginu að þessum 500 metra kafla brautarinnar sem um ræðir.

Fljótlega verður deiliskipulagið auglýst aftur til kynningar og þá með umhverfisskýrslunni.

Mikið hefur verið rætt um að bæjaryfirvöld hafi ekki tekið tillit til skoðana íbúa í Álafosskvosinni og því fékk ég þessa upptalningu að láni úr grein sem Haraldur Sverrisson formaður skipulags og byggingarnefndar skrifaði um kynningar- og samráðsferlið.

Helgafellsvegur

- misskilningur leiðréttur -

Þriðjudaginn 13 feb. sl.  var haldinn fjölmennur fundur í Hlégarði þar sem Mosfellsbær stóð fyrir kynningu á hönnun og útfærslu á Helgafellsvegi inn í Helgafellsland.  Undirritaður hélt þar framsögu þar sem farið var yfir skipulags- og kynningarferlið ásamt því að útskýrt var með hvaða hætti komið hefur verið til móts við athugasemdir bæjarbúa, einkum Varmársamtakanna.  Mig langar hér að gera grein fyrir þremur atriðum sem fram komu í framsögunni fyrir þá sem ekki áttu þess kost að sækja fundinn.

1. Kynningar- og samráðsferlið

Bæjaryfirvöld hafa legið undir ámæli að hafa í skipulagsferli Helgafellsvegar brugðist í lögbundnu kynningar- og samráðsferli við íbúana.  Staðreyndir málsins eru þessar:  Þegar þetta er ritað hafa verið haldnir sex kynningarfundir um skipulag tengivegar og nýs hverfis í landi Helgafells.

  • Almennur fundur um tengiveginn og skipulag Helgafellshverfis í tengslum við endurskoðun aðalskipulags 2002.
  • Í mars 2005, almennur fundur um niðurstöður um samkeppni um rammaskipulag Helgafellshverfis. 
  • Í febrúar 2006, almennur kynningarfundur um fyrstu deiliskipulagstillögur í Helgafellslandi.
  • Í  maí 2006,  sérstakur fundur með þeim sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillögu  umrædds tengivegar.
  • Nýverið fundur með íbúum kvosarinnar og nágrennis þar sem hönnunargögn vegarins voru kynnt. 
  • Opinn kynningarfundur um hönnun og útfærslu þriðjudaginn 13. febrúar nk. í Hlégarði.
  • Auk þessa hafa embættismenn bæjarins afhent og útskýrt gögn og átt samtöl og fundi með fjölda manns vegna þessa máls.

Ljóst er að sú kynning og það samráð sem viðhaft hefur verið í þessu máli er langt umfram það sem lög og reglur krefjast um slík mál í stjórnsýslunni.

2. Komið hefur verið til móts við athugasemdir

Mikið hefur verið rætt um að ekki hafi verið hlustað á athugasemdir sem borist hafa og þær virtar að vettugi.  Þetta er ekki rétt því útfærsla og hönnun Helgafellsvegar hefur breyst mikið einmitt til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar.

  • Tengiveginum hefur verið breytt í tvær safngötur á kafla með 30 km. hámarkshraða. Þetta hefur verið gert til að draga úr fýsileika þess að vegurinn verði tenging út á Vesturlandsveg frá framtíðarhverfum innar í Reykjadalnum. Við þetta mun umferð á veginum verða minni.
  • Vegurinn hefur verið færður fjær Álafosskvosinni og Varmánni.
  • Annað vegstæði valið sem aðlagast betur að landi og umhverfi.
  • Vegurinn lækkaður um tvo metra þannig að ásýnd hans mildast og stoðveggur lækkar og styttist. Stoðveggurinn verður um tveggja metra hár í stað fjögurra eins og áður var áætlað.
  • Skipulögð hefur verið lóð fyrir hverfisverslun á svæðinu. Er það gert til að gera hverfið sjálfbærara og við það minnkar umferð íbúa í og úr hverfinu.

Sú mikla vinna sem lögð hefur verið í hönnun tengivegar fyrir ofan kvosina hefur skilað þeim árangri að kynnt hefur verið lausn sem fellur vel að landi og umhverfi og hefur sem minnst áhrif á íbúa og nærumhverfi.

3.     Hverfisvernd Varmár ekki rofin

Því hefur verið haldið statt og stöðugt fram að umræddur Helgafellsvegur fari inn á hverfisverndarsvæði Varmár.  Þetta er ekki rétt.  Samkvæmt aðalskipulagsuppdrætti nær hverfisverndin frá fyrirhugðu vegstæði að bökkum Varmár.  Vegurinn kemur því hvergi inn á hverfisverndarsvæðið.  Reyndar er það þannig sveitarstjórnir ákveða hvort og þá hversu mikið einstök svæði skuli háð ákvæðum hverfisverndar innan sinna sveitarfélagamarka skv. skipulagslögum.  En engin þörf hefur verið á að breyta hverfisverndinni í þessu tilfelli þar sem nýr tengivegur í Helgafellshverfi fer ekki og hefur aldrei farið inn á hverfisverndarsvæði Varmár.

 

 


mbl.is Skora á skemmdarvarga að gefa sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Seegjum að það væri vinstri meirihluti ráðandi í bænum og hægri-sinnuð samtök stæðu fyrir mótmælum sem þessum.  Hvað væri það kallað???  Hryðjuverk???  Ég hef samúð með íbúunum og vona að þeir yfirstígi óttann um að það eigi að bera þeirra hlut fyrir borð í málinu.  Álafosskvosin er ekkert heilagur blettur, fremur en Laugardalurinn sem tekinn var undir Fjölskyldugarð o.fl. í valdatíð listans.   Allt er breytingum háð.

Vilborg Traustadóttir, 16.5.2007 kl. 20:37

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

.....í valdatíð R-listans..... (R datt út)

Vilborg Traustadóttir, 16.5.2007 kl. 20:39

3 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Já hann gunnlaugur varaformaður Varmársamtakanna kórónaði alveg framkopmu sína með því að rífa niður girðinguna með látum fyrir framan alþjóð í fréttatímanum. Með þessu framferði sínu gaf hann út "See Shepard" leyfi á svæðinu. Vonandi ekki meðvitað, hans vegna, en skilaboðin voru skýr.

Guðmundur H. Bragason, 16.5.2007 kl. 21:06

4 Smámynd: Ágúst Dalkvist

...... og hvers eiga verktakarnir að gjalda. Ekki ákváðu þeir hvernig þetta á allt að vera.

Þetta var afskaplega aumingjalegt af þeim sem frömdu þennan verknað, segi ekki annað.

Ágúst Dalkvist, 16.5.2007 kl. 23:40

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir góða og málefnalega skilgreiningu á þessu máli. Ég er alltaf feginn að heyra báðar hliðar mála, bjóst reyndar við að svona lægi í málinu. Bryndís Schram og Jón Baldvin eru hreinlega sjúka í fjölmiðlana eftir að þau komum heim frá Finnlandi, þau hljóta að hafa verið mjög afskip þar. Hálfnöfnukveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 16.5.2007 kl. 23:58

6 Smámynd: Andrea

Þetta er fyrir neðan allar hellur. Ég skil ekki hvernig samtökin geta fordæmt skemmdaverkin þegar alþjóð horfði á forsvarsmann þeirra rífa niður girðingar með látum í sjónvarpinu? Þau hafa ekki beint verið að setja gott fordæmi. Maður glatar líika virðingu fyrir fólki sem missir svona stjórn á sér, þau hefðu betur átt að kynna sér málin og kyngja síðan þessum samsæriskenningum sínum. En bæjarstjórnin gerir náttúrulega ekkert nema að ljúga og kúga bæjarbúa, ekki satt? Nú þegar Ragnheiður er komin á Alþingi hljóta þau að kæra hana fyrir landráð blessunina!

Andrea, 17.5.2007 kl. 02:39

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Síðastliðinn þriðjudag tók ég að mér girðingavinnu í Álafosskvos. Engin skemmdark. Táknrænn gjörningur gegn ofríki. Varmársamtökin voru á fundi niður í bæ hjá ráðgjafafyrirtækinu ALTA vegna umhverfisskýrslu, þar sem samkvæmt reglum um umhverfismat áætlana er unnið að smanburði á valkostum um tengibrautina. Fyrirtækið vinnur þetta fyrir Mosfellsbæ. Því vorum við í góðri trú um að vinna ætti skipulagið faglega á endanum. Í þeirri trú höfðum við einnig dregið nýlega til baka kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem að á sínum tíma leiddi til stöðvunar framkvæmda vegna galla á skipulagsvinnunni.

Fyrr um daginn höfðum við reyndar fengið niðurstöðu verkfræðinga sem kváðu upp úr um það að fimm metra malarpúði sem margvaltað er yfir væri ekki lagnavinna heldur vegagerð. Nú, svo gerist það mitt á þessum fundi að við fáum hringingu að byrjað sé að fara með þessa lagnavinnu í gegnum skóginn við Kvosina. Þetta er svo forhert og ómerkilegt að kurteisum manni eins og mér var gjörsamlega misboðið. Hinsvegar var það mjög ýkt að ég hafi verið reiður. Það var ég alls ekki. Hleypti fólkinu inn fyrir.

Það er mjög alvarlegt mál eins og Herdís og fleiri gera hér að taka undir ásakanir framkvæmdastjóra verktakafyrirtækis á mig persónulega í tengslum við tjón á vinnuvélum í Helgafellslandi. Það sýnir að verktakalýðræðinu sem að er rekið áfram í þessu bæjarfélagi er ekkert heilagt. Það er ekki nema von að öllumræða í nefndum bæjarins og alls staðar er í gíslingu óttans, sem að Sjálfstæðisflokkurinn hefur búið til með stjórnunarstíl sínum.

Ég hef reyndar ekki átt nema jákvæð samskipti við Herdísi og því finnst mér ég eigi inni afsökunarbeiðni frá henni að tengja mig við skemmdirnar. Hún gæti litið sér nær.

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.5.2007 kl. 17:11

8 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Gunnlaugur ég er ekki að taka undir orð verktakans heldur fólk sem ég hef hitt og eins fólk á moggablogginu. Þetta er skoðun mín og annarra eftir að hafa séð fréttir og er það langt því frá aðeins það sem þú gerðir heldur ekki síður það sem aðrir sögðu í viðtölum.  Ég hef líka tekið það fram að ég sé alveg sannfærð um að Varmársamtökin hafi ekkert með þessi skemmdarverk að gera, en hafi náð að kynda undir hjá framkvæmdaglöðum skemmdarvörgum sem ég vona svo sannarlega að náist og þurfi að svara til saka.

Ég tek undir það Gunnlaugur að við höfum átt fín samskipti okkar á milli og vona ég að okkur takist að hafa þau þannig þó að við verðum seint sammála í öllum málum. Þetta er mín persónulega skoðun á málinu og annarra sem ég hef hitt á liðnum dögum.

Herdís Sigurjónsdóttir, 17.5.2007 kl. 19:19

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Mín skoðun er sú að áherslurnar á verktakalýðræði séu sterkari en áherslur á íbúalýðræði í stjórnunarstíl Sjálfstæðisflokksins. Út úr þessu koma óþarflega mikil átök og skipulagsferlið verður sýndarmennska en ekki að framtíðarmótun bæjarins sé sameiginlegt verkefni. Nefndi líka í annarri athugasemd að t.d. væri það viðmið í Hafnarfirði að ef 20% íbúa fara fram á slíkt þá er boðið upp á íbúakosningu. Það er trúlega ekki hægt að beita slíkum aðferðum í Mosfellsbæ af því allt er rígbundið inn í hagsmuni landeigenda og verktaka?

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.5.2007 kl. 20:20

10 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

"Síðastliðinn þriðjudag tók ég að mér girðingavinnu í Álafosskvos. Engin skemmdark. Táknrænn gjörningur gegn ofríki." Gunnlaugur.: Trúi varla að svona "komment" séu rituð af manni sem vill láta taka sig trúanlegan, hvað þá alvarlega. Þetta þarf ekki frekari vitnanna við. Þú ert endanlega búinn að jarða samtökin sem þú ert einn af forsvarsmönnum fyrir. Greinilega algerlega tilgangslaust að eiga við þig frekari orðastað. Finndu þér tímavél sem virkar og í Guðs bænum reyndu að koma þér á eitthvert annað svæði og tíma veraldar, víðsfjarri Mosfellsbæ (eða bara hvaða bæ sem er) og árinu 2007. Þú ert ekki alveg í lagi. Punktur af minni hálfu. 

Halldór Egill Guðnason, 17.5.2007 kl. 21:36

11 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Halldór, íbúalýðræði er 21. öldin. Þau skref eigum viða að stíga óttalaus. Þú virðist talandi dæmi um menn sem að ganga fram með þeim hætti að reyna að hræða fólk frá umræðu og áhuga á bæjarmálum, jafnvel helst að hrekja fólk úr bæjarfélaginu! Ertu nokkuð Sjálfstæðismaður? Skelltu þér í smá tilfinningavinnu, örlítið betra flæði ....

Gunnlaugur B Ólafsson, 17.5.2007 kl. 21:46

12 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Gunnlaugur.: Punktur.

Halldór Egill Guðnason, 17.5.2007 kl. 21:55

13 Smámynd: Andrea

Gunnlaugur þú nefnir Hafnarfjörð í sambandi við íbúalýðræðið. Ég var að vinna í kringum kosningarnar um álverið, ég sat ýmsa bæjarfundi og ræddi við mikið af Hafnfirðingum sem voru ýmist með eða á móti. Það EINA sem allt þetta fólk var á eitt sammála um, var að þessar kosningar voru allt annað en lýðræðislegar.

Við íbúarnir kjósum bæjarstjórn sem við treystum til þess að taka ákvarðanir fyrir okkur. Eins og fram kemur hér í bloggfærslu Herdísar hefur bæjarstjórnin komið til móts við margar af þeim athugasemdum sem gerðar voru. Ykkar tillaga að tengibrautinni hlaut mun verri dóma og þótti verri umhverfinu en tengibrautin eins og hún er nú skipulögð.

Ég skil ekki hvernig bæjarstjórnin stundar ofríki, kúgun o.s.frv. eins og þið segið. Hún er einfaldlega að sinna starfi sínu. Það hefur verið tekið tillit til athugasemda, en samt sakið þið stjórnina áfram um kúgun og ofríki. Þessa braut þarf að leggja og skipulagið eins og það er nú telst ákjósanlegra en ykkar tillaga. Þið segið að þau vinni umhverfisspjöll, en ykkar eigin tillaga vísar á meiri umhverfisspjöll. Ég hélt að þessi samtök væru í þágu umhverfis?

Þetta er orðið hálf þunnt hjá ykkur. Og annað, þá er ég vissum að skemmdarvargarnir telji einnig að þeirra skemmdarverk séu táknrænn gjörningur gegn ofríki. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að þessi hegðun er óafsakanleg og barnaleg. Hún leiðir ekkert af sér, nema neikvæða umræðu í ykkar garð. Þú hlýtur að sjá það. Það að fólk sé að segja sig úr samtökunum vegna þessarar hegðunar þinnar hlýtur að segja þér eitthvað.

Virðingarfyllst, Andrea.

Andrea, 17.5.2007 kl. 22:49

14 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Verð að brjóta odd af oflæti mínu og koma með smá "komment" þrátt fyrir punktinn. 

"Halldór, íbúalýðræði er 21. öldin. Þau skref eigum viða að stíga óttalaus. Þú virðist talandi dæmi um menn sem að ganga fram með þeim hætti að reyna að hræða fólk frá umræðu og áhuga á bæjarmálum, jafnvel helst að hrekja fólk úr bæjarfélaginu! Ertu nokkuð Sjálfstæðismaður? Skelltu þér í smá tilfinningavinnu, örlítið betra flæði .."

Hver hrekur hvern með illgjörnum "commentum" alhæfingum og fullyrðingum. Hvaða máli skiptir hvort ég sé sjálfstæðismaður eða eitthvað annað í pólitík, þegar skynsemi er það eina sem farið er fram á að fólk sýni? Í guðs bænum kallinn minn, "grow up"!  Álafosskvosin er ekki pólitísk, hún er staður og eilíf stund, sem mun standa, þrátt fyrir bæði mig og þig. Glataður málstaður fellur hins vegar á hverjum degi um sjálfan sig og ekkert nýtt, þannig lagað séð. Opinni uræðu er enginn greiði gerður með þínum málflutningi eða girðingareið. Nú er það hinn "finale punctum" og ekki orð um það meir af minni hálfu til þín, alveg sama hve miklum aur þú etur mig og mitt álit. Þinn tími er liðinn með þetta "project" og tími til kominn að huga að öðru sem bænum okkar hentar betur en þetta argaþras. Sem sagt "Punctum Finale".

Halldór Egill Guðnason, 17.5.2007 kl. 23:21

15 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Mig langar aðeins að kommentera á innlegg Andreu, sem er greinilega kona sem tekur það alvarlega að vera fulltrúi flokksins, ræðir bara málefnið, brosmild og í góðu flæði

"Það EINA sem allt þetta fólk var á eitt sammála um, var að þessar kosningar voru allt annað en lýðræðislegar."

Ég er á því að það hefði mátt útfæra ýmislegt betur. Til dæmis að hafa staðlað kynningarefni, þannig að fjárhaglega sterkari aðilinn gæti ekki beitt aflsmunar í baráttunni. En það var þó fólkið sem kaus og lét ekki gjafir né hræðsluáróður hafa áhrif á sig. Sjálfstæðisflokkurinn hefði óhikað samþykkt að staðsetja eitt stærsta álver heims inn í íbúabyggð og ekki talið það vera íbúanna að koma að slíkri ákvörðun?

"Ykkar tillaga að tengibrautinni hlaut mun verri dóma og þótti verri umhverfinu en tengibrautin eins og hún er nú skipulögð."

Hvaða dóma ert þú að tala um? Það er verið að vinna diliskipulagið og sumir úr skipulagsnefnd hafa sagt "þetta er allt til endurskoðunar". Fulltrúar Varmársamtakanna voru á fundi hjá ALTA ráðgjafastofu á sama tíma og bæjarstjórnin laumaðist í vegagerð undir formerkjum "lagnavinnu". Þú veist að deiliskipulag á ekki að vera sýndarmennska. Skil alls ekki hvernig mislæg gatnamót ofan núverandi Helgafellsbyggðar í stað tengibrautar um Álafosskvos er verri umhverfinu. Með tillögunni næst að mynda það sem við höfum kallað "Varmárdal" útivistar- og verndarsvæði upp með Varmá. Það gengdi spennandi hlutverki fyrir íbúana líkt og Laugardalur, Fossvogsdalur, Elliðaárdalur. Finnst eins og að þú hafir ekki kynnt þér tillögurnar.

"Þetta er orðið hálf þunnt hjá ykkur."

Ég veit að meirihlutinn vildi að hann væri fyrir löngu búin að koma þessum samningi við verktakann í gegnum skipulagsferlið, sem að er bara tómt vesen. Held að þetta sé bara að verða "þykkara". Nú hefur andstaðan við Tunguveginn bæst á vogarskálarnar um þá kröfu bæjarbúa að þessari lífæð í gegnum bæjarfélagið verði hlíft.

"Og annað, þá er ég vissum að skemmdarvargarnir telji einnig að þeirra skemmdarverk séu táknrænn gjörningur gegn ofríki."

Þetta er góður punktur hjá þér. Það gæti verið þörf á að hafa námskeið í mótmælum og þá sérstaklega táknrænum, frekar en eyðileggjandi. Mér finnst gaman að sjá einhverja franska bændur sturta úr vagni fullum af tómötum á eitthvað ráðhústorg ef þeir eru ósáttir við landbúnaðarstefnuna. Hinsvegar ef þeir færu og skemmdu bíla´hjá landbúnaðarráðuneytinu, þá hefðu þeir ekki mína samúð.

Svo skulum við bara vera til fyrirmyndar og þakka þér fyrir að vilja huga að því að sem flestir séu í samtökunum. Ef þú ert ekki í þeim, þá veit ég að þú ert velkomin. Opin og frjáls íbúa- og umhverfissamtök.

                        Gangi þér vel,

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.5.2007 kl. 00:37

16 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Skemmtileg og góð umræða hér Herdís.

Sigfús Sigurþórsson., 18.5.2007 kl. 21:49

17 Smámynd: Andrea

Það með að ykkar tillaga hafi þótt verri umhverfinu er það sem ég hef lesið í fréttum. Og jú ég hef kynnt mér málin.

Auðvitað eigum við að vera til fyrirmyndar, og ég ber engan illhug til ykkar varmársamtakamanna, þó ég sé ekki sammála ykkur. Ég vildi bara benda ykkur á að þetta er ekki rétt leið til þess að fá athygli, þá er mér alveg sama hvort það fjölgi hjá ykkur, ef það er á réttum forsendum. Ég er hinsvegar á því að ykkar forsendur eru úti á túni, þar sem þið segist vera að vernda umhverfið, og komið svo með tillögu sem er metin meira umhverfisspillandi. Þetta hefur komið fram oftar en einu sinni í fjölmiðlum. Þið hljótið að hafa rekið augun í þetta einhversstaðar. T.d. kom þetta fram í dagblaðinu vísi þegar fjallað var um það þegar þið reynduð að stöðva framkvæmdir.

Og ég þakka gott boð, en ég hef ekki áhuga á að skrá mig í samtökin.

Ég skal skrifa ítarlegar um "íbúalýðræðið" í Hafnarfirði þegar ég hef tíma næst.

Og já, ég er stoltur fulltrúi flokksins, ávallt brosmilld og held mig við málefnin en frá girðingunum ;)

Gangi þér vel sömuleiðis.

Andrea, 19.5.2007 kl. 01:10

18 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Þetta er aldeilis hressilegt, held að ég hafi bara ekki fengið svona margar athugasemdir síðan ég skrifaði um Hálslón og Héðinsfjarðargöng í fyrra.

Ég vona að hægt verði að halda umræðunni áfram á vitrænum nótum og hér að framan eru margar mjög góðar athugasemdir og skoðanir fólks á málinu.

Gunnlaugur þú segir "Nú hefur andstaðan við Tunguveginn bæst á vogarskálarnar um þá kröfu bæjarbúa að þessari lífæð í gegnum bæjarfélagið verði hlíft". 

Þetta slær mig eins og það sé eitthvert keppikefli að vera á móti þessum framkvæmdum við Tunguveginn. Ég varð ekkert lítið hissa þegar ég fékk sent bréf sem var sent til foreldra Varmárskóla í óþökk skólayfirvalda, þar sem þeim framkvæmdum var mótmælt. Ég varð hissa því í gegnum árin þá hefur verið óskað eftir þessum vegi vegna íþróttaaðstöðunnar á Tungubökkum. Foreldrar óskuðu eftir því að fá þessa tengingu þar sem hættulegt er að keyra Vesturlandsveginn. Bæjaryfirvöld óskuðu eftir því við Vegagerðina að vegurinn yrði merktur og breikkaður á þeim stað sem keyrt var út af Vesturlandsveginum, en alltaf var stefnt að hinum veginum.

Hér eru frekari gögn vegna Tunguvegarins.

Skipulagsstofnun leitaði álits Umhverfisstofnunar vegna lagningar brautarinnar og þetta var niðurstaðan.

Í frekari gögnum sem borist hafa Umhverfisstofnun, sem og eftir fund stofnunarinnar og Mosfellsbæjar er það mat Umhverfisstofnunar að ekki séu líkur á að framkvæmdin muni hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Gerðar hafa verið þær lágmarksrannsóknir sem stofnunin taldi nauðsynlegar til að hún gæti metið hugsanleg umhverfisáhrif fyrirhugaðrar tengibrautar.Þær rannsóknir hafa leitt í ljós að fyrirhuguð tengibraut eru ekki líklegar til að valda verulegum óafturkræfum umhverfisáhrifum í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Hér er úrskurður Skipulagsstofnunar á framkvæmdinni.

Í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. hefur Skipulagsstofnun  farið yfir þau gögn sem lögð voru fram af hálfu Mosfellsbæjar við tilkynningu, umsagnir og viðbrögð Mosfellsbæjar vegna umsagna og fyrirspurnar Skipulagsstofnunar . Á grundvelli þessara gagna er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að lagning tengibrautar frá Skeiðholti að Leirvogstungu í Mosfellsbæ sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Herdís Sigurjónsdóttir, 19.5.2007 kl. 10:13

19 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sælar Andrea og Herdís

Andrea, því miður virðist þú ekki vita nógu mikið um málið. Þú vísar til fjölmiðla varðandi niðurstöðu þína um að tillögurnar valdi meira umhverfistjóni. Það er sennilega vegna misskilnings sem að hefur skapast út af þverun Varmár við Álanes er sýnd á myndinni sem við höfðum fengið neitun frá Mosfellsbæ að yrði tekin út. Við erum hlynnt því að sleppa slíkri tengingu ef það fæst afgerandi niðurstaða að hún sé óþörf. Tillagan gengur út á að í stað tengibrautar um Álafosskvos þá verði lögð mislæg gatnamót ofan og norðan núverandi Helgafellsbyggðar. Á síðu Varmársamtakanna - "Varmárdalur - með og á móti" hef ég reynt að draga saman athugasemdir um tillögurnar.

Herdís, það er vissulega rétt að Foreldrafélag Varmárskóla og Hesthúseigendafélag hafa lagst gegn Tunguvegi í "óþökk" yfirvalda. En mér finnst að þau eigi að hafa svigrúm fyrir sínar meiningar og þurfi ekki leyfi nokkurra aðila til að setja þær fram. Aðalmálið með Tunguveg er að hann er óþarfur, eftir að mislæg gatnamót eru komin á Vesturlandsvegi við Leirvogstungu. Málið snýst um að Vegagerðin krefst þess að Vesturlandsvegur verði ekki notaður í skipulagi sem innanbæjarvegur. Hinsvegar gegnir hann því hlutverki núna, því yfir 80% umferðar sem fer í gegnum Vesturlandsveg á degi hverjum. Hlutfall Mosfellskrar umferðar umferðar mun enn aukast á Vesturlandsvegi með tilkomu Sundabrautar.

Veðrið er svo fallegt í dag að ég hefði e.t.v. átt að bjóða ykkur í piknik með heitu kakói, bakkelsi í fallegri bastkörfu og borðbúnaði. Vandamálið er bara, hvar getum við fundið friðsælan skógarlund .... án risavaxinna vinnuvéla og öryggisgirðinga?  .

                    Njótið dagsins,

 

Gunnlaugur B Ólafsson, 19.5.2007 kl. 12:01

20 identicon

Ég hef fylgst með þeim umræðum sem hafa farið fram hér um væntanlegan Helgafellsveg og þykir mér málflutningur Varmársamtakanna vera orðinn ansi rýr.  Einnig einkennandi að fólk hafi ekki nægjanlegt vit á málunum sem hefur aðra skoðun en samtökin (Gunnlaugur).  Ég er sammála Hjördísi að málið virðist snúast um sært stolt.  Með því að halda því fram að fólk sem sitji í nefndum bæjarins "sitji í gíslingu óttans" sjálfur hef ég setið í skipulagsnefnd bæjarins og kannast ekki við það sem þú heldur fram Gunnlaugur og sat þar einnig aðili Samfylkingar sem var alveg sáttur við það sem þar fór fram.  Einnig það að hvar sé hægt að setjast niður í Mosfellsbæ núna þó nokkur tré hafi fallið við lagnavinnu fyrir Helgafellshverfi og endurnýjun lagna úr Álafosshvos segir allt sem segja þarf um málflutning Varmársamtakanna.  Ég man ekki betur en á fundinum í Hlégarði lagðir þú til að þvera Varmá og sópa niður hluta af Reykjalundarskóginum, sem að mínu áliti er miklu meir perla en Hvosin, það var í lagi.  Innihald málflutnings Varmársamtakanna er í dag ótrúverðugur að mínu áliti og gjörningurinn í sjónvarpsfréttunum kórónaðir þetta allt saman.  Eftir alla þessa lesningu mátti ég til að leggja orð í belg. 

Erlendur Örn Fjeldsted (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 22:22

21 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Erlendur

Það er ekki rétt hjá þér að Varmársamtökin hafi ekki jákvæða afstöðu til mismunandi hugmynda í skipulagsmálum. Hef einmitt talið það til kosta að það séu uppi fjölbreytilegar hugmyndir og síðan heilbrigður jarðvegur fyrir úrvinnslu og aðkomu almennings. Það vantar í Mosfellsbæ og þá er mér rétt á sama hvort þú andmælir því eða ekki. Við höfum hvatt til og viljað gangast fyrir faglegum samanburði á valkostum, en fyrir daufum eyrum.

Það hefur hentað betur að etja saman hverfum og hræða fólk frá því að mynda sér skoðun með því að segja að Varmársamtökin leggji til að farið verði með tengibraut í gegnum Reykjalundarskóg, eins og þú gerir. Afhverju? Gæti verið vegna þess að vinnuferlið, skipulagsvinnan byrjaði á því að rígbinda samninga við verktaka þannig að út úr málinu varð ekki bakkað og aðkoma almennings og opin hugmyndavinna gat aldrei átt sér stað og því er skipulagsferlið í raun sýndarmennska. Gæti verið að meirihlutinn hafi svo mikið stolt að hann sé ekki til í að skoða neitt í faglegum samanburði og verði að fara sínu fram þó sýnt sé fram á að það sé ekki besta lausnin.

Allavega hljóta þeir að hafa sært stolt um þessar mundir því endurtekið hafa vinnubrögð þeirra verið dæmd ófullnægjandi, bæði af úrskuðarnefnd skipulags- og byggingarmála og Skipulagsstofnun. "Gjörningurinn í sjónvarpsfréttunum" var speglun á það ofríki sem fólst í því að vaða með stórvirkar vinnuvélar þvers og kruss, innrammaðir í girðingar og gaddavír, án nokkurs deiliskipulags, einungis útprentaðan tölvupóst frá tækni- og umhverfissviði. Taktu nú eftir, lagnavinna meðfram Varmá hefur nú verið stöðvuð vegna þess að hún brítur í bága við náttúruverndarlög. Það er spurning hverjir verða ótrúverðugir á endanum.

Það að segja að tillögur Varmársamtakanna feli í sér meiri umhverfisspjöll er að fara rangt með, en það er þitt orðalag en ekki mitt að það hafi ekki vit á málunum. Það er alveg rétt að ég sagði í Hlégarði að það væri mín persónulega skoðun að af tvennu illu, ef menn stæðu frammi fyrir vali, þá væri betra að þvera Varmá milli Reykjalundar og Álafosskvosar, heldur en að spilla Álafosskvos, fara lengri leið samsíða ánni, setja Brúarland upp á umferðareyju, gera miðbæinn að rússibana bílaumferðar, fara með tengibraut þvert fyrir aðalgöngustíg bæjarins og reiðstíg. Að þessi kostur sé betri er einnig álit Trausta Valssonar arkitekts og Péturs Ármannssonar arkitekts kenndan við Torfusamtökin. Þessi þverun er inn á aðalskipulagi og samkvæmt öllum bréfum sem við höfum þá hefur bærinn ekki viljað taka þetta út. Aðaltillaga samtakanna gengur út á mislæg gatnamót ofan byggðar, sem jafnframt þjónar Þingvallaafleggjara.

Þú ert á villigotum um að málið snúist um að sært stolt sé drifkraftur Varmársamtakanna. Ásetningur og einbeiting lítur að því verðuga verkefni að í allri frmkvæmdagleðinni sé haldið eftir lífæð bæjarins, útivistar- og verndarsvæði frá ósum og upp fyrir Reykjalund. Það er verðugt verkefni og tryggir að Mosfellsbær eigi til framtíðar "Varmárdal" sem gengdi álíka hlutverki og Laugardalur, Fossvogsdalur, Elliðaárdalur o.fl. opin svæði til útivistar á höfuðborgarsvæðinu.

Hvet þig til að hlusta á ágætan þátt Hjálmars Sveinssonar Krossgötur inn á www.ruv.is sem var í útvarpinu í dag. Það er mikil innistæða í málinu ennþá og mun verða. Jafnvel þó þessari tengibraut verði nú nauðgað í gegn á forsendum "lagnavinnu" þá er ég sannfærður um að það eru til betri lausnir og að hún sé ekki framtíðin.

Takk fyrir þitt innlegg

              og vona að þú verðir ekki ósáttur við að ég svari þér,

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.5.2007 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband