Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Góð hugmynd hjá borgarstjóra

Ísland og skógurÞetta er frábær hugmynd hjá félögum mínum í borginni. Ég er mjög hrifin af svona vitundarvakningarverkefnum. Það er afskaplega mikilvægt að fólk taki ábyrgð á sínum gjörðum og er þetta vissulega ein leið til þess.

Ég er líka hrifin af umhverfisverkefninu Kolviði sem hefur það að markmiði að hvetja Íslendinga til þess að hafa frumkvæði og stuðla að því að við verðum fyrsta þjóð heims til að kolefnisjafna útblástur samgöngutækja okkar með skógrækt.

Ég lagði til á bæjarstjórnarfundi áðan að bæjarstjórn legði sitt af mörkum og tæki þátt í Kolviði og var samþykkt samhljóða að allar bifreiðar og vélar í eigu Mosfellsbæjar verði kolefnisjafnaðar.  

 

 

 


mbl.is Hringt í tré
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er DV í boði Samfylkingarinnar?

logoÉg spurði manninn minn við morgunverðarborðið hvort það gæti verið að Samfylkingin hefði keypt þessa frídreifingu á DV í dag. Svo þegar ég fór á fund áðan var mér sagt að þarna væri komin dagblaðsútgáfan af myndbandi ungra jafnaðarmanna.

Svo var eitt sem ég tók eftir í þessu blaði sem ég annars aldrei sé. Þarna voru tvær opnur helgaðar stjórnmálaleiðtogum. Geir H. Haarde- sem er óumdeildur foringi, Jón Sigurðsson- sem gleymir sér í kennarahlutverkinu, Steingrímur J. - sem er enn samkvæmur sjálfum sér, Ingibjörg Sólrún- sem enn er efnileg og spáð frama, Össur- sem engum leiðist með, Þorgerður Katrín- sem enn á eftir að koma á óvart, Ögmundur- sem hlustar ekki eftir vindinum, Guðni Ágústsson-sem er síðasti sveitamaðurinn, Guðjón Arnar- sem er hinn trausti alþýðumaður....en bíðið við hvar er viðtalið við Ómar og Margéti?

En getur þetta verið tilfellið með kosningablað DV og Samfylkinguna, maður spyr sig?

 


Það er af sem áður var

Gömul mbl. forsíða

Haustið 1989 útskrifaðist ég úr háskóla og fór að vinna á Keldum og þótti heppin. En um áramótin 1991 - 1992 útskrifaðist maðurinn minn svo úr byggingartæknifræði og þá var hvergi vinnu að fá fyrir nýútskrifaða byggingatæknifræðinga. Við ungu hjónin hringdum á allar verkfræðistofur og líka í flest bæjarfélög á landinu til að leita að vinnu, en án árangurs og fór hann því í smíðavinnu og fékk svo að lokum vinnu hjá tryggingafélagi. Á þessum tíma þá var mjög mikið atvinnuleysi og flutti stór hópur háskólamenntaðra einstaklinga úr landi, en nú er öldin heldur önnur fyrir verk- og tæknifræðinga. 

Hér er ein forsíðufrétt frá þeim tíma sem ég vil helst gleyma eða frá tímum síðustu vinstri stjórnar. Í þessari forsíðufrétt Morgunblaðsins frá 8. júní 1989 greinir þá verandi fjármálaráðherra frá efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. 

Í fréttinni segir m.a:

ÓLAFUR Ragnar Grímsson fjármálaráðherra mun í dag leggja fyrir ríkisstjórnina tillögur um það hvernig rétta megi af fyrirsjáanlegan 3,5 milljarða halla á ríkissjóði á árinu. Hann segist munu leggja fram tillögur um aukna skattheimtu, niðurskurð og auknar lántökur innanlands. Hins vegar verði forðast að taka erlend lán til þess að rétta af hallann.

Ástæðan fyrir þessum halla er sú að á undanförnum vikum hafa verið teknar ákvarðanir um ýmis viðbótarútgjöld og ýmsir aðrir hlutir verið að koma í ljós,“ sagði Ólafur Ragnar í samtali við Morgunblaðið.

Undanfarin ár hefur verið næg atvinna í landinu og er ánægjulegt til þess að hugsa að hér er stór hópur ungs fólks sem ekki þekkir atvinnuleysi. Tekist hefur að lækka skatta, greiða niður skuldir ríkissjóðs og auka framlög til velferðarkerfisins. Ég vona svo sannarlega að börnin mín þurfi aldrei að upplifa svona tíma eins og við foreldrarnir. Lausnin sem í fréttinni er kynnt er lýsandi fyrir vinstri stjórn til að takast á við hallarekstur, aukin skattheimta - niðurskurður -  auknar lántökur - þessar aðferðir heyra til allrar hamingju fortíðinni til. 

Nei alveg rétt, ég var bara búin að steingleyma því. Núna á að bjarga öllu með hagvextinum sem virðist eiga að haldast, bara af því bara.


Þingmaður Mosfellinga

sv_hopur

Ég er að vinna upp frétta og sjónvarpsmál síðustu daga og var að ljúka við að horfa á kragaþáttinn á RUV frá því í gær. Mér fannst Þorgerður standa sig frábærlega og tel víst að flestir geti verið á sama máli hvar í flokkir sem þeir standa. Það hefur verið ánægjulegt að starfa með Þorgerði undanfarin ár. Hún er hörku stjórnmálamaður og fljót að átta sig á því sem skiptir máli og sér hlutina í samhengi. Hún stendur sig líka vel í menntamálaráðuneytinu og varaformennskunni, er mikill foringi og keppnismanneskja og eiga þær Ragnheiður Ríkharðs það sameiginlegt að alltaf er stutt í "hverjir eru bestir" hjá þeim hjá báðum.

Hún Þorgerður Katrín er líka húmoristi og sagði ágætan brandara á fundi á dögunum um ljóskuna í menntamálaráðuneytinu, sem Jón Baldvin Hannibalsson nefndi svo.

Þorgerður þurfti að fara á fund suður í Keflavík og keyrði sjálf því hún hafði gefið bílstjórnanum langþráð frí. Hún var eitthvað sunnan við sig eins og sannri ljósku sæmir og keyrði örlítið of greitt. Þá birtust blá ljós fyrir aftan hana og var henni bent á að fara út í kant. Þá kom ljóshærð lögreglukona út úr bílnum og spurði um ökuskírteinið. Þorgerður hváði og þá sagði lögreglukonan að það væri svona ferkantað með mynd. Hún rótaði í veskinu og tók upp púðurdósina og leit í spegilinn og brosti. Rétti svo lögreglukonunni dósina og sú leit í spegilinn og sagði um hæl "af hverju sagðir þú ekki strax að þú væri í lögreglunni"......

En varðandi kragann þá mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 5 kjördæmakjörna þingmenn og 41,9% fylgi skv. kjördæmakönnun CG sem kynnt var í gær.

Sjálfstæðisflokkur: 41,9% (38,4%)
Samfylkingin: 28,5% (32,8%)
Vinstri græn: 14,5% (6,2%)
Framsóknarflokkur: 7% (14,8%)
Frjálslyndi flokkurinn: 5,5% (6,7%)
Íslandshreyfingin: 2,6%

Þingmenn skv. könnun
Sjálfstæðisflokkur
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Samfylking
Gunnar Svavarsson
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Vinstri græn
Ögmundur Jónasson
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn hefur bætt við sig kjördæmakjörnum þingmanni frá síðustu alþingiskosningum. Skv. þessum tölum þá eru ágætis líkur á því að Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ sem skipar sjötta sæti listans komist inn sem jöfnunarþingmaður. Sjötti þingmaður Sjálfstæðisflokksins er eini raunhæfi möguleikinn fyrir Mosfellinga að fá sinn þingmann, en fulltrúar úr Mosfellsbæ á öðrum framboðslistum kjördæmisins eru langt frá því að ná inn skv. öllum könnunum.

Hún Ragnheiður er vel kynnt af störfum sínum bæði sem bæjarstjóri og eins sem kennari og skólastjóri í yfir 20 ár. Hún hefur verið oddviti sjálfstæðismanna og bæjarstjóri frá 2002. Það verður vissulega súrt að missa hana sem bæjarstjóra, en ég veit líka hvað það er bráðnauðsynlegt fyrir okkur að hafa fulltrúa á alþingi sem hefur jafn víðtæka þekkingu og reynslu á málefnum sveitarstjórna og hún hefur og ekki síst málefnum höfuðborgarsvæðisins. Það verður líka örugglega ánægjulegt fyrir hana að fá tækifæri til þess að fylgja eftir þeim málefnum sem bæjaryfirvöld í  Mosfellsbæ hafa verið að vinna að á undanförnum árum. Málefnum eins og uppbyggingu hjúkrunarheimilis hér í bæjarfélaginu, uppbyggingu og rekstri framhaldsskóla Mosfellinga, tvöföldun Vesturlandsvegarins alla leið, löggæslumálum og ekki síst yfirfærslu á velferðarmálum frá ríki til sveitarfélaga.

Það er mín skoðun að það sé mikilvægt fyrir byggðarlög og svæði að hafa þingmann sem þekkir vel aðstæðna og veit hvað það er sem brennur á fólki á hverjum stað. Ég vona því að okkur takist að tryggja Sjálfstæðisflokknum í  kjördæmi nægt fylgi til að Ragnheiður Ríkharðsdóttir verði einn af þeim þingmönnum sem tekur til starfa á alþingi Íslendinga eftir kosningar.


mbl.is VG eykur við fylgi sitt í Suðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylduhátíð XD í fjölskyldu- og húsdýragarðinum

c_documents_and_settings_herdis_my_documents_my_pictures_m2

Hvað er Framsókn?

427357B

Staða Sjálfstæðisflokksins er sterk í kraganum, fimm þingmenn en er mikilvæg fyrir okkur að ná inn sjötta þingmanninum eða Ragnheiði Ríkharðsdóttur úr Mosfellsbænum. Siv Friðleifsdóttir ráðherra og framsóknarkona og er ennþá úti skv. þessari könnun og hitti ég konu áðan sem spurði mig, hver væri eiginlega munurinn á Sjálfstæðisflokknum og Framsókn og hvernig stæði á því að þessir flokkar sameinuðust ekki bara? Ekki treysti ég mér til að kynna fyrir henni stefnu Framsóknarflokksins og held ég að líkt sé um marga aðra kjósendur ef marka má kannanir um fylgi Framsóknar. Nú þeim hefur oftast svo sem tekist að klára málið á síðustu metrunum og ná undraverðu hlutfalli atkvæða upp úr kössunum og enn er vika til kosninga.

Ég fékk sent kort frá Framsókn í kraganum áðan og leit á fyrstu þrjá liðina.

Málefni fatlaðra og aldraðra flutt til sveitarfélaganna. Þetta eru allir fyrir löngu búnir að segja og er verið að vinna að þessu máli á mörgum vígstöðvum.

Íþróttir og tómstundir í framhaldi skóladags. Já þetta er nákvæmlega svona og eru fjölmörg sveitarfélög að vinna á þessum nótum nú þegar og Mosfellsbær þar í fararbroddi. Er verið að meina að ríkið ætli að fara að greiða fyrir þetta fyrir sveitarfélögin, maður spyr sig?

Bættar samgöngur, - akstursleiðir og hjólreiðastígar. Já það eru líka allir sammála um þetta og ég velti því fyrir mér hvort verið væri að boða það að sveitarfélög þyrftu nú ekki lengur að leggja hjólreiðastíga eins og í dag.

Ég veit ekki hvað verið er að meina og hef ekki séð meira en þetta kort frá Framsókn, en það verður fróðlegt að sjá hvað verið er að meina.

 


mbl.is Samfylkingin aftur fram úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er eða verður Ísland land tækifæranna?

iceland

Ég átta mig ekki alveg á því hvað ISG formaður Samfylkingarinnar var að meina í Kastljósinu þegar hún var spurð að því hvernig ætti að fjármagna þær tillögur sem settar hafi verið fram af hálfu flokksins. Hún sagði heildarkostnað nema 30 milljörðum króna sem lítið mál væri að með aga við  fjárlagagerð mætti hagræða í ríkisrekstri. Ég velti því fyrir mér á þeirri stundu hvort hún væri að meina svona aga í fjármálum og hagræðingu eins og R-listinn stundaði í borginni? Ég er hrædd um að skuldir hafi aukist, velferðin hafi ekki aukist og biðlistar lengst.

En í viðtalinu var Ingibjörg spurð að því hvort hún teldi að aukið aðhald í ríkisrekstri og hagræðing myndi skapa þessa 30 milljarða króna tekjur sagði Ingibjörg að svo væri heldur hefði það allt með hagvöxtinn í landinu að gera, en hún sagði:

Það gerist bara með hagvextinum. Ef þú tekur 3% hagvöxt á ári, er það að skila á ári hverju 9-10 milljörðum á ári í ríkissjóð. Við hljótum öll að gera ráð fyrir því að það verði góður hagvöxtur á næstu árum. Ég er alveg sannfærð um að Ísland er land tækifæranna.

Svarið kom bara líkt og það væri sjálfsagt mál að hagvöxturinn héldist. Ég er hjartanlega sammála því að hagvöxtur sé forsenda þess að hægt sé að fjármagna velferðarkerfið og breytingar á því líkt og búið er að boða verði Sjálfstæðisflokkurinn áfram í næstu ríkisstjórn. Ég er líka sammála því að Íslands sé land tækifæranna.

Undanfarið hafa vinstri menn talað eins og Ísland muni verða land tækifæranna komist vinstri menn til valda og er verið að halda fram að þekkingariðnaður sé svarið, eins og hann sé ekki stundaður á Íslandi í dag. Hið rétta er að við lifum nú á þeim tímum þar sem tækifærin eru til staðar, hér er næg atvinna og miklar framkvæmdir og mikið líf. Miklu fjármagni er varið til menntunar ár hvert, hér eru öflugir skólar, búið er að fjölga háskólum og rannsóknastofnunum um allt land og aukin áhersla lögð á sjálfbæra þróun og umhvefis- og orkumál. En sá grunnur sem lagður hefur verið er ekki í framtíðinni heldur í núinu og verður fólk að átta sig á því að þetta hefur gerst í tíð núverandi ríkisstjórnar.

En hér á Íslandi hafa orðið miklar breytingar liðnum áratugum á vinnumarkaði líkt og í örðum löndum. Framleiðslustörfum hefur fækkað og hefur sá hluti vinnuafls farið minnkandi líkt og í flestum þróuðum hagkerfum. Þekkingarstarfsmönnum fer fjölgandi og eru þeir orðnir lykillinn að efnahagsárangri og er hefur mikil vakning verið í þá veru að virkja mannauðinn, menntun, færni, hæfileika og hæfni hvers og eins. Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna að áframhaldandi hagsæld hér á landi.  

Það verður að teljast jákvætt að formaður Samfylkingarinn sé sammála formanni Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðismönnum um mikilvægi hagvöxtar, en hitt er svo annað mál hvort þessi málflutningur ISG sé trúverðugur þegar litið er til sögunnar.

 

 


Sveitaferð Huldubergs

IMG_1170

Við Sædís Erla fórum í sveitaferð að Grjóteyri með leikskólanum hennar í dag. Það er alltaf frábær þátttaka og fjöldinn allur af rútum sem fóru með glaða krakka, foreldra og starfsfólk. Þetta eru alveg frábærar ferðir og örugglega mikil skipulagning að baki og tókst þessi alveg jafnvel og ferðin í fyrra. Allir sem vildu fengu að sjá dýrin og leika sér og þótti Sædísi Erlu laaaaaaaang skemmtilegast að gefa beljunum og keyra traktorinn og jú svo var voða gott að fá pylsuna líka. Ferðin endaði svo á grjótkasti við Meðalfellsvatn og við heimferð fengu allir sveitalitabók.

Sædís Erla að keyra traktor í sveitinni

Í þessum ferðum gefst börnunum kostur á að sjá dýrin í sveitinni og er gaman að upplifa gleðina með börnunum. Sædís Erla er mikil sveitakona og er sönn "I love it" typa og elskar að vasast í dýrunum og vaða drulluna. Hér eru nokkrar sveitamyndir og var súrt að pabbi komst ekki með okkur, en hann varð að vinna núna, en kemur bara með okkur næst.


Blómaþorpið í Keflavík

Ásdís Vilborg Pálsdóttir blómaskreytir

Ef þið viljið gefa eitthvað alveg sérstakt þá skulið þið endilega fara til hennar Diddu frænku minnar sem á Blómaþorpið í Keflavík.

Ég varð ekkert smá grobbin af henni stóru frænku minni þegar hún varð í öðru sæti í keppninni Blómaskreytir 2007 í Fífunni um síðustu helgi. Það er búið að vera gaman að fylgjast með henni þessum dugnaðarforki vaxa í starfi sem blómaskreytir. Fyrst keyrði hún á milli þegar hún var í Landbúnaðarskólanum og útskrifaðist svo sem blómaskreytir. Nú hún er líka með námskeið út um allt og man ég þegar hún var með námskeiðið á Siglufirði og sló heldur betur í gegn. Hún notar nefnilega það sem náttúran gefur eins og hún segir sjálf og hefur unnið fullt af verðlaunum fyrir glæsilegt handbragð og frumlegheit.

Blómaþorpið hennar Diddu er öðruvísi og skemmtileg vinnustofa sem sérhæfir sig í nútímalegum, sérstökum, árstíðabundnum og stílhreinum skreytingum fyrir einstaklinga og fyrirtæki og fara skreytingar eftir árstíð og blómaframboði hverju sinni. Hún gerir skreytingar sem hæfa öllum tækifærum: ráðstefnur, sýningar, þemadagar, árshátíðir, hanastél, brúðkaup, skírn og jarðarfarir og svo er hún líka með svona hefðbundnar skreytingar í boði.

Hér er auglýsing sem ég fann frá Blómaþorpinu

Blómaþorpið býður ýmsar nýjungar sem eru til hagræðingar fyrir viðskiptavini okkar. Eftirfarandi eru nokkrar nýjungar sem Blómaþorpið býður upp á og mun leysa ýmis vandamál sem almennt fylgja blómakaupum fyrirtækja og þar af leiðandi sparar þeim tíma, peninga og fyrirhöfn :

  • Við sækjum og sendum til fyrirtækja
  • Við höldum undirskrifuðum kortum á lager frá föstum viðskiptavinum
  • Við afhendum blómasendingar með persónulegum hætti
  • Við sjáum um kaup á gjöfum, sé þess óskað að þær fylgi blómaskreytingu.
  • Við höldum utan um afmælislista starfsmanna fyrirtækja
  • Við leggjum umfram allt áherslu á fagmennsku og trausta þjónustu

Ásdís Vilborg Pálsdóttir

Blómaþorpið Túngötu 10

230 Keflavík

Sími 8957105

blomatorpid@simnet.is

 

Til hamingju með þetta allt frænka Smile

 


Gatnagerð og Baugshlíðin

Mynd_0262453

Mér varð hugsað til þess í dag þegar ég kom heim úr vinnunni og Baugshlíðin var lokuð hvað það skiptir miklu máli að hafa góðar vegtengingar. Það er engin tilviljun sem ræður því hvernig gatnakerfið er hannað, hverfi eru hönnuð með húsagötum, safngötum og tengibrautum góðu stígakerfi og hér í Mosfellsbæ eru gerðir reiðstígar líka og er hugað að því að hafa allt í sem bestum tengslum við það sem fyrir er.

Ég hef búið hér í vesturbæ Mosfellsbæjar í um 7 ár núna í sumar og ætla ég ekki að segja hvað það breytti miklu fyrir okkur íbúa svæðisins að fá Baugshlíðina sem tengingu við Vesturlandsveginn fyrir nokkrum árum síðan. Áður þurftum við að fara til baka inn í bæinn, upp Bogatanga, Langatanga eða Þverholt og þaðan upp á Vesturlandsveg. Án þess að ég hafi mælt það nákvæmlega þá slæ ég á að þessi tenging spari mér um 8 km akstur á dag, sem er ekki lítið á ári.

Ég fór að velta því fyrir mér í þessu sambandi hvort reiknuð hafi verið út sú vegalengd sem íbúar Helgafellshverfisins þyrftu að keyra upp að Þingvallavegi til að komast heim til sín ef 500m kaflinn á Helgafellstúninu yrði ekki að veruleika og ekki heldur tengibrautin við Leirvogstunguhverfið. Ég varð undrandi þegar ég heyrði að fólk væri á móti tengibrautinni sem mun tengja íþróttasvæðið á Tungubökkum og Leirvogstungu við miðbæinn. Mikið hefur verið rætt um það í gegnum árin að gera þá tengingu til að auka öryggi barna og foreldra þeirra sem stunda íþróttir á Tungubökkum. En þá þarf ekki lengur að fara út á Vesturlandsveginn. En nú er þessi sami vegur og barist var fyrir að kæmist á framkvæmdaáætlun skyndilega orðinn að slysahættu.

Það er ekki langt síðan Mosfellsbær var sveit og búum við Mosfellingar á svæðum sem áður voru tún sem nýtt til beitar. Hefur bæjarbúum fjölgað um nær helming frá því að ég flutti í Mosfellsbæinn, en þrátt fyrir vaxandi byggð er samt enn stutt í ósnortna náttúru sem við íbúarnir njótum dags daglega.

En Baugshlíðin verður víst ekki opnuð aftur fyrir umferð fyrr en miðvikudaginn 8. maí og verð ég ósköp fegin og veit að ég er ekki ein um það. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband