Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Með sól í hjarta

110_F_31467_qtuDeathdwNgcvifxGZsKlCeRWyuMI

Það er ekki spurning að lundin er léttari á landanum þegar veðrið er gott eins og verið hefur undanfarið. Veðrið skiptir okkur Íslendinga einfaldlega miklu máli og þegar svo langur góðviðriskafli hefur verið eins og nú liggur við að maður haldi að maður sé í útlöndum og fari ósjálfrátt að tala ensku. Fólk talar meira saman og ávarpar frekar ókunnuga. Til að mynda fór ég í lyftu í dag og var samferða eldri manni sem brosti út í eitt og fór að tala um góða veðrið. Reyndar hef ég varla hitt nokkur mann í dag án þess að sá hinn sami hafi ekki rætt veðurblíðuna og að þessum góða kafla fari nú senn að ljúka.

það er þó ljóst að framundan er rigning, sem er svo gott fyrir gróðurinn er það ekki? Whistling...


mbl.is Þurrum góðviðriskafla að ljúka - skin og skúrir um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undir regnbogann í forsetabílnum

regnboginn_hennar_onnu

Ég fór í frábæra ferð í kvöld til hennar Fljótstungu Önnu með góðum vinum. Rúna hringdi í mig í morgun og spurði hvort við ættum ekki að fá okkur bíltúr og koma henni Önnu Inga á óvart, en hún var að hætta hjá Rauða krossinum, en tók að sér að sjá um ferðaþjónustuna í Fljótstungu þessa síðustu viku sína á landinu í bili, en í næstu viku flytur hún til Danmerkur.

Við lögðum af stað fjórar, ég, Rúna, Linda Ósk og Þórunn á svarta flotta forsetabílnum hennar Rúnu. Búnar að nesta okkur í Maður lifandi og tilbúnar í ferðalagið í sveitina. Rúna var búin að tala við Önnu í dag og tókst með klækjum að ná öllum upplýsingum um ferðir hennar án þess að Önnu grunaði neitt, enda Anna blessunin vön því að vinir hennar hringi svona og láti sér annt um hana.

Brunað var á löglegum hraða út úr bænum og leið drossían áfram á þjóðvegi 1 og nutum við stelpurnar landslagsins og samverunnar og var mikið hlegið. Brátt vorum við komnar á áfangastað. Eins og sannri húsfreyju sæmir mætti Anna út á hlað, til að taka á móti forsetanum, hélt hún. En fljótlega áttaði hún sig samt á hvers kyns var og mátti heyra fagnaðarópin í henni um alla sveitina.

Við áttum dásamlega samverustund við eldhúsborðið í Fljótstungu með Önnu, mömmu hennar og pabba og Sigurþóri á hlaupum, því eðlilega varð einhver að sjá um húsverkin og gestina á meðan húsfreyjan sinnti eldhúsgestunum háværuWink. Anna sinnti samt símanum við eldhúsborðið og talaði þýsku, ensku og seldi gistingu og veiðileyfi í vatnið sem aldrei fyrr, enda veiðin í vatninu mun betri en í ánni, framan af sumrinu LoL. Hún sagði okkur líka sögur af hellaferðum og stórmerkilegum súlfat-taumum á berginu, sem við erum alveg ákveðnar í að skoða seinna. Áður en við fórum heim litum við á þessa glæsilegu aðstöðu, en er þetta síðasta sumarið sem rekin verður ferðaþjónusta þarna. Þetta var einn af fyrstu bæjunum sem byrjuðu í ferðaþjónustu bænda á sínum tíma og hafa margir áð í Fljótstungu í gegn um árin. Við kvöddust svo á hlaðinu og Sigurþór tók myndir af Rauðu hættunum við húsvegginn og erum við strax farnar að plana Önnuferð til Danmerkur.

Á heimleiðinni sá ég fallegasta regnboga sem ég hef á æfi minni séð. Í fyrstu vissi maður ekki alveg hvað yrði úr allri þessari ljósadýrð á himninum, en fljótlega sást móta fyrir regnboganum. Síðan keyrðum við undir regnbogann á forsetabílnum og óskuðum okkur.


N1 bolti í rigningu

422_070703-12_070703-00_070704

Já ég er hrædd um að fyrir helgi verði búið að ná úrkomu júnímánaðar á Akureyri mér og öðrum fótboltaforeldrum til mikillar armæðu. Það verður ekki gaman fyrir strákana að spila fótbolta í rigningu alla dagana og því síður fyrir okkur sem stöndum á hliðarlínunni og horfum á, en ég held samt enn í vonina um að veðrið lagist og spáin gangi ekki eftir. Elli og Sturla fóru af stað í dag, en við stelpurnar förum seinna í vikunni. Þaðan förum við svo áfram á Sigló og er okkur í sjálfu sér alveg sama hvernig veðrið verður hjá ömmu og afa, því þar er alltaf sól í hjarta.


mbl.is Aldrei jafn lítil júníúrkoma á Akureyri og nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur einhver óskað þess að þú værir dauður?

Miracle_Einstein

Ég las niðurstöður rannsóknarinnar sem Barnaverndarstofa gerði og varð satt best að segja hálf miður mín. Ég hefði samt viljað sjá stærra úrtak, en alls voru 116 börn spurð, 61 strákur og 55 stelpur, en þessi rannsókn gefur okkur ágæta mynd af stöðu mála.

Þarna voru margar sláandi spurningar og fékk ég sting í hjartað þegar ég sá eina þeirra. "Hefur einhver í fjölskyldu þinni eða sem býr þar sagst óska þess að þú værir dauður eða hefðir aldrei fæðst?". Tuttugu börn af þessum 116 höfðu upplifað slíkt og í flestum tilfellum frá öðrum börnum eða ungmennum á heimilinu, en fjögur börn höfðu heyrt slíkt frá fullorðnum einstaklingi, sem er sorgleg staðreynd.


mbl.is Fimmta hvert barn á grunnskólaaldri hefur sætt líkamlegu ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægð með lögregluna

Það var dásamlegt í Borgarfirðinum um helgina. Við vorum í bústað skammt frá þjóðvegi 1 og urðum vör við mikla og þunga umferð alla helgina. Þegar við fórum uppeftir á föstudaginn voru allir bara í rólegheitum, lítið um framúrakstur og mikið um tillitsemi. Ég er sannfærð um að umræðan undanfarið, fjölgum umferðarmyndavála víðsvegar við vegina og hækkun sekta hafa mikil áhrif. Ég áttaði mig á þessu með sektirnar þegar ungur 17. ára systursonur minn sagði mér að hann ætlaði sko ekki að fara að eyða peningunum sínum í sektir.

Það sem var nýtt þessa helgi í Borgarfirðinum var þyrlan sem notuð var í umferðareftirlitið. Hún sveimaði um og hraðamældi bíla og í eitt skiptið voru allir krakkarnir í heita pottinum þegar hún fór rétt yfir húsið hjá okkur við mikil öskur og fögnuð krakkanna, enda flest á mínum vegum og í okkar fjölskyldu þá eru þyrlur spennandi. 


mbl.is Margir óku of hratt á Suðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband