17. júní í Mosfellsbæ

Mynd_0603981

Gleðilega þjóðhátíð.

Hátíðarhöld í tilefni 17. júní verða fjölbreytt að vanda í Mosfellsbænum.  Elli fór út í bítið í morgun til að setja upp skátatjöld við Hlégarð, en skátarnir standa fyrir sprelli og selja gasblöðrur og tröllasleikjó.

Hátíðardagskráin hófst í Varmárlaug kl. 10:00 með sundmóti og hátíðarguðþjónusta í Lágafellskirkju.  Dagskráin 17. júní verður síðan formlega sett á bæjartorginu kl. 13:00 með hátíðarræðu Karls Tómassonar forseta bæjarstjórnar og ávarpi fjallkonu. Á fræðslunefndarfundinum í gær lofaði Björn Þráinn Kalla góðu veðri, sem var ekki alveg það sem veðruspáin sagði og mér sýnist mér spá Björns Þráins ætli bara að ganga eftir. 

Frá bæjartorginu okkar við Kjarna munu skátarnir leiða skrúðgöngu að Hlégarði þar sem dagskráin heldur áfram með margskonar uppákomum fyrir alla fjölskylduna.

Það verður mikið um að vera fyrir börnin að vanda. Leikskólabörn syngja, Lilli klifurmús og Mikki refur, Leikfélagið verður með leikþátt, Fimleikadeild Aftureldingar með atriði, trúðar, töframaður og Gunni og Felix svo eitthvað sé nefnt.

Síðdegis verður keppt um sterkasta mann Íslands á túninu við Hlégarð sem er árlegur viðburður í Mosfellsbæ og mikið fjör.

Hátíðarhöldin dagsins enda með fjölskyldudansleik um kvöldið með mosfellskum hljómsveitum og tónlistarmönnum. 

Sölutjöld við Hlégarð, andlitsmálun, Tívolí, leikir, glens og gaman með félögum úr Mosverjum. Afturelding með kynningu á starfsemi sinni.

Síðast en ekki síst verður Kaffisala í Hlégarði kl. 14:00-17:00 í boði Knattspyrnudeildar Aftureldingar sem enginn má missa af.

mosfellsbaer


mbl.is Það er kominn 17. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ

Ég ákvað í gærmorgun að drífa mig út og horfa á hlaupahetjurnar leggja í 7 tinda hlaupið frá Lágafellsskóla. 37 kílómetra af þúfum og urð og grjóti utan síga og stendur þetta utavegahlaup því vel undir nafni. Um 30 manns fóru í 37 kílómetrana og um sjötíu fóru 17 kílómetra á fjóra tinda.

Það kom skemmtilega á óvart hvað ég þekkti margar hetjur, Stefán Gísla, Árni Birgis, Steffan arkitekt, Pétur, Ingi, Halla Karen og þrír Siglfirðinga þau, Biggi Gunnars, Ella Gísla og Óla Vals hlupu af stað þegar Haraldur bæjarstjóri ræsti hlaupið. 

Þegar ég arkaði upp í skóla með myndavélina var ég á inniskónum, en fór samt með henni Döggu upp að Hafravatni til að sjá hlauparana koma niður af fyrsta tindinum, Úlfarsfelli. Þaðan lá leiðin í Skammadal og þar fór ég að hjálpa Vigdísi að brynna þyrstum hlaupurum, orkudrykkjum og vatni og eins fengu margir bananabita. Þar var fólkið á vegamótum og gat valið að fara 37 kílómetrana eða 17. Einhverjir hættu við að fara löngu leiðina, enda var hlaupaleiðin erfiðari en fólk átti von á. En flestir héldu áfram á tindana sjö.

Úr Skammadal fór ég að Hraðastöðum, en sá enga hlaupara, þeir voru ekki komnir niður af Grímannsfellinu. Ég fékk far með þeim mæðgum Vigdísi, Ingu og Eyrúnu og hittum við Gunna Atla við Suðurá og tók Inga Ævars við "brynningum". Það var síðasta stopp fyrir Helgafell og lokasprettinn í markið við Láfellsskóla. 

Eins og keppendur endaði ég við markið við Lágafellsskóla. Þar kom hver keppandinn að fætur öðrum og voru allir sammála um að hlaupið hefði verið erfitt, en ótrúlega skemmtilegt. Það var þó greinilega of langt á milli stika á einhverjum köflum og því villtust einhverjir af leið, en "allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó". Nokkuð margir höfðu orð á því að þeir hefðu aldrei séð Mosfellsbæ fyrr og þá náttúrufegurð sem við Mosfellingar þekkjum svo vel.

Til hamingju Mosverjar með 7 tinda hlaupið, ég er viss um að það verður haldið að ári.

Hér eru myndir sem ég tók af hlaupurum og sérlegum sjálfboðaliðum hlaupsins. 

 

 

 

 

 


Viðbrögð við jarðskjálftum - hvað getur þú gert?

Almannavarnakerfið er virkjað á neyðartímum, en þarf að hafa í huga að ef margir slasast eða verða heimilislausir getur orðið bið á því að öllum berist hjálp. Því er mikilvægt að hver og einn búa sig undir að bjarga sér og sínum sjálfur, þar til hjálp berst. 

Á þeim áratug sem ég hef starfað í tengslum við almannavarnir hafa orðið miklar framfarir og ekki síst á liðnum árum. Viðbragðsaðilar eru mun betur meðvitaðir um hlutverk sitt og eins er samhæfing þeirra skipulagðari í viðbrögðum á neyðartímum. Búið er að móta áfallaskipulag á landsvísu og hafa viðbragðsaðilar útbúið ýmislegt fræðsluefni sem gott er að grípa í ef á þarf að halda.

Að mínu mati er ábyrgðin komin of langt frá hinum almenna borgara, fólk bíður eftir því að opinberir aðilar gefi fyrirmæli um hvað beri að gera í stað þess að fólk velti því sjálft fyrir sér hvernig það ætli að bregðast við á neyðartímum. Það er margt sem hægt er að gera, forvarnir sem geta skipt sköpum og ef fólk er vel undirbúið getur það minnkað álagið á almannavarnakerfið á neyðartímum.

Gerið heimilisáætlun

Það er ýmislegt sem almenningur getur gert. Hægt er að gera heimilisáætlun fyrir fjölskylduna. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur á heimasíðu sinni fyrirmynd sem leiðir fólk í gegnum þau atriði sem þarf að skipuleggja og síðan getur fólk sjálft bætt við því sem á vantar að þeirra mati. Í Viðalagahandbóksem útbúin var af almannavörnum og ýmsum viðbragðsaðilum má nálgast ýmsar góða upplýsingar um rétt við brögð og hlutverk viðbragðsaðila.

Heimilisfólkið útbýr sína heimilisáætlun og taka börnin fullan þátt í gerð hennar. Rætt er um hugsanlegar hættur, tryggingamál, forvarnir, samin er viðbragðs og rýmingaráætlun og fólk lærir að bregðast við vá. Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma og hvítasunnuhelgin er upplögð í slíka vinnu.

Hér farið þið inn á fyrirmyndina.

Einnig er hægt að nálgast leiðbeiningar um viðbrögð ef hættuástand skapast.

Gott er að vita um dreifikerfi Ríkisútvarpsins þar sem tilkynningar eru lesnar upp og hvar næsta fjöldahjálparstöð er.

Slysavarnafélagið Landsbjörg er framarlega í forvörnum og hafa m.a. útbúið fræðsluefni vegna slysa á heimilum.

Eldsvoði

Þrátt fyrir að nú sé verið að fjalla um náttúruhamfarir er ekki síður mikilvægt að búa sig undir eldsvoða á heimilinu. Brunamálastofnun og slökkviliðin í landinu hafa útbúið fræðsluefni fyrir almenning um viðbrögð við eldsvoða. og er einnig mikilvægt að fara yfir brunavarnir heimilanna. Flóttaleiðir og fyrstu viðbrögð sem mér þótti gott að rifja upp fyrir mig og mína..

  1. Látið alla í húsinu vita um hættuna.
  2. Aðstoðið þá sem ekki geta bjargað sér sjálfir út úr húsinu.
  3. Lokið hurðum á eftir ykkur.
  4. Hringið í 1 1 2.
  5. Reyna að slökkva eldinn ef hann er mjög lítill.
  6. Sé eldurinn mikill eða eykst þrátt fyrir tilraunir til að slökkva eldinn forðið ykkur þá út.

Áfallahjálp

Það er einnig til mikið af fræðsluefni til að lesa um áföll og eðlilegt viðbrögð við áföllum. Rauði krossinn hefur útbúið mikið af góðu efni fyrir almenning í þessa veru og mæli ég með því að fólk fari á námskeið í sálrænum stuðningi. Það eru námskeið sem nýtast út lífið og hjálpar mikið á neyðartímum. Hér er hægt að sjá það fræðsluefni og leiðbeiningarsem Rauði krossinn hefur útbúið.

Almannavarnir hafa einnig útbúið fræðsluefni og má nálgast bækling um áfallahjálp, áfallastreitu og sálrænan stuðning -  Sorg og sorgarstuðning.

Áhrif áfalla á börn geta orðið haf meiri áhrif á börn en fullorðna. Hér er hægt að nálgast upplýsingar um eðlileg viðbrögð og leiðir til að hjálpa þeim að vinna úr áfallinu.

Fræðsluefni um viðbrögð við jarðskjálftum

Búið er að útbúa kennsluefni fyrir grunnskóla um viðbrögð við jarðskjálftum. 

Einnig er búið að útbúa barnaefni sem hægt væri að fara yfir með börnunum við gerð heimilisáætlunar. Það eru þau Alvör og Alvar sem kenna börnunum viðbrögð - KRJÚPA-SKÝLA-HALDA og er hægt að prenta út litabók fyrir börnin.

 


mbl.is Grindvíkingar geri ráðstafanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ - nýtt utanvegahlaup

Sturla Sær on the top of Reykjafell Sturla í einni af tindagöngunum fjölskyldunnar

Nú styttist í fyrsta 7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ, en það verður haldið 13. júní nk. Hlaupaleiðin 35 km fyrir 7 tinda hlaupið, en einnig er hægt að velja sér styttri leið 17 km á 4 tinda. Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali, en aðeins er lítill hluti leiðarinnar í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ og verður gaman að sjá hlauparana bruna um hverfið sitt. Hér er kort af hlaupaleiðinni.

Skátafélagið Mosverjar á hugmyndina, Gunni Atla held ég og fengu þeir til liðs við sig Ella Níelsar, Mosfellsbæ, Björgunarsveitina Kyndil til að koma þessu í framkvæmd. Hér á bæ hafa skátar fjölskyldunnar gengið 7 tinda gönguna, sólarhringsgöngu á þessa tinda, en hlaupið er nýtt utanvegahlaup sem ég vona að verði vinsælt að hlaupa.

Eftirfarandi upplýsingar um hlaupið eru af Mosverjasíðunni.

Hlaupaleiðin 35 km. 7 tinda hlaupið

Hlaupaleiðin 35 km. 7 tinda hlaupið.
Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali. Aðeins lítill hluti leiðarinnar er í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er gegnum íbúðarhverfi að undirgöngum á vesturlandsvegi. Farið þaðan um skógræktarsvæðið við Hamrahlíð og hlaupið austur Úlfarsfellið með viðkomu á tindinum (1). Þaðan austur af fjallinu með stefnu á Hafravatn. Áfram áleiðis á Reykjaborg um Borgardal. Þegar komið er á Reykjaborg (2) er stefnan tekin norður af Reykjaborg, um Húsadal og yfir Varmá og uppá  Reykjafell (3). Þaðan er hlaupið niður í Skammadal og áfram uppá efsta hnjúk Æsustaðafjalls (4). Áfram suður eftir fjallinu og stefnan tekin austur að Torfdalsbrúnum og áfram upp á Hjálminn. Þaðan áfram í austur og alla leið á hæsta tind Grímmannsfells.(5) Farið síðan vestur á Flatafell og áfram niður að Hraðastöðum. Haldið síðan þvert yfir Mosfellsdal um Guddulaug og síðan vestur að Mosfellskirkju. Þaðan farið á Mosfellið. Fyrst í norður frá kirkjunni uns komið er upp fyrir öll gil, og þá sveigt til vesturs rakleiðis á hæsta hnjúkinn.(6). Farið síðan í suður niður af fjallinu og um bæjarhlaðið á Hrísbrú. Haldið áfram niður veginn og yfir Köldukvísl og Suðurá á brú. Síðan farið á Helgafell frá Skammadalsvegar og Þingvallavegar. Þegar Helgafellstindinum (7) er náð er farið suð-vestur af fjallinu og komið niður við Helgafell. Farið áfram gegnum Áslandshverfið og niðrá malbikaðan göngustíg meðfram Vesturlandsvegi. Þar farið um undirgöng  og eftir göngustíg áleiðis að íþróttamiðstöðinni við Varmá. Áfram haldið á göngustígum norður og vestur með Holtahverfi of Tangahverfi að golfvelli og síðan að Lágafellslaug í mark.

Hlaupaleiðin 17 km.  3 tinda hlaupið.

Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali. Aðeins lítill hluti leiðarinnar er í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er gegnum íbúðarhverfi að undirgöngum á vesturlandsvegi. Farið þaðan um skógræktarsvæðið við Hamrahlíð og hlaupið austur Úlfarsfellið með viðkomu á tindinum (1). Þaðan austur af fjallinu með stefnu á Hafravatn. Áfram áleiðis á Reykjaborg um Borgardal. Þegar komið er á Reykjaborg (2) er stefnan tekin norður af Reykjaborg, um Húsadal og yfir Varmá og uppá  Reykjafell (3). Þaðan er hlaupið niður í Skammadal, suður með Helgafelli og áfram gegnum Áslandshverfið og niðrá malbikaðan göngustíg meðfram Vesturlandsvegi. Þar farið um undirgöng  og eftir göngustíg áleiðis að íþróttamiðstöðinni við Varmá. Áfram haldið á göngustígum norður og vestur með Holtahverfi of Tangahverfi að golfvelli og síðan að Lágafellslaug í mark.

Skráning, skráningargjald og verðlaun

Gjaldið fyrir 35 km er 2.500 kr og fyrir 17 km er gjaldið 1.500 kr. Takmarkaður þátttökufjöldi og skráningu lýkur í síðasta lagi 10. júní. Skráning fer fram á hlaup.is

Verðlaun fyrir 3 fyrstu sæti karla og kvenna í báðum vegalengdum.

Aðrar upplýsingar

Mosfellsbær, Skátafélagið Mosverjar og Björgunarsveitin Kyndill halda hlaupið.
Þátttakendur séu komnir að Lágafellslaug minnst 30 mín fyrir hlaup.
Frítt er í Lágafellslaug að hlaupi loknu.
Drykkjarstöðvar verða á leiðinni.
Sperrun verður við Golfvöllinn í Mosfellsdal kl: 14.00 og hlaupurum ekið að Lágafellslaug.
Þátttakendur eru að öllu leiti á eigin ábyrgð í hlaupinu.


Úrskriftarferð elstu barna leikskólans Huldubergs í Mosfellsbæ

DSC02394

Fröken Sædís Erla bauð mömmu sinni með í útskriftarferð með leikskólanum Huldubergi í vikunni. Það var stolt mamma sem fór með yngsta gormnum, sem brátt útskrifast úr leikskóla og þá er Rituhöfða-fjölskyldan ekki lengur í námi í leikskóla, grunnskóla, framhaldskóla og háskóla eins og þetta skólaárið.

Þegar ég kom inn var það fyrsta sem Sædís Erla sagði, mamma komstu með nestið? og auðvitað klikkaði ég ekki á því.

Við fórum frá Huldubergi í rútu í yndislegu veðri, sól og hita. Með var útskriftarárgangnum fóru, mömmur, systkini, pabbar, ein amma og starfsfólk, eða fóstrurnar eins og Sædís Erla segir alltaf og er slétt saman um allt leikskólakennaratal mömmunnar. Í rútunni voru sungin falleg lög eins og maístjarnan sem var sungin í tilefni maímánaðar. Krakkarnir sungu nokkur lög sem Helgi hafði kennt þeim í vetur, en hann kemur með gítar og syngur með þeim í leikskólanum, alveg eins og í grunnskólunum. þeim til mikillar ánægju.

     DSC02444   

Brátt vorum við komin á safnasvæðið á Akranesi. Persónulega hafði ég aldrei komið þangað og verð ég að segja að það kom mér mjög á óvart. Þarna eru ótrúlegustu hlutir á safni og þótti mér og öðrum mikið koma til íþróttasafnsins og ekki síst ólympíustökksins Vilhjálms Einarssonar. Hann fékk silfurverðlaun fyrir þrístökk í Melbourne í Ástralíu og voru fótsporin merkt á gólfið og þegar maður sér lengdina milli fótspora virðist slíkt stökk vera yfirnáttúrulegt. Einnig vakti beyglað reiðhjól mikla hrifningu. Það var hjól sem Jón Páll heitinn pakkaði saman og var það "ekkert mál fyrir Jón Pál" eins og svo margt annað. Stórkostlegir íþróttamenn þar á ferð.

DSC02437 

Það var margt annað áhugavert á safninu og fengi þau að hlusta á vínilplötu á upptrekktum grammófóni og dillaði Sædís Erla sér við fallega tóna með bros á vör. Eins þótti krökkunum skemmtilegt að leika sér í bátunum úti og príla upp á dekk góða veðrinu. Það er alveg óhætt að mæla með ferð á safnið fyrir þá sem ekki hafa komið þangað.

DSC02427  DSC02419

Næst var ferðinni heitið í skógræktina á Akranesi þar sem ætlunin var að borða. Við gengum frá rútunni og var mikið líf í garðinum, börn að leik með skólunum og hafði einn hópurinn slegið upp tjöldum og skemmti sér hið besta. Við gengum í gegn um fallegt gróið skógræktarsvæði og brátt fundum við fallegt svæði með glæsilegu útigrilli. Krakkarni þustu úr í buskann fóru að róla, renna og gormast úti í náttúrunni. Fótboltinn hafði verið tekinn með og sýndu ungu mennirnir þvílíka takta, fórnuðu sér, tókust á við íþróttameiðsl og görguðu á dómarann, þetta var sko alvöru kappleikur.

DSC02504  DSC02475

Við borðuðum pylsur að íslenskum sið og nutum lífsins og þá var komið að síðasta áningarstaðnum, ströndinni, eða Langasandi. Krakkarnir rifu sig úr fötunum og þustu út á sandinn með fötur, skóflur og góða skapið. Sædís Erla og vinkonur hennar týndu skeljar og einhver fann krossfisk sem var stúderaður í bak og fyrir áður en hann fékk flugferð úr í sjó. Krakkarnir busluðu og var eins gott að ég tók aukaföt með, svona með nestinu. Þau hlupu út í sjó, busluðu við sturtuna og svo endaði ferðin með því að þau fóru öll í útisturtu, sem var mikið sport.

DSC02580  DSC02651

Við héldum heim á leið alsæl og þótti okkur Kollu Reinholds, mömmu Benktu Kristínar merkilegt hvað við vorum alveg búnar á því, eftir að vera úti og gera ekki neitt.  Svo tók ég þær Benktu og Natalíu með mér heim og þær vinkonurnar héldu áfram að leika sér saman fram að kvöldmat.

Svona ferðir gleymast aldrei, en tók ég nokkrar myndir til að hjálpa okkur að muna og eins fyrir þá sem misstu af ferðinni. Ég setti örfáar þeirra inn í albúm sem þið getið fengið að sjá hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband