Þegar mamma var í blómastríði við rollur á Siglufirði í denn

IMG_8409

Áðan var ég að lesa grein um rollur á Hvanneyrarbrautunni á sksiglo.is síðunni um rollubúskap á Siglufirði og velti fyrir mér af hverju búið sé að leyfa rollubeit aftur í firðinum mínum fagra. Ég man ósköp vel eftir stríðsástandinu á Laugarveginum í denn og reyndar um allan bæ. Þegar rollur og garðaeigendur voru í stríði dag og nótt.

Mamma og Steinar á Höfninni "handtóku" einu sinni rollur sem höfðu étið garðablómin þeirra. Steinar hafði þá gleymt í svipinn að útsæðið hans var á gólfinu og VAR átti vel við því það var náttúrulega allt horfið þegar hann áttaði sig. Einu sinni fór líka rolla í gegnum glerið á gróðurhúsinu hjá mömmu.

Það hefur trúlega verið Túlípana Móra sem var búin að koma sér upp tækni við að komast inn í garðinn hjá mömmu. Hún tók tilhlaup á eina tiltekna þúfu og sveif yfir girðinguna. Inn í blómaríki Ásdísar sem hefur örugglega verið paradís á jörðu fyrir rolluna. Einu sinni teymdi mamma rolluna eitthvað suðureftir eitt kvöldið og hélt að þar með gæti hún farið að sofa. Hún stoppaði í útidyrunum fyrir neðan húsið í yndislegu sumarveðri og sá þá hvar rollan kíkti fyrir hornið hjá Hannesi Bald í Hafnartúninu og vissi greinilega alveg upp á sig sökina. Það þarf vart að nefna það að mamma var á vaktina alla nóttina.

Hún mamma mín sem er mikil blómakona var algjörlega búin að fá yfir sig nóg af þessu rollustríði. Hún var búin að koma sér upp alls konar tækni til að vernda blómin.  Hún setti til að mynda þvottabala yfir túlípanana eitt sinn og fór í sunnudagsgöngutúr. Þegar hún kom til baka voru þeir allir horfnir og bara berir stilkar eftir. Mamma var meira að segja komin með pappírana og ætlaði að fá sér byssuleyfi.. sem segir nú sitt um ástandið sem var á Siglufirði á þessum tíma.

Nú er sem sé búið að leyfa rolluhald á Sigló aftur. Ég hef ekki kynnt mér hvort hugmyndin var að minnka hirðu snjóflóðavarnargarðanna flottu eða hvort hobbíbændur hafa sótt í það að fara af stað. 

Ég veit bara að girðingar eru fæstar rolluheldar lengur og fæ því ekki sæluhroll fyrir hönd garðaeigenda yfir þessari nýju stöðu svo mikið er víst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Herdís. Fyrir nokkrum árum þá var búfjarhald bannað í Siglufirði. Með árunum gerðist það að girðing sú sem girti af bæjarlandið var ekki haldið við því það er ekki skylt að girða af þéttbýlið ef búfjárhald er bannað. Nú er það svo að í næstu sveit við Siglufjörð sem eru Fljótin er þó nokkuð af fjárbændum og beita þeir þeim á afréttir eins og gengur. Kindur hafa fætur og sækja í gott beitiland. Þær kindur sem hafa verið í Siglufirði eru kindur úr Fljótum og þegar þær hafa óheftan aðgang að beitilandi þá er ekki að sökum að spyrja. En með því að leifa búrfjárhald þá gerist það að bæjarlandið er girt af og þá ættu bæjarbúar að vera lausir við kindurnar úr görðum og af götum bæjarins. Það er nú svo með kindurnar eins og t.d. hesta sem hafa skemmt gólfvelli ef þeir hafa sloppið úr girðingum að blessaðar skepnurnar skilja ekki hvar má vera og hvar ekki það þarf að stýra þeim og er þá ekki best að gera það með girðingum?En svo er líka önnur hlið sem mér finnst brosleg. Hafsteinn Hólm hefur haft kindur í Siglufirði síðan elstu menn muna og "allir" eru sammála um að það sé svo gaman að fara með börnin og skoða lömbin hjá Hafsteini. Það þykir sjálfsagt að leyfa einum en banna öðrum, það gengur ekki upp ja ekki í mínum huga. ps eigum við ekki að segja og skrifa kindur frekar en rollur með kveðju frá Sigló Hemmi

Hermann Einarsson (IP-tala skráð) 26.9.2010 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband