Viðbót við viðtal á Rás 2 um hamfarirnar í Japan
14.3.2012 | 12:56
Hér er hægt að hlusta á viðtal við mig á Rás 2, 13 mars 2012 um hamfarirnar í Japan 11. mars 2011 og Kizuna námskeiðið í Japan sem ég sótti á 51 viku frá hamförunum.
Það er alltaf eins í stuttum viðtölum að hlutirnir komast ekki allir til skila. Ég hefði líka viljað ræða þetta jákvæða að flest skólabörn komust af því þau voru vön rýmingum, að fólk sé að nýta reynsluna til að endurskoða viðbragðsáætlanir, endurskoða skipulagsmál og huga að fæðuöryggi svo eitthvað sé nefnt.
Ég nefni þrennslags hamfarir og nefni í sjálfu sér aldrei hvaða. Fyrst var það þessi risastóri jarðskjálfti fyrir utan Tohoku, sem er einn af þeim fimm sterkustu jarðskjálftum sem mælst hafa í heiminum frá því að mælingar hófust og sá sterkasti í Japan. Síðan koma fljóðbylgjurnar í kjölfar jarðskjálfta hafa aldrei verið stærri og sögðu heimamenn þetta vera "á 1000 ára fresti" atburð. Því fylgdi svo kjarnorkuslysið í Dai-ichi kjarnorkuverinu í Fukushima. Strax voru 80 þúsund manns sem bjuggu innan við 20 kílómetra frá Fukushima verinu fluttir í burtu. Síðan mun fleiri og hafast enn sumir við í fjöldahjálparstöðvum, þrátt fyrir að flestir hafi fengið húsnæði sem ríkið sér þeim fyrir í 2 ár.
Síðan truflaðist allur infrastructur í landinu og sérstaklega á hamfarasvæðinu. 10% fiskihafna skemmdust, orkuskömmtun og -truflanir, veitukerfi og margt margt fleira.
Nefnd voru tvö rannsóknaverkefni sem ég er að vinna. Ég nefni aðeins annað þeirra, "Byggjum öryggara samfélag". Hitt verkefnið er "Umferð á hættu- og neyðartímum" og snýst um að gera umferðarlíkan sem nýtis við gerð rýmingaráætlana fyrir Suðurnes og höfuðborgarsvæðið og er það styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.
Byggjum öruggara samfélag er styrkt af Viðlagatryggingu Íslands og er tvíþætt. Annars vegar að gera handbók sem nýst getur sveitarfélögum við gerð viðbragðsáætlunar. Áherslur breyttust varðandi þann þátt og er nú stefnt að því að aðstoða sveitarfélög sem vilja við að útbúa viðbragðsáætlanir fyrir innri starfsemi sína. Aðeins eru 3 sveitarfélög með slíka áætlun í dag. Hinn hlutinn er að taka saman forvarnaefni svo almenningur geti betur tekið ábyrgð á eigin öryggi.
Verkefnin eru unnin í samvinnu við lykilaðila í skipulagi almannavarna, enda mikilvægt að allir fari í sömu átt. Fyrir þá sem hafa áhuga á því að skoða þær áhættur sem metnar hafa verið í sínu nærumhverfi eru hvattir til að fara inn á heimasíðu almannavarna almannavarnir.is og skoða áættumat sem búið er að gera fyrir allt landið. Það var unnið af heimamönnum í hverju lögregluumdæmi fyrir sig.
Líkt og ég nefndi í viðtalinu þá tel ég okkur geta lært af þessum hamförum í Japan og mun nota reynsluna í doktorsverkefninu mínu. Ég segi "taktu ábyrgð á eigin öryggi í stað þess að bíða eftir að aðrir segi þér hvað á að gera". Farðu á skyldihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum, gerðu heimilisáætlun, hugaðu að tryggingarmálum og festu þunga hluti ef þú býrð á jarðskjálftasvæði. Notaðu eigið hyggjuvit til að byggja öruggara samfélag!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.