Gleðilegt sumar
25.4.2013 | 11:14
Sumardagurinn fyrsti er bjartur og fagur í Mosfellsbænum og munu þúsundir Íslendinga gleðjast um land allt. Það var ekkert sérlega sumarlegt í gær þegar jólasnjórinn lét loksins sjá sig. Vetur og sumar fraus þó saman í nótt sem veit á gott sumar og í dag skín sólin.
I dag verður Kristján Gabríel Sigurjónsson systursonarsonur minn fermdur á Akureyri. Það er súrt að geta ekki verið og samglaðst með þeim eins og stefnan var, en sumu ræður maður ekki. Það var mikill og stór titill sem ég hlaut þegar hann fæddist, ömmusystir. Titill sem ég ber með stolti og hafa bæst við fleiri gullmolar í ömmusysturhópinn frá því að Kristján Gabríel fæddist.
Hér í Mosfellsbæ verður margt hægt að gera sér til skemmtunar á þessu fyrsta sumardegi.
Klukkan 12. 30 verður skrifað undir friðlýsingu Álafoss og Tungufoss við hátíðlega athöfn í Álafosskvos
á Degi umhverfisins þann 25. apríl. Gleðst ég sérlega yfir þessu skrefi í sem felur í sér friðlýsingu fossanna og nærumhverfis alls 2,8 hektarar að stærð. Undirritunin fer fram neðan við Álafoss í Varmá og verður boðið upp á kaffi og meðlæti að undirritun lokinni. Hvet ég Mosfellinga til að mæta og fagna þessum viðburði á degi umhverfissins sem nú ber upp á sumardaginn fyrsta. Eftir athöfnina verður farið í fræðslugöngu um Álafosskvos í umsjón Sögufélags Kjalarnesþings.
Klukkan 13.00 fer skrúðganga frá Miðbæjartorginu að Lágafellsskóla undir stjórn Skátanna og heldur fjörið áfram á svæðinu við Lágafellsskóla, skátatívolí, kaffisala og flóamarkaður svo eitthvað sé nefnt og stendur fjörið til kl 16.
Klukkan 16-18. Mikið er um að vera í kosningamálunum þegar 2 dagar eru til kosninga og ætla sjálfstæðismenn SV kjördæmi að standa fyrir sumarfjöri um allt kjördæmið. Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ verða við Kjarna frá kl.16-18 og mæltir Ingó veðurguð kl. 16.30 til að taka lagið.
Það er gaman að rifja upp sumardagana fyrstu. Snjókoma, rigning og sól. Einn er sérlega minnisstæður því það var algjör bongó blíða , held það hafi verið árið 2005. Við vorum úti á palli að sóla okkur með sumarkaffið og Sædís Erla skottaðist um á litla sparkbílnum á sumarkjólnum. Sturla og Róbert vinur hans fengu sér 3x expressó, sem hefði verið allt í lagi ef þeir hefðu verið kaffidrykkjumenn, en ég held að þeir hafi verið ca. 10 ára. Óhætt að segja að augu þeirra hafi galopnast, af koffíninntöku.
Njótið dagsins öll sem eitt og gleðilegt sumar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.