Ættleiðingar samkynhneigðra og fordómar
24.3.2007 | 14:29
Ég sá blaðaviðtöl við fólk sem ættleitt hafði litlar munaðarlausar stúlkur frá Kína. Þetta voru hugnæmar frásagnir þar sem lýst var ættleiðingarferlinu og stundinni þegar fólkið fékk börnin sín í fangið í fyrsta sinn. Það var líkt og þegar maður sjálfur fékk börnin sín í fangið í fyrsta sinn eftir 9. mánaða meðgöngu, en í þeirra tilfellum var meðgangan mun lengri. Þessi frásögn fékk mig til að hugsa um það hvað maður er í raun lánsamur, að eiga þrjú heilbrigð börn, sem er alls ekki sjálfgefið. Þessu gleymir maður stundum og því er gott að staldra við og þakka fyrir það sem maður á.
Ég heyrði líka viðtal við landlækni, þar sem hann sagði að það væri að mig minnir 15 samkynhneigð pör sem hefðu farið í tæknifrjóvgun og ættu von á börnum. Ég samgleðst þeim ynnilega og fagna líka þeim aukna rétti sem samkynhneigðir hafa hlotið á Íslandi liðnum árum.
Í þættinum "Fyrstu skrefin" á Skjá einum sá ég viðtöl við ungar giftar konur, sem eiga eina dóttur saman og áttu von á öðru barni. Þetta var frábær þáttur og var gaman að sjá hvað litla skottið hafði greinilega fyllt líf þeirra og var mikil tilhlökkun eftir nýja barninu. Já algjörlega eins og hjá okkur gagnkynhneigðu hjónunum. Í mínum huga er það sjálfsagt mál að samkynhneigðir eignist börn og ættleiði og hef ég aldrei náð því þegar fólk er að segja " Guð en hræðilegt og hvað með aumingja barnið og þá fordómana og stríðnina sem það mun mæta ". Já, hvað með barnið? Þvílík forræðisskyggja, ég segi nú ekki meira. Í mínum huga þá skiptir mestu máli að ala önn fyrir barninu, elska það og virða og styrkja sjálfsmynd þess þannig að það verði sterkur og hamingjusamur einstaklingur. Fordómar búa með okkur sjálfum og ef við lítum á skilgreiningar orðabókar Menningarsjóðs og Íslenskrar samheitaorðabókar um orðið fordóm þá kemur eftirfarandi fram:
Fordómur merkir það sama og hleypidómur, sleggjudómur eða ógrundaður dómur. ......orðið sleggjudómur merkir órökstuddur dómur og að hleypidómalaus maður sé frjálshuga, frjálslyndur, kreddulaus og umburðarlyndur.
Ég er líklega bara svona heppin að hafa hlotið uppeldi þar sem mér var tamið að bera virðingu fyrir fólki og skoðunum annarra og þeirri staðreynd að ekkert okkar er eins og skiptir ekki máli af hvaða kyni, kynhneigð, stjórnmálaskoðun, trúarskoðun eða kynþætti við erum.
En aftur að ættleiðingunum. Já það er nefnilega þannig að þó að stjórnvöld á Íslandi hafi breytt lögum þannig að samkynhneigðir geti nú ættleitt börn, þá hefur enn ekki fundist það land sem leyfir ættleiðingar samkynhneigðra á börnum frá því landi. Það er nefnilega þannig að flest lönd hafa ekki gengið eins langt í þessum réttlætismálum og við Íslendingar. Ég er sannarlega stolt af þeim áföngum sem náðst hafa í þessum efnum, sem eru í anda þeirra markmiða sem sett voru fram í ályktun um jafnréttismál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2005.
Landsfundur 2005: Ályktun um jafnréttismál
Ábyrgð á jafnrétti borgara landsins hvílir á öllum Íslendingum en þó er mikilvægt að hið opinbera sýni gott fordæmi í jafnréttismálum. Eitt mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja jöfn tækifæri og jafnan rétt borgaranna.
Sjálfstæðisflokkurinn hafnar allri mismunun gagnvart einstaklingum af hvaða kyni, trú, kynhneigð eða þjóðfélagshópi sem þeir eru og leggur sig fram við að tryggja að allir hafi sömu tækifæri í þjóðfélaginu.
Það eru hagsmunir samfélagsins að einstaklingar sæti ekki mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna síns, kyns, kynhneigðar, trúarbragða eða litarháttar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um rétt samkynhneigðra og leitast við að tryggja að réttindi þeirra séu jöfn réttindum annarra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er t.d. til fullt af fólki sem er tilbúið að skíra börnin sín mjög svo vafasömum nöfnum, það tel ég hafa miklu meiri áhrif á barnið í framtíðinni í sambandi við stríðni og einelti heldur en nokkurntíma það hver kynhneigð foreldra þess sé.
Ég er sammála þér með að þetta var frábær þáttur og þær hafa það fram yfir "venjuleg" hjón að þær geta skipst á að ganga með börnin, sem og þær gerðu
Jóhanna Fríða Dalkvist, 24.3.2007 kl. 15:25
já Jóhanna og það er líka alveg rétt þetta með meðgönguna ... ótrúlegur lúxus
Já Raggi, þú ert bara ótrúlega vel lukkaður og pabbi þinn var alveg einstakur maður. Þetta snýst einmitt ekki um kynhneigð, heldur allt aðra hluti. En ég er svo ótrúlega bjartsýn að ég trúi því að fordómar fari minnkandi, eins og þinn þroski sýnir.
Herdís Sigurjónsdóttir, 24.3.2007 kl. 15:39
Þörf umræða. Góðir punktar. Sammála.
Vilborg Traustadóttir, 24.3.2007 kl. 21:05
heyr heyr!!
Guðmundur H. Bragason, 25.3.2007 kl. 00:57
Fannst ótrúlegt fyrir nokkrum vikum þegar komu fréttir frá Danmörku að þar í landi væri verið að undirbúa að skerða réttindi samkynhneigðra hvað þetta varðar.
Samkynhneigðir voru búnir að ná því í gegn þar að þau komust í ókeypis glasafrjóvganir eins og gagnkynhneigðir. Einhverjir danir komust svo að þeirri niðurstöðu að það væri ekki heilbrigiðslegur vandi að samkynhneigðir gætu ekki átt börn. Ekki hef ég síðan fylgst með hvort þeir náðu því í gegnum þingið.
Ég fór nú bara að hugsa það að ef karlmaður getur ekki átt krakka þá er það ekki heilbrigðis vandi konunnar að hún geti ekki átt barn, getur hún þá ekki alveg eins bara náð sér í annan maka eins og virðist vera ætlast til af samkynhneigðum?
Ágúst Dalkvist, 25.3.2007 kl. 11:13
Já einmitt, ótrúlegt mál.
Enn á aftir að bæta ýmislegt í þessum málum á Íslandi, en við erum komin mun lengra nú en fyrir nokkrum árum.
Herdís Sigurjónsdóttir, 25.3.2007 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.